Fartölvuverkefni Menntaskólans á Akureyri

Veturinn 2000-2001

 

 

 

 Lára Stefánsdóttir

UT deild MA
 

[markmið] [kennarar] [fartölvuver] [fartölvubekkur] [kennsluaðferðir]
[einbeiting nemenda] [fartölvunemendur ekki í fartölvubekk] [lokaorð]

Inngangur

Veturinn 2000-2001 fékk Menntaskólinn á Akureyri styrk frá menntamálaráðuneytinu úr þróunarsjóði framhaldsskóla til þess að þróa fartölvunotkun í skólanum. Skólinn fékk einnig aukafjárveitingu til að mæta kostnaði við uppbyggingu tækjabúnaðar vegna fartölvuverkefnisins. Auk þess má telja fartölvuverkefnið sem þátt í þeim verkefnum sem skólinn tekst á við sem þróunarskóli í upplýsingatækni. Þannig snýr þessi skýrsla að verkefni skólans um fartölvur en er ekki einungis mörkuð þeim þætti sem snýr að sérstökum styrkveitingum. Fartölvuverkefni skólans má skipta í fjóra þætti:

 

  1. Kennarar með fartölvur
  2. Fartölvuver
  3. Fartölvubekkur
  4. Nemendur með fartölvur en ekki í fartölvubekk

 

Upplýsingatæknideild Menntaskólans á Akureyri hefur haft umsjón með verkefnu. Verkefnið var í nokkrum þrengingum skólaárið 2000-2001 en engu að síður hefur heilmikið áunnist og margt verið lært. Hinsvegar er mikilvægt að hafa í huga að þetta skólaár voru framhaldsskólakennarar í tveggja mánaða verkfalli. Vegna þessa voru markmið verkefnisins endurskoðuð og eru nú:

 

Markmið verkefnisins eru:

 

·        Hvernig breytist starf kennarans og kennsluaðferðir þegar hann er með fartölvu?

·        Hvernig breytast námsaðferðir nemanda þegar hann hefur fartölvu, annars vegar í fartölvubekk og hinsvegar í hefðbundnum bekk?

·        Minnkar einbeiting nemenda í kennslustundum?

 

Afurðir:

 

Nemendur og kennarar voru afar jákvæðir í verkefninu, fannst það spennandi og gaman að fást við það. Nemendur tala mikið um að það sé skemmtilegra í skólanum þegar þeir eru með fartölvur. Einn nemandi segir “Þessi tími sem við höfum verið með tölvurnar hefur að mínu mati verið frábær. En að sjálfsögðu ekki algóður því að flest, ef ekki allt hefur eins og við vitum flest tvær hliðar. Mér finnst námið hafa verið mun skemmtilegra þessa vorönn en allar hinar annirnar sem ég hef verið í þessum skóla. Maður er alltaf að læra og gera eitthvað nýtt, öðruvísi verkefni, fleiri fyrirlestra, og svo er gaman þegar kennararnir eru komnir á sirka sama stall og við, af því að þeir kunna ekkert mikið meira á tölvur en við (ef ekki minna).”  Annar segir “Þetta er mjög góð lífsreynsla sem mun nýtast mér í gegnum lífið. Á þessum fimm mánuðum sem ég er búin að hafa tölvuna er ég búinn að læra margt” Sá þriðji segir “Síðan við fengum fartölvur í skólanum, hefur margt breyst, sumt til hins betra og, ... eða bara allt til hins betra..  Alla vegna finnst mér það.  Auðvitað fylgja þessu plúsar og mínusar en plúsarnir eru bara svo miklu fleiri en mínusarnir, að þeir koma ekki að sök.”  Einn kennari segir “Að lokum langar mig að láta í ljósi ánægju með þetta þróunarverkefni. Þetta var mjög gaman, krefjandi og lærdómsríkt tímabil. Gagnlegt til framtíðar.”

 

 

1. Kennarar með fartölvu

  Hvernig breytist starf kennarans þegar hann er með fartölvu

 

Allmargir kennarar skólans hafa verið með fartölvur frá hausti 1999 þegar þeim gafst kostur á að kaupa fartölvur með skólanum að frumkvæði skólameistara Menntaskólans á Akureyri. Um þetta var ágreiningur í upphafi þar sem sumir töldu það skyldu skólastofnunar að standa undir öllum kostnaði við vinnutæki kennara en aðrir töldu ákjósanlegt að þeir ættu tölvurnar líka og gætu þar með notað tækin í eigin tíma án þess að skólinn hefði lögsögu þar um. Vorið 2000 voru 29 af 45 kennurum með fartölvur, en vorið 2001 eru 35 af 45 kennurum með fartölvur. Aðrir kennarar hafa afar gott aðgengi að borðtölvum í sínum vinnuherbergjum.

 

Breytingarnar voru miklum mun meiri þegar kennarar voru komnir með fartölvur en fyrirfram var talið. Þrátt fyrir að aðgengi að tölvum væri gott í kennaraherbergjum þá felst gríðarleg breyting á vinnu í því að hafa “einkatölvu” þ.e.a.s. tölvu sem er manns eigin og aðgengileg hvenær sem er og hvar sem er með þeim gögnum sem kennarinn er að vinna við. Símenntunarþörf breyttist þar sem kennarar voru nánast sífellt í eigin símenntun og mættu á námskeið með tölvurnar “sínar” og þar með voru æfingar og verkefni unnin á eigin tölvu og þar með auðveldara að halda áfram þegar námskeiði lyki.

 

Vinnubrögð breyttust talsvert, kennarar fóru að vera með tölvupóstinn opinn fyrir framan sig allan daginn og nýttu hann meira. Skólayfirvöld juku upplýsingastreymi með tölvupósti og nefndu margir kennarar að upplýsingastreymi innan skólans hefði batnað til muna og þeir væru “betur með á nótunum” um hvað væri að gerast. Einnig nota kennarar tölvupóst meira til samstarfs við aðra kennara og samskipta við nemendur. Nemendur skila verkefnum í auknum mæli í tölvupósti og kennarar senda þeim ítarefni, ábendingar og verkefni með tölvupósti.

 

Kennarar fóru einnig að vinna fleiri verkefni í tölvupósti, setja kennsluefni á vef, sækja ítarefni af Internetinu og gera vefsíður. Líklegt má telja að einn stærsti áhrifavaldur í aukinni nýtingu upplýsingatækni í starfi kennara hafi verið þegar þeir fengu eigin fartölvu til umráða og stöðugrar samfelldrar notkunar.

 

2. Fartölvuver

Að frumkvæði skólameistara keypti skólinn 30 fartölvur í s.k. fartölvuver. Hann segir m.a. í umfjöllun sinni um efnið “Meginókosturinn við þessa leið færanlegs fartölvuvers að mínum dómi er að nemendur hafa ekki fartölvu til stöðugra afnota.  Hugsanlega veitir slíkt ekki rétta mynd af notum þeim sem hafa má af fartölvu.  Hins vegar fengju fleiri nemendur – og fleiri kennarar – að spreyta sig á þróunarverkefninu og víðtækari niðurstaða fengist eftir veturinn.”[i] Og heldur síðan áfram “Nú hefur verið bent á að færanlegt fartölvuver sé í eðli sínu ekkert öðruvísi en tölvuver þau, sem þegar eru fyrir hendi í skólanum, og nemendur kynnist því ekki hvernig það er í raun og veru að hafa fartölvu til fullra umráða, en það sé eitt meginmarkmið þróunarverkefnisins. Auk þess hafi markmiðið að sjálfsögðu verið að kanna hvort fartölvur í námi og kennslu er sú leið sem skólinn á að fara.” [ii] Og síðar í sama bréfi “Ef tilraunin með “færanlegt fartölvuver” tekst ekki mætti velja eina bekksögn á vorönninni til þess að gera tilraun með “útvalda bekksögn” enda skal nota þetta skólaár til þess að gera tilraunir með fartölvur í kennslu og námi.” [iii] Eftir umræðu á kennarafundi var ákveðið að kaupa fartölvuver og gera tilraunir því tengdar. Dálítið var gert af tilraunum á haustönn en bæði var að nokkuð var liðið á önnina og einnig að kennarar fóru í langt verkfall og því fékkst lítil reynsla af fartölvuverum í upphafi. Þegar kennarar komu til baka þurftu þeir að ljúka haustönn eins hratt og mögulegt var sem og að minnka kennslu á vorönn eins og hægt var innan ákveðinna marka svo nemendur tefðust ekki í námi sínu. Því var ljóst að tilraunin yrði takmörkuð þetta skólaár. Deildarstjóri UT deildar lagði því til að einn lítill bekkur yrði valinn sem fartölvubekkur á vorönn og var valinn 15 manna bekkur en tölvurnar sem eftir væru yrðu í fartölvuveri.

 

Reynsla vetrarins varð nokkur önnur af fartölvuverinu heldur en vænst var. Kennarar kepptu um að fá tölvurnar í fartölvuverinu í kennslustundir, þær voru auðvitað mun færri heldur en í upphafi og fengu kennarar þær ekki eins mikið í kennslustundir eins og þeir óskuðu. Sú hugmynd að fartölvuver yrði eins og nýtt tölvuver reyndist ekki á rökum reist þar sem kennarar töldu ákjósanlegt að fá fartölvurnar í sínar kennslustofur, þ.e. í umhverfi þess fags sem þeir voru að kenna. Þær voru notaðar að meginhluta í hópstarfi og taldar afar ákjósanleg viðbót því það væri miklu þægilegra að fá tölvurnar í stofuna heldur en fara með heilan nemendahóp í tölvustofu. Fartölvuver virðist því afar ákjósanleg lausn til ákveðinna viðfangsefna þar sem nemendur eru ekki sjálfir með fartölvur enda ekki líklegt að allir nemendur framhaldsskólans verði með fartölvur þar sem þetta eru dýr tæki.

 

Á NECC2001 ráðstefnunni í Chicago sem undirrituð sótti var líka gríðarleg tilhneiging til uppsetninga fartölvuvera. Fartölvur eru einfaldlega of dýrar til þess að foreldrar eða skólayfirvöld geti fest kaup á þeim. Því hafa verið hannaðar alskyns lausnir á vögnum þar sem fartölvur eru geymdar og ofan á vagninum prentari og pláss fyrir eina tölvu sem kennari getur notað.

 

Af fenginni reynslu í Menntaskólanum á Akureyri og þess sem ég sá á NECC2001 vil ég draga þá ályktun að fartölvuver séu afar ákjósanlegur kostur fyrir skólastofnun, opni nýja möguleika í hópstarfi nemenda og skapi gott námsumhverfi í almennum kennslustofum. Nauðsynlegt er að tölvur í fartölvuveri séu nettengdar t.d. með örbylgjutengingu enda er hún að sumu leyti ódýrari heldur en leggja lagnir í hverja stofu.

 

 

3. Fartölvubekkur

Viðfangsefnið um fartölvubekk var án efa viðfangsmesta fartölvuverkefni skólaársins. Á vorönn 2001 var stofnaður vinnuhópur um fartölvunotkun í námi og kennslu. Valinn var hópur kennara sem átti að kenna 3. bekk A, málabrautarbekk sem fengi lánaðar fartölvur hjá skólanum. Kennarar fengu lítinn undirbúningstíma vegna verkfallsins og því var undirbúningi ekki eins vel háttað og við hefðum kosið. Kennarar bekkjarins tóku hinsvegar jákvætt á því að spreyta sig á þessu þrátt fyrir erfiðar kringumstæður. Stærðfræðiáfanginn sem nemendur voru í passaði illa til fartölvunotkunar og því var notkun þar lítil sem engin. Kennarar fengu greidda aukalega 2 tíma á viku af styrknum sem fékkst úr þróunarsjóðnum til að takast á við þessar breytingar.

 

Breyttar kennsluaðferðir:

Kennarar virðast beita meira verkefnabundnu námi en ella. Þeir nýta tölvupóstinn mikið til samskipta við nemendur, leggja fyrir verkefni, veita umsagnir, senda glærur, fá skilaverkefni o.fl. Nokkuð kemur fram að kennarar spöruðu tíma með því að hafa sömu verkefni fyrir fartölvubekkinn og aðra bekki sem þeir voru að kenna en virtust beita þeim eilítið öðru vísi.

Þeir nota ýmsar aðferðir s.s. að dreifa glærum til nemenda í tölvupósti fyrir tímann en um það segir einn kennarinn “ef ég var með innlögn/glærur sendi ég nemendum glærurnar fyrir tímann og eyddi minni tíma í að fara í gegnum þær en í fartölvulausa bekknum.” Þeir virtust þó á því að það ætti að leggja glærurnar á netið fremur en senda þær í tölvupósti líklega vegna þess að þá hafa nemendur glærurnar í tölvunni síðar og geta á notað þær til upprifjunar.

 

Vefleit var notuð heilmikið og virtist eftirsóknarverð  “Við náðum einnig að fara út fyrir hefðbundna veggi skólstofunnar m.a. með leit á neti.  Þar komust við mun nær [námsefninu] heldur en bara inni í [kennslustofunni].” segir einn kennarinn. Vefleit virtist einnig grunnur að mörgum öðrum verkefnum sem voru ekki beinlínis skilgreind sem vefleitarverkefni en nemendur og kennarar nýttu vefinn töluvert til heimildaöflunar og tilvísana. Afurðir vefleitarverkefna voru ýmsar. Einn kennari segir “Ég lagði fyrir stutt vefleitarverkefni um [sleppt] sem þau skiluðu í formi vefsíðu og seinna gerðu þau stærra vefleitarverkefni um [sleppt] sem þau máttu skila á mismunandi vegu og nýttu þau veggspjöld, PowerPoint og vefsíðu til að kynna verkefnin. Verkefnin komu ágætlega út en ég var þó svolítið svekkt yfir því hvað þau lögðu litla vinnu í þau...”

 

Glósugerð er nemendum talsvert hugleiknari heldur en kennurum þó ræða þeir þær eilítið og einn kennari segir: “Fyrri hluta annarinnar lásu nemendur styttri texta og unnu alls kyns verkefni og þá nýttist tölvan þeim stundum og stundum ekki, þau byrjuðu þó strax að gera allar glósur í tölvu (reyndar ekki mikið um þær í þessum áfanga) og gerðu öll verkefni og ritun í tölvunum.” Nemendur tala hinsvegar mikið um glósugerð, bæði um skipulag glósa þar sem einn nemandi fartölvubekkjar segir “Glósurnar mínar eru skipulagðari og snyrtilegri en nokkurn tíma áður”.  Þessi mikla umfjöllun og áhersla nemenda í fartölvubekk á glósur endurspeglast í svörum allra nemenda hvort heldur þeir eru í fartölvubekk eða ekki. Hinsvegar fást meiri upplýsingar frá fartölvubekknum um glósur, þau vilja til dæmis ekki öll fá þær sendar í tölvupósti, einn nemandi segir “Það er auðvitað sjálfsagt að kennarar noti svo hann Emil til að hafa samband við okkur, en glósur og þannig efni eiga alls ekki heima í honum, þær á að skrifa upp á töflu og nemandinn að glósa þær og í leiðinni lesa þær.  Þegar við fáum þetta sent, efa ég að 1/3 bekkjarins lesi glósurnar!  En er það okkur að kenna?  Það að fá glósur sendar um t.d. eitthvert ljóðskáld og í staðinn fara ekki yfir það í tíma er ekki gott, þá fer í það auka tími þegar heim er komið að lesa þær glósur sem við höfum fengið.” Skipulag glósa virðist vera nokkuð sem nemendur eru uppteknir af og hvernig á að vinna þær, einn segir “Svo ég byrji nú eins og venjulega þá get ég minnst á það hversu glósutækni hefur fleygt fram hjá mér, núna er ég farinn að nenna að lita mismunandi orð og setningar, auk þess að glósurnar eru miklum mun skipulagaðari. Miklu einfaldara er að færa glósur á milli skjala, og einfalt er að vera með marga glugga opna í einu, t.d. vera með einhverskonar reglu fyrir franska tungu opna í hálfum glugga og gera verkefni á hinum hlutanum af skjánum, ekki þarf að líta til hliðar og ekki fletta fram og til baka í bók. Það hefur líka komið sér vel fyrir mig að vera fljótur að pikka, og er fljótari að pikka en skrifa.” Síðast en ekki síst nefnir einn nemandi að kennarar þurfi að taka tillit til þess að nemendur séu með fartölvur við glósugerðina “Svo er annað smávandamál sem mætti þó laga... Það er að kennarar gera alls ekki allir ráð fyrir að við glósum á tölvur og setja þetta kolvitlaust upp á töflu.  En það er nú ekkert stórvægilegt.”. Þetta væri áhugavert að skoða nánar.

Í Danmörku er nokkuð fjallað um undirbúningsglósur (forberedelsesnotater) sem sendar eru til kennara fyrir tíma þannig að hann geti undirbúið tímann miðað við það sem nemendur þarfnast[iv]. Þetta kom ekki fram hjá okkur og hefur líklega ekki verið notað en er góð hugmynd.

 

Vefsíðugerð var viðfangsefni í nokkrum áföngum. Nemendur fartölvubekkjarins höfðu lært að vefa í fyrsta bekk utan tveggja sem ekki höfðu tekið þann áfanga í skólanum. Bæði settu kennarar efnið fram á vefsíðum sem og að láta nemendur gera vefsíðu. Einn kennari segir: “Seinni hluta annarinnar lásum við skáldsögu og ég ákvað að einbeita mér að vef fyrir þessa sögu svo að þau fengu öll verkefnin í gegnum vefinn en ekki á pappír eins og áður hefur verið gert. … [klippt] ... og nemendur sögðust vera mjög ánægðir með að hafa öll verkefnin svona á sama stað því þá væri ekki hætta á að þau gleymdust heima og einnig væru þau ekki með þessi “sóðalegu” blöð og hefðu betra skipulag.” Nemendur virtust alla jafna kátir með að hafa efnið á vef sem væri alltaf aðgengilegt en það efni sem þau skilgreindu sem “glósur” vildu þau skrifa sjálf. Þegar þau áttu sjálf að gera vefsíður fannst þeim viðfangsefnið ekki alltaf skemmtilegt, einn nemandi skrifar “En gallarnir eru líka nokkrir, þó að ég hafi haft gaman af því að læra að gera heimasíður er ekki þar með sagt að mig langi mikið til þess að gera heimasíður í nánast hverju einasta fagi sem ég er í, og flestar síðurnar byrja svona:

 

Velkomin á heimasíðuna mína!

Ég heit [klippt] og ég er [klippt] ára. Á þessari síðu er fullt af upplýsingum um mig blablabla blablablablabla bla blablabla...ojjjjjjjjjjj.” Vera má að vegna þess að þetta er bekkur á málabraut og þar af leiðandi 4 fög af 7 sem þau stunda tengjast tungumálum þá séu þau e.t.v. oftar að skrifa um sig á mismunandi tungumálum. Samstarf kennara og upplýsingar um hvaða verkefni kennarar eru að leggja fyrir væri áreiðanlega eftirsóknarvert til að tryggja að nemendur séu ekki að leysa sömu eða lík verkefni í mörgum áföngum.

 

Vefsíðugerð er afar hagkvæm í tengslum við mismunandi kennsluaðferðir. Til dæmis séu nemendur látnir gera vinnubók á vef eins og gert er í UTN102 þar sem verkefni nemenda liggja öll á vefsíðu og kennarar geta fylgst með hvernig nemendum gengur. Í Danmörku var gerð tilraun með s.k. logbog[v] til að skrá hvað gert var í tímum þannig að nemendur sem ekki voru á staðnum gætu fylgst með. Nemendur fartölvubekkjarins voru sjálf afar ángæð með vefsíðugerðina sína en það var upp og ofan hvað kennurum þótti um framgöngu þeirra. Því er spurning hvort ekki þurfi að skilgreina betur til hvers kennarar ætlast þannig að nemendum sé það fyllilega ljóst.

 

 

Einbeiting nemenda í kennslustundum

Kennarar ræddu talsvert áhyggjur sínar af því að nemendur væru að gera eitthvað annað í tímum heldur en það sem þeir áttu að vera að gera. Þetta pirraði nemendur á stundum þrátt fyrir að þeir viðurkenndu að í upphafi annarinnar hafi tækið verið spennandi og þau freistast til að gera annað. Þetta töldu þau þó alla jafna hafa breyst þegar líða tók á önnina en bentu líka á að þau væru stundum með hugann við annað í kennslustundum þó engar væru tölvurnar. Tölvan sem verkfæri sem er sítengd Interneti er truflandi í kennslustund, þetta þekkjum við vel úr tölvukennslu. Oft hefur reynst vel að láta verkefnin einfaldlega vera inni á netinu og þar með taka yfir hvað annað sem nemendur eru að gera. Einnig gagnast vel að ganga aftast í kennslustofuna og sjá hvað er á skjáunum og gera athugasemdir við það þegar nemendur eru að gera annað. Kennarar ræða talsvert um að stundum sé gott að láta nemendur loka tölvunum en á sama tíma geta þá nemendur ekki glósað námsefnið. Líklegt má telja að þessi vandi tengist þeim almenna vanda um hvernig best er að virkja nemendur í kennslustundum og tryggja að þeir nýti þær sem best. Truflunin er auðvitað meiri en ella en jafnframt er möguleikinn til að virkja nemendur öflugri en annars er mögulegt. Nemendur og kennarar þurfa því að læra hvernig þeir nýta kennslustundir markvisst í hefðbundinni kennslu og enn frekar þegar nemendur eru með fartölvur.

 

Best er að ræða þessi mál við nemendur í fartölvubekkjum og móta með þeim reglur strax í upphafi. Sumum virðist e.t.v. best að hafa alltaf sömu reglur en ég tel að hver kennari þurfi að fara yfir þetta með nemendum miðað við þær kennsluaðferðir sem hann beitir. Þó að reglurnar væru að einhverju leyti líkar þá gætu sameiginlegar reglur truflað kennslu sumra kennara.

 

Lítum nú á hvað kennarar segja um þetta efni: “Hinn óhefti aðgangur nemenda að interneti og leikjum var einfaldlega meira en sumir þeirra réðu við.  Hér þarf að setja einfaldar og skýrar reglur.  Gjarnan í samráði við nemendur. Enginn yrði fegnari

en þeir.” Í samskonar tilraunaverkefni í Danmörku[vi] kemur fram að nemendum þótti líka erfitt þegar samnemendur voru horfnir í einhver ótengd viðfangsefni í tölvunni. Þar þótti gefast best að ræða þessi mál í upphafi við nemendur og setja einhverjar reglur.  Annar kennari segir: “Kennslustundir breyttust mikið og fyrst fannst mér dálítið óþægilegt að sjá ekki almennilega borð nemenda og hvað þau voru að gera, en svo vandist það. Mér fannst ómögulegt að sitja við kennaraborð með mína tölvu þar sem ég er vön því að vera nær nemendum við kennslu og því var ég oft með blöð þótt þau hefðu efnið í tölvunni fyrir framan sig. Smám saman fór ég þó að gefa þeim meira svigrúm þegar þau voru að vinna verkefni og tókst að sitja við mína tölvu nema þau spyrðu að einhverju.” Þriðji kennarinn sagði “Aftur var ég ekkert ofboðslega hörð á að nemendur horfðu bara á mig, að hluta til vegna þess að flest af því sem þau voru að skoða tengdist [námsefninu] og að hluta til vegna þess að þau virtust vera ágætlega með á nótunum, þrátt fyrir allt.”

 

Nemendur fjalla um þetta sama atriði og einn segir: “Maður verður háður tölvunum, maður freistast stundum til að fara í tölvuleiki eða skoða eð á netinu í stað þess að fylgjast með í tíma.  En stundum er hægt að gera tvennt í einu.  Mér finnst að kennarar ættu t.d. ekki að gremja sig yfir því að við séum að hlusta á tónlist um leið og við gerum verkefni, sérstaklega þar sem við fengum sérstök heyrnartól sem eru bara fyrir annað eyrað.” Annar nemandi segir: “Fyrst í stað var þetta geysilega spennandi og skemmtileg reynsla, það er að segja alltof margir tímar fóru í tölvuleiki, netið og aðra vitleysu. Svo þegar líða tók að líða á önnina gerði maður sér betur og betur grein fyrir því hvernig tölvan gat notast í námi.”. Sá þriðji segir “Í tímum þá fylgist maður minna með vegna þess að maður er að gera e-ð annað í tímum í tölvunni, sumir dragast á eftir vegna þess að þeir geta ekki farið eins hratt yfir efnið á tölvum, hætta á að ýmis gögn og glósur geti glatast og þannig, svo finnst mér kannski sumir kennarar ekki gera sér grein fyrir hvernig á að nota tölvurnar í námi.” Fjórði nemandinn segir “Þar sem að verið er að framkvæma þetta verkefni/tilraun í fyrsta sinn hefur margt verið í frekar lausu lofti, ekki verið allt í föstum skorðum. Að mínu mati hefur borið á agaleysi hjá bæði kennurum og nemendum, í sambandi við það að halda sig að vinnu. Þá hefur það líka gerst að verkefni hafa teygst á langinn, en hvort það er gott eða slæmt veit ég ekki. En það að loka tölvum er engin trygging á áhuga og athygli, heldur eru það kennarinn og nemandinn sem spila þar inní, nemandinn með jákvæðu viðhorfi og sjálfsaga, og kennarinn með því sama, gera efnið áhugavert og beita einnig aga.”

 

4. Nemendur með fartölvur en ekki í fartölvubekk

Nemendur sem voru með fartölvur en ekki í fartölvubekk gefa því jákvæðari umsögn en gert var ráð fyrir í upphafi. Nokkuð hafði verið rætt um það meðal kennara að nemendur með fartölvur væru sjálfsagt oftast að gera “eitthvað annað” heldur en einbeita sér í kennslustundum. Samt sem áður voru kennarar jákvæðir og vildu gjarnan styðja nemendur sem voru með fartölvurnar. Í jarðfræði sendi kennarinn teiknaðar myndir af töflu beint í fartölvur nemenda fyrsta bekkjar með s.k. MIMIO tækni frá Nýherja. Margir kennarar eru með einstök verkefni þar sem upplýsingatækni er notuð og þar nýttust fartölvurnar vel. Nemendur kvarta yfir því að ekki séu nægilega margar tölvur til þess að nýta í námi þannig að þeir nemendur sem voru með fartölvur kættust sérstaklega yfir því að þurfa ekki að berjast við hina nemendurna um tölvur skólans.

 

Þessum nemendum eru glósurnar enn hugleiknari heldur en nemendum fartölvubekkjarins eins og kemur fram í könnun meðal nemenda sem fór fram vorið 2001. Hannes Árdal nemandi 4. bekkjar veturinn 1999-2000 sagði um fartölvunotkun sína í fyrirlestri í skólanum “Ég get sagt ykkur það að fartölvan mín hefur gerbreytt mínu námi, glósurnar eru skipulagðari en áður og innihalda meira magn upplýsinga, þ.e. stærri part af námsefninu en áður.  T.d. eru söguglósurnar mínar það sem af er önninni all-skuggalegar góðar, þó ég segi sjálfur frá.”

 

Þó nemendum gagnist fartölvur þó þeir séu ekki í fartölvubekk er ótvírætt að fjárfesting þeirra nýtist betur séu þeir í bekk þar sem nám og kennsla er skipulögð m.v. að nemendur séu með fartölvur. Hinsvegar má draga þá ályktun að nemendur með fartölvur hafi ýmislegt umfram þá nemendur sem ekki eru með fartölvur sem birtist í stöðugu aðgengi að eigin tölvu bæði í skóla og utan hans. Þannig má skrifa verkefni, glósur, leita heimilda og fleira sem aðrir nemendur geta einungis gert heima hjá sér eða í tölvum sem skólinn hefur yfir að ráða.

 

Lokaorð

Þróun fartölvunotkunar í Menntaskólanum á Akureyri gekk vel veturinn 2000-2001 þrátt fyrir að kringumstæður væru erfiðar vegna verkfalls. Mikilvægt er að líta á verkefnið þennan vetur sem hluta af því ferli sem á sér stað þegar upplýsingatækni er notuð í námi og kennslu. Sumt af því sem flokkast undir fartölvuverkefni flokkast eins undir almenna þróun UT í námi og kennslu en það er óvéfengjanlegt að þegar nemandinn hefur fartölvu sem er honum alltaf aðgengileg þá getur hann þróað önnur vinnubrögð og beitt upplýsingatækninni á víðtækari og markvissari hátt en þegar tölvan er ekki aðgengileg. Fartölva er í sjálfu sér tölva rétt eins og borðtölva hinsvegar er hún hreyfanlegri og þar með aðgengilegri vegna þess að notandinn getur verið með hana heima og heiman. Hún tekur ekki eins mikið pláss og venjuleg tölva en er alla jafna dýrari heldur en sambærileg borðtölva. Þannig eiga öll atriði sem fjalla um upplýsingatækni eins um fartölvur eins og aðrar tölvur. Kostir fartölvu eru þó ótvíræðir því þar með verður hver notandi “einkatölvunotandi” og getur þar með þróað notkun sína óháð tölvunotkun annarra.

 

Reynslu vetrarins má þar með telja góða og hægt að byggja á henni áfram sem hluta af því að þróa notkun fartölva í starfi kennara og námi nemenda.

 


 

[i] Tryggvi Gíslason. 10.10.2000. FÆRANLEGT FARTÖLVUVER EÐA ÚTVALINN TILRAUNABEKKUR. Skilagrein á kennarafundi.

 

[ii] Tryggvi Gíslason. 10.10.2000. FÆRANLEGT FARTÖLVUVER EÐA ÚTVALINN TILRAUNABEKKUR. Skilagrein á kennarafundi.

 

[iii] Tryggvi Gíslason. 10.10.2000. FÆRANLEGT FARTÖLVUVER EÐA ÚTVALINN TILRAUNABEKKUR. Skilagrein á kennarafundi.

 

[iv] Den Elektroniske skole, Del 1. 1999. Undervisningsministeriet. http://www.uvm.dk/pub/1999/elskole/hel.htm Sótt 22. 09. 2001. (Notið leitarorð til að finna rétta textann)

[v] Den Elektroniske skole, Del 1. 1999. Undervisningsministeriet. http://www.uvm.dk/pub/1999/elskole/hel.htm Sótt 22. 09. 2001. (Notið leitarorð til að finna rétta textann)

[vi] Den Elektroniske skole, Del 1. 1999. Undervisningsministeriet. http://www.uvm.dk/pub/1999/elskole/hel.htm Sótt 22. 09. 2001. (Notið leitarorð til að finna rétta textann)