Hitt fólkið

Í umhverfi okkar er fólk að starfi og leik, við sjáum það, þekkjum það og spjöllum við það. Við vitum að það er líka til annað fólk en hvað er það að gera?

Þegar fjallað er um tölvusamskipti þá kemur oftast fyrir að einhver bendir á að þau komi ekki í staðin fyrir samskipti fólks á milli í daglegu umhverfi. Það er alveg hárrétt en í daglegu umhverfi hvers manns er aðeins lítill hluti fólks og yfirleitt sama fólkið. Til að kynnast hinum er gott að nota tölvusamskipti. Þá er það ekki einungis til að kynnast heldur til að miðla þekkingu milli manna t.d. sérfræðinga, barna úr öðru samfélagi og margra fleira.

Stundum segja kennarar að tölvusamskipti séu viðbót við annað nám en ég tel að þannig missi miðillinn marks. Tölvusamskipti eru ekki til tölvusamskiptanna vegna heldur þess að ávinningur er einhver í upplýsingastreymi milli fólks. Hér getur hvort reynir á kennarann að hann geti sett það sem hann er að kenna í samhengi við þær kennsluaðferðir sem bjóðast með nýrri tækni.

Tölvusamskipti gefa möguleika á að ná í upplýsingar langt út fyrir skólastofnanir og þjálfa nemendur í að afla sér þekkingar um tiltekið efni. Á sama tíma kynnast nemendur öðru fólki og öðrum samfélögum, þ.e. "hinu fólkinu".

Máli skiptir að hafa tölvusamskipti lifandi og fræðandi. Ég vil taka hér tvö góð dæmi um samskiptaverkefni annað frá Íslandi og hitt þemaverkefni í KIDLINK samskiptaverkefninu.

Ísland

Tveir kennarar úr Álftamýrarskóla þær Þórunn Traustadóttir og Kristín Axelsdóttir skipulögðu og keyrðu samskiptaverkefni um Ísland. Þátttakendur voru víða að og sendu mörg bréf með upplýsingum. Við skulum líta á bréf úr Álftamýrarskóla í Reykjavík annarsvegar en hinsvegar úr Mjólkárvirkjun á Vestfjörðum.

Nemendur í 7. bekk KA í Álftamýrarskóla skrifa: "Við erum 19 krakkar í bekknum og 13 af þeim eru stelpur en 6 strákar, svo er það umsjónakennarinn." Í Mjólkárvirkjun lýsa nemendur skólanum sínum svona: "Í skólanum okkar eru níu nemendur í tveimur deildum. Það eru tveir kennarar sem skiptast á að kenna. 4.-7. bekkur er saman í skólastofu. Stundum eru allir að læra sitt hvort námsefnið."

Veðrið barst einnig í tal, nemendur í Reykjavík skrifa: "Í dag er 26. febrúar og veðrið er reglulega gott. Alla vega er ekki rigning og rok í dag heldur hefur snjóað og hitinn er -3 á celcius. Það er reyndar dálítið hvasst NV rok en frekar léttskýjað. Kannski komumst við á skíði um helgina!!". Annað er að heyra á nemendum fyrir vestan þau skrifa: "Hér allt búið að vera meira og minna ófært síðan um jól, en í dag komust allir í skólann. Heiðarnar hafa samt verið ófærar síðan í nóvember." og seinna skrifa þau: "Þann 26. febrúar var frost, stillt og gott veður. Meira að segja sólin skein, en hún byrjaði að sjást hér 13. febrúar eftir "vetrarfrí".

Álftamýrarskóli skipulagði fyrsta daginn í heimsókn til sín svona

Komum á Hótel Höfða og komum okkur fyrir þar. Borðaður ljúffengur matur þar í hádeginu. Förum í sund í Laugardalslauginni og þar erum við lengi að sulla í heitu pollunum, gufunni og skemmtum okkur í rennibrautinni. Síðan verður farið í Laugardalshöllina og við horfum á einhvern góðan leik þar. Borðum pizzur á Pizzahúsinu á Grensásvegi í kvöldmatinn. Svo förum við í bíó í Regnboganum á Hverfisgötu og skoðum lífið í miðbænum í Reykjavík. Tökum strætó á hótelið.

Á Vestfjörðum kvað við annan tón

Vaknar klukkan 9 og fær sér morgunmat. Spilar bob og borðtennis við okkur farm að hádegi. Síðan förum við á skíði saman í brekkunni hér fyrir ofan. Síðan er kaffitími og eftir það förum við í fjárhúsin. Þá er kominn kvöldmatur og þá fáum við slátur. Eftir kvöldmat förum við á músaveiðar til kl. 11. Á síðustu músaveiðum káluðum við 6 stykkjum, en fjárhúsin eru full af músum.

Þau enda síðan lýsingu sína á þessum orðum: "Verið velkomin. Það er bara verst að annaðhvort verður að koma með snjóbíl eða siglandi."

Ferðast um heiminn - ímyndað ferðalag

Líkt verkefni var þemaverkefni í KIDFORUM sem er í KIDLINK samskiptaverkefninu ári síðar. Stjórnandi var Mary Esborn frá Baldwin and Adams Middle Schools, Guilford, CT, USA.

Þátttaka var gríðarlega mikil, 550 börn frá 16 löndum tóku þátt. Uppbyggingin var lík þeirri í íslenska verkefninu. Fyrst lýsti hver hópur af börnum sínu umhverfi. Hér eru nokkur dæmi:

Krakkar í 5B í Siilinjarvi í Finnlandi buðu krökkum í Puijo turninn, á Kuopio torg og t.d. til að skoða Maanika Korkeakoski stæsta foss í Finnlandi að þeirra sögn. Krakkar í Kolding Danmörku vildu sýna gamlan kastala, Traphold safnið og margt fleira. Krakkar í Hawaii vildu sýna sérstakar plöntur og blóm, Kilohana hverinn, Spouting Horn og Sleeping Giant. Önnur bjuggu í London nálægt Heathrow flugvelli og þau buðu í Richmond garðinn með trjám, tjörnum og viltum dýrum. Krakkar í Sloveníu vildu sýna Ljubljana, krakkar frá Nýja Sjálandi voru stolt af því að land þeirra hafði engin kjarnorkuver sögðu frá þjóðarfuglinum kiwi og sögðu að Nýsjálendingar væru stundum uppnefndir "kiwi". Frá Kamchatka komu bréf frá skóla 15 sem er í Petropavlovsk. Þau sögðu frá björnum sem væru svo stórir að þeir gætu ekki klifrað í trjám, fiskunum í ánum, refunum í skóginum, löxum, selum en sögðust ekki hafa snáka, froska og eðlur. Þau sögðu einnig frá hæsta virka eldfjalli í Eurasiu Klyuchevskaya og dal með hverum.

Þetta er aðeins örlítið brot. Eftir að krakkarnir voru búin að senda bréfin byrjuðu spurningar. Hvers konar peninga notar þú, hvað er langt frá flugvellinum hjá þér til þín. Hvað þarf ég mikla peninga. Borðið þið í alvöru þennan mat, er hann góður?

Í hvaða fögum?

Þegar kennarar voru spurðir hvernig þeir notuðu þessi samskiptaverkefni voru svörin nánast eins mörg og kennararnir voru. Í stærðfræði voru upplýsingar um verðgildi peninga í mismunandi löndum ásamt fjarlægðum notaðar í kennslu. Í sumum löndum var verkefnið notað í móðurmálskennslu en annars staðar í kennslu erlendra mála. Verkefnin voru notuð í landafræði, líffræði, jarðfræði, sögu og mörgu fleiru. Starf kennarans var að finna í sögum barnanna eitthvað sem hæfði í kennslu og beina nemendum síðan inn á þær brautir að spyrjast fyrir um frekari upplýsingar sem þeir þörfnuðust. Margt er að finna í góðum samskiptaverkefnum og síðast en ekki síst fer líka fram þjálfun í að setja fram hugsanir sínar í rituðu máli.

Veturinn 1994-1995 fer fram samskiptaverkefnið "Rejser i Norden" á póstlistanum KIDCAFEN í KIDLINK. Á þeim lista eru einungis notuð norræn mál. Stjórnendur eru Hanne Bentzen frá Danmörku og Þórunn Traustadóttir frá Íslandi. Þetta verkefni er byggt líkt upp og hin tvö.

Tölvusamskipti koma aldrei í stað daglegra samskipta fólks í milli en svo sannarlega geta þau bætt við þekkingu um "hina" sem áður voru óljóst til og upplýsingar um þau og umhverfið þurrar upplýsingar í bók. "Hitt fólkið" öðlast smá saman skýrari mynd í huganum og auðveldara verður að skilja það og síðar kannski taka tillit til sjónarmiða þeirra. Nú er hægt að hafa dagleg samskipti við "hitt fólkið".

© Lára Stefánsdóttir. 1995. De andre, Skolen i Norden, 1.1995 útg. Nordisk Ministerråd

Íslensk þýðing

Heimasíða /Homepage

Síðast uppfært: 26. desember 1997

© Lára Stefánsdóttir Öll réttindi áskilin varðandi efni sem ég skrifa á þessari síðu og undirsíðum.
Pósthólf 472, 602 Akureyri. Sími: 896-3357 (einnig talhólf). http://www.lara.is lara@lara.is