Upplýsingatækni og menntun í nútíð og framtíð

        Menntamálaráðuneytið gaf út fyrr á þessu ári stefnu um tillögur menntamálaráðuneytisins um menntun, menningu og upplýsingatækni í ritinu "Í krafti upplýsinga". Í þeirri stefnu má sjá að yfirvöld menntamála ætla að upplýsingatækni muni skipa fastan sess í allri menntun í landinu á komandi árum. Forsendur íslenskra skóla til að hagnýta þessa stefnu eru góðar og því má telja að íslenskir skólar muni í engu standa að baki skólum í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.

        Í dag má segja að upplýsingatækni í skólastarfi fari fram á tvíþættan hátt. Sem sérstakt fag og þá yfirleitt kallað "tölvufræði" eða "tölvunotkun" eða í einstökum faggreinum þar sem viðkomandi kennara þykir eðlilegt að nýta upplýsingatækni við nám viðkomandi faggreinar. Við getum fundið ágæt dæmi um hvoru tveggja þar sem efni hefur verið lagt á Internetið af nemendum eða kennurum í tengslum við viðfangsefni nemenda. Þessi framtaksemi opnar skólana og gerir öðrum kleift að sjá hvað fer þar fram, leggja jafnvel inn efni og fyrirspurnir og taka þátt í starfi nemenda í skólum. Eðlilegt má telja að aukin áhersla verði á notkun upplýsingatækni í tengslum við nám allra faggreina en áhersla á upplýsingatækni sem sérstakt fag muni minnka.

        Í framtíðinni má búast við aukinni notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Ástæðan er fyrst og fremst sú að upplýsingatækni skipar orðið veglegan sess í samfélaginu og eðlilegt að nemendur takist á við viðfangsefni sín á líkan hátt í skólastarfi og búast má við að þeir þurfi að takast á við þau annarsstaðar. Kennarar hafa verið áhugasamir um endurmenntun í tengslum við upplýsingatækni og flest námskeið sem hafa staðið þeim til boða eru eftirsótt. Oftar en ekki hafa margir áhugasamir þurft frá að hverfa. Íslenskir kennarar virðast því vel í stakk búnir til að taka á móti upplýsingatækni í skólastarf af áhuga en jafnframt með eðlilegri gagnrýni.

        Nemendur hér á landi hafa verið þátttakendur í mörgum innlendum og erlendum samskiptaverkefnum á Internet. Einnig hafa kennarar héðan staðið fyrir verkefnum sem hafa verið í boði annað hvort norrænt eða í alþjóðlegum samskiptaverkefnum s.s. Kidlink samskiptaverkefninu. Reynslan sýnir að okkar bestu kennarar á þessu sviði standa erlendum kennurum hvergi á sporði og því býr í okkar eigin landi næg þekking til að takast á við notkun Internet í skólastarfi.

        Í auknum mæli hafa verið sköpuð kennsluforrit á íslensku, ekki síst vegna Norræns samstarfs IDUN nefndarinnar (áður Dataprogramgruppen). Við eigum á að skipa ákaflega hæfu fólki til að skapa kennsluforrit og þar af leiðandi einnig góða sérfræðinga til að meta erlend kennsluforrit sem nýta mætti hérlendis.

        Íslenskir skólar á öllum skólastigum utan leikskólastigs hafa staðið fyrir fjarkennslu með einum eða öðrum hætti. Nemendur geta tekið stúdentspróf og háskólapróf með því að stunda nám með aðstoð Internet.

        Af framangreindu má sjá að ekkert stendur í vegi fyrir öflugri notkun upplýsingatækni í íslensku skólastarfi. Þó réttilega megi benda á að ekki séu allir kennarar í stakk búnir á þessari stundu til að nýta upplýsingatækni í sínu starfi, þá má segja að allir kennarar hafi aðgang að þeirri þekkingu sem er nauðsynleg til að geta nýtt upplýsingatækni.

        Með útkomu stefnu mennatmálaráðuneytisins er menntastofnunum landsins ljóst hvert yfirvöld vilja stefna í þessum efnum. Með virkri þátttöku í endurskoðun fagnámsskráa, skólanámsskráa og bekkjarnámsskráa geta kennarar tryggt að í þeirra nánasta umhverfi verði upplýsingatækni gerð góð skil í námi og skólastarfi.

        Búast má við hraðri þróun á sviði upplýsingatækni í skólastarfi á komandi árum. Með öflugri símenntun er tryggt að upplýsingatæknin nýtist á hagkvæman hátt í íslensku skólastarfi. Öflug þekking sem býr nú þegar í íslenskum skólamönnum mun, ef rétt er að málum staðið, tryggja okkur hagnýta notkun upplýsingatækni í skólastarfi bæði nemendum og samfélagi til hagsbóta.

        © Lára Stefánsdóttir. Flutt á ráðstefnu Menntamálaráðuneytisins: Til móts við nýja tíma 5. október 1996

Heimasíða /Homepage

          Pósthólf 472, 602 Akureyri. Sími: 896-3357 (einnig talhólf). lara@ismennt.is

          © Öll réttindi áskilin varðandi efni sem ég skrifa á þessari síðu, greinum og erindum.

          Þakkir til Rita Birmans fyrir bakgrunn og línu.

          Síðast uppfært: 26. desember 1997


© Lára Stefánsdóttir Öll réttindi áskilin varðandi efni sem ég skrifa á þessari síðu og undirsíðum.
Pósthólf 472, 602 Akureyri. Sími: 896-3357 (einnig talhólf). lara@ismennt.is/ lastef@ma.is