« Lára lúin eftir yfirsetu | Aðalsíða | Nemendur á námskeiði tungumálakennara »

Miðvikudagur 13. ágúst 2003

Fyrirlestur fyrir tungumálakennara

Í dag verð ég með fyrirlestur fyrir tungumálakennara á framhaldsskólastigi sem eru í STÍL. Að þessu sinni verð ég ekki með hefðbundnar glærur enda er ég að minnka það heilmikið.


Þar sem að hefðbundnar glærusýningar eru að verða gríðarlega algengar þá verð ég dálítið leið á þeim hverri á fætur annarri og síðan finnst mér formið oft setja mér skorður. Ég verð að keyra fyrirframgerða áætlun þar sem glærurnar koma yfirleitt hver á eftir annarri. Auðvitað má breyta því með tenglum milli glæra en engu að síður þá er ákveðið línulegt ferli þegar glærur eru notaðar.

Í seinni tíð er ég því alltaf meira og meira farin að nota eina vefsíðu með tenglum sem ég tala út frá. Stundum tala ég um alla tenglana og stundum ekki. Allt eftir því hvernig áheyrendur bregðast við og hvort þeir hafa meiri áhuga á einu en öðru.

Í dag ætla ég að tala um samskiptaverkefni á Netinu í tungumálakennslu. Fyrir mér eru samskipti milli manna það mikilvægasta sem þessi tækni gefur okkur. Auðvitað er mikilvægt að leita sér heimilda og efnis en sá möguleiki að geta talað við fólk óbundinn af fjarlægðum og miklum kostnaði er gríðarlegur. Ég hef kynnst fólki um allan heim í gegnum þátttöku mína í samskiptaverkefninu Kidlink og hef heimsótt marga víða um heim til dæmis í Brasilíu, Perú, Noregi, Slóveníu og víðar. Þannig að þó sumir segi að þeir vilji "frekar" persónuleg samskipti en Netsamskipti þá er einboðið að maður getur ekki haft dagleg samskipti við vini annars staðar á hnettinum nema með þessum miðli en síðar er hægt að fara í heimsókn eða hittast annarsstaðar. Auðvitað er sú hætta fyrir hendi að kynnast ósvífnum rummungum en það gæti líka hent mann heima fyrir. Í þessu sem öðru þarf að gæta varúðar.

Hinsvegar er því ekki á móti mælt að nemendur sem kynnast öðrum víða að úr heiminum öðlast víðari sýn á lífið, fjarlægðir verða minni og skilningur á aðstæðum annarra meiri.

Í þessu samhengi tel ég að vefdagbækur muni gefa okkur gríðarlega möguleika og á hverjum morgni vakna ég upp með nýjar hugmyndir. Ég hlakka til að spreyta mig á því hvernig þær gætu verið í verkefni eins og eWizards sem ég var með í Menntaskólanum á Akureyri fyrir nokkrum árum. Verkefni nemenda þar voru glæsileg og augljóst að í stað þess að nemendur þurfi að skrifa vefsíður má senda inn dagbókarfærslur, texta, hljóð og mynd. Einnig eru vefdagbækurnar gríðarlega góðar fyrir samstarf af alskyns tagi.

Ég hlakka til að hitta fólkið á eftir, núna sit ég yfir í enskuprófi fyrir Fjölbrautaskólann við Ármúla þar sem sólin skín inn um gluggann á gamla skólahúsinu. Hér er gott að vera og það gladdi mig í gær að nemendur sögðu að hér liði þeim vel. Sé hægt að skapa hlýlegt og gott andrúmsloft í prófum þá hefur vel tekist til.

Þá er bara að gleyma sér ekki og taka flugvélina klukkan 12:10 ;-)

kl. |Vinnan

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.