« Síðasti dagur Tryggva Gíslasonar sem skólameistari MA | Aðalsíða | Verslunarmannahelgin á Akureyri »

Föstudagur 1. ágúst 2003

Trassaskapur ríkisstórnarinnar

Mér er með öllu óskiljanlegt hvers vegna stjórnvöld sjá ekki til þess að tryggja flugrekstrarleyfi Grænlandsflugs fyrir flug til og frá Kaupmannahöfn hingað til Akureyrar. Framkoma yfirvalda er ótrúleg í ljósi þess að hér er um mikla og góða samgöngubót fyrir okkur Norðlendinga, enn og aftur sýna stjórnmálaflokkar núverandi ríkisstjórnar landsbyggðinni fyrirlitningu.


Í frétt frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar segir að nú geti svo farið að flugið leggist af vegna slakrar fyrirgreiðslu Flugmálastjórnar Íslands. Ástæðan er sú að samgönguráðuneytið hefur ekki séð til þess að samningar milli landa séu í lagi.

Á sama tíma sýnist mér einnig vera á ferðinni ósveigjanleiki því núverandi samningur gerir ráð fyrir flugi frá Reykjavík en ekki Keflavík og því ættu leyfi Flugleiða til flugs hreint ekki að vera í lagi heldur nema flogið væri úr höfuðborginni sjálfri.

Grænlandsflug getur ekki unnið sína markaðssetningu eða bókað fram í tímann með því fyrirkomulagi sem nú er fyrir hendi. Hópar skipuleggja ferðir sínar með löngum fyrirvara t.d. fyrir ungmenni sem ætla á íþróttamót, nemendaferðir og margt fleira. Slíkt er ekki hægt að gera með tveggja til þriggja mánaða fyrirvara. Samningar við ferðaskrifstofur um skipulagðar ferðir þar sem byggt er á þessu flugi eru gerðir með löngum fyrirvara og ekki er heldur hægt að ganga frá slíkum samningum.

Norðlensk fyrirtæki sem stunda útflutning og vildu gjarnan nýta þá möguleika sem beint flug Grænlandsflugs veitir frá Akureyri geta ekki gert sölusamninga byggða á þessu flugi því slíkir samningar eru gerðir til lengri tíma en tveggja til þriggja mánaða.

Ég er því þeirrar skoðunar að í þessu máli sem mörgum öðrum birtist byggðastefna ríkisstjórnarinnar í verki. Í kosningabaráttunni gátu þeir leikið leikinn, iðnaðar- og viðskiptaráðherra tók sér ferð með fyrsta fluginu til að láta taka af sér myndir, forseti þingsins mætti í sparifötunum og hélt ræðu en eftir kosningar tóku þau sér sæti í hægindastólum ríkisstjórnarinnar og láta sér fátt eitt finnast um okkur landsbyggðarmenn. Enda ekki hægt að láta taka af sér mynd aftur út af þessu flugi, betra er að finna eitthvað nýtt, þá er hægt að láta taka af sér myndir við að klippa á borða.

Ég mæli með því að það séu líka birtar myndir af þessu fólki þegar fyrirtækin á landsbyggðinni veslast upp vegna þess að steinn er lagður í götu þeirra eins og í tengslum við þetta flug eða loforð svikin eins og í tengslum við fjarvinnu á landsbyggðinni.

kl. |Pólitík

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.