« SKÝ | Aðalsíða | Rotary »

Föstudagur 12. mars 2004

Enginn svarar

Venjulegur morgun á leið í vinnu, nýbúin að kveðja fjölskylduna og hugurinn heima eða í vinnunni. Allt í einu högg, lífið búið. Fjölmiðlar segja frá og ættingarnir leita uppi sína, farsímarnir hringja í vösum og töskum - en enginn svarar. Málstaður hvers heyrist eftir að fólk er sprengt upp að morgni dags í Madrid?


Barátta manna fyrir málstað sínum hefur breyst mjög í seinni tíð, áður fóru stæltir karlmenn í glæsilegum búningum og börðust út á akri, undirbúnir, æfðir og höfðu tekið verkið að sér viljugir eða óviljugir. Síðar grófu menn sig niður í skurði og skutu úr launsátri ef hægt var. Síðan hófu hermenn sig til himins og skutu á allt sem fyrir var þaðan án þess að sjá nákvæmlega hverjir urðu fyrir árásinni. Sprengjurnar stækkuðu og útrýmdu hundruðum þúsunda.

Fátækir menn eiga ekki fyrir stríði en vilja fara sömu leið og þeir ríku og myrða því fólk hér og þar sem er algerlega óundirbúið í amstri hversdagsins. Auðugir menn nota sömu aðferð ef þeir eiga ekki fyrir her og stórum sprengjum. Eftir standa ættingjar sem kannski voru málsvarar þeirra sem sprengdu því enginn veit hverjir nákvæmlega deyja í sprengingum sem þessum. Andstæðingurinn er óþekktur og stundum líka sá sem sprengir. Hverjir eru þá að berjast og fyrir hverju?

Hvernig getum við Íslendingar skilið atburði sem þessa? Hvernig getur fólk skilið hvað er að gerast og hvernig á að verjast því? Hver þarf næstur að taka upp símann og hringja sem hringir í vasa eða tösku lífvana mannveru sem mun aldrei svara aftur?

Hryðjuverk eru aldrei réttlætanleg.

kl. |Pólitík

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.