« Kaldbaksmenn | Aðalsíða | Báknið má vaxa - en bara í Reykjavík »

Fimmtudagur 18. mars 2004

The Passion of Christ

Ég fór að sjá myndina The Passion of Christ í gær, efnið vel þekkt saga sem flestir Íslendingar kunna frá blautu barnsbeini. Myndin var síðan nokkurnvegin nákvæmlega sú saga færð í það form sem miðillinn kvikmynd býður uppá. Tónlistin var virkilega vel unnin til að grípa þann anda sem tilheyrir, litirnir myrkir og pössuðu við myrka mynd. Ég var sérstaklega hrifin af því að myndin var ekki á ensku og það sýnir að mynd getur náð gríðarlega langt með öflugri sögu á öðrum tungumálum.


Fyrir mér var þessi mynd sagnfræði og á sama tíma trúarbrögð. Aðferðin sem notuð var til að sýna ofbeldið á Jesú fannst mér hinsvegar frekar ótrúverðug. Að menn geti nennt að hlægja hátt endalaust, á meðan þeir eru orðnir lafmóðir af því að húðstrýkja mann gengur ekki alveg upp að mínu mati. Einfaldari svipbrigði sem sýndu háð eða fyrirlitningu hefðu verið sterkari en grófur karlmannshlátur í langan tíma. Ég held ekki að menn eyði orku í háan skellihlátur þegar þeir eru að ganga fram af sér við að húðstrýkja mann.

Einnig fannst mér ótrúverðugt þegar hermennirnir gengu um með stöðugum barsmíðum á göngunni upp á Golgata löngu eftir að augljóst var að Jesú gat ekkert gengið með krossinn sjálfur. Sæmilega vel gefnum mönnum ætti að vera ljóst að maður sem var með jafnmikil sár og myndin sýnir eftir húðstrýkinguna, myndi gefast upp og ekki geta borið krossinn. Þá sátu þeir sjálfir uppi með að bera krossinn, eða fá einhvern til þess eins og þeir gerðu. Svo var auðvitað sú hætta fyrir hendi að maðurinn væri einfaldlega látinn áður en upp á hæðina var komið og þá hefði hin táknræna sýning sem æðstuprestunum var svo mikilvæg ekki átt sér stað.

Miðað við atið við húðstrýkinguna var líkami Jesú nokkuð heillegur og verkfærin sem notuð voru komu ekki vel fram á líkama hans enda hefði hann verið nokkuð örugglega dáinn ef öll högg sem framkvæmd voru hefðu virkilega átt sér stað.

En þrátt fyrir þetta þá er ágætt að rifja þessa sögu upp og magnþrunginn boðskap Jesú þrátt fyrir barsmíðar. Satan var gerður mjög áhrifamikill og hvernig púkar hans birtust í börnum, sérstök tilvísun. Júdas hengdi sig á ótrúlega flottum stað til myndatöku.

En hvað stendur þá uppi í huga mér eftir að hafa séð myndina? Fyrst og fremst hversu hættulegir trúarleiðtogar, í þessu tilfelli æðstu prestarnir, geta verið í samfélögum. Þrátt fyrir að stjórnskipaður maður (af einræðisstjórn að vísu) vilji ekki dæma mann þá heimta æðstuprestarnir að af slíku offorsi að þeim er sama þó hættulegur glæpamaður gangi laus. Þeim fannst sér ógnað. Trúarleiðtogar, hvaða trú sem þeir aðhyllast geta náð meiri tökum á fólki vegna tilvísunar í trúarbrögð og þeirrar stöðu sem þeir hafa í hugum fólks gagnvart þeim Guði sem þeir trúa á. Nánast sérstakir útvaldir umboðsmenn með beina línu til Guðsins. Við þekkjum sögu þeirra úr gyðingdóm, úr kristni, úr múhameðstrú og mörgum fleirum. Þegar áherslan beinist að völdum, sama undir hvaða formerkjum, þá er eins og lýðræðið fölni og trúarleiðtogi sannfærir fólk um að Guðinn vilji eitthvað sem þarf að framkvæma.

Kannski er það mikilvægasta skynsemin í öllum trúarbrögðum að einstaklingurinn geti sjálfur talað við sinn Guð og fundið hjá honum þann frið eða þá sálrænu næringu sem hann þarfnast. Umboðsmenn guðanna gleyma sér oft í öðru en því hlutverki sem þeir hafa að gegna.

kl. |Ymislegt

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.