« Bláskeljahátíð | Aðalsíða | Grill - Grófargil - Kaldbakur - Þekking »

Mánudagur 5. júlí 2004

Þegar vitið sofnar...

vakna ófreskjurnar er ein mynd eftir Goya sem hefur hangið hér upp á Listasafninu á Akureyri. Mér kom þessi mynd í hug þegar nýjasta útspil ríkisstjórnarinnar kom á hvíldardegi miðsumars fyrir þingdag þar sem fjalla átti um þjóðaratkvæðagreiðslu. Aftur og aftur er þráast við með þetta fjölmiðlafrumvarp og lýðræðisvitund ríkisstjórnarinnar sú að þegar ljóst er að þjóðin mun ekki samþykkja hrásoðið frumvarp þeirra kemur enn ein útgáfan, enn ein ófreskjan fram á sjónarsviðið.


Þingið er síðan óvirt með því að fjalla um allt annað en til stóð og slíta þingfundi án þess að hlýta reglum um fundarsköp. Það hlýtur að vera skelfilega erfitt að reyna að starfa sem þingmaður undir því vinnulagi sem farið er að tíðkast í tíð núverandi stjórnar. Hvort heldur menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Fólki hlýtur að vera misboðið þegar búið er að vísa máli til þjóðaratkvæðagreiðslu að þá sé upphaflegu frumvarpi breytt lítillega og það á að samþykkja umræðulítið eða umræðulaust. Forsætisráðherra ráðgast við forsetann og lætur eins og þeir tveir geti ákveðið hvort lög verða lög eða ekki. Mér sýnist sem forsætisráðherrann haldi að hann sé í laxveiði nú sé bara að henda út nýrri og nýrri beitu og þreyta laxinn þar til hann gefst upp. Allir vita að þjóðin er orðin þreytt á þessu máli, þingið er þreytt á þessu máli en ekki gefst veiðimaðurinn upp. Bráðinni skal náð.

Er nokkuð annað að gera en draga djúpt andann og heyja þetta stríð við þá ófreskju sem nýjasta útgáfan af fjölmiðlafrumvarpinu er? Láta ekki fífla sig í að vera orðinn svo þreyttur að ekki sé hægt að lyfta hendi í slaginn?

Er það sáttahönd að bjóða upp á samráð um fjölmiðlafrumvarp eftir að það hefur orðið að lögum? Er þetta ekki það sama og heyja stríð og ræða málin svo - kannski?

Vonandi vaknar vit þessarar ríkisstjórnar bráðum, ófreskjurnar hafa verið vakandi of lengi.

kl. |Pólitík

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.