« Reykjavíkurflugvöllur | Aðalsíða | Síminn óþarfur! »

Mánudagur 14. mars 2005

Slippstöðin sniðgengin

Það voru ömurlegar fyrstu fréttirnar sem ég heyrði þegar ég opnaði útvarpið á Íslandi eftir Jórdaníuförina. Samið er við erlenda aðila að gera við varðskip Íslendinga fremur en að vinna vinnuna hér heima. Samkvæmt Morgunblaðinu í dag virðast s.k. ráðgjafar frekar fara með vinnuna úr landi þar sem þá fá þeir meira fyrir sinn snúð sem eftirlitsaðilar. Verðmunurinn er lítill og augljóslega kemur meira til baka í íslenskt samfélag sé verkið unnið hér. Græðgi í íslensku samfélagi er orðin svo mikil að menn hugsa ekki fram fyrir nefið á sér og óforsjálni Ríkiskaupa ömurleg fyrir íslenska þjóð, með þessu eru Ríkiskaup að éta útsæðiskartöflur íslensku þjóðarinnar. Með þessu áframhaldi eigum við ekkert sjálf, fáum ekkert að gera sjálf, Íslendingar eru smá saman að verða verkamenn auðhringa og útlendinga. Eigin fyrirtæki og rekstur eru hundsuð og fyrirlitin af íslenskum yfirvöldum.


Oftar og oftar eru EES samningar notaðir sem fyrirsláttur gegn því að nýta íslensk fyrirtæki. Líklegt má telja að Ríkiskaup hefðu getað sparað sér heilmikla vinnu og peninga með því að semja beint við Slippstöðina sem sumir telja að þeim hafi verið heimilt. Útboð eru ekki alltaf hagkvæmasti kosturinn, sérstaklega ekki þegar markmiðið virðist það eitt að hindra að íslenskt vinnuafl vinni störf fyrir íslensku þjóðina. Sé hlutirnir reiknaðir til enda þá er ljóst að íslenska þjóðin hefði náð hagkvæmari samningum með því að semja við Slippstöðina. Allir sem þar vinna greiða skatta til íslenska ríkisins sem og fyrirtækið sjálft. En það á ekki við ráðgjafana sem eru svo gráðugir að þeir vilja frekar éta meira af kökunni en stuðla að atvinnulífi hjá sinni eigin þjóð.

Það er ömurlegt að sjá stjórnvöld klípa hverja klípuna á fætur annarri af landsbyggðinni, þykjast hafa áhyggjur af henni á tyllidögum en gæta sín verulega á því að fólkið sem býr á landsbyggðinni geti ekki bjargað sér sjálft. Þetta birtist í samningum sem þessum, skattlagningu á flutninga til og frá fyrirtækjum á landsbyggðinni og mörgu fleiru.

Vilja núverandi yfirvöld að Íslendingar flytji í burtu og komi sér fyrir annarsstaðar? Það er ekki víst að það henti þessari þjóð að vera ölmusumenn útlendinga og auðhringa þegar til lengri tíma er litið.

kl. |Pólitík

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.