« Ljósmyndun dagsins | Aðalsíða | Slabb, MH og afmæli »

Fimmtudagur 5. janúar 2006

Auðlegð fyrir ekki neitt

Ég skil ekki þessa auðlegð fyrir ekki neitt sem kemur fram í alskyns starfslokasamningum. Þegar ég var lítil stúlka var hámark auðlegðarinnar að vinna í happadrætti. Menn unnu íbúð og gott ef ekki einbýlishús og mig dreymdi um slíka auðlegð. Kannski er það þess vegna sem ég á alltaf happadrættismiða og spila í lottó. Ég hef sannfært mig um að þar fái ég útrás fyrir tvennt í mínu fari, spennu um hvort ég vinn og stuðning við gott málefni. Ég skil hinsvegar ekki auðlegð sem gerir fyrirtæki kleift að borga mönnum þrjúhundruðmilljónir fyrir að gera ekki neitt. Jafnvel að semja um að gera ekki neitt mjög lengi.


Þegar ég var að lesa vefsíðu Össurar Skarphéðinssonar í dag um starfslokasamninga áttaði ég mig á að ég skildi ekki þessar upphæðir í raun og veru. Þrjúhundruðmilljónir eru rosamikið en fór að velta fyrir mér hvað ég gæti fengið fyrir slíkt fé. Svo ég fór að reikna hversu margar ferðapakka ég gæti keypt fyrir þennan pening og skrifaði þetta inn á vefsíðu Össurar:

"Ég fletti upp á vefsíðu Æslander (Icelandair) og komst að því að fyrir þrjúhundruð milljónir kemst ég 4.148 Valentínusarferðir til Boston. Innifalið flug fram og til baka og gisting á Copley Square Hotel. Ég kemst í 7.352 borgarferðir til London ef ég vildi það heldur, innifalið flug báðar leiðir og gistingu. Eða þá að fara 5.617 ferðir til Amsterdam og gistingu með.

Næstu 7.352 sem fara í borgarferð til London geta hugsað hlýtt til þess að aurarnir fara ekki til að borga bensín, flugfreyjum, flugstjórum eða öðru slíku heldur tveimur mannverum sem munu hafa það gott fyrir þann pening. Jafnvel er hér um fleiri að ræða því verðmiðinn á svona ferð er auðvitað með sköttum.

Að lokum má geta þess að Flugfélagið atarna getur sent 4.638 Íslendinga á leik með Manchester United við Sunderland í apríl fyrir þennan aur.

Svo eru menn hímandi heima að horfa á sjónvarpið... "


Ef maður hugsar þetta lengra þá eru tekjur Icelandair af þessum ferðum ekki heildarkostnaðurinn. Þarna eru skattar, laun til starfsmanna sem tengjast fluginu frá flugfreyjum til hlaðmanna og innritunarfólks. Eitthvað fær hótelið í útlöndum og ekki er flugvélabensínið hræbillegt. Svo það eru þúsundir flugferða sem farþegar greiða eða þeir sem eru að flytja vöru á markað til að borga 300.000.000 eða þrjúhundruðmilljónir.

Einhverjir færu að þvæla þetta mál um kaup og sölur, hlutabréf og þvíumlíkt sem svo vinsælt er í dag. En eftir stendur að grunnþjónusta Icelandair er þjónusta í flugferðum. Þannig að ekki er óeðlilegt að reyna að skilja þessar fjárhagsstærðir einmitt út frá þeim mælikvarða þegar upphæðirnar eru svo háar að sauðsvartur almúginn eins og ég skilur þær ekki.

Þúsundir farþega greiða sumsé tveimur mannverum peninga fyrir það að gera ekki neitt. Ekki til að efla reksturinn, ekki til að fjölga áfangastöðum, ekki fyrir betri eða nýrri flugvélar. Neibb, til að skapa auðlegð - fyrir ekki neitt.

kl. |Pólitík

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.