« Við erum fyrst! | Aðalsíða | Morgunblaðið orðið útlenskt sjónvarp? »

Sunnudagur 15. janúar 2006

Tilfinningar framkvæmdastjóra

Í Kastljósi í kvöld var áhrifamikið viðtal við Arnþór Helgason fyrrverandi framkvæmdastjóra Öryrkjabandalagsins. Það er óvenjulegt að fólk sé tilbúið til að ræða starfslok sín eða störf af eins mikilli tilfinningu og Arnþór gerði í kvöld. Oft vill gleymast þegar verið að skipuleggja á plöggum rekstur á félögum og fyrirtækjum að starfsmennirnir eru fólk sem hefur lifibrauð sitt af þeirri atvinnu sem þeir stunda. Jafnvel hafa starfsmennirnir hugsjón sem tengist atvinnunni sem síðan hverfur á hraðar en auga á festir. Einn daginn er mætt í vinnuna en daginn eftir ekki neitt. Það sem var sérstakast við viðtalið er sú mannvirðing sem hann sýndi samstarfsmönnum sínum á sama tíma og hann lýsti þeirri skoðun sinni að hann teldi starfslokin erfið og það hafi verið óþarfi að beita þeim aðferðum sem beitt var. Spurningin sem maður veltir fyrir sér eftir viðtalið er hvort við erum hætt að bera virðingu fyrir mannverum og farin að vera harla kaldranaleg í atvinnutengdri iðju.


Hvaða peningar í formi starfslokasamnings eru hæfileg upphæð fyrir þennan mann sem aðalstjórn Öryrkjabandalagsins ályktar um á þennan hátt sbr. heimasíðu bandalagsins: "Jafnframt þakkar aðalstjórn fráfarandi framkvæmdastjóra óeigingjörn störf í þágu ÖBÍ og mælist eindreigið til þess að framkvæmdastjórn láti hann njóta góðra starfa með því að gera við hann starfslokasamning sem báðir aðilar hafi sóma af."

Ég man ekki mikið eftir blindum þegar ég var að alast upp. Það var ein heyrnarskert stúlka í blokkinni í Safamýrinni en hún fór í annan skóla og talaði leynimál með höndunum. Mér fannst hún mjög dularfull og langaði að skilja hvernig hún talaði. Í fyrsta skipti sem ég kynntist blindum var það á Netinu í kringum 1992 þegar þeir bræður Gísli og Arnþór tengdust Íslenska menntanetinu en ég hafði einmitt tekið þátt í að stofna það net. Ég mundi aldrei eftir því að þessir menn sáu ekki neitt enda var enginn munur á þeim á Netinu og öðrum sem ég var í samskiptum við. En ég mundi að þeir spiluðu listavel á flautur - það hafði ég heyrt í útvarpinu.

Eitt af stóru minningunum á upphafsdögum Netsins var þegar fatlaður ungur maður tjáði mér að hann gæti bara hreyft einn fingur. Það hafði mér ekki dottið í hug þegar ég var í samskiptum við hann fyrr en hann sagði það. Hann langaði að skipuleggja skemmtikvöld á stofnuninni sem hann var á en enginn hafði trú á því að hann gæti það svo mikið fatlaður. En það gerði hann með hjálp netsins og ég man ekki hvor þeirra Gísla eða Arnþórs mætti á kvöldskemmtunina. En þessar minningar komu upp þegar ég var að horfa á þetta viðtal.

Arnþór sýndi tilfinngar á sama tíma og hann sýndi mikla mannlega reisn í viðtalinu í Kastljósinu í kvöld. Svo sannarlega vakti hann okkur til umhugsunar um á hvaða leið við erum þegar við erum að ræða um starfsfólk.

kl. |Pólitík

Álit (4)

Viddi:

Maður spyr sig bara, hvert geta öryrkjar leitað þegar Öryrkjabandalagið sjálft veður yfir þá á skítugum skónum og kemur fram við þá af slíkri vanvirðingu eins og gert var í þessu tilfelli. Sjálfur held ég að Sigursteinn Másson hafi vondan málstað að verja. Allavega er hann ekki hátt skrifaður í mínum augum þessa dagana. Til að kóróna vesaldóminn fer hann í felur og er ekki fáanlegur til þess að tjá sig. Ef einhver manndómur væri í honum ætti hann að koma fram og standa fyrir máli sínu.

Mánudagur 16. janúar 2006 kl. 18:00

Ég velti fyrir mér svörunum um starfslokasamning, mér finnst eins og svarið sem Arnþór fái felist í honum. Ekki mannlegum samskiptum. Þá er spurningin hvert er verðmætamat þess sem gert hefur verið? Hversu margar milljónir á hann skilið? Hundrað og þrjátíu? Hundrað og sextíu? Hversu mikið kostar sú líðan sem fram kom í sjónvarpsviðtali í gær? Og á Öryrkjabandalagið fyrir því að borga það?

Mánudagur 16. janúar 2006 kl. 21:04

Valgerður:

Mér fannst þetta viðtal gott og ég virði manninn hundrað sinnum meira eftir það og þó virti ég hann mikið fyrir, hann kom vel út úr þessu og ég er viss um að einhverjir hafi tárast með honum þarna á tímabili, ég gerði það allaveganna!
Annars er ég að fara norður annað kvöld og mér sýnist að ég þurfi bara að taka kuldagallann með mér og svo lopasokka;o) Annars er nú ósköp kalt hérna líka og frekar óskemmtilegt veður á köflum.
Hlýjar kveðjur Valgerður

Mánudagur 16. janúar 2006 kl. 23:32

Farðu varlega mín kæra spáin er frekar ömurleg. Væri gaman að hitta þig á kaffihúsi ef þú getur litið upp frá náminu;-)

Mánudagur 16. janúar 2006 kl. 23:42

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.