« Ofboðsins eftirlaun | Aðalsíða | Puntudúkkur Sjálfstæðisflokksins »

Laugardagur 10. júní 2006

Ábyrgð fyrir Akureyri

Ég var að renna yfir grein Hlyns Hallssonar varaþingmanns VG þar sem hann er þess fullviss að Samfylkingarmenn muni kjósa hann í komandi þingkosningum af því flokkurinn myndaði ekki samstarf við hans flokk á Akureyri. Við vorum í samstarfi við VG fyrir þarsíðustu kosningar en því samstarfi sleit VG þrátt fyrir áhuga Samfylkingarinnar á að halda því áfram. Þau slit leiddu til setu beggja flokka í aumum minnihluta síðasta kjörtímabil. Með öflugri og samstilltri kosningabaráttu jókst fylgi Samfylkingarinnar úr einum bæjarfulltrúa upp í þrjá í nýliðnum kosningum. Því fylgir ábyrgð, sú ábyrgð að gera allt sem mögulegt er til að vinna fyrir Akureyri og fólkið í bænum að þeim málefnum sem barist var fyrir.


Nú er það einfaldlega þannig að flokkar þurfa að fara í samstarf að loknum kosningum, nema þeir sem fá hreinan meirihluta. Auðvitað var það draumur okkar margra að fá öfluga vinstri stjórn á Akureyri. Þegar það hinsvegar gengur ekki eftir þurfa kjörnir fulltrúar að sýna þá ábyrgð að reyna allar leiðir til að þau málefni sem kjósendur kusu verði að veruleika í sveitarfélaginu. Ég tel að þegar menn lesa málefnasamning meirihlutans þá sjái menn að Samfylkingin stóð við það sem hún lofaði að berjast fyrir í kosningabaráttunni. Ekki allt, en það hefðum við heldur ekki fengið með samstarfi við VG og Lista fólksins. Pólitík snýst ekki um allt eða ekkert, hún snýst um samræður að niðurstöðu sem má vel við una. Menn sem ekki eru tilbúnir til samninga geta ekki gert ráð fyrir að ná markmiðum sínum.

Þeir bæjarfulltrúar sem við Samfylkingarmenn völdum okkur þurfa síðan að sýna í verkum sínum og framgöngu að þeir eru engir undirmálsmenn í meirihlutasamstarfinu á kjörtímabilinu. Þeim treysti ég fyllilega til þess, við eigum kröftuga bæjarfulltrúa í öflugu meirihlutasamstarfi þar sem málefni Samfylkingarinnar skipa veglegan sess.

Ég skil vel draum Hlyns Hallssonar varaþingmanns að hann vilji fylgi Samfylkingarinnar og eygi þar draum sinn um þingmennsku. Hlynur er mætur og kappsfullur maður sem á virkilega erindi í pólitík. Hann getur vel staðið fyrir sínu og því kemur mér á óvart að hann vilji nú skreyta sig með fjöðrum Samfylkingarinnar. Ég tel hinsvegar að kjósendur Samfylkingarinnar sjái að bæjarfulltrúarnir eru að vinna að hag bæjarins með málefni Samfylkingarinnar að leiðarljósi.

kl. |Pólitík

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.