« Á Alþingi í fyrsta sinn | Aðalsíða | Samfylkingarfundur á Egilsstöðum »

Miðvikudagur 21. apríl 2004

Háskólinn á Akureyri vængstýfður

Í gær samþykkti háskólaráð Háskólans á Akureyri reglur um fjöldatakmörkun við skólann þar sem setja á skorður við fjölda nýnema í öllum deildum skólans. Þetta eru ömurleg tíðindi sérstaklega í ljósi þess að ein helsta atvinnuuppbygging á Akureyri er einmitt tengd háskólanum, menntunarstig svæðisins þarf að vaxa sem og þess að Háskólinn á Akureyri er landsbyggðarháskóli sem þjónustar nemendur í dreifbýli á markvissan hátt. Þessi skóli þarf að fá að vaxa og dafna en hefur nú verið vængstýfður með takmörkuðum fjárveitingum og skilaboðin ljós, það á ekki að styðja við stækkun Háskólans á Akureyri.


Þessi tíðindi eru því alvarlegri þegar þau eru skoðuð í ljósi þess að Háskólinn á Akureyri er afar vel heppnuð byggðaaðgerð sem hefur dafnað, veitt fólki vinnu og aukið menntunarstig íbúa. Samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands árið 2001 höfðu 12% íbúa Eyjafjarðarsvæðisins hlotið háskólamenntun á meðan landsmeðaltalið er 19%. Í ljósi þess er afar alvarlegt að fé sé takmarkað til skólans sem mest þjónar landsbyggð þar sem menntunarstig þarf að hækka enda er atvinnuþátttaka manna að jafnaði meiri eftir því sem menntunarstig eykst. Háskólinn á Akureyri þarf að hafa frelsi til að stækka eins og mögulegt er til að jafna þann mun sem er á menntunarstigi í landinu.

Niðurskurður á fjármagni til háskólastigsins er síðan alvarlegt í heild, ætlum við að standa í vegi fyrir menntun ungmenna eða viljum við fremur beina þeim til útlanda þar sem þau þurfa að taka lán fyrir námi sínu? ´

Samfylkingin hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir m.a. „Fjöldatakmarkanir við opinberu háskólana eru áfall fyrir háskólamenntun á Íslandi og hrein aðför að jafnrétti til náms. Með þeim á sér stað gagnger stefnubreyting í málefnum opinberu háskólanna. Þjóðskólar á háskólastigi er ekki lengur opnir þeim sem þangað sækja. Það er háð pólitískum geðþótta ráðherra menntamála og ríkisstjórnar hvað margir fá aðgang að þjóðskólunum ár hvert."

Það er ekki skynsamlegur sparnaður fyrir íslensku þjóðina enda eru yfirvöld á Íslandi að leggja talsvert minna fé til háskólamenntunar en önnur Norðurlönd gera að jafnaði. Samkvæmt nýjustu skýrslu OECD frá árinu 2003 kemur fram að opinber fjárframlög til háskólastigsins á Íslandi voru einungis um 0,8% af landsframleiðslu á meðan hin Norðurlöndin vörðu á bilinu 1,2%-1,7% til háskólastigsins sem er allt að tvöfalt hærra.

kl. |Menntun / Pólitík

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.