« Jarðsig við Grenilund | Aðalsíða | Af hverju UT og menntun? »

Miðvikudagur 5. maí 2004

Brottfall nemenda úr framhaldsskólum

Í dag var rætt á Alþingi um brottfall úr námi á framhaldsskólastigi. Okkur Íslendingum gengur harla illa að takast á við þetta vandamál og sitjum því uppi með brottfall sem er talsvert meira en þekkist á hinum Norðurlöndunum. Ástæðurnar eru áreiðanlega margþættar og því nauðsynlegt að grípa til öflugra aðgerða í stað þess að koma með „smálausnir“ sem virðast því miður hindra heildstæða vinnu við að koma á breytingum.


Þau atriði sem þarf að fjalla um eru m.a. námsleiði nemenda, af hverju virðist svo mörgum, sérstaklega drengjum, leiðast í grunnskóla og vilja helst komast hjá frekara námi? Hvert ætla nemendur að stefna? Starfs- og námsráðgjöf þarf að efla gríðarlega og sérstaklega á grunnskólastigi enda sýnir rannsókn Helgu Steinsson að mikilvægt er að ræða við nemendur hvert þeir vilja stefna í lífinu.

Einnig er mikilvægt að stuðla að því að nemendur hafi aðgang að framhaldsskólanámi í heimabyggð og verður í því sambandi mjög spennandi að sjá hvernig hinn nýji Fjölbrautaskóli Snæfellinga getur breytt því umhverfi. En slíkt tekur tíma og í dag er möguleiki fyrir hendi að styðja nemendur í heimabyggð við að stunda framhaldsskólanám með aðhaldsþjónustu og stuðningi t.d. í grunnskóla. Í Garðabæ stunda nú 40% nemenda í efstu bekkjum grunnskóla nám á framhaldsskólastigi. Í sumum grunnskólum er slíkt gert í fjarnámi en annarsstaðar þar sem aðgengið er gott er slíkt gert með því að grunnskólanemendur sækja nám í framhaldsskólann eins og t.d. í Menntaskólanum í Kópavogi. Ég þekki líka grunnskólanemendur sem hafa tekið framhaldsskólaáfanga hjá mér í fjarnámi af góðu einu og sést ekki munur á þeim eða nemendum á hefðbundnum framhaldsskólaaldri eða fullorðnum þegar þau eru að fást við námsefnið. Grunnskólar í dreifbýli þyrftu að nýta þessa möguleika í auknum mæli fyrir íbúana í sinni heimabyggð. Fjarnám fyrir grunnskólanemendur er þekkt og hefur reynst vel sé aðhaldsþjónusta góð í þeirra umhverfi.

Brottfall veldur einstaklingnum vonbrigðum, honum finnst að honum hafi mistekist í lífinu og fjölskyldan veit oft ekki hvað á til bragðs að taka. Tjón samfélagsins er gríðarlegt og mikilvægt að skilgreina hversu mikið það er þannig að fólk geri sér grein fyrir hversu mikill vandinn er.

Brottfall úr framhaldsskóla er ekki einkamál framhaldsskólans, hér ber grunnskólinn líka mikla ábyrgð, samfélagið og heimilin. Allir þurfa að standa saman til þess að ná árangri og minnka brottfall úr framhaldsskólanum verulega.

kl. |Menntun / Pólitík

Álit (3)

Kemur eitthvað fram í þessum brottfallstölum hvort brottfall nemenda á heimavist sé hærra en annarra? Ég er að velta fyrir mér hvort heimabyggðaskóli skipti einhverju máli.

Annars held ég að stærsta vandamál framhaldsskólans (og sennilega efstu bekkja grunnskóla einnig) séu mæður úllígspilta. Þær ganga sumar endalaust undir þeim ... framleiða jafnvel vottorð í svo stórum stíl að skv. þeim eru synirnir 100% öryrkjar eða þá a.m.k. með tæringu. Þessar mömmur vilja að fjarvistir kennara verði tilkynntar fyrr á morgnana svo þær þurfi ekki að vekja "blessaða drengina" (ætla sjálfsagt að vakna sjálfar klukkan 6 eða 7 til að gá á Netinu ...). "Saga handa börnum" gerist víða hér á landi, í nútímanum.

Ég held að lausnin sé að skóla til þessar mæður - hvort það verður gert á Alþingi, í fjarkennslu eða jafnvel dreifkennslu verður spennandi að sjá.

Miðvikudagur 5. maí 2004 kl. 19:02

Ég hef í sjálfu sér ekki svo miklar áhyggjur af nemendum á heimavist en tek undir að það væri áhugavert að skoða. Hinsvegar er fjöldi nemenda sem fer utan af landi í skóla til Reykjavíkur eða hingað til Akureyrar sem kemst ekki á neina heimavist og búa oft við erfiðar aðstæður einir eða hjá ættingjum. Sumum fellur þetta hinsvegar afskaplega vel eins og gengur og finnst ekkert stórkostlegra en sjá um sig sjálfur.

Hvað varðar dekurmæður við drengi þá held ég einmitt að fleiri þættir en skólinn skipti máli hvaða augum nemendur líta á námið og gildi þess. Út á landsbyggðinni rekst ég síðan stundum á að foreldrar beinlínis letja nemendur til framhaldsnáms því þeir vita að það leiðir frekar til þess að afkomendurnir setjast ekki að í heimabyggð og foreldrar sitja oft einir eftir.

Kær kveðja
Lára

Fimmtudagur 6. maí 2004 kl. 08:56

Las gegnum yfirlit Moggans í dag og kom ekki á óvart að ástæður fyrir brottfalli er einkum að finna utan skólans. Við höfum samt góða reynslu af hertum mætingarreglum og SJÁ (sérstakri umsjón og lestímum) fyrir fornámið. Niðurstöður könnunar hér í FVA á heimanámi nemenda eru uggvænlegar (talsvert stór hluti nemenda lærir ALDREI heima) og kann það að spila inn í ... ef nemandi lærir aldrei heima og mætir illa að auki verða tengsl hans við skólann náttúrlega mjög lausleg. Og hvernig ætli tengslum brottfalls við niðurstöður könnunar á hreyfingu (sem sýndu að margir unglingar eyða yfir 4 klst. á dag í tölvuspjall og tölvuleiki eða að horfa á DVD) sé háttað? Ég held að bilið milli "duglegra" nemenda og "slakra" sé alltaf að breikka.

Föstudagur 7. maí 2004 kl. 12:09

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.