« Um framsóknarkonur | Aðalsíða | Mikið að gera;-) »

Föstudagur 28. janúar 2005

Akureyri og stjórnmál

Undanfarið hafa stjórnmál og alþingismenn verið í brennidepli hér á Akureyri. Mönnum svíður staða stærstu byggðar utan höfuðborgar og koma með hugmyndir til að leysa þá stöðu. Þekktust er öflug barátta Ragnar Sverrissonar sem var kjörinn maður ársins af báðum staðarfjölmiðlunum þ.e. Aksjón og Vikudegi. Þau komu fyrst og fremst vegna hins frábæra verkefnis "Akureyri í öndvegi" sem er það alsnjallasta sem ég hef séð í þeirri viðleitni manna til að styrkja Akureyri. Við sjálf berum mikla ábyrgð á hvernig okkur vegnar. En hvaða mál eru það sem eru í brennidepli fyrir okkur Akureyringa? Við erum ekki eyland heldur hluti samfélags sem stendur sterkar saman en sundrað.


Stóriðja okkar Akureyringa hefur verið menntun undanfarin ár, bærinn er án efa öflugur menntabær og vöxtur Háskólans á Akureyri hefur skipt verulegu máli. Sumir gera lítið úr því og segja það einungis gagnast háskólamenntuðu fólki. Þetta er ekki rétt, talsvert margir hafa beina og afleidda atvinnu af háskólanum þó ekki séu þeir langskólagengnir sjálfir enda skipta allir jafn miklu máli í því úrverki sem samfélag er og öll tannhjól skipta máli. Án góðra iðnaðarmanna tækist þetta ekki, án öflugrar þjónustu í byggðarlaginu tækist það ekki heldur og án stoðþjónustu af ýmsum toga væri háskólinn vanmáttugur og magnþrota. Þessa stóriðju okkar hefur menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins hinsvegar sett á þak með stuðningi samstjórnarliða úr Framsóknarflokki. Skólinn fær ekki einusinni að vaxa í hagkvæma rekstrarstærð. Það sem okkur tókst sjálfum að byggja upp og láta vaxa og dafna til að ná árangri er settur tappi á af stjórnarflokkunum - þeir hafa brugðið fæti fyrir okkur.

Samgöngur eru mikilvægar og okkur er mikilvægt að tengja svæðin í kringum okkur vel bæði okkur til hagsbóta sem og þeim. Þannig náum við að vera svæði samstarfs og samskipta sem nýtist öllum. Vaðlaheiðagöng eru mikilvæg til að tengjast betur Húsavík og Þingeyjasýslunum. Möguleikar ferðamennsku í Mývatnssveit eru gríðarlegir og þjóðhagslegur ávinningur okkar Íslendinga af ferðamannaiðnaði eru svo miklir að samkvæmt gögnum fáum við meiri þjóðartekjur per mann af ferðamönnum en Spánverjar. Hinsvegar er gögnum ekki haldið til haga á einum stað þannig að ljóst sé á auðveldan hátt hversu mikinn þátt ferðamál skapa atvinnulífinu.

Á sama tíma skipta Héðinsfjarðargöng okkur miklu máli, Siglufjörður er öflug byggð með trausta og góða sögu. Tenging til þeirra og frá þeim við nærsamfélög í Ólafsfirði og á Dalvík skiptir þau verulegu máli og stuðlar að auknum möguleikum þeirra allra.

Við þurfum fyrst og fremst að vera sjálfbjarga og standa á eigin fótum án þess að þurfa að betla okkar tækifæri af öðrum. Ofurskattar ríkisstjórnarinnar á flutninga gera okkru ósjálfbjarga. Athafnamenn sem gjarnan vilja staðsetja framleiðslufyrirtæki við Eyjafjörð megna það ekki vegna gjaldtöku ríkisins á flutning framleiðslunnar á stærsta sölusvæði landsins. Þrátt fyrir að kostnað þurfi auðvitað að greiða af viðhaldi vegakerfisins þá held ég að tjónið sé meira að gera heilu byggðalögin út um allt land ókleift að standa jafnfætis öðrum.

Hér hefur fátt eitt verið talið en krafa okkar sem búum við Eyjafjörð í næsta nágrenni er að ríkisstjórnin leggi ekki þessa stóru steina í götu okkar - flutningskostnað og þak á inntöku nemenda í Háskólann á Akureyri. Leyfið okkur að fá tækifæri til sjálfbjargar.

kl. |Pólitík

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.