« Til Jórdaníu! | Aðalsíða | Kátur á Brávöllum »

Fimmtudagur 10. febrúar 2005

Enn um Reykjavíkurflugvöll

Í Morgunblaðinu í dag er sagt frá yfirlýsingu Höfuðborgarsamtakanna þar sem segir "Gamli miðbærinn í Reykjavík er kominn að fótum fram, nærþjónusta í borginni er hrunin og rekstrargrunnur almenningssamgangna brostinn" og "skilvirkara borgarskipulagi, án flugvallar í Vatnsmýri, megi ná miklum ábata á öllum sviðum samfélagsins". Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg hvað þessi samtök eru að fara. Þá fyrst brestur rekstrargrunnur almenningssamgangna í landinu ef flugvöllurinn er fluttur til Keflavíkur því þá hættir höfuðborgin að þjóna hlutverki sínu.
Ég er ekkert viss um að Grafarvogsbúar fái betri þjónustu með byggð í Vatnsmýrinni, almenningssamgöngur í Reykjavík eru ekki öflugar vegna þess að fólk kýs að ferðast um í einkabílum bæði langar og stuttar vegalengdir. Nærþjónusta ætti að vera nærri Mjódd því þar er nokkurnveginn miðdepill borgarsamfélagsins. Hvað átt er við með "skilvirkara borgarskipulagi" skil ég reyndar ekki og held ekki að úthverfi í Vatnsmýrinni muni breyta miklu, allavega verður það samfélag enginn miðdepill fyrir þá er búa í Grafarholti eða á Kjalarnesi.

Umferðaræðar innan borgarinnar þola ekki meiri umferð og má minna á vandann á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Svo verð ég að viðurkenna að mér þykir það ævinlega skelfileg staðreynd hversu erfitt væri að komast út úr borginni verði þar hamfarir af einhverju tagi.

Mikilvægustu samgöngubætur höfuðborgarinnar eru Sundabrautin, tvöföldun Vesturlandsvegar milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur og tvöföldun Reykjanesbrautar.

Að fleygja flugvellinum út úr höfuðborg landsins hefur aðeins þær afleiðingar að einangra borgina, gera hana fatlaða til að sinna hlutverki sínu og vekja raunverulega þá umræðu að finna höfuðborg landsins annan samastað.

kl. |Pólitík

Vísanir

Neðantalin blogg vísa í færsluna Enn um Reykjavíkurflugvöll:

» Sjónarhorn... from Vefdagbok Tryggva
Ég hef alltaf gaman af mismunandi sjónarhornum á sama viðfangsefni, játa það alveg fúslega að ég tek stundum upp einhverja öfga afstöðu til að kanna (probe-a) skoðanir og röksemdafærslur annarra. Gott dæmi er hægt að sjá hjá Láru og Oktavíu um flugvöll... [Read More]

Álit (10)

"Að fleygja flugvellinum út úr höfuðborg landsins hefur aðeins þær afleiðingar að einangra borgina"

Geturðu fært rök fyrir því að flugvöllurinn sé mikilvæg samgönguæð fyrir borgina?

Hversu margir ferðast um völlinn til borgarinnar? Hversu margir myndu hætta að fara til borgarinnar ef við bætist rúmlega hálftíma akstur á tvöfaldri Reykjanesbraut?

Ég veit ekki - mér finnst þetta ekki mjög trúverðugur málflutningur. Sé ekki betur en að í raun sértu að segja að flugvöllurinn sé mikilvægur fyrir landsbyggðina, ekki höfuðborgina. Það eru svosem rök í málinu.

Fimmtudagur 10. febrúar 2005 kl. 12:56

Ja, sko, Matti, hvað er langt síðan þú hefur flogið innanlands? Ég horfi á dæmi svona: ef ég keyri til Reykjavíkur frá Akureyri þá tekur ferðin kannski fjóra tíma og kostar hálfan til einn tank af bensíni. Ef ég flýg tekur ferðin um 50 mínútur og 5 mínútum eftir að ég lendi er ég komin út af vellinum. Ekkert mál, en það kostar töluvert meira en ef ég keyri. Í sumum tilfellum lít ég á aukinn fjárhagslegan kostnað vel þess virði miðað við tímasparnaðinn. Ef flugið flyst til Keflavíkur vitum við að það bætist meira við en rúnturinn eftir Reykjanesbraut. Það hefur aldrei tekið mig innan við hálftíma-klukkutíma að komast út úr Leifsstöð, þó að sá tími gæti orðið aðeins styttri fyrir innanlandsflug. Svo vitum við að þó að Reykjanesbraut tvöfaldist þá mun tíminn sem tekur að fara hana ekki styttast um þriðjung. Fólk er þegar að keyra veginn fáráðlega hratt. Breikkun brautarinnar mun að mínu mati ekki auka hraðann svo mikið heldur á hún að auka öryggið. En, allavegana, þá er heildartíminn fyrir ferðina orðinn vel yfir tveir tímar. Ég held að ég myndi þá hreinlega segja að ég myndi alltaf keyra frekar en fljúga fyrst það er töluvert ódýrara og tekur ekki sérstaklega mikið lengri tíma. Ég er líka nokkuð viss um að ég er ekki ein um þá skoðun. Rekstrargrundvöllur innanlandsflugs mun fara í vaskinn ef það verður flutt til Keflavíkur. Basta.

Fimmtudagur 10. febrúar 2005 kl. 13:44

Það eru komin tólf ár síðan ég flaug síðast til Siglufjarðar.

Það er rétt, hálftími er full stuttur tími nema endastöð sé í Ásahverfi í Hafnafirði en ekki 101 Rvk.

Er einhver rekstrargrundvöllur innanlandsflugs í dag? Hvað kostar að fljúga til Akureyrar, er það ekki rúmlega 10.000 aðra leið? Ég var eitthvað að skoða þetta um daginn og þótti skelfilega dýrt.

En spurningin er: hve margir fljúga þetta reglulega, af hverju fljúga þeir og hvaða áhrif mun það hafa ef flugið færist til keflavíkur.

Hvað svo með jákvæðu afleiðingarnar eins og t.d. betri tengingu landsbyggðarfólks við útlönd þegar það getur flogið beint á alþjóðaflugvöll. Það gæti kannski styrkt innanlandsflug á móti ef hægt væri að kaupa pakkann: Akureyri-KEF-London.

En eins og ég sagði, ég sé ekki hvaða miklu áhrif þetta hefur fyrir höfuðborgina. Ég sé fyrst og fremst áhrif fyrir íbúa landsbyggðar (þá sem búa í meira en 2-3 klst akstursfjarlægð frá borginni).

Fimmtudagur 10. febrúar 2005 kl. 14:14

Ja, rekstrargrundvöllurinn hlýtur að vera til staðar, batteríið er allavegana ekki farið á hausinn ennþá, þó þetta sé kannski ekki stórgróðabissness. Verðið er tæpur 6000 kall ef maður nær nettilboði eða borgar með nægilega löngum fyrirvara, annars getur það farið upp í ríflega 10000 kallinn. Ég skal ekki fullyrða hverjir fara reglulega, hugsanlega þeir sem þurfa vegna starfs síns að fara á milli og ég skal ekki fullyrða heldur hvaða áhrif færslan hefur á þá. Ég hef samt ekki mikla trú á því að landsbyggðarfólk taki flutningnum fagnandi vegna tengingu við alþjóðaflugvöll. Ég fer t.d. að jafnaði 0-1 sinni á ári til útlanda, en allt að einu sinni í mánuði til Reykjavíkur. Svo held ég að það muni töluverðu að fæstir fara einir til útlanda heldur fara með fjölskylduna og þá er 24000 kallinn (lágmark) fyrir fjögurra manna fjölskyldu allt of mikið til að komast á völlinn, frekar keyrði maður á hálfum tanki af bensíni suður.

Fimmtudagur 10. febrúar 2005 kl. 14:45

Gott að fá viðbrögð Matti. Takk fyrir það.

Hvað varðar landsbyggðarmenn sem búa nálægt núverandi flugvöllum eru fyrst og fremst þrjú atriði sem skipta máli:

1. Nálægð við Landsspítala Háskólasjúkrahús
Margir þurfa að fara á sjúkrahúsið í viku hverri, t.d. í nýrnavélar. Sumar rannsóknir sem og ekki má gleyma því að sjúkrahúsið er LANDSspítali og þarf að hafa aðgengi að honum auðvelt. Það batnar ekki við brottför flugvallarins.

2. Aðgengi að stofnunum og félögum
Talsvert margir fara á degi hverjum á vegum fyrirtækja og stofnana til funda eða vinnu í Reykjavík stundum hálfan dag eða heilan. Kostnaður eykst ef bætast við 2 tímar við ferðalögin og einnig eykst kostnaður vegna næturgistingar. Að vísu mætti leysa þetta með því að hýsa talsvert af þeirri þjónustu sem er nú í Reykjavík úti á landi og væri það afar fýsilegur kostur hætti innanlandsflug að vera í Reykjavík. Eða að flytja þá þjónustu til Keflavíkur líka til að hægt sé fyrir landsmenn að nálgast hana.

3. Atvinna
Margir fljúga vegna atvinnu sinnar til höfuðborgarinnar og vinna ákveðin verk þar. Þónokkrir þeirra telja að flytjist innanlandsflugið úr höfuðborginni þá þurfi þeir sjálfir að flytja sem þeir kjósa ekki.

Hvað varðar hvort Reykvíkingar fari með flugvél út á land þá er nú þónokkuð af því. Háskólinn á Akureyri er til dæmis með talsvert af háskólakennurum í fastri vinnu sem koma frá Reykjavík. Sem betur fer hafa landsmenn og höfuðborgin gagnkvæm samskipti á ýmsum sviðum.

Hinsvegar er grundvallaratriðið hvort Reykjavík hefur yfirhöfuð áhuga á því þjónustuhlutverki sem felst í að vera höfuðborg - og þar er stóra spurningin!

Kær kveðja
Lára

Fimmtudagur 10. febrúar 2005 kl. 14:55

Mín reynsla af ferðalögum milil Akureyrar og Reykjavík er nokkuð á þessa leið (allar tölur miðast við aðra leið):
Kostnaður:
Flug Ak-Rvk: 6.500kr
Akstur: 3.700k
Tími:
Flug Ak-Rvk: 75 mín
Akstur: 300 mín

Reynsla mín af því að komast á milli Reykjavíkur (101) og Keflavíkur er síðan:
Kostnaður
Fly-Bus: 1100kr + leigubíll frá BSÍ ~900 = 2.000
Leigubíll: 7.000kr (sértilboð)

Tími:
Fly-Bus: 90 mín (m.v. meðalbið) + 20 mín (taxi frá BSÍ)
Leigubíll: 60-70 mín
Endastöðin þarna er alltaf miðbær/vesturbær ekki er gert ráð fyrir kostnaði við að komast að/frá flugvelli á Akureyri og alltaf er m.v. að einstaklingur sé á ferð.

Ef ferðalagið suður til að kíkja á einn fund (sem er oftast í Rvk101) myndi tvöfaldast (að minnsta kosti) myndi það hafa margvísleg áhrif:
1) tími starfsmanna myndi nýtast verr
2) kostnaður fyrirtækja við að senda fólk suður myndi aukast
3) það myndi hækka verð/minnka arðsemi á þjónustu sem væri keypt frá/seld frá landsbyggðinni
4) það myndi leiða til þess að fyrirtæki í Reykjavík myndu ennþá síður leita út fyrir Rvk 101 eftir þjónustu og fyrirtæki myndu enn síður halda úti starfssemi utan Reykjavíkur.

Ég þekki talsvert af fólki á Akureyri sem þarf að fara mjög reglulega (margar ferðir í mánuði) á milli vinnu sinnar vegna og í þessu sennilega 10 skipti sem ég hef farið á milli í flugi síðasta árið (er farinn að keyra meira...) hef ég sjálfur tekið eftir að þetta er tiltölulega fámennur hópur sem er að halda þessari leið uppi.

Lykilatriðið er samt að þessi flugvallarræfill er ekki einkamál þeirra sem búa við hliðina á honum. Annað sem gleymist oft er sjúkraflug. Þar getur skipt miklu máli (líf legið við) hvort sjúklingur kemst inn á hátæknisjúkrahúsið innan 5 mínútna eða 45 mínútna frá lendingu.

Ég sé nú heldur engin haldbær rök í því sem Höfuðborgarsamtökin eru að halda um að flugvöllurinn hafi splundrað byggð á höfuðborgarsvæðinu. Það að byggð þynnist og þenjist út er frekar afleiðing af því að það er þannig sem fólk vill búa. Samkvæmt http://www.reykjavik.is/upload/files/B%FAsetu%F3skir.pdf þar sem fram kemur að rúmlega helmingur vill búa í sérbýli, meirihlutinn er á móti frekar þéttingu byggðar og meirihlutanum finnst byggð of þétt nú þegar.
Held að flugvellinum sé gert of hátt undir höfði með að segja að það sé allt honum að kenna. Þetta er það sem fólk vill og það á að leyfa því það.

Fimmtudagur 10. febrúar 2005 kl. 16:18

... er ekki frekar undarlegt að setja skýrslu sem er merkt rauðum stöfum "TRÚNAÐARMÁL" á vefinn?

Fimmtudagur 10. febrúar 2005 kl. 16:26

Jú, þetta myndi amk ekki vera liðið á mínum vinnustað ;)

Fimmtudagur 10. febrúar 2005 kl. 16:40

Í morgun heyrði ég að flug frá Ísafirði til Reykjavíkur var flutt til Keflavíkur á meðan þokan lá yfir Reykjavík. Það tók fólk FJÓRA TÍMA að komast til Reykjavíkur. Þar af voru þrjú korter í loftinu. Erum við til í það að hafa tímann alltaf svona langan þegar notast á við innanlandsflug? Ekki ég.

Miðvikudagur 23. febrúar 2005 kl. 13:09

Þetta hefur verið skelfingarástand, þó kannski þurfi ekki að gera ráð fyrir 4 tímum þá allavega þremur býst ég við. Ætli menn hætti ekki að fljúga og fari bara að keyra ef menn taka upp á þessari vitleysu!

Miðvikudagur 23. febrúar 2005 kl. 13:18

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.