« Íslenskan og nútíminn | Aðalsíða | 42 »

Fimmtudagur 18. ágúst 2005

Hættulegur ótti

Líflaus líkami ungs manns frá Brasilíu minnir okkur óþyrmilega á að baráttan gegn ósýnilegum óvin getur breyst á augabragði í ömurlegan harmleik fyrir fjölskyldu allt annarsstaðar í heiminum sem ekkert hafði með málið að gera. Hversu margar fjölskyldur búa nú við nístandi sorg vegna baráttunnar við ógnina sem vofir yfir en sést ekki og enginn þeim tengdur tók nokkurn þátt í. Ég mun ekki nokkru sinni verja eða réttlæta baráttuaðferð sem felur í sér að ganga inn í hóp saklausra borgara og svipta þá lífi vegna ágreinings við valdamenn. Á sama tíma get ég ekki varið í huga mér aflífun og misþyrmingar á fólki eða frelsissviptingu án dóms og laga í nafni óvinar sem þetta fólk hefur ekkert með að gera. Framkvæmdin á stríði gegn hryðjuverkum er ekki síður hættuleg en hryðjuverkin sjálf og hvoru tveggja bitnar fyrst og fremst á saklausu fólki. Óttinn hefur fangað fólk til aðgerða sem geta ekki flokkast undir mannúð og árangurinn er ekki sýnilegur og jafnvel má segja að hryðjuverk hafi fremur aukist en hitt.


Óttinn er ein hættulegasta tilfinning mannverunnar sem hvetur hana til viðbragða sem eru í samræmi við óttann en oft á tíðum ekki raunverulegar kringumstæður. Ég tel því afar mikilvægt að menn endurskoði skilgreiningu og framkvæmd á baráttunni gegn hryðjuverkum og horfist í augu við að sú leið sem var valin er ekki að skila árangri.

Sé óttinn hættulegur er ekki síður ógnvænlegt þegar orsakanna er leitað í trúarbrögðum fólks hver svo sem þau eru. Nánast allir stríðsmenn hafa sinn Guð og stundum hafa andstæðingarnir nákvæmlega þann sama og fullvissir um að hann styðji sig meira en hinn. Oft er mismunur trúarbragðanna einungis sá hver túlkar trúna, annaðhvort núna eða fyrir hundruðum ára.

Stöldrum við og skoðum stöðuna, erum við að þróast leið sem við sjáum fyrir eða verðum sátt við þegar að leiðarenda kemur? Vitum við hver sá leiðarendi er?

kl. |Pólitík

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.