« Sameining? | Aðalsíða | Haustar »

Laugardagur 3. september 2005

Ræður BNA ekki við hamfarir?

Afleiðingar fellibylsins Katrínar í Bandaríkjunum eru ægilegar og þær hörmungar sem fólk býr við svo miklar að það er ekki mögulegt að gera sér þær í hugarlund. Þeir eiga alla okkar samúð. Á sama tíma bregður manni illilega við að sjá hversu illa Bandaríkjamenn ráða við afleiðingarnar. Seint er brugðist við, fólk hefst við matarlaust, vatnslaust og án húsaskjóls í miklum hita í marga daga. Þetta mikla herveldi sem heimurinn hefur horft til og trúað að gæti tekist á við nánast hvað sem er þvælist um ráðalaust. Viðtal við bogarstjóra New Orleans Ray Nagin sýnir örvæntingu sína og bræði í útvarpsviðtali sem hefur titilinn "rífið ykkur upp á rassgatinu" (Get off your asses) sem er á CNN. Þetta viðtal snertir mann djúpt, hér er örvæntingarfullur borgarstjóri að hugsa um fólkið sitt og fær ekki aðstoð.


Ég held að eftir Katrínu muni heimurinn ekki horfa á Bandaríkin með sömu augum og áður. Styrkur þessa "heimsveldis" er veikur, ekki næst að bregðast við hörmungum, kaupahéðnar sprengja upp verð á nauðþurftum s.s. olíu af einskærri gróðafíkn. Það er áríðandi að hagfræðingar horfi á þær afleiðingar frjálshyggjunnar sem blasa við Bandaríkjamönnum einmitt núna. Sumir kenna því um að seint sé brugðist við að íbúarnir sem verst urðu úti eru fátækir og þeldökkir. Ef það er satt þá er það hræðilegt.

Síðan má ekki gleyma að ein ástæðan fyrir sífellt öflugri fellibyljum á jörðinni er talin aukin hlýnun jarðar. Reynist það rétt þá er ekki síður alvarlegt þar sem Bandaríkjamenn hafa ekki verið fúsir til að taka höndum saman við lönd heimsins í umhverfismálum.

Til lengri tíma verða afleiðingar Katrínar miklar fyrir Bandaríkin og þá hagfræðilegu leið sem landið hefur verið að fara. Það er allavega ljóst að ekki er leikur einn að treysta því þegar hörmungar dynja yfir að fjármagn fáist til að aðstoða þurfandi. Frjálshyggjan annast betur um auð sinn en mannverur, blindir af dollaramerkjum í augunum.

kl. |Pólitík

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.