« Prófkjör í Samfylkingunni | Aðalsíða | Einelti á Netinu »

Sunnudagur 30. október 2005

Papalangi

Ég glugga stundum í bókina Papalangi (Hvíti maðurinn) sem er skrifuð af Eric Scheurmann eftir ræðum Tuiaviis höfðingja frá bænum Tiavea sem er á Upolu eyju í Samoa eyjaklasanum. Í morgun las ég kaflann "Um málmskífur og þungpappír" þar sem Tuivaiis er að útskýra peninganotkun Evrópumanna fyrir sínu fólki. Hann kallar peningana Guð hins hvíta manns . Hugsanir svo ólíkar því sem maður þekkir hafa þann góða eiginleika að rífa hugann upp úr hefðbundnum farvegi og fá mann til að líta yfir eigin þekkingu sem e.t.v. hafði verið ómeðvitaður þáttur hugsunar, viðmið án gagnrýni og endurskoðunar. Lítill kafli í lítilli bók getur fengið mann til að hugsa og ég mun að öllum líkindum velta fyrir mér hlutverki peninga í nokkra daga.


Það fer auðvitað eftir skilgreiningu hvers manns á Guði hvort hægt er að fallast á skilgreiningu Tuiaviis en engum dylst að viðmið eru nú flest í verðmætum sem skilgreind eru með peningum. Út frá peningum sem greidd eru fyrir handverk okkar eru gæði þeirra metin. Út frá því gæti mannveran ályktað sem svo að gæði kvenna séu minni en karla, gæði þess sem gætir barns rýrara en þess er gætir peninga. Spurningin er hvort þarf meiri vinnu við að gæta peninga en barns, meiri hugsunar, meira afls, meiri gáfna. Er eina verðmætamatið fólgið í peningum?

"Peningar eru kærleikur hans og átrúnaðargoð. Allir hvítir menn hugsa um peninga, líka þegar þeir sofa." segir Tuiaviis. Gerum við það? Eru peningar svo samofnir menningu okkar, lífi og athöfnum að þeir eru hinn fasti grunnur hugsunar? Getum við sagt að vegna hugsunarinnar um peninga, gróðans sem fæst fyrir land t.d. í Vatnsmýrinni geri það að verkum að menn hirða ekki um aðgengi landsbyggðarmannsins að sjúkrahúsi? Eru landsbyggðarmenn verðminni menn en höfuðborgarmenn af því þeir eiga minni peninga? Felst í því mat á færni og gáfum - að ef þú býrð annarsstaðar en þar sem margir búa - verulega margir, með stærsta hluta auðsins í landinu - þá sért þú minni maður?

Eitt sinn var ég að halda fyrirlestur um hagnýtingu upplýsingatækni í námi og skólastarfi fyrir hóp af sænskum skólamönnum. Ein kona í hópnum spurði mig "Hvernig stendur á því að þið í svo litlu fámennu landi gerið svo mikið?" án þess að hugsa svaraði ég "Við erum kannski í litlu landi en við erum ekki lítið fólk". Sá er býr á Raufarhöfn getur aldrei orðið minni maður en sá er býr í Grafarvogi. Hefur hugsun okkar ruglast í þessu samhengi? Er sá verðmeiri er býr í Grafarvoginum af því fyrir hús hans fást meiri peningar og hann fær meira fyrir vinnu sína en Raufarhafnarbúinn?

Fer skilgreiningin á reisn mannsins eftir þeim auð sem hann virðist eiga? Skiptir minna máli hvað sá hugsar sem á litla peninga en sá er á mikla?

Sem jafnaðarmaður hlýtur að vera nauðsynlegt að hugsa um jöfnuð og verðmætamat mannveru. Ég er upptekin af því núna og því eru allar hugsanir sem vilja fara í þennan pott mikils metnar;-)

kl. |Pólitík

Álit (3)

Akkurru er Raufarhöfn alltaf tekin sem dæmi um útnára? Akkurru má ekki nota Trékyllisvík í svoleiðis dæmum? Akkurru?

Sunnudagur 30. október 2005 kl. 15:33

Trékyllisvík er mér ekki í eins fersku minni og Raufarhöfn. En útnári, tja, er ekki Ísland Raufarhöfn Ameríku og Bolungarvík Raufarhöfn Evrópu?

Sunnudagur 30. október 2005 kl. 19:45

Gott innlegg sys, græðgi og efnisdýrkun lemur á manni meira með hverju árinu ásamt því vantrausti sem því virðist fylgja. Set "Papalangi" á jólagjafalistann hér með.

Miðvikudagur 2. nóvember 2005 kl. 23:31

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.