« Hafa konur ekkert að segja? | Aðalsíða | Podcasting »

Fimmtudagur 15. desember 2005

Fjármunir teknir frá landsbyggðinni

Í grein sem birtist á vef iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins um þróun húsnæðisverðs í landinu má finna eftirfarandi "Ráðstöfun opinberra fjármuna vegna rekstrar opinberra stofnana virðist meiri á höfuðborgarsvæðinu en tekjuöflun opinberra aðila á svæðinu gefur tilefni til. Með slíkum tilfærslum á fjármunum á milli svæða landsins, frá landsbyggð til höfuðborgar, má færa fyrir því rök að slíkt styrki svæðisbundinn hagvöxt á höfuðborgarsvæðinu en dragi úr honum á landsbyggðinni." Hér er sumsé staðfest einu sinni enn að fjármunir eru fluttir frá landsbyggðinni í opinberan rekstur á höfuðborgarsvæðinu. Smá saman er verið að láta landsbyggðinni blæða út og þétting byggðar í kringum höfuðborgina meiri á Íslandi en þekkist í heiminum.


Spurningin sem hinsvegar brennur á okkur landsbyggðarmönnum er sú hvort ekki sé eðlilegt að opinber rekstur sé efldur úti á landi? Með tækni og atvinnuháttum nútímans er tiltölulega einfalt að reka fyrirtæki hvar sem er á landinu. Sífellt verður fátíðara að menn þurfi að fara á staðinn til að reka sín erindi og því einfaldara að veita góða þjónustu frá ýmsum stöðum á landinu en nokkru sinni fyrr. Því er sú afturhaldssemi sem felst í því að setja opinberar stofnanir í og við Reykjavík óskiljanleg.

Þegar heimurinn er smá saman að breytast í alþjóðasamfélag verður Ísland að kunna að vinna yfir fjarlægðir. Þegar þær eru milli landa á erlendum tungumálum er eðlilegt að nokkuð reyni á. En innanlands á eigin tungu ætti að vera mönnum einfalt og lipurt ef þeir hafa yfir höfuð tamið sér nútíma starfshætti.

kl. |Pólitík

Álit (6)

Í textanum sem þú vitnar í stendur skýrum stöfum: "virðist", samt segir þú að þarna sé eitthvað "staðfest". Það þykir mér ekki passa.

"Því er sú afturhaldssemi sem felst í því að setja opinberar stofnanir í og við Reykjavík óskiljanleg. "

Í og við Reykjavík búa um 3/4 þjóðarinnar. Hvað er svona óskiljanlegt?

En vissulega er það rétt að auka á fjarvinnu og ekkert því til fyrirstöðu að leysa mál úti á landi í dag.

Í því ljósi er náttúrulega fáránlegt að fólk skuli alltaf einblína á flugvöll í miðju 101 Reykjavík, því hann sé svo nauðsynlegur fyrir fólk utan af landi sem þarf að sækja stofnanir ríkisins heim.

Hvort er það? Hvort er nauðsynlegt að fólk geti gengið inn í opinberar stofnanir eða er það kannski alls ekki nauðsynlegt á tímum nútíma fjarskipta og tækni?

Fimmtudagur 15. desember 2005 kl. 10:36

Ég leyfi mér að segja staðfest þó þeim "virðist" það vera því þetta er bara enn ein ábendingin um þetta mál. En ætli maður að vera hávísindalegur þá myndi maður auðvitað vísa í fleiri greinar.

Ég er alveg sammála þér að það mætti temja sér nútímavinnubrögð og spara fólki sporin að þurfa að mæta í eigin persónu í alskyns opinbera stjórnsýslu. Einnig mættu menn fara bara sjálfir út á land til slíkra funda í ríkari mæli.

Það er margt sem snertir staðsetningu flugvallar og vísitering í stofnanir er bara einn þáttur. Það sem truflar fólk helst er aðgengi að s.k. hátæknisjúkrahúsi, atvinna og fleira. En það er svosem ekkert einfalt að ræða það við fólk sem er blindað af því hvað það græði mikinn pening á landinu í Vatnsmýrinni. Ég held að þarna þurfi menn að ræða sig að niðurstöðu. Ein leið væri að byggja ekki stórt hátæknisjúkrahús í því úthverfi Reykjavíkur sem Landsspítali Háskólasjúkrahús er. Vel mætti byggja upp sjúkrahúsin úti á landi þannig að ekki sé eins brýnt að menn komist á þetta ákveðna sjúkrahús. Enda verður það afar innilokað af umferð og því takmarkast notagildið sérstaklega ef eitthvað stærra gerist. Þá skiptir einu hvort atburðir eru á Austurlandi eða á Kjalarnesi að sjúkrahúsinu er ekki auðvelt að komast.

Höfuðborgin getur ekki verið svo sjálfmiðuð að hún gleymi hlutverki sínu. Því þarf að finna niðurstöðu sem allir sætta sig við. Hinsvegar er ekkert athugavert við það ef hún ákveður að vera ekki lengur höfuðborg með því þjónustuhlutverki sem því fylgir.

Fimmtudagur 15. desember 2005 kl. 11:04

"Hinsvegar er ekkert athugavert við það ef hún ákveður að vera ekki lengur höfuðborg með því þjónustuhlutverki sem því fylgir."

En felst það ekki í því að hún hætti að vera höfuðborg ef farið er að óskum þínum og stofnanir eru fluttar út á land?

Hvort á það að vera?

Fimmtudagur 15. desember 2005 kl. 11:24

Ef um er að ræða öll störf í öllum stofnunum (sem er heill hellingur) þá er það alveg laukrétt hjá þér. Ég var nú ekki svo bjartsýn að það væri einusinni upp á borðinu. Enda láta ráðherrar gjarnan taka myndir af sér hér fyrir norðan þegar þeir "opna" eitt nýtt starf, jafnvel þó það sé bara hálft. Engin mynd er tekin þegar starfið flyst í burtu eða er lagt niður. Svo er hægt að "flytja" aftur eitt til tvö ný störf og taka aftur mynd. Svo ég viðurkenni einfeldni mína ég hafði ekki hugmyndaflug í að allt yrði flutt út á land en þá er höfuðborgin ekki lengur höfuðborg;-) En það er heldur engin höfuðborg sem ekki nennir að tala við nema sjálfa sig.

Fimmtudagur 15. desember 2005 kl. 16:04

Hver er að tala um öll störf í öllum stofnunum og að allt yrði flutt út á land?

Það er náttúrulega auðveldara að "rökræða" við fólk ef maður snýr út úr því sem það segir.

Föstudagur 16. desember 2005 kl. 14:27

Ég ætlaði alls ekki að snúa út úr, ég hélt þú meintir það. Fyrirgefðu þetta.

Þá skil ég ekki hvað þú varst að tala um þegar þú sagðir: "En felst það ekki í því að hún hætti að vera höfuðborg ef farið er að óskum þínum og stofnanir eru fluttar út á land?"

Má ekki deila þessu eitthvað á landið þó meginþunginn sé e.t.v. í Reykjavík?

Föstudagur 16. desember 2005 kl. 17:50

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.