« Fjármunir teknir frá landsbyggðinni | Aðalsíða | Nýr diskur: Tilveran »

Föstudagur 16. desember 2005

Podcasting

Ég finn ekki orðið "podcasting" á íslensku. Getur einhver hjálpað mér með það? Podcasting er samkvæmt Wikipedia hugtak yfir það að nýta mismunandi tækni til að dreifa hljóði eða hreyfimynd á Internetinu. Það er ólíkt öðrum dreifimáta gagna af þessari gerð þar sem gögnin fara sjálfkrafa á tölvu notandans. Podcasting gerir sjálfstæðum framleiðendum möguleikann á að birta efni, útvarpa hljóði eða mynd á nýjan hátt. Áskrifendur gera safnað ýmsum þáttum til að hlusta eða horfa á þegar það hentar. Podcasting er ólíkt hefðbundnu hljóð- eða sjónvarpi (sem bera samheitið útvarp) sem varpa út einungis frá einni uppsprettu hverju sinni (T.d. Rás 2 eða Stöð 2) og á ákveðnum tíma skilgreindum af þeim sem sendir út. "Straumur" (streaming) gagna frá Netinu rýfur tímamúrinn en er þó enn afmarkað frá einni uppsprettu. S.k. "Aggregating" forrit sem safna gögnum frá ýmsum stöðum er einmitt stór þáttur í vinsældum þeirra sem hlusta á "podcasting". Uppspretta nafnsins iPod er einmitt sama pod og í podcasting.


Orðið "podcasting" hefur verið valið orð ársins af New Oxford American Dictionary en ég finn orðið ekki í Orðabanka Íslenskrar málstöðvar og er þá spurning hvort þetta vinsæla orð sé ekki til á íslensku. Ég hef leikið mér að orðum eins og "margvörpun" þ.e. varpað oft, "fjölvörpun" fjöldi tækifæra til útvörpunar en er nú ekkert sátt við það.

Margir eru að nota þessa tækni á mismunandi hátt s.s. Hexia sem m.a. býður upp á alskyns vefdagbækur sem hægt er að senda á efni úr farsímum þ.e. hljóði, myndum og hreyfimyndum. Hexia hefur nýverið smíðað Real community fyrir Real og gert margt fleira sniðugt.

Salvör Gissurardóttir er sá Íslendingur sem hefur líklega pælt einna mest í Podcasting og skrifar um það m.a. hér en Salvör er líklega nútímalegasti Framsóknarmaður sem ég þekki;-)

En er nú ekki alveg nauðsynlegt að svo frægt orð sem "podcasting" eigi sér íslenska orðskýringu?

kl. |UT / Um blogg

Álit (13)

"Netvörpun" er það heillin!

Föstudagur 16. desember 2005 kl. 10:20

Ég verð nú að viðurkenna að mér finnst netvörpun arfaslæmt orð yfir þetta.
Er það ekki nær merkingunni sem er í enska orðinu broadcast? Samkvæmt tölvuorðabók er reyndar broadcast víðvarp.
Netvarp þá sem hliðstæða við útvarp? Hætta þá ljósvakamiðlar að vera útvarp ef maður hlustar á þá stream-aða?

Föstudagur 16. desember 2005 kl. 11:11

Ég lít á útvarp sem yfirheiti og undirheiti eru síðan hljóðvarp og sjónvarp. Mér finnst "streaming" vera netvarp og gæti þá líka verið undirheiti undir útvarp en vantar hvað "podcast" ætti þá að vera.

Reyndar vissi ég ekki að útvarp væri yfirheiti fyrr en ég fór að lesa lagatexta um málið;-) En það er ágætt yfirheiti.

Föstudagur 16. desember 2005 kl. 11:20

Ég hef velt fyrirbærinu "podcasting" mikið fyrir mér og finnst grundvallar munur á því og miðlun eins og útvarpi eða sjónvarpi. Munurinn er kannski helst sá, að það er í raun ekki verið að "varpa" einu né neinu, ef þannig má að orði komast. Í það minnsta ekki í sama skilningi og þegar um hefðubundna dreifingu á sjón- eða útvarpi er að ræða. Um er að ræða skrár sem eru hýstar á ákveðnum stað og hver sem áhuga á því hefur, getur sótt eða gerst áskrifandi að í gegnum þar til gerðan hugbúnað. Ég vil því leggja til orðið "spilverk" í þessu sambandi.

kv.
S.Fjalar

Föstudagur 16. desember 2005 kl. 22:31

Sting upp á "koddakast" ... með hliðsjón af "dvergakast", auk þess sem koddakast er tvöföld aðalhending við podcasting, nánast venjulegt rím.

Laugardagur 17. desember 2005 kl. 12:13

Þegar þýða á erlent orð eru til tvær leiðir. Finna ljóst kjarnyrt heiti sem fellur að tungu og hefur jafnvel eldri merkingu, eða hljóðþýða s.s. jeppi og fellur að ísl. beygingarreglum. Ef hljóðþýðingin er valin þá er tillaga Hörpu nokkuð góð. Einnig mætti nota íslenska orðið "pot" í samsettum myndum: Netpot-vefpot-fjölpot-myndpot- ljóspot. Ef það hentar ekki þá skal farið í þýðingu s.s. skotvarp, innvarp, (sbr. útvarp, skjávarp.)
Ég hallast að hljóðþýðingu.
GisliB

Laugardagur 17. desember 2005 kl. 19:53

Já hljóðþýðing gæti verið góð Gísli og þú kemur með nokkrar harla góðar hugmyndir. Koddakastið hennar Hörpu er auðvitað ferlega fyndið en segir kannski ekkert. Mér finnst fjölpot skemmtielgast og mest lýsandi þ.e. maður potar fjölmörgu efni á einn stað og potar því í aðra hingað og þangað um heiminn hvenær sem er;-)

Mánudagur 19. desember 2005 kl. 00:16

Salvör tók saman umræður um íslenskun á podcasting ( http://odeo.com/audio/532338/view ). Fjölpot sem yfirheiti hljómar enn best á mig og þá er hægt að tala um hljóðpot, myndpot, kvikmyndapot o.s.frv. Mér sýnist það vera nýtilegt í þessu samhengi. Betra en margpot og síðan undirheitin. Hvað finnst ykkur?

Mánudagur 19. desember 2005 kl. 09:27

Mér finnst orðið fjölpot hljóma eins og pent orð yfir hópkynlíf, já, svona er ég sem sagt innréttuð!

Í mínum vinahóp hefur orðið pot alla vega stundum verið notað yfir kynlíf.

Netvarp er skiljanlegra í mínum eyrum. :)

Mánudagur 19. desember 2005 kl. 17:41

Noh manni er ekki lengur tamt blautlegt orðræði þetta hlýtur að vera aldurinn. Enda finnst mér dálítið liðleskjulegt að nota pot í þessu samhengi. Annars veit ég um fólk sem ekki getur sungið "Hafið bláa hafið" af því það sé svo einstaklega dónalegt. Fullt af orðum hefur tvíræða merkingu önnur merkingin harla saklaus og nýtt kurteislega af vammlausasta fólki. Ég held við lifum eitt slíkt orð í viðbót og er því bara hæstánægð með fjölpot;-)

Þriðjudagur 20. desember 2005 kl. 09:45

Tja, Mogginn hefur verið að vinna í því að finna íslenskt heiti yfir iPod og skyld tæki. Ein tilraunin var "Tónhlaða". PodCast væri því Hlaðvarpi.

Þriðjudagur 20. desember 2005 kl. 22:54

Ég verð nú að viðurkenna að þetta er nú með því albesta sem einhverjum dettur í hug. Hlaðvarpi, frábært því það er ekkert verið að nota það svo mjög og svo mega orð gjarnan hafa tvöfalda merkingu.

Miðvikudagur 21. desember 2005 kl. 21:17

Hlaðvarpi langbesta lausnin. Jónas hefði verið fullsæmdur af henni.

Laugardagur 24. desember 2005 kl. 16:39

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.