« Frábær ljósmyndaferð | Aðalsíða | Mæting á bæjarstjórnarfundi »

Sunnudagur 22. janúar 2006

Fjórða sæti sigur???

Ég á ekki til orð, fjórða sæti í prófkjöri er orðið sigursæti fyrir konu. Allavega hjá Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi en nýverið var prófkjör í Garðabæ og þar lenti efsta konan í fimmta sæti og það var mikið afhroð. Svo nú er skilgreiningin sú að sigursæti kvenna er að lenda í fjórða sæti. Þar þarf ekki að taka mikið tillit til þeirra en ef Sjálfstæðismenn í bænum ná aftur fimm mönnum í bæjarstjórn fá þær að fara með en greinilegt að það þarf ekki að gefa þeim neitt veigamikið hlutverk. Synd og skömm hvernig Sjálfstæðismenn fara alltaf með sínar konur.

kl. |Pólitík

Álit (16)

JBJ:

Við getum nú líka skoðað tölurnar

1. sæti
1 karlmaður bauð sig fram, hlaut kosningu

2. sæti
1 kona og 3 karlmenn buðu sig fram, karlmaður hlaut kosningu, líkurnar á konu 1/4, uppsafnaðar líkur 1/5.

3. sæti
2 konur og 1 karlmaður buðu sig fram, konurnar fengu flest atkvæði allra í þessi sæti en duttu niður sökum þess að karlmaður sem barðist um 2. sæti tapaði því en uppsöfnuð atkvæði hans dugðu til að ná 3.ja
Líkur á konu 2/3, uppsafnaðar líkur 3/8

4. sæti
2 konur og 1 karlmaður buðu sig fram í þetta sæti, líkurnar á konu 2/3, uppsafnaðar líkur vegna efri sæta 5/11

Hvað reiknikúnstir í Garðabæ varðar þá kusu 71% þáttakenda í þeirri kosningu konu í 2. sæti, sem bendir ekki til höfnunar. Hins vegar voru þær 3 um hituna og tapaði efsta konan því sæti með 100 atkvæðum fyrir þeim karlmanni sem tapaði baráttunni um 1. sætið.

Auðvitað skipta tölur samt minna máli þegar hneykslunartónn er brúkaður ;)

Sunnudagur 22. janúar 2006 kl. 23:32

Jon Ingi:

Rétt hjá þér...ég var eimitt að hugsa það sama í gær. Stórsigur kvenna í Kópavogi ..þrír karlar í efstu sætum. Slíkt er ekki til í hugsun í Samfylkingu t.d. Það þættu slæm vinnubrögð að bjóða upp á slíkt. Stofnanir bæjarins hér á Akureyri sendu meira segja flokkum tilmæli um að gæta jafnréttis. Sjöllum finnst það óþarfi. Nú er að sjá hvað gerist hér...það eru blikur á lofti og Sjallar skíthræddir við skandal hjá sér. Flestar konurnar sem voru í bæjarstjórn og nefndum fyrir þá á þessu kjörtímabili ætla að hætta sem segir ákveðna sögu af jafnréttinu hjá Kristjáni Þór og co....það er frægar karlrembur sem hafa þar verið í forsvari svo ég nefni engin nöfn :-)

Mánudagur 23. janúar 2006 kl. 09:18

Viddi:

Svona er lýðræðið, það fer ekki alltaf eins og maður hefði viljað sjálfur. Hafi ég einhversstaðar séð skandal í prófkjöri var það hjá Samfylkingunni í NA-kjördæmi þegar Sigbjörn sigurvegari var settur út í kuldann með bolabrögðum. SF hér fyrir norðan líður enn fyrir þann gjörning. Gæta þess að kasta ekki steini úr glerhúsi.

Mánudagur 23. janúar 2006 kl. 11:40

Jón Ingi:

Sigbjörn sagði sig sjálfur að listanum vegna persónulegar ástæðan. Lestu Moggann frá því í janúar 1999. Ekki éta upp rangfærsurnar sem við sjáum þessa dagana frá honum

Mánudagur 23. janúar 2006 kl. 11:48

Viddi:

Ég þarf ekki að lesa eitt né neitt þessa dagana. Ég studdi Bjössa með ráðum og dáð á þeim tíma þegar hann var í prófkjörinu og man vel þá tíma. Ég var í miklu persónulegu sambandi við hann og fleiri úr SF og veit því alveg hvernig atburðarásin var. Það er alveg sjálfssagt að rifja það upp fyrir þér Jón Ingi ef þig brestur minni til en ég ætla ekki að gera Láru þann óleik að gera það á hennar síðu. Tók góða rimmu við Halla Ingóllfs á þeim tíma og þau orð sem féllu eru ekki prenthæf.

Mánudagur 23. janúar 2006 kl. 12:00

Jon Ingi:

Lestu...gerðu sumum ekki þann óleik að fara að rifja það upp. Mér var ókunnugt um annað en hann ákvað að segja sig af listanum af persónulegum ástæðum. Þær þekki ég ekki en gæti verið að aðrir geri það ?

Mánudagur 23. janúar 2006 kl. 12:26

Viddi:

Þú kannast náttúrulega ekkert við aðförina sem gerð var að manninum sem varð til þess að hann sagði sig frá Samfylkingunni. Lélegt. Talaðu við Hallgrím Ingólfs, Svanfríði, Sigrúnu Stefáns, Örlyg Hnefil. Ef þú hugsar rökrétt ættir þú að muna að SF beið afhroð í kosningum þetta árið vegna þessara hluta og illu heilli varð þetta til þess að VG komst á kortið í íslenskri pólitík. Náði tveimur mönnim í NA-kjördæmi en SF einum.

Mánudagur 23. janúar 2006 kl. 12:40

Jón Ingi:

Þetta er skemmtileg einföldun á orsök og afleiðingu en ræði það ekki frekar

Mánudagur 23. janúar 2006 kl. 12:49

Noh eru menn lagstir í þessa umræðu. Var ekki þátttakandi í flokksstarfi á þessum tíma og get því ekki metið hvað gerðist. Ég hef heyrt nokkrar frásagnir og veit að menn sjá "sannleikann" frá ólíkum sjónarhornum.

Þið megið svosem alveg þrátta um þetta hérna á síðunni minni undir umræðu um prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi. En er líklegt að menn komist að niðurstöðu um þetta mál núna þegar þeir hafa ekki gert það á þeim árum sem liðin eru frá því að þetta gerðist?

Sigbjörn hefur fundið sig hjá Sjálfstæðisflokknum og verður áreiðanlega duglegur í prófkjöri hjá þeim. Er nokkur ástæða til annars en óska honum bara góðs gengis í þeirri baráttu?

Mánudagur 23. janúar 2006 kl. 14:30

JBJ þetta er tölfræðiútúrsnúningur á niðurstöðu prófkjörsins. Það er ekki síður ömurleg staða að svo fáar konur bjóða sig fram til forystu fyrir Sjálfstæðisflokkinn og virkilegt umhugsunarefni.

Kosning í prófkjöri er ekki líkindareikningur eins og þú setur upp, það koma ekki allir með sama líkindastuðul að hverju sæti þannig að fjórðungslíkur eða fimmtungslíkur uppsafnaðar er ekki útreikningur sem gengur upp. Spurningin til flokksmanna er sú í prófkjöri hvort þeir vilji kjósa konur eða ekki á þann hátt að þær nái árangri. Svar þeirra er afdráttarlaust - setjum konurnar neðarlega.

Það var ekki líklega þannig, það var bara nákvæmlega þannig og staðan er ljós.

Með þessari tölfræði má reikna út að líkur stjórnmálamanna séu jafnar og ekkert hafi áhrif á kjör þeirra annað en hending ein. Á meðan kjósendur kjósa ekki handahófskennt og blint er ekki hægt að nota þennan útreikning.

Mánudagur 23. janúar 2006 kl. 14:34

Kjósendur pæla ekki í tölfræði. Það væri auðvitað hægt í 5000 orðum að spá í valhegðan kjósenda. Ljóst er að a.m.k. 20% ákveða sig í kjörklefa. Þá er eins gott að hafa "lúkkið" gott. Útlit listans í Kópavogi og Garðabæ er ekki sölulegt svo notuð séu orð Jóns Guðmundssonar, fasteignasala og formanns kjörnefndar Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ.
GísliB

Mánudagur 23. janúar 2006 kl. 15:51

JBJ:

Tölfræðiútúrsnúningur?

Nei nei nei, þegar 71% kjósenda setja konu í 2. sætið í Garðabæ, þá er ekki hægt að segja "Konum hafnað!". Þeir sem segja "konum hafnað" eru þá að hunsa tölurnar, staðreyndirnar.

Nú ef menn vilja ekki staðreyndir, sem eru að konum var ekki hafnað í Garðabæ og fengu góða kosningu í Kópavogi, einkum miðað við í hvaða sæti þær buðu sig fram, þá er fátt eftir nema að hrista hausinn og ganga í burtu frá fólki sem dæmir staðreyndir sem tölfræðiútúrsnúninga.

Ísland er eyja, nei, það er tölfræðiútúrsnúningur á hæð sjávar...

Tölurnar getið þið séð á www.gardar.is og www.xdkop.is, þar getið þið sannreynt þessa tölfræði, þessar staðreyndir.

Mánudagur 23. janúar 2006 kl. 16:05

JBJ:

Annars verður nú að svara hinum punktinum. "að koma ekki allir með sama líkindastuðul að hverju sæti þannig að fjórðungslíkur eða fimmtungslíkur uppsafnaðar er ekki útreikningur sem gengur upp."
Þetta er einmitt málið með kosningar, það er verið að kjósa einstaklinga en ekki kyn.

Næst er kannski hægt að kjósa um fyrst frambjóðendur, og svo röðun lista... "kona, karl, karl, kona, karl, kona?".

Þetta er skopleg umræða að lýsa yfir ósigri eins kynsins fram yfir annað. Konurnar sjálfar tóku ákvarðanir um að bjóða sig fram í þessi sæti.

Mánudagur 23. janúar 2006 kl. 16:10

Ég er einmitt búin að lesa tölfræðina og hvernig menn réttlæta stöðuna. Nokkuð sniðug aðferð en breytir engu um niðurstöðuna. Konum er pakkað í einn pakka og þær merktar "konur" og síðan summerað upp á þær allar og allt verður ógurlega kynjafallegt fyrir Sjálfstæðismenn en kyndugt fyrir aðra.

Gott hinsvegar að sjá kæri JBJ að þú samþykkir sjálfur að líkindareikningurinn gengur ekki upp hjá þér.

Þessi margtuggna lumma um að það sé verið að kjósa einstaklinga en ekki kyn er einmitt málið enginn einstaklingur sem er kona hlaut kosningu fyrr en í fjórða sætið. Þannig meta Kópavogsbúar einstakling sem er kona.

Ég held hinsvegar að vandinn sé fyrst og fremst sá að Sjálfstæðismenn kunni ekki að kjósa konur. Eru fastir í gamaldags hugsunarhætti að konum skuli ekki treyst ofarlega á lista.

Mánudagur 23. janúar 2006 kl. 21:23

JBJ:

Hmmm, í 2. sæti í Garðabæ hlutu konur 71% atkvæða. Það hljómar eins og þeir hafi kunnað að kjósa konur. Vandinn var bara sá að það skiptist mjög jafnt milli þriggja kvenna sem lögðu í slaginn sem einstaklingar og kepptu við hvor aðra.

Í Kópavogi fengu konurnar svo 67% atkvæða í 3. sæti. Aftur kom upp sú staða að atkvæðin skiptust milli margra kvenna þar. Þær fengu svo 72% atkvæða í 4. sæti, 67,9% í 5. sæti, 61,9% í 6. sæti og 60,7% í 7. sæti. Það voru bara efstu tvö sætin þar sem konur fengu ekki meirihluta atkvæða, af þeim var efsta sætið formsatriði fyrir oddvitann sem þýðir að eina sætið sem konur fengu færri atkvæði en karlar í var 2. sætið.

Þetta verður merkilegt námskeið, það ætti í rauninni að lagfæra þetta kynjahlutfall sem hallar greinilega á karlmenn! Ekki man ég annars eftir að hafa sagt að líkindareikningurinn væri gallaður, það er víst svo að það er auðveldara að lesa það sem maður vill en það sem stendur.

Mánudagur 23. janúar 2006 kl. 22:56

Heh já kannski var ég pínu hrekkjótt. Ég veit að konur fengu atkvæði þ.e. summa kvenna fékk tiltölulega mörg atkvæði. En niðurstaða er sú sama, konur eru ekki í efstu þremur sætunum og það er fyrir mér hreint enginn sigur. Svona eins og fótboltaleikur annað liðið stóð sig miklu betur en hitt vann. Það sem vann fékk stigin hvort sem taparinn lék vel, var flottur eða hvað það nú er.

Því finnst mér út úr kortinu að tala um sigur kvenna að ná fjórða sæti. Það er að vísu skemmtilegur pólitískur útúrsnúningur en ekki sigur hvað svo sem hver segir og hvaða tölfræði sem er beitt. Það má svosem barma sér undan reglum prófkjörsins eins og fótboltamenn barma sér undan óréttlátum dómurum, slösuðum leikmönnum eða skýringum sem breyta ekki niðurstöðunni.

Mánudagur 23. janúar 2006 kl. 23:28

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.