« Lífið er svo skemmtilegt | Aðalsíða | Hænur og hanar »

Laugardagur 25. febrúar 2006

Farvel fúla vitleysa

Hímandi út í horni gefst þriðji menntamálaráðherrann loks upp undan þeirri hringavitleysu sem samræmd próf í framhaldsskólum svo sannarlega eru. Fyrir utan að samræmd próf á Íslandi geisla ekki beinlínis af réttmæti og áreiðanleika (þeim gullnu hugtökum samræmdra prófa) þá eru þau frekar lélegar mælistikur á skólastarf. Þau réttlæta allavega ekki allt það írafár og kostnað sem af þeim skapast. Eina gagnið sem ég sé af þeim er að ungt fólk sem lifir sældarlífi hefur gott af hæfilegum terror og tilfinningarúllettum. Fyrir annað ungt fólk eru þau gagnslaus. Sem ætti nú að benda mönnum á að vera ekki með þessa hrúgu af samræmdum prófum í grunnskólum. Samræmd próf eyðileggja skólastarf að mínu mati og menntun manna. Mæli frekar með því að nemendur keppi í skák en utanbókarlærdómi á ýmsum sviðum. Síðan er hægt að hampa skólanum sem á flesta skákmeistara. Eða keppa í frímerkjasöfnun, smásagnakeppni, uppfinningum, söng eða hverju því sem þau vilja yfir höfuð keppa í.


Samræmd próf eru léleg mælistika á skólastarf af því þau eru hreint ekkert að mæla skólastarf og voru aldrei til þess ætluð. Ekki virðist nokkur leið að koma mönnum í skilning um það. Samræmd próf mæla hvað nemendur kunna í því sem spurt er um, oftast utanbókar - stundum skilning, kannski mæla þau einhverja hæfileika en spurning hvort það er hæfileiki kennarans að kenna nemandanum að taka samræmt próf og stjórnunarhæfileiki hans við að koma blessuðu ungviðinu að stautinu.

Besta dæmið um heimsku gagnvart samræmdum prófum þegar einhver blaðamaður dró þá ályktun að lakari meðaleinkunn á samræmdu prófi í íslensku en ensku bæri vott um að íslensk ungmenni kynnu minna í íslensku en ensku. Hverjum í ósköpunum datt í hug að það væri sama prófið lagt fyrir í ensku og íslensku? Því fer fjarri og því eru tölurnar algerlega ósamanburðarhæfar. Hvað þá að þessar tölur segi eitthvað - bara eitthvað - um skólastarfið - því fer fjarri.

Ég man ekki eftir því að dúxar hafi alla jafna afkastað einhverju því svo sérstöku í lífinu að þeim beri að hampa verulega eða sækjast eftir dúxum. Venjulega er þetta þokkalega greint fólk sem hefur gríðarlegan sjálfsaga og vinnuaga og beitir honum á námsbækurnar. Aðrir beita sig þessum aga til að ná árangri í íþróttum, aðrir í listgreinum, sumir til að skandalisera og enn aðrir hafa engan aga á sjálfan sig.

Það er kominn tími til að ríkjandi menntamálaráðherra slái á þau klístrugu fingraför Björns Bjarnasonar fyrrverandi menntamálaráðherra á endalaust mat og eftirlit í íslensku skólakerfi. Eina afleiðingin er gap á milli stjórnvalda, kennara og nemenda. Kennarar eru þeirri blessunarlegu gáfu gæddir að láta ekki teyma sig hvert sem er. Ekki svo að skilja að þeir viðurkenni það alltaf. En þegar hurðin á kennslustofunni lokar eru þeir konungar og drottningar í ríki þeirrar fræðigreinar sem þeir bera ábyrgð á. Flestir eru brennandi af áhuga á því efni sem þeir hafa helgað sér hvort heldur það er jarðfræði, tölvunarfræði, danska eða móðurmál.

Utanbókarstagl var kannski einhverntíman gagnlegt þegar menn komust ekki á auðveldan hátt í upplýsingar og þurftu að muna allt merkilegt. Í dag er það frekar tímaeyðsla en nokkuð annað. Menn þurfa að læra að læra, æfa sig í að gera eitthvað við upplýsingar sem flæða um allt og ná að beita sig aga til framkvæmda.

Eitt sinn sagði við mig nemandi - segðu mér hvað ég á að gera og ég skal gera það vel. Góðu nemendurnir eru nefninlega oft hlýðið fólk og vinnusamt og gerir það sem þeim er sagt og það vel. En vandinn er að í dag eru vélar notaðar í flest slík verk, við þurfum fólk sem hugsar, finnur tækifæri, hefur áræði og hæfilega ímyndun til að sjá fyrir sér hvernig hlutirnir geta orðið. Eða hver getur teiknað hús sem ekki getur ímyndað sér hvernig það ætti að líta út? Eða samið lag ef hann getur ekki séð það fyrir sér í einhverri mynd?

Út með þetta óttalega stagl og gamaldags dót og förum að mennta ungmenni fyrir þó ekki sé nema nútímann hvað þá einhverja þá framtíð þar sem þau ætla að lifa sínu lífi sem menntaðir menn.

Svo farvel fúla vitleysa, samræmd próf eru engum til gagns! Takk Þorgerður Katrín - þetta var það algáfulegasta sem þú hefur gert í starfi! Svona á að koma sér útúr fáránlegri stöðu hímandi út í horni eftir reginvitleysu forveranna.

kl. |Menntun / Pólitík

Álit (7)

Eygló:

Heyr, heyr.....

Laugardagur 25. febrúar 2006 kl. 08:58

Ég er að sjálfsögðu ósammála flestu í þessari færslu en nenni engan veginn að skrifa langt langt komment :)

Sunnudagur 26. febrúar 2006 kl. 11:16

Það er svo margt í þessu sem ég er ósammála sem gerir mig þá sammála Hörpu? Virkilega skelfilegt yrði það nú.

Ég vil samt byrja á að verja réttmæti og áreiðanleika. Þau ágætu hugtök eru ekkert sérstaklega tengd samræmdum prófum. Þeir góðu eiginleikar eiga að einkenna allar góðar mælingar. Ég yrði t.d. ekki hissa á að DDV geri dálítið í því að vera með áreiðanlega vog svo skekkjan sé ekki upp á +/- 1kg á milli mælinga. Standast próffræðilegir eiginleikar samræmda prófa ekki ágætlega þegar þau eru skoðuð í réttu samhengi og í þeirri hugtakabindingu (sbr. operationalism) sem þeim er ætlað að standast?
Annað sem angrar mig meira en orð fá sagt frá og það er þegar það er verið að agnúast út í samræmd próf þegar einhverjir bjánar út í bæ eru að rangtúlka niðurstöðurnar! Það er ekki vandamál við samræmd próf sem slík. Ef ég lána þér málband og þú ferð út með það til að mæla hitastigið þá er það ekki mitt vandamál og ekki vandamál við málbandið mitt að þér tókst ekki að fá neinar almennilegar niðurstöður.

Til varnar dúxunum, ég man ekki betur en t.d. Ólafur Jóhann Ólafsson hafi verið dúx frá sínum skóla á stúdentsprófi. fleiri merkir menn og konur hafa hlotið það "ólán" að vera stimplaðir dúxar. Hvað er svo sem að því að hampa þeim sem eru duglegir og standa sig vel í skóla? Af hverju erum við að hampa afburða listamönnum og íþróttafólki? Jú til að hvetja fleiri til að feta í fótsporin og til hvers erum við að því? Jú til að fá fleiri til að feta í fótspor þeirra. Af hverju ættum við ekki að vilja fá fleiri slíka? Eru það einmitt ekki þeir sem skapa verðmæti í þekkingar og HÁTÆKNI samfélaginu? Bisness-liðið sem tekur allan heiðurinn af því að hafa fjárfest rétt er ekki að búa til raunveruleg verðmæti. Ef eitthvað vit er í því að leggja áherslu á hátækni og þekkingariðnað er það þá ekki einmitt duglega, vinnusömu, sjálfsöguðu og GREINDU einstaklingarnir sem eiga eftir að skila miklu inn í þjóðarbúið? Eða viljum við bara hafa spríklandi og syngjandi fólk í álverum út um alla firði?

Hvað er svo að því að læra hlutina? Að læra hluti utan að hjálpar til dæmis við að byggja undir aðra þekkingu og hjálpar til við að nýta minni betur, t.d. með "memory chunking". Það þekkja þetta allir sem hafa til dæmis LÆRT undirstöður í fræðigrein í inngangsnámskeiði og verið lengi að fara yfir efnið og þurft að standa skil á því í skriflegu þekkingarprófi og þ.a.l. lært efnið en ekki bara unnið misbjánaleg raun/hóp-verkefni sem skilja mjög lítið eftir af alhæfanlegri þekkingu. Þetta "stagl" hefur svo skilað sér við frekara nám í fræðigreinni þegar hugtök, frasar og jafnvel höfundar og fræðimenn hafa orðið víðtækari merkingu og tengjast auðveldlega öðrum hugtökum og flýta þannig fyrir skilningsríkum lestri og hjálpa þannig fólki við að nýta sér enn frekar það sem það er að læra. Á endanum kemur svo alltaf spurningin um s.k. "raunhæfni" en það er efni í enn lengri og leiðinlegri pistil.
Ég leyfi mér samt að efast um að verkefnamiðað nám skili (raun)hæfara fólki út en þeir sem hafa farið í gegnum fræðilegra nám með áherslu á lærdóm og abstrakt þekkingaratriði. Rannsóknir hafa sýnt að abstrakt þekkingu er auðveldara að færa yfir á nýjar aðstæður og viðfangsefni. Þessu til stuðnings er hægt að skoða sumar af þeim heimildum sem ég notaði í BA-verkefninu mínu:
http://www.trigger.is/HI/BA/#refs

Ég kannast orðið mjög vel við þennan "segðu mér hvað ég á að gera og ég skal gera það vel" frasa og ég er búinn að hugsa um hann nokkuð oft. Ég neyðist því til að spyrja, hvað er að því að taka við leiðbeiningum og vinna vel úr þeim? Veistu hvað það er fágætur eiginleiki á vinnumarkaðnum? Það verða ekki allir forystusauðir eða leiðtogar, til að miklir leiðtogar og frumkvöðlar geti blómstrað þurfa þeir oftast að hafa með sér fylgjendur. Þessi "great man theory" sem tröllríður öllu mati fólks á öðrum er að mínu mati tóm tjara. Til að mikilmennið geti gert vel (í viðasta skilningi) þarf hann að hafa fylgjendur og aðstæður til að standa sig vel.

Þetta er allt skrifað til að fresta því að lesa grein sem ég verð sennilega mjög fljótur að lesa vegna þess að hún byggir á kenningum og hugtökum sem ég hef LÆRT áður ;) Best að fara að hjóla í hana.

Þriðjudagur 28. febrúar 2006 kl. 21:25

Takk Tryggvi, svona á að kommenta á pistla!

Auðvitað eru hugtökin réttmæti og áreiðanleiki nátengd samræmdum prófum. Ef við værum ekki að beita áreiðanleikahugtakinu hvers vegna ættum við þá yfirhöfuð að hafa samræmt próf??? Má þá ekki bara leggja fyrir próf og skítt með samræminguna? Áreiðanleikinn stendur fyrir að þú ert að endurtaka sömu mælingu til þess að geta borið saman milli árganga. Markmiðið er sumsé ekki bara að skoða hvernig árangur mælist milli skóla á einu tilteknu prófi heldur til að geta skoðað þróun og því verður mælitækið að vera rétt. Það hefur samræmdum prófum ekki tekist.

Hvað varðar réttmætið þ.e. að prófið sé að mæla það sem það á að prófa hlýtur að vera nátengt samræmdum prófum nákvæmlega eins og öðrum prófum. Námsskráin er útlistunin á því hvað á að læra og síðan á prófið að mæla það sem á að læra en ekki eitthvað annað. Nú er ég ekki að meina að menn séu alls ekki að mæla það sem lagt er fyrir það gera menn í einhverjum mæli en samræmda prófið hefur ekki verið nægilegt yfirlitspróf þannig að það tryggi að námsefnið sem á að fara yfir sé nákvæmlega það sem lagt er til grundvallar.

Námsmatsstofnun segir síðan beinlínis að samræmt próf sé " ætlað ákveðið hlutverk við mat á skólakerfinu" (http://www.namsmat.is/vefur/samr_prof/alm_uppl/samramd.html ) svo það er alveg klárt að það er markmið. Ég dreg mjög í efa það þetta próf mæli skólakerfið vel. Sumir geta haldið því fram að þetta sé hlutamat og þá er spurningin hvað réttlætir allt þetta írafár, kostnað og umfang. Er árangurinn svo góður fyrir skólakerfið að þetta sé mælistika sem sé svo býsna góð?

Þær skoðanir sem þú ákvarðar að ég hafi varðandi kennslufræði er síðan eitthvað sem ég er svosem ekkert að eltast við. Ég er sammála þér með að abstrakt þekking er býsna fín til að nýta við yfirfærslu. En ef menn eiga aldrei að leysa nokkurn skapaðan hlut af sjálfsdáðum með því að skilgreina viðfangsefni sitt og útfæra það þá erum við bara að framleiða fabrikkufólk sem er alltaf að gera sömu hlutina sem það hefur lært. Það er líka þekking sem þarf til þess að geta ímyndað sér og nýtt abstrakt þekkingu til gagns.

Auðvitað er það rétt hjá þér að það á ekkert að kenna samræmdum prófum um rangtúlkanir. Ég vil hinsvegar benda á að mælistikan sem á að vera með svona gríðarlega frásagnargáfu um skólastarf er ekkert að skila því nema hjá afmörkuðum hópi manna sem hefur einhvern skiling á mælistikunni. Þá er spurning um hvort það sé ekki verið að gefa öllum reglustikur hvað svo sem þeir eru að fara að mæla, vökva, loft, mengun, gagnarými sem og lengd? Menn kunna síðan ekki betur með verkfærið að fara en þeir arka um með reglustikuna á lofti og nota hana þrátt fyrir að það sé argasta bull. Því á íslenska ríkið að kosta reglustikur sem ekki er hægt að brúka nema afspyrnu takmarkað?

Hvað varðar dúxana þá ætla ég nú sossum ekki að halda því fram að enginn dúx hafi orðið að manni. Rök mín voru hinsvegar þau að samræmd próf segja ekki nokkurn skapaðan hlut um hvernig einstaklingur plummar sig í lífinu. Það er að vísu samspil milli árangurs í tónlist og einkunna á samræmdum prófum þannig að það dæmi frá þér var nú ekki gott (he he). Ég var að benda á að það mætti mæla á margan hátt og keppa í mismunandi greinum og fá út upplýsingar. Þess vegna með öflugu skákmóti sem mælir ýmsa hluti.

Hvað varðar hátæknivinkilinn þá hef ég ekki hugmynd um hvort það séu dúxar þessa lands sem bera hann uppi. Ég leyfi mér að efast um það án þess að ég haldi að það séu slugsarnir sem halda honum uppi. Hátækniiðnaðurinn væri býsna ómerkilegur ef ekki væri þar fólk með frumkvæði, öflugt ímyndunarafl og kjark til að framkvæma.

Hvað varðar verkefnamiðað nám þá er sá þáttur kennslufræðinnar svo víðfeðmur að það er varla hægt að tala um það sem einhverja einfalda staðreynd eða sannindi eins og þú gerir hér. Gufuleg verkefni sem skila engri afurð annarri en að menn unnu í hópastarfi í dálítinn tíma er svosem ekki eftirsóknarvert. Auðvitað er býsna gott að hafa fólk sem hlýðir og vinnur verk sín vel. Það fólk mælist vel á samræmdu prófi en hefur kannski ekki eins mikil tengsl við greind og menn vilja vera láta.

Ég sé ekkert að því að menn læri eitthvað utanbókar, en utanbókarstagl án skilnings er handónýtt því þú brúkar það ekki í abstrakt vinnu það er alveg ljóst því þú getur ekki sett það í samhengi við nýja þekkingu eða þekkingarsköpun.

Hvað varðar það að hafa fólk sem tekur leiðbeiningum og vinnur vel úr þeim þá erum við að tala um sama hlutinn. Sá sem kann að vinna vinnur vel úr því sem fyrir hann er lagt en þarf ekki að spyrja að öllu og getur ekkert gert án þess að það sé útlistað og útskýrt. Ég hef haft það margt fólk undir verkstjórn um ævina að ég fullyrði að fólk sem ekki getur leyst viðfangsefni af sjálfsdáðum er ekki eftirsóknarvert til vinnu. Þess vegna held ég að þú sért hér viljandi að misskilja mig út frá einhverjum kennslufræðilegum fordómum sem þú ert að klína á mig;-)

Ef þú hefur lært kenningarnar og hugtökin sem þú æltar að nota við lestur á greininni hafðu þá í huga hvort þær gagnast þér af því þú lærðir þær utanbókar eða hvort það er vegna þess að þú skildir það sem þú varst að læra. Hvernig sossum þú fórst að því.

Þriðjudagur 28. febrúar 2006 kl. 21:50

Byrjum á samræmdu prófunum. Ef þetta er markmið hjá Námsmatsstofnun sem er sett svona fram þá er það frekar loðið. Mat á skólakerfi er frekar stórt hugtak og ég efast um að nokkur ætli sér að ná utan um það með einni mælingu. Ég bara get ekki ímyndað mér að neinn próffræðilega sinnaður einstaklingur geti látið sér detta slíkt í hug! Hvort sem hann vinnur hjá Ríkinu eða í einkageiranum. Fyrir utan þessa klausu sem þú vitnar í á vef NÁM þá er textinn þarna mjög skynsamlegur og samkvæmt sannleikanum.

Samræmt próf tryggir ekki áreiðanleika (punktur). Ég fæ heldur ekki séð að réttmæti sé tryggt með samræmdu prófi. Nær væri að gera staðlað þekkingar- eða getupróf til að mæla hversu vel er verið að fara eftir námskrá. Ég er bara enn að leita eftir því hvar það er sett fram.

Þú segir: Áreiðanleikinn stendur fyrir að þú ert að endurtaka sömu mælingu til þess að geta borið saman milli árganga.
Þetta er bara því miður ekki rétt. Það er ekki hægt að bera saman mælingar milli árganga. Áreiðanleiki samræmdaprófa eins og þau eru í framkvæmd NÁM tekur eingöngu á samanburði á milli skóla innan árgangs og innan hverrar námsgreinar. Annar samanburður á grundvelli samræmdra prófa stenst ekki. ATH: Þetta er byggt á því sem ég hef skoðað um framkvæmd prófanna sjálfra ekki háleit markmið um hvað þau ættu að gera.

Hvað kemur sú mýta að niðurstaða á samræmdum prófum eigi að tengjast greind? Ég sé ekki betur en NÁM bjóði upp á ágæt stöðluð greindarpróf, t.d. Wechsler's til að mæla greind. Greind spáir fyrir um gengi í skóla og jú ef ég fengi EINN og bara EINN hlut til að ráð eftir (ekki viðtal, ekki meðmæli, ekki CV...) þá myndi ég nota greindarpróf. En er þ.a.l. sjálfsagt að gott gengi í skóla spái fyrir um háa greind? Ó nei, við búum í flóknum heimi og sjaldnast er hægt að einangra fullkomlega tvær breytur. Ekki einu sinni við tilraunaaðstæður. Jú talandi um tónlist! Það væri þó ekki vegna þess að þeir sem fá hátt á samræmdu prófi eru duglegri og vinna skipulegar og geta þar af leiðandi sinnt bæði námi sínu á mannsæmandi hátt og haft afgangstíma til að sinna tónlistinni? Mér finnst þetta alls ekki slæmt dæmi, það einmitt sýnir að þarna er flókið fyrirbæri á ferðinni.

Svo um frumkvæði og þekkingu... Ef ég kann ekki eitthvað þá get ég ekki skilið það og þar af leiðandi ekki notað það. Í mínum huga er þetta stigveldi (að hætti B. Bloom). Ég er reyndar fatlaður á þann hátt að ég þarf að skilja til að geta munað en það er bara vegna þess að ég er minnislaus ;)
Frumkvæði, sumum finnst aldrei nóg af því öðrum finnst það alltof mikið. Hið rétta er væntanlega mitt á milli? Ef allir sýna frumkvæði og vaða út í allar áttir þá er nokkuð ljóst að "heildin" kemst ekkert úr sporunum. Ef enginn sýnir frumkvæði þá kemst heildin heldur ekki úr sporunum.
Til að heildin dafni þarf að raða inn ákveðinni samsetningu af fólki. Ein af fáum hugmyndum sem mér finnst gagnast við að átta sig á þessu á vinnustað er hlutverkahringur Belbins:
http://www.belbin.com/belbin-team-roles.htm
Svo ég haldi nú áfram með hátækni-vinkilinn á þetta þá er mín reynsla af slíku að á bak við flest velheppnuð verðmætaskapandi fyrirtæki (ég tel ekki afætur með) er einn eða fleiri einstaklingur sem er með afburða þekkingu á ákveðnu sviði (og greind?) og oft eina eða fleiri hugmyndir. Marel er ágætt dæmi um slíkt. Það merka fyrirtæki hóf sögu sína hjá raunvísindastofnun HÍ og var samstarf aðila með mikla þekkingu í vélaverkfræði, rafeindatækni og hugbúnaði.
Þessi upphafning frumkvæðisins minnir mig óþægilega mikið á leiðtogadýrkunina sem er áberandi í stjórnunar"fræðunum". Það má enginn vera stjórnandi lengur allir verða að vera foringjar, forystusauðir, leiðtogar eða frumkvöðlar. Allt annað er annars flokks. Sem er slæmt því úti í raunveruleikanum þurfa fyrirtæki á báðum þessum eiginleikum að halda til að dafna.


Ég get samt ekki staðist að skjóta meira á hópavinnu. Ef ég nota dæmi úr meistaranáminu mínu þá eru núna í gangi mörg hópverkefni. Í mörgum þeirra vaða nemendur af stað án nokkurrar þekkingar á því sviði sem þeir eiga að fara að vinna með. Þá vantar algerlega alla fræðilega undirstöðu til að byggja verk sín á og lenda því í óþarfa hremmingum og stefnuleysi. Við slíkar aðstæður verður hópavinnan og öll "notkunin" og "færnin" ómarkviss og gagnast lítið sem ekki neitt. Í besta falla vita nú nemendur hvað þeir eiga ekki að gera, sem er jú ákveðið markmið í sjálfu sér. Það tefur líka ótrúlega mikið fyrir ef það þarf alltaf að fletta hlutunum upp og í sumum tilfellum þá eykur það líkurnar á villum.


Eitt sem rekst svo á alveg í restina og það er með samræmda einkunn sem forspá um að "plumma" sig í lífinu. Fyrsta lagi þá vantar mig algerlega skilgreiningu á hvað þú meinar með að plumma sig. Er það að eignast góða fjölskyldu? Hafa góð laun? Sækja um einkaleyfi á hugmynd sem maður fékk? Stofna eigið hátæknifyrirtæki?

Miðvikudagur 1. mars 2006 kl. 09:29

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.