« Sylvía Nótt | Aðalsíða | Tæknihörmungar »

Þriðjudagur 7. febrúar 2006

Siðferði og samskiptasóðar

Í dag hélt ég erindi á ráðstefnu SAFT sem ég kallaði "Að mennta börn fyrir nútímann". Ráðstefnan var haldin í tengslum við Alþjóðlega netöryggisdaginn sem var í dag. Það sem ég vildi segja í erindi mínu var að uppeldi lýkur ekki við lyklaborðið, það þarf líka að ala börn upp í Netheimum. Menntun væri ekki eitthvað sem ætti sér stað á ákveðnum stað á ákveðnum tíma í tengslum við ákvenða hluti heldur bæri okkur að mennta börn til þátttöku í nútímasamfélagi svo ekki sé talað um einhvert óskilgreint framtíðarsamfélag. Hmmm þetta hljómaði dálítið gáfulega... ég held þó að ég hafi ekki sagt nákvæmlega þetta.


Hinsvegar talaði ég um að mig dreymdi um samskipti manna á milli þegar ég byrjaði á Netinu um 1990 eða fyrir 16 árum. En þegar litfagrar vefsíður dundu yfir þá fóru allir að lesa og skoða en hættu að fræðast og menntast í samræðu við fólk um allan heim. Afleiðingin að mínu mati er sú að fólk hefur leiðst út í nafnlausa hömlulausa umræðu og upplifir að það geti hagað sér eins og því sýnist á Netinu því þar sé allt leyfilegt.

Þægustu börnin í bekknum og fyrirmyndirnar í fjölskylduboðunum eru oft óbermin á Netinu. Kurteisu konurnar með snyrtilegu börnin eru síðan óþokkar á Barnalandi. Fallegir bjarteygir piltar eru svo tuddar á batman eða b2 eða hvar það nú er. Oftast fer þetta fólk hamförum þegar það þarf ekki að standa við það sem það er að gera með nafni sínu.

Fyrir vikið eru menn hræddir við samræðuna á Netinu og reyna að forðast hana í lengstu lög fyrir börn og ungmenni svo ekki sé talað um í skólum eða annarsstaðar. Svo börn halda áfram að lesa um Breta en tala ekki við bresk börn, lesa í fréttum um múslima en tala ekki við þá á Netinu. Kynnast nánast engu nema af afspurn eða matreiddum miðstýrðum fréttum fjölmiðlanna.

Með Netinu hefur opnast sá möguleiki að iðka lýðræði með allt öðrum og öflugri hætti en áður þekkist og því finnst mér fúlt að samskiptasóðar séu að kasta óorði á slík samskipti og fæla burtu vammlaust fólk.

Við uppalendur og menntarar erum síðan ekki að taka þá ábyrgð sem okkur ber að ala börn upp í nútímasamfélagi með þeirri tækni sem er í nútímanum. Börn lifa með GSM síma, senda SMS og MMS, þau eru á MSN og með þessari tækni eru þau í samfélagi við fólk. En þá banna grunnskólar farsíma og hundsa það hlutverk sitt að mennta börn til að lifa og starfa í nútímasamfélagi með þeirri tækni sem því fylgir.

Sumsé, um þetta - eða nálægt því - var ræðan mín í dag. Flaug svo heim um fimmleytið og kenndi bráðskemmtilegu fólki byrjunaratriði í stafrænni ljósmyndum á námskeiði sem hófst kortéri eftir að ég lenti. Það var virkilega gaman, kominn snjór og ófært til Ólafsfjarðar svo maður er kominn á sinn stað í veröldinni eftir sumarvetrardaga undanfarið. Líklega hefst morgundagurinn á því að skafa....

kl. |Pólitík

Álit (20)

Alla:

Og hvernig viltu nú helst að við ölum börnin okkar og barnabörnin upp í þessu nútímasamfélagi Netsins, GSM, MSN og alls hins? Hafandi verið leiðbeinandi í grunnskóla skil ég bara mætavel af hverju þeir banna farsíma - eða hvað hafa nemendur við síma að gera á skólatíma?

Þriðjudagur 7. febrúar 2006 kl. 23:23

Það eru fjölmargar leiðir til og fyrst og fremst held ég að það sé ákvörðun hvort menn ætla að gera það eða ekki. Þuríður Jóhannsdóttir ræddi t.d. um skemmtilega útfærslu í Langholtsskóla sem hljómaði spennandi. Ég hef verið í samstarfi við Borgarhólsskóla á Húsavík sem hafa verið með skemmtileg farsímaverkefni. En málið er nákvæmlega það að nemendur ná ekki að aga sig í kringum tæknina og fá litla hjálp til þess nema bannið og læra því illa að nýta hana eða beita henni þannig að þau hljóti einhverja menntun nema menntun götunnar.

Þriðjudagur 7. febrúar 2006 kl. 23:32

Lára, þú ert að verða of mikill pólítíkus ;) þú svaraðir ekki spurningunni hennar Öllu! Ég (og eflaust fleiri) hefðu mjög gaman af að sjá meira um þessar hugmyndir, hvort sem er útfærsla Þuríðar eða aðrar leiðir.

Áttu ekki ræðuna skrifaða? Eitthvað til fyrirstöðu að skella henni hér?

kveðja að sunnan :)

Miðvikudagur 8. febrúar 2006 kl. 00:26

Mig langar líka að sjá alla ræðuna ...

Miðvikudagur 8. febrúar 2006 kl. 10:13

Ræðan var flutt af minnispunktum þannig að ég á hana ekki. Þetta var tekið upp og sent beint svo kannski eiga þeir hana á www.saft.is

Ég var ekkert að forðast að svara Öllu svo því sé haldið til haga. Ég svaraði þeirri spurningu ekki í fyrirlestrinum, í honum var ég að benda á hvað ég teldi að þyrfti að gera en ekki leysa það.

Ég hef eytt mikilli orku í að útlista hvernig ætti að nota upplýsingatækni í námi og kennslu. Eitthvað af þeim hugmyndum má finna undir greinasafninu mínu. Einnig má finna þær hugmyndir í skýrslum og greinum um þróunarskólaverkefni Menntaskólans á Akureyri. Þær snúa að framhaldsskólanum. Síðan má finna þær í verkefnum Kidlink (sem beinast að leik- og grunnskóla) sem ég hef séð um hönnun á innihaldi. Til dæmis "Who am I?" http://www.kidlink.org/kie/nls/index.html en verkefni þarna h afa hlotið nokkur verðlaun s.s. http://www.kidlink.org/english/general/topawards.html

Einnig endurspeglast hugmyndir mínar í stefnu menntamálaráðuneytisins sem var birt 1995 og kallaðist Í krafti upplýsinga en ég var í hópnum sem samdi hana. Einnig má finna þessar hugmyndir í námskrá grunnskólanna frá 1999.

Ég hef þróað þessar hugmyndir frekar með mér undanfarið en ekki skrifað um þær hugmyndir eða unnið með þær enda er ég mikið til að vinna í hugbúnaðargeiranum en ekki í menntageiranum. Þar sé ég m.a. afleiðingarnar af því hvernig menntun barna og ungmenna er háttað. Okkur vantar fleira fólk í þennan geira sem hefur öflugan undirbúning.

Miðvikudagur 8. febrúar 2006 kl. 11:28

Alltíkeinu ... ég er búin að hlýða okkar góðu bókasafnsfrenju yfir helstu tíðindi af málþinginu, þ.m.t. hvað þú sagðir vinan :)

Miðvikudagur 8. febrúar 2006 kl. 14:46

Þetta með að kenna notkun upplýsingatækni í kennslu er svona álíka fræði og nýsitæknin gamla, hvar verðandi kennurum var kennt að búa til glærur og brúka myndvarpa. Nemendur líta á tölvur og net svona svipað og sína farsíma og pennaveski. Við þurfum ekkert sérstaklega að kenna þeim að brúka þetta dót nema ætlast til að þeir brúki það til að læra (alveg eins og ég tel sniðugt að brúka sína liti og blýanta til að glósa en ekki bara til að teikna og lita, þótt það geti reyndar verið ljómandi góð námsaðferð þar sem hún á við).

Miðvikudagur 8. febrúar 2006 kl. 14:50

Alveg sammála, ég held að hættan sé sú að við ofkennum á tæknina sjálfa og rifja þá upp mikla uppáhaldsgrein eftir Steen Larsen sem birtist í Den danske pedagogiske tidskrift 1993 og fjallaði um símakennslu. Hinsvegar er ég algerlega ósammála þér um hvernig upplýsingatæknin er nýtt í skólum en það erum við búnar að takast á um svo oft að við höfum varla nennu í það núna;-)

Miðvikudagur 8. febrúar 2006 kl. 15:03

Snýst þetta ekki allt um að ala blessuð börnin upp í að verða ábyrgir einstaklingar. Þ.e. að þau geti aflað sér upplýsinga og notað þau verkfæri sem bjóðast til þess að leysa verkefni. Og að auki færni til þess að tjá sig um lausnina, en það er vöntun á því á vinnumarkaði.
Svo ég vitni í Hugó sálfræðing úr útvarpinu frá því á mánudag: við viljum ala upp fólk sem hugsar í lausnum en ekki í vandamálum.

Miðvikudagur 8. febrúar 2006 kl. 15:24

Lalla:

Fyrirgefðu Lára að ég treð mér inn í þessar umræður, þannig er að ég var að fá hótunarbréf í pósti sem á að líta út út eins og Harpa H. hafi sent það, alla vega er hennar fulla nafn skrifað undir, kommentakerfið hjá Hörpu virðist vera eitthvað bilað, svo ég set þetta hér inn. Mér finnst það frekar alvarlegt mál, þegar verið er að falsa fullt nafn Hörpu Hreinsd. og senda bréf sem á að líta út fyrir að komi frá henni.
kveðja,
Þorbjörg ( Lalla )

Miðvikudagur 8. febrúar 2006 kl. 18:22

Alltaf velkomin Þorbjörg, ekkert mál að troða sér inn í umræðu hjá mér;-) Harpa sendir þér auðvitað aldrei hótunarbréf hún hefur aldrei verið hrædd við að koma fram undir eigin nafni eins og sumir aðrir. Leitt að þú þurfir að ganga í gegnum þetta alltsaman en því miður virðast fá ráð gegn þeim sem ofsækja fólk hvort sem það er á Neti eða annarsstaðar. Hvaða hvatir liggja þar á baki verður seint hægt að skilja og ég efast um að fólk sem fer út í svona skilji það sjálft.

Miðvikudagur 8. febrúar 2006 kl. 20:31

Kristbjörg:

Sæl Lára mikð finnst mér gott að vita af einhverjum sem að vinnur markvisst að því að gera netsamfélagið öruggara og þú átt hrós skilið fyrir það. Ég sé að þú nefnir barnaland sem er jú einn af þessum vefjum sem eru vinsælir er kemur að spjalli. Ég tók þó eftir því að þar er að finna hluti sem aðrir mættu taka til fyrirmyndar. Skoðaðu t.d þennan link hérna.

http://barnaland.is/main/main.aspx?sid=1188

Hér er greinilega nýjung á ferðinni til að sporna við að efni eða spjall sem ekki höfðar til barna sé aðgengilegt. Það breytir þó ekki því að það er alveg ótrúlegt að fólk geti ekki hagað sér á svona spjalli líkt það gerir oftast manna á milli í daglegu líf. Það er að segja noti almenna kurteisi í samskiptum.
l
Kær kveðja
Krissa

Miðvikudagur 8. febrúar 2006 kl. 22:54

Anonymous:

Fylgist ég nú með skrifum þínum Lára og hef gaman af en aldrei bjóst ég við að þú myndir taka málstað "Löllu", leggja nafn þitt hreinlega við hana.

Úff

Fimmtudagur 9. febrúar 2006 kl. 00:21

NN:

Því er ég sammála síðasta ræðumanni.

Fimmtudagur 9. febrúar 2006 kl. 01:14

Ah koma þær nafnlausu, þeir sem ekki þora að koma fram undir nafni eru að mínu mati hræddir við eigin málstað svo hann er varla beisinn.

Hvað varðar málstað einhvers þá hefur mín skoðun verið sú varðandi Barnaland að þar sé margt gott sem fer fram. En á ekki heima á fyrirbæri sem heitir Barnaland og ekki undir nafni Morgunblaðsins. Þar er nafnlaus múgur manna sem hagar sér algerlega út úr kortinu. Það er þekkt í sögunni að dulbúa sig og ganga til illverka. Það er nákvæmlega það sem er að gerast þarna.

Hvort þeir sem verða fyrir árásum þessara nafnlausu af Barnalandi eru saklausir eða sekir um eitthvað hef ég enga hugmynd um. Mér ber ekki að meta eða skera úr um það og hef engar forsendur til þess. Ég hef hinsvegar heimild til að segja þá skoðun mína að framkoma múgsins á Barnalandi er stundum verulega hættulegur hvort sem sá sem fyrir árásinni verður er góður eða slæmur. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að það einfaldlega skiptir ekki máli. Sá, eða þeir, sem hóta misþyrmingum á einstaklingum, börnum þeirra og gæludýrum eru óþokkar að mínu mati. Allraverst er þegar fólk gerir sér ekki grein fyrir því hversu mikil varmenni það er þegar hótunum af þessu tagi er beitt.

Fimmtudagur 9. febrúar 2006 kl. 09:31

Anonymous:

Eina ástæðan fyrir því að maður kemur ekki undir nafni þar sem Lalla er er einfaldlega sú að maður vill ekki lenda á hennar hitlista því hún setur alla sem í hennar undarlega vænisjúka hugarheimi eiga að hafa gert henni eitthvað á hann og gefur upp ýmiskonar upplýsingar um þær manneskjur á netinu. Ég er 100% viss um að þessar svokölluðu hótanir til hennar er uppspuni frá rótum og mikið til "figment of her imagination".

Ég myndi koma undir nafni ef ég teldi það óhætt fyrir mig og mína fjölskyldu en það er það ekki þegar þessi kona á í hlut.

Fimmtudagur 9. febrúar 2006 kl. 10:19

Jóna:

bíddu ert þú þessi Lalla ???

Fimmtudagur 9. febrúar 2006 kl. 12:01

Vildi ósk að þú hefðir talað þennan fyrirlestur yfir hausamótunum á "ledelsen" í skólanum mínum. Þar hefur milljónum króna verið varið í tölvukaup og forrit sem blessuðum börnunum, af 24 þjóðernum og lítið skilja í norsku, er síðan sagt að nýta sér í efnisleit nánast án aðstoðar þar sem tiltölulega fáir kennarar við menntasetrið við Lakkegaötu kunna að kveikja á tölvu.

Engin hefur kennt greyunum á gripina og þess vegna eru 15 fartölvur á þriðja ári + ámóta margar borðtölvur ónýtar.

Fimmtudagur 9. febrúar 2006 kl. 19:10

Ég hef nú aldrei verið kölluð Lalla en þeir sem fara huldu höfði í kringum Barnaland gera það venjulega vegna ógnana þeirra sjálfra hver í annars garð. Sumir eru harðneskjulegri en aðrir, ekki hef ég glóru um hver er verstur og sé reyndar ekki neinn mun á vondum - þeir eru bara vondir.

Laugardagur 11. febrúar 2006 kl. 01:44

Guðni, ég er búin að halda margar tölurnar án þess að ég sjái svosem að það hafi einhverjar afgerandi afleiðingar. Í eina skiptið sem ég hef upplifað að menn gerðu það sem ég lagði til var í Slóveníu fyrir nokkrum árum og það var með ólíkindum hvað þau náðu hratt áfram í upphafi, maður var nánast hræddur hversu mikið mark var á manni tekið. Fór þangað níu sinnum að kenna. Hélt óteljandi fyrirlestra í Svíþjóð þegar Telia fór í verkefnið "Internet í skolan" án þess að ég viti um einhverjar sérstakar afleiðingar. En það sem þú talar um er þekkt fyrirbæri - menn einhvernvegin kenna ekki um netheima og lífið þar. Afleiðingin er nokkuð skýr á Barnalandi (og fleiri stöðum) þar sem fólk verður ótrúlega illkvittið og andstyggilegt en getur stöðugt réttlætt það fyrir sér með því að einhver annar sé verri. Auðvitað eru alltaf til leiðindasamfélög en munurinn er sá að menn halda í alvörunni að þetta sé í lagi. Það er þó minna um það í kjetheimum að menn telji almennt þessa framkomu í lagi.

Laugardagur 11. febrúar 2006 kl. 01:48

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.