« Nafnleynd og ofbeldi | Aðalsíða | Siðferði og samskiptasóðar »

Mánudagur 6. febrúar 2006

Sylvía Nótt

Á morgun mæti ég á minn fyrsta útvarpsráðsfund eftir að ég var kjörinn aðalmaður á Alþingi fyrir jólin. Ekki er hægt að neita því að það er kraftmikið mál sem liggur fyrir ráðinu þegar um er að ræða Eurovision keppnina og meinta dreifingu á lagi Sylvíu Nótt á netinu. Það verður fróðlegt að taka þátt í afgreiðslu þess máls. Á að vísa laginu úr keppninni eða á ekki að gera það? Það er sú spurning sem þarf að svara á morgun. Hvað finnst lesendum mínum um það mál?

kl. |Pólitík

Álit (28)

Í mínum huga ættir þú sem útvarpsráðsfulltrúi frekar að spyrja þeirrar spurningar hvort mál sem þetta komi ráðinu við?

Útvarpsráð hefur í gegnum tíðina verið alltof duglegt við að blanda sér í kjánaleg deilumál sem tengjast hinu og þessu sjónvarps- og útvarpsefni sem hefur ekkert að gera með þá yfirstjórn stofnunarinnar sem ráðið á að sjá um.

Dæmi eru um að útvarpsráð hafi tekið til umfjöllunar deilur vegna meintra dómaramistaka í spurningaþáttum og jafnvel kallað eftir greinargerðum um málið - hvaða rugl er það eiginlega?

Sjálfur lenti ég í því fyrir rúmum áratug að útvarpsráð sat ekki bara einn, heldur tvo fundi til að ræða það hvort banna ætti mér að keppa í spurningakeppni framhaldsskóla vegna þess að ég sat í sextánda sæti á framboðslista stjórnmálaflokks!!!

Held að útvarpsráðsmenn eigi að láta starfsfólki Sjónvarpsins eftir ákvarðanir af þessu tagi en hverfa ekki aftur til þess tíma þegar greidd voru atkvæði um það á fundum hvort Tommi og Jenni væru of ofbeldisfullir...

Mánudagur 6. febrúar 2006 kl. 14:20

Hlutverk útvarpsráðs er auðvitað kapítuli út af fyrir sig sem má ræða lengi og hafa ýmsar skoðanir á. En sé kært til útvarpsráðs þarf að taka það mál fyrir hvort sem manni líkar það betur eða ver.

Mánudagur 6. febrúar 2006 kl. 14:52

Ég held að þátttakendur séu bara svekktir því það eru mestar líkur á því að hún vinni þessa keppni, bara á því hver hún er... þarna fá þeir ástæðu til þess að reyna að bola henni út keppninni!
ég fíla hana ekki, en fannst lagið hennar það langflottasta í keppninni á laugardaginn!

Mánudagur 6. febrúar 2006 kl. 14:57

Salvör:

Sennilega væri sniðugast og Salómondómslegast í þessu máli að leyfa þessu lagi að fara til úrslita en hins vegar gefa út fyrirfram að þetta lag muni aldrei geta komist sem framlag Íslands í Eurovision vegna þess sem undan er gengið.

Það þýðir að það má flytja lagið í 16 laga úrslitum og kanna vinsældir þess og þeir sem að því standa munu fá tækifæri til vinna en samt vinna ekki án þessa að þurfa að þola þá hneisu að vera reknir frá keppni.

ef til vil ætti að reyna að ná samkomulagi bak við tjöldin um einhverja slíka lausn.

Mánudagur 6. febrúar 2006 kl. 16:25

Mér finnst Kristján Hreinsson og fleiri hafa nokkuð til síns máls. Þetta snýst ekki um hvaða lag skuli fara í Evrópukeppnina heldur um að vel og rétt sé að málum staðið. Útvarpsráð getur ekki tekið kæruna til annarskonar meðferðar. Mér sýnist að reglur keppninnar hafi verið brotnar og ef það er raunin liggur ljóst fyrir hvernig eigi að meðhöndla kæruna. Mörgum finnst þetta lítið mál og varla þess vert að rætt sé um það en það er alls ekki svo. Fjölmargir laga og textahöfundr hafa lífsviðurværi sitt af tónlist sinni og textagerð og verja skiljanlega sinn rétt með kjafti og klóm. Það er mikið í húfi fyrir þá sem komast áfram í keppninni, höfunda og flytjendur og því verður að vanda vel alla stjórnsýslu og ákvarðanatöku þegar slík mál sem þessi kæra kemur upp.

Mánudagur 6. febrúar 2006 kl. 17:42

Reglurnar voru brotnar og því á að banna þetta lag sem og önnur sem hafa heyrst fyrir kynningu. Valdís Anna - Sylvía Nótt var flottust á laugardaginn, enda var það ekki erfitt, þetta var hræðilegt kvöld samanborið við hin.

Mánudagur 6. febrúar 2006 kl. 20:36

Jón Ingi:

Það á ekki að brjóta á heiðarlegum keppendum með því að breyta reglum. Sá sem svindlar á að fara úr keppni..reglur eru reglur. Ef menn ætla ekki að fara eftir þeim á að tilkynna það fyrirfram.

Mánudagur 6. febrúar 2006 kl. 21:17

Það er ekki hægt að breyta reglunum í hálfleik alveg burtséð frá því hvað manni finnst um lagið.
Lagið hefði aldrei átt að fá að vera með seinasta laugardag!!!

Þriðjudagur 7. febrúar 2006 kl. 00:07

"En sé kært til útvarpsráðs þarf að taka það mál fyrir hvort sem manni líkar það betur eða ver."

Auðvitað tekur Útvarpsráð við öllum erindum sem því berast - en það er ekki þar með sagt að ráðið eigi að taka þau til efnislegrar meðferðar. Ef ég sendi kæru til Útvarpsráðs þess efnis að Birta og Bárður í Stundinni okkar séu siðspillandi efni - þá ber útvarpsráðsfólki ekki skylda til að leggjast yfir spólur með upptökum af gömulum þáttum, heldur felur ráðið starfsfólki RÚV að bregðast við athugasemdinni.

Það er ekkert í lögum og reglugerðum sem þvingar útvarpsráð til þess að vasast jafnmikið í dagskrártengdum málefnum og raun ber vitni. Þessi miklu afskipti, sem eru meiri en gildir um sambærilegar ríkisstofnanir, eru afleiðing af hefð sem fyrst og fremst er mótuð af því fólki sem setið hefur í ráðinu. Staðreyndin er nefnilega sú að útvarpsráðsfólk hefur í gegnum tíðina - eins og aðrir landsmenn - fundist skemmtilegt að hafa skoðun á því sem er í sjónvarpinu.

Það er útvarpsráð sjálft sem ræður mestu um vinnureglur sínar og þar með þeir fulltrúar sem í því sitja. Það er ekki hægt að drepa málinu á dreif með því að tala um að "hlutverk útvarpsráðs sé kapítuli út af fyrir sig". Ekki skella skuldinni á Alþingi eða menntamálaráðherra, því svo lengi sem fulltrúum í útvarpsráði finnst það sitt hlutverk að blanda sér í keppnir sem Sjónvarpið stendur fyrir þá mun það viðgangast en annars ekki.

Þannig er það nú bara.

Þriðjudagur 7. febrúar 2006 kl. 08:24

Maria:

“meinta dreifingu á lagi Sylvíu Nótt á netinu“

Silvíu Nóttar! Muna að fallbeygja.

Þriðjudagur 7. febrúar 2006 kl. 09:19

Hárrétt Stefán, þó útvarpsráði berist erindi þá hefur það frelsi til að ákveða hvernig það afgreiðir mál. Það getur einfaldlega falið öðrum að fara í það mál ef því sýnist svo eða lagst yfir spólur af Birtu og Bárði ef það telur það rétt. Það þarf hinsvegar að taka það erindi fyrir á fundi og afgreiða það með einhverjum hætti berist því erindi. Spurning mín í pistlinum atarna var hvort menn hefðu skoðun á því hvernig sú afgreiðsla ætti að vera. Svo má gagnrýna það að menn spyrji yfirleitt álits út í loftið eins og ég geri hér.

Ef ég skil þig rétt þá er það þín skoðun að bréf (eða kæra) sem ákveðinn einstaklingur sendir til útvarpsráðs eigi ekki að fá umfjöllun eða afgreiðslu af því útvarpsráð eigi ekkert að "vasast" í því. Á sama tíma má varpa fram þeirri spurningu hvert menn sem telja á sér brotið eigi að leita. Er það bara leiðinlegt fyrir þá og það kemur það engum við? Eða er eðlilegra að menntamálaráðherra fjalli um það, eða ættu menn að kæra til lögreglu? Hvert finnst þér eðlilegt að menn leiti sem vilja leita réttar sem þeir telja að sé brotinn í þessu tilfelli?

Þriðjudagur 7. febrúar 2006 kl. 09:29

Útvarpsráð er stjórn ríkisstofnunar, ekki ósvipuð skólanefndum í framhaldsskólum. Skólanefndir marka áherslur í starfi skólanna og leggja til starfsáætlanir og fjárhagsáætlanir.

Ef upp kæmi deila í nemendafélaginu vegna formannskosninga, hvernig valið er í ræðuliðið og þar fram eftir götunum, þá gæti komið til kasta rektors að höggva á hnútinn. Niðurstöðu hans yrði ekki skotið til skólanefndar. Það væri frekar að hægt væri að taka hana upp við ráðuneytið.

Í sjálfu sér er ekkert því til fyrirstöðu að svekktur keppandi í sjónvarpsþætti leitaði réttar síns fyrir dómstólum - reyndi að fá lögbann á keppnina o.þ.h. Þetta ætti væntanlega einkum við ef verulegir fjárhagslegir hagsmunir væru í húfi.

Sjónvarpið getur ekki tryggt sig fyrir slíkum málaferlum með því að hafa útvarpsráð sem ályktar út og suður. Það verður bara gert með því að reglur séu skýrt orðaðar og að fram komi í þeim hvernig standa skuli að úrlausn mögulegra deilumála. Ég geri ráð fyrir að í keppnisreglum séu ákvæði um úrskurðarvald einhvers aðila og býst ekki við að sá aðili sé útvarpsráð.

Þriðjudagur 7. febrúar 2006 kl. 09:56

Ef Sylvía Nótt má keppa fyrir okkur má þá ekki Lína langsokkur keppa fyrir Svíþjóð, Karíus og Baktus fyrir Noreg (Lilli klifurmús til vara) og Snúður fyrir Finnland?

Þriðjudagur 7. febrúar 2006 kl. 10:20

Kolbeinn:

Nú þekki ég ekki til hvort fram hafi komið hver stóð að dreifingunni á netinu. Ef fyrir lyggur að höfundur, flytjandi eða aðrir lykilmenn hafi "lekið" þessu á netið tel ég góð rök fyrir því að lagið verðið dregið úr keppninni. Annars er mjög erfitt að dæma lagið úr leik á þessum forsendum, hver kannast ekki við (að hafa heyrt um) ólögleglega dreifingu efnis á netinu? Nú, segjum sem svo að dæma skuli lagið úr keppni þá verður að gera það strax, ella fæst ekki rétt mynd á úrslitin þar sem lagið í öðru sæti færi annars í Eurovision keppnina kanski með brot af greiddum atkvæðum, ég fullyrði að mikill meiri hluti greiddra atkvæða mun lenda á lagi Silvíu Nótt (nætur), þessi atkvæði gætu allt eins dreifst á annan hátt á hin lögin. Það er auðvitað álitamál hvort útvarpsráð skuli taka afstöðu ttil málsins eða vísa því eitthvert annað, sjálfum finnst mér að útvarpsstjóri sé fullfær um að útkljá málið. Mitt álit er að það sé mjög slæmt ef lagið verður dæmt úr keppni, þetta er einfaldlega langbesta framlagið og þessi dreifing á netinu breytir engu þar um (mikið dómgreindarleysi hjá aðstandenum ef þeir hafa staðið fyrir slíku), það skemmtilega við þetta er að það er mjög breiður aldurshópur sem kann að meta þetta framlag, ég þekki persónulega fólk á sjötugs aldri sem kaus lagið og sjálfur er ég á "miðjum" aldri. Það er einfaldlega kominn tími til að hrista aðeins upp í þessari keppni!

Þriðjudagur 7. febrúar 2006 kl. 10:25

Kolbeinn:

Jú HarpaH, Lína má allveg keppa fyrir Svíþjóð, hún má bara ekki syngja "jeg heder Pippi..." flytjendur mega vera þekktir en ekki lögin :)

Þriðjudagur 7. febrúar 2006 kl. 10:31

Fyrst þú spyrð um álit þá skal ég tjá mitt. Það er ástæðulaust að vísa lagi úr keppni nema reglur hafi verið brotnar. Kristján Hreinsson og Páll Magnússon voru ósammála um það í Kastljósinu í gær og fyrst lagið fékk að vera með í forkeppninni, þá verður trauðla bakkað með það núna. Hefur útvarpsráð annars vald til að vísa því úr keppninni?
Fjölmiðlafárið í kringum þetta mál er þegar orðið nógu mikið og gerir fátt annað úr þessu en að auglýsa lagið enn frekar og ef símkerfið bregst ekki þegar kemur að atkvæðagreiðslu, spái ég því yfirburðasigri.

Þriðjudagur 7. febrúar 2006 kl. 11:15

Samkvæmd núverandi útvarpslögum þá hefur útvarpsráð boðvald yfir útvarpsstjóra. Annað hvort er að styðja ákvörðun útvarpsstjóra eða breyta hans ákvörðun. Þeirri ákvörðun mætti t.d. áfrýja til menntamálaráðherra.
Stefán Páls. er auðvitað með þekkinguna á hreinu og samskiptaupplifun við útvarpsráð. Ég sat þarna um skeið og var í raun undrandi yfir smásjáreftirliti þess. Ég lagði t.d. til að svokallaðir skoðunarfundir yrðu aflagðir en þar gátu ráðsmenn séð, og ritskoðað dagskránna fram í tímann. Nokkuð oft voru fréttarstjórar kallaðir inn á teppi og "farið yfir" fréttastefnu útvarps og sjóvarps.
Varðandi þetta ákveðna mál og lekann þá er ég dálitið undrandi yfir því að hvergi hefur komið fram hver/hverjir gætu lekið lögum á netið. Það eru tveir aðilar: Upptökustjórinn og sá sem fær "demo" diskinn. Í máli Sylvíar Nóttar þá er þetta sami aðilinn auk kærandans, en ég geri ráð fyrir því að höfundur texta fái sýnishorn uppskerunnar. Það breytir engu þó fleiri lögum hafi (í kjölfarið) verið lekið á netið. Það var ekki farið eftir reglum og hugsanlega má áfrýja slíku til yfirnefndar Eurovision. En þjóðin hefur talað. Þjóðarviljinn virðist hníga í þá átt að beygja reglurnar vegna þess að lagið sé gott og flutningurinn góður. Ef lagið hefði verið slæmt og flytjandinn óþekktur hefði þetta aldrei komist á kaffistofuumræðustig.
Sylvía Nótt virðist vera okkar Ruslana, en hún skilaði árangri.
Gísli Bald.

Þriðjudagur 7. febrúar 2006 kl. 11:39

Kolbeinn:

Ef ég veit rétt þá eru margir aðrir sem gætu hafa komist yfir upptökuna, í nútíma hljóðupptökuveri er öll vinnsla gerð í tölvum og spurning um hvernig öryggisatriðum er háttað, þetta getur verið auðveldara en að komast yfir tölvupóst Jónínu Ben, svo ég nefni dæmi um eitthvað sem "lak út".

Þriðjudagur 7. febrúar 2006 kl. 12:05

Flott afgreiðsla á málinu og til fyrirmyndar - amk. ef marka má fréttirnar í hádeginu.

Þriðjudagur 7. febrúar 2006 kl. 13:10

Árni Kjartansson:

Ég verð að segja að ég er sammála þessum úrskurði, netdreifing er allt annað kvikindi en önnur dreifing og það þarf ekki nema einn illa innrættan til að koma lagi í umferð nú til dags, hvort sem er til að trana fram sínu eða koma keppinautunum í bobba.

Það er t.d. auðvelt að sjá fyrir sér að hver sem er gæti tekið upp generalprufu með farsíma eða flottari græjum og skellt svo lögunum á netið. Þar með væru öll lögin dottin úr leik.

Þriðjudagur 7. febrúar 2006 kl. 15:34

Kolbeinn:

Ég tek ofan fyrir útvarpsráði, fagmannlega að verki staðið, til hamingju Lára :) Tekið af fréttasíðu RUV.IS: "Útvarpsráð styður útvarpsstjóra í ákvörðun sinni og var sammála um að útvarpsstjóri hefði afgreitt málið vel og af sanngirni. Sú skoðun kom fram að áður en ný söngvakeppni er haldin þarf að skerpa á línum hvað telst til opinbers flutnings vegna nýrrar tækni."

Þriðjudagur 7. febrúar 2006 kl. 16:10

Gott að menn eru sáttir ég var mjög sátt við þessa afgreiðslu. Að mínu mati er þetta ákvörðun útvarpsstjóra en útvarpsáð getur auðvitað sagt skoðun sína sem það og gerði. Umfram þetta er mín skoðun (ég var víst aldrei búin að útlista skoðun mína enda eðlilegt að gera það fyrst á fundinum) að það sé varla hægt að kalla svona "opinbera dreifingu". Það voru ótrúlega margir sem að laginu komu sem gátu "lekið" því og ekkert sem sannaði að keppendur hefðu gert það vísvitandi enda varla sú desperasjón í þeim að grípa til þeirra ráða. Enda verður erfiðara að selja disk með laginu ef það er komið í allar tölvur. Síðan er ekki vel skilgreint hvað má, eða má ekki þegar kemur að Netinu - sem nota bene er sossum ekki neitt flúnkuný tækni.

Þriðjudagur 7. febrúar 2006 kl. 22:27

Alla:

Hm - já, muna að beygja: Silvíu Nóttar! Úff! Verð að viðurkenna ég hef bara enga skoðun á hinu málinu.

Þriðjudagur 7. febrúar 2006 kl. 22:58

Heh, átti ég nú ekki að segja Sylvíu Nætur ef út í það er farið?

Þriðjudagur 7. febrúar 2006 kl. 23:38

JBJ:

Nóttar og Nætur eru jafngildar beygingarmyndir, meira um það á íslensku Wikipediu... http://is.wikipedia.org/wiki/N%C3%B3tt

Miðvikudagur 8. febrúar 2006 kl. 09:39

Gott að heyra þá get ég notað það eftir hentugleikum;-)

Miðvikudagur 8. febrúar 2006 kl. 11:12

Tryggvi Rafn Tómasson:

Ég held að í þessu máli séu bæði rök með og á móti. Í fyrsta lagi hefur Kristján Hreinsson rétt fyrir sér með því að það sé ósanngjarnt gagnvart hinum keppendunum að einn keppandi fái sérmeðferð en hinir mega bara éta skít en rökin sem hann færir fyrir því að vísa eigi þessu blessaða lagi úr keppni eru frekar léleg finnst mér. Eftir að hafa horft á manninn í Kastljósi á mánudaginn finnst mér nú ekki mikið til hans koma sem persónu. Ég vona að ég móðgi engan með því að segja það en það hefði mátt halda á tímabili að maðurinn hefði hey í hausnum í staðinn fyrir heila. Hann talar um reglur og að það þurfi að fylgja reglum sem er gott og gilt og einnig að höfundur lagsins sem í þessu tilviki er Þorvaldur Bjarni sá ágæti maður, eigi að vera ábyrgur fyrir því að lagið fari ekki í dreifingu á netinu eða milli manna með því að láta eitthvern annan hafa það. En nú hefur maður heyrt að höfundar laga í þessari ágætu keppni hafi skipst á lögum til að fá feedback og athugasemdir. Eins hef ég heyrt þær kjaftasögur á uppáhaldsvef Láru þ.e Barnalandi.is að önnur lög hafi líka verið sett á netið en ekki þótt eins áhugaverð. Því hlýtur maður að setja fram þá spurningu, fyrst það á að reka Silvíu Nótt úr keppni af hverju á þá ekki að reka hina keppendurna úr keppni þar sem lögum þeirra var líka dreift á netinu???? Svo við víkjum nú að öðru. Maðurinn (Kristján Hreinsson) talar um reglur og hamrar á því að reglur séu reglur og að reglum verði að fara eftir og allir eigi að sitja við sama borð. Ok, það má vel vera að reglur hafi verið brotnar með því að setja lag Silvíu Nætur á netið en hvað með það sem KH sagði sjálfur í Kastljósi. Hann viðurkenndi að hafa skilað texta fram yfir skilafrest, eitt af lögunum sem hann samdi texta við var mínútu of langt en fékk samt að taka þátt. Ef KH krefst þess að láta vísa Silvíu Nótt úr keppni, á þá ekki að vísa honum líka úr keppni þar sem maðurinn viðurkenndi fyrir alþjóð í beinni útsendingu að hann hafi sjálfur brotið reglurnar. Eða finnst honum hann vera það merkilegur að engar reglur nái yfir hann en allir aðrir þurfi að fara að reglum. Nú er ég 23 ára. Átti afmæli í gær, með stúdentspróf af náttúrufræðibraut og hef það að atvinnu að afgreiða fólk í matvöruverslun. Ég hef ef til vill lítið sem ekkert vit á þessu máli en ég hef þó sterkar skoðanir um það. Mér finnst ákvörun útvarpsráðs sem það komst að í gær vera hárrétt. Það er ekki hægt að sanna það að höfundar lagsins "til hamingju Ísland" hafi lekið því á netið. Þeir hafa neitað því og ég ásamt 6565 öðrum einstaklingum trúi því og treysti. Sjá nánar slóð að undirskriftarlista í Fréttablaðinu í gær. Við Íslendingar höfum reynt ýmislegt í Eurovision. Við höfum reynt róleg dægurlög. Þá minnist ég í því sambandi harmleikinn sem átti sér stað í Istanbul árið 2004 er Jónsi söng lagið " Heaven". Það varð til þess að við þurftum að fara í gegnum forkeppnina úti árið á eftir. Við reyndum Selmu árið 2005. Það gekk ekki, við lentum í 28. sæti af 36. Mér (og ég held að ég sé ekki einn um þá skoðun) finnst að það sé kominn tími til að við Íslendingar sendum eitthvað atriði sem verður tekið eftir í Söngvakeppnina eins og Silvíu Nótt. Eurovision aðdáendur eru að fýla svona óhefðbundin atriði. Förum aftur til ársins 1998. Fyrir hönd Þýskalands það árið keppti ágætur maður að nafni Guildo Horn. Hann vakti athygli fyrir að vera elsti keppandi í Eurovision það árið og einnig fyrir að vera með mjög frumlegt og skemmtilegt atriði sem var frábrugðið þessu klassíska Eurovision þema. Hann lenti í 7. sæti. Dana International skrifaði sig á spjöld Eurovision sögunnar með því að vera fyrsti kynskiptingur til að taka þátt í þessari keppni og vinna hana. Þetta gerðist allt árið 1998. Ég get alltaf horft á upptökuna af þeirri keppni aftur og aftur þá sérstaklega útaf því að kynnir okkar Íslendinga hann Páll Óskar fór gjörsamlega hamförum og var og er mjög skemmtilegt að hlusta á lýsingu hans af keppninni í dag. Árið sem ég útskrifast úr MH eða 2003 sama ár og Birgitta keppir fyrir Íslands hönd kemur Alf Pouer, Austuríkismaður með afar frumlegt atriði. Hann var með mömmu sína og systur í bakröddum og pappahljómsveit. Hann náði 4-5 sæti. Hver man svo ekki eftir ömmunni sem bar bumbuna í keppninni í fyrra. Það voru ungir drengir frá Moldavíu sem kepptu það árið og þeir komust langt. Mig minnir 6. sæti. Því spyr ég, því ekki að senda Silvíu út. Það er bókað mál að við komumst í gegnum forkeppnina og í aðalkeppnina og munum koma til með að vekja heimsathygli og einnig munum við taka þátt í aðalkeppninni næsta ár. Kristján Hreinsson: dragðu þessa kæru þína til baka og hlustaðu á íslensku þjóðina. Hlustaðu á það sem hún vill. Ekki skemma einu von okkar til þess að slá í gegn betur en nokkru sinni. Eitthvað sem við munum seint koma til með að gera aftur. Í guðanna bænum fyrir alla Íslendinga, dragðu kæru þína til baka. Þakka lesturinn og munið eftir að versla í bestu búðinni.

Tryggvi Rafn Tómasson

Miðvikudagur 8. febrúar 2006 kl. 14:12

Kolbeinn:

Mjög góður pistill hjá þér Tryggvi, ég held að það séu ansi margir sammála þér :) Svo er það þetta með dreifinguna á netinu (lekann), ég get ekki séð að hægt sé að flokka það sem opinberan flutning, en eftir því sem mér skilst þá er það ákvæðið í reglunum sem málið snýst um. Ef Silvía Nótt fer í heimahús og flytur lagið fyrir viðstadda þá telst það varla opinber vettvangur :) Svo er það þetta með stafsetningu og beygingar, þá var mig farið að gruna að ég væri að skrifa nafnið hennar rangt, þ.e. Silvía en ekki Sylvía en komst að því að hún skrifar sig með einföldu, a.m.k. á vef Skjás eins (bæði nöfnin eru til þótt Sylvía sé algengara í íslensku).

Miðvikudagur 8. febrúar 2006 kl. 17:20

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.