« Skírn: Sigurbjörg Brynja | Aðalsíða | Flickr er frábært »

Miðvikudagur 22. mars 2006

Ágúst, Bakkavör og útrásin

Ég var á gríðarlega skemmtilegum fyrirlestri Ágústar Guðmundssonar stjórnarformanns Bakkavarar í Háskólanum á Akureyri nú rétt áðan. Ágúst náði að gera fyrirlesturinn áhugaverðan, skemmtilegan en einnig þannig að um margt er að hugsa á eftir. Sumsé allt sem gerir einn fyrirlestur virkilega þess virði að hlusta á hann. Glærur lét hann að mestu bara eiga sig sem var fínt því pilturinn hefur ágætis frásagnargáfu og getur hrifið áheyrandann inn í þá atburðarrás sem hann er að lýsa. Enda augljóst að hann hefur óskaplega gaman af því sem hann er að gera. Þau atriði sem ég dvel við og er að hugsa um eru nokkur. Fyrsta atriðið er viðhorfið til frumframleiðslu, annað er áhrif útrásarfyrirtækja á Ísland, þriðja breytt hlutverk fjármagns í atvinnurekstri og að síðustu hversu miklu máli áhugi og jákvæðni skiptir í því sem verið er að gera.


Það viðhorf Bakkavararbræðra að það væri ekki framtíð eða vöxtur í frumframleiðslunni heldur þeirri framleiðslu sem byggir á henni er eitthvað sem við Íslendingar tölum oft um en framkvæmdir okkar lýsa því sjaldnar. Við erum að leggja gríðarlegar fjárfestingar í frumframleiðslu s.s. álver og fiskveiðar. Sérstaklega á landsbyggðinni. Við landsbyggðarmenn erum verksmiðjufólk landsins. Ekki svo að skilja að ég sé neitt á móti fiskveiðum og álveri en okkur skortir að vinna meira ofan á þessa frumframleiðslu. Afar lítið hér á landi byggir á allri þeirri álvinnslu sem er í landinu. Ekki erum við að framleiða hernaðartæki, flugvélar eða annað sem nýtir álið heilmikið. Ættum við að hugsa lengra hérna við erum að framleiða hráefni fyrir hernað og fleiri þætti. Ég hef svosem ekki sérstakan áhuga á framleiðslu hernaðartóla en við erum samt að framleiða fyrir þann markað. Það sló mig síðan að Ágúst benti á að það væri nú samdráttur í sölu frosinna matvæla en vöxtur í kældum matvælum sem væru framleidd í verskmiðjueldhúsum. Við sjáum þessa þróun hér á landi í matvöru sem framleidd er úr kjúklingum og lambi svo dæmi séu tekin. En erum við að taka nógu vel eftir þessu hvað varðar fiskiðnaðinn?

Ég spurði Ágúst um hvaða gildi fyrirtæki eins og hans hefði fyrir Ísland. Ég var að velta fyrir mér hver væri gagnsemin af einhverju sem væri farið, framleiðslan, eigendurnir og hér væri eftir tiltölulega lítið. Hann svaraði því að þeir geymdu peninga á Íslandi því hér væru skattar lágir, þeirra eigin skattar væru þó greiddir á Bretlandi. Þeir nýta þjónustu héðan og taldi hann að afleidd áhrif af Bakkavör væru gríðarleg hér á landi. Má þá segja að þar sem þeir sem standa í íslensku útrásinni verða fyrir ákveðnum hindrunum erlendis vegna þeirra viðhorfa sem þeir mæta geti fengið sérfræðiþekkingu og þjónustu héðan frá fólki sem þekkir menningu þeirra og bakgrunn? Ættum við þá e.t.v. fremur að einbeita okkur að því að þjónusta önnur lönd en að framleiða frumvörur fyrir þau?

Ágústi var síðan tíðrætt um hlutverk fjármagns í atvinnurekstri. Við Íslendingar erum oft að ræða um hversu gott er að vera voða ríkur, en ætli það sé ekki eins og með sykurinn og vatnið að þú leysir ekki upp nema ákveðið magn af sykri í vatnsglasi, hitt leggst á botninn. Þannig að fjármagnið sem þessir bræður eru að fást við er svo mikið að enginn einstaklingur getur nýtt það í eiginhagsmunaskyni enda hafa athafnamenn kannski einmitt ekkert rosalegan áhuga á því. Þeir vilja nýta fjármagnið til athafna en ekki flytja það til annarra með neyslu sinni. Ágúst benti á að það skipti meginmáli að það fjármagn sem reksturinn skilar geti staðið undir þeim lánum sem tekin eru til rekstrarins og eigið fé fyrirtækja skipti litlu eða engu máli. Þetta er áhugavert. Við höfum séð kaupleigufyrirkomulag ryðja sér til rúms hér á landi í æ ríkari mæli. Margir hafa bílana sína á rekstrarleigu en eru ekki að eiga þá enda sé bíll í rauninni rekstrarkostnaður en ekki eign. Sama má segja um tölvur. Þetta má í rauninni yfirfæra og segja þá að eign fyrirtækis sé í rauninni rekstrarkostnaður og fjármagn sé betur nýtt til athafna en geymslu í eigin fé í fyrirtækisrekstri. Þetta er athyglisvert og tengist svo mörgu. Til dæmis hef ég rætt á þessari síðu hvernig fjarvinna verður æ öflugri í alþjóðavæðingunni og þá ekki endilega einföld vinna heldur sérfræðivinna s.s. þjónusta sérfræðilækna frá Indlandi við sjúkrahús í Bandaríkjunum. Endurskoðendur á Indlandi þjónusta einnig viðskiptavini þar o.s.frv. Og hvar er tengingin mætti þá spyrja, jú eignin og heimilisfestan og það sem segja má að sé - fast - er það hugtak sem er að breytast. Fyrirtækið á ekki að eiga peninga, hús, tæki eða annað. Veltan þ.e. fjárstreymið í gegnum fyrirtækið skiptir meginmáli og hversu mikið af því má taka til að gera annað. Ekki það að geyma peninginn inn í fyrirtækinu, á lager eða á bankabók. Verðum við þá ekki að fara að hugsa verslun og viðskipti á annan hátt?

Síðasta atriðið er síðan áhugi og jákvæðni, Ágúst hefur greinilega ofboðslega gaman af því sem hann er að gera. Það sem gerði þennan fyrirlestur svo skemmtilegan var það að hann hafði miklu meiri áhuga á að lýsa framkvæmdum og árangri en gróða og ríkidæmi. Ég hef séð þennan áhuga hjá fólki sem virkilega er að ná árangri, þetta er það sem skiptir máli. Hvort sem þú ert að mála myndir, reka fyrirtæki, rækta kál eða hvað það er. Svo áhugi, kraftur og jákvæðni er líklega það sem skiptir mestu máli í hverju sem maður tekur sér fyrir hendur;-)

En þetta var frábær fyrirlestur og tímanum var virkilega vel varið að fara og hlusta á Ágúst. Þýðir nú sossum kannski ekkert að þakka honum fyrir hann á þessari síðu enda les hann hana örugglega ekki en takk samt, þetta var frábært.

kl. |Pólitík

Álit (3)

Ég var líka á þessum fyrirlestri og get tekið undir með þér að þetta var afar áhugavert og skemmtilegt. Það verður án efa spennandi að fylgjast með Bakkavör í framtíðinni.

Miðvikudagur 22. mars 2006 kl. 19:58

Jóhannes Sigursveinsson:

Þetta sem kemur fram um Bakkavör og viðhorf Bakkavarabræðra er alveg stórfurðulegt að mínu mati. Ef litið er til sögu Bakkavarar má fólki vera fullljóst hvað ég er að fara.

Föstudagur 24. mars 2006 kl. 23:21

Mér er það ekki ljóst enda hef ég svosem ekki verið að fylgjast með viðskiptum þeirra bræðra. Ég er fyrst og fremst að ræða hér um fyrirlesturinn sem slíkan sem var býsna góður og vangaveltur mínar út frá því. En endilega skýrðu út fyrir mér hvað þú átt við.

Föstudagur 24. mars 2006 kl. 23:48

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.