« Alþýðumenning | Aðalsíða | Auglýsir RÚV fyrir XD? »

Laugardagur 13. maí 2006

Dauði pólitískra flokka? Óháðir lifa?

Ég hef velt fyrir mér öllum þessum "óháðu" framboðum um allt land og hvað það er sem gerir það að verkum að menn óttast, eða forðast, að taka þátt í stjórnmálum undir merki ákveðins stjórnmálaflokks hver svo sem hann er. Ég hef fengið margar skýringar án þess að ég sé nokkru nær um nema hvernig sá sem svarar skilur það. Nokkrir hafa beinlínis sagt að þeir óttist um atvinnu sína eða velferð ef þeir gefa upp skýra afstöðu sem er e.t.v. ólík vinnuveitanda þeirra. Á fundi í dag var haft eftir manni sem hafði skrifað upp á stuðning við ákveðinn pólitískan lista að við hann var haft samband, að sögn vegna atbeina ákveðins ráðherra, og lýst óánægju með þá undirritun. Aðrir vilja meina að það felist einhverskonar "spilling" í því að vera í stjórnmálaflokk og því sé betra að vera "óháður" því þá séu menn frjálsir. Er starf í einhverjum stjórnmálaflokk þannig að það hindri frelsi manna? Er ástæða til að kanna hversu traust lýðræðið er í landinu? Er verið að þvinga menn svo vegna pólitískrar afstöðu að menn vilji ekki taka hana? Eru þessi óháðu framboð myndbirting pólitískrar kúgunar? Eða er hið ósagða og óttinn við að hugsanlega - kannski - geti einhver beitt þá þvingun vegna pólitískrar afstöðu orsökin. Erum við Íslendingar orðnir hræddir? Ef svo - er óttinn þá ekki frelsissvipting sem men beita sjálfan sig án þess að það sé nokkur raunveruleg ógn fyrir hendi?


Nauðsynlegt er að skoða hvernig pólitískir flokkar starfa og kanna hvort starfsemi þeirra er með þeim hætti að fólk forðast þá og vill ekki taka þátt í þeim. Í mínum huga er binding við pólitískan flokk yfirlýsing um meginsýn á hvernig mannlífið er í landinu. Ég valdi Samfylkinguna vegna þess að hún hefur jafnrétti og jöfnuð í fyrirrúmi. Slíkt skiptir mig meginmáli vegna þess að ég tel að ákveðin lífshamingja sé fólgin í því að lifa með reisn í samfélagi við fólk sem lifir við sömu reisn. Fólk skiptir mig máli - að það geti lifað og starfað í sátt við umhverfið og sjálfan sig óháð heilbrigði, lífsviðhorfum og manngerð.

Þegar það er ljóst að ég sé Samfylkingarmaður þá er líka ljóst að ég stend fyrir ákveðin gildi. Það er hinsvegar ekki ljóst hver afstaða mín er í einstöku viðfangsefni eða málefni fyrr en ég hef tjáð hana. Hinsvegar er ljóst að ég tek afstöðuna byggða á þeim gildum sem eru fyrir hendi hjá flokknum. Enginn veit hvernig sá óháði tekur ákvörðun, hvað það er sem liggur að baki þeim gildum sem hann leggur til grundvallar. Matið getur ekki byggst á neinu nema skoðun á einstaklingnum eða einstaklingunum sem eru "óháðir" og eigin mati á hversu óháðir öllu og öllum viðkomandi eru. Breytist aðstæður viðkomandi og hann hverfur af hinum pólitíska vettvangi tekur annar við með allt önnur gildi og mat á umhverfinu. Sameiginleg sýn er e.t.v. engin.

Allavega finnst mér áhugavert að velta þessu máli upp eftir að hafa verið að skoða kosningavefinn á Netinu.

kl. |Pólitík

Álit (1)

"Óháður". Hvað er það eiginlega í stjórnmálum? Fyrir mér eru "óháð framboð" samansafn af tækifærissinnum. Stjórnmálaleg gildi hljóta alltaf að vera grundvöllur fyrir framboðum bæði til sveitastjórna og Alþingis. Þar með eru frambjóðendur trauðla óháðir eftir að þeir hafa kvittað fyrir framboð sitt á listanum sem þeir bjóða sig fram fyrir. Þeir eru að sjálfsögðu háðir listanum sínum og því fólki sem þeir geta talið trú um að þeir séu hinir einu réttu pólitísku flórunni. Nema náttúrulega að þeir séu "óháður" til að geta skipt um skoðun jafn oft og venjuleget fólk skiptir um nærföt. En þá gæti það sparað sér amstrið með "óháðu framboði" og komið sér fyrir í framsókn hjá hinum tækifærissinnunum.

Því miður er hin "óháðu framboð" oft borin fram af atvinnunöldrurum sem hafa málað sig út í horn í hinum hefðbundnu stjórnmálahreyfingum. Þess vegna lifa þessi framboð sjaldnast lengur en eitt kjörtímabil ef á annað borð tekst að blása lífi í þau í kosningabaráttunni. Nöldrararnir koma enfninlega alltaf upp um sjálfa sig áður en minnst varir og eftir það nennir engin að hlusta á þá og alls ekki taka mark á þeim.

Þess vegna finnst mér vænlegra til árangurs að bjóða fram flokk, eða söfnuð!!, sem stendur fyrir einhverjum mannlegum gildum í stað þess að fela sig á bakvið eitt orð, "óháður".

Þriðjudagur 16. maí 2006 kl. 06:17

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.