« Tilveran tilbúin | Aðalsíða | Dauði pólitískra flokka? Óháðir lifa? »

Föstudagur 12. maí 2006

Alþýðumenning

Í stefnu Samfylkingarinnar á Akureyri í menningarmálum er einn meginpunkturinn alþýðumenning. Alþýðumenning er mikilvægur þáttur í lífi og starfi, eflir andann og veitir ánægju. Sem betur fer hefur virðing fyrir alþýðumenningu aukist mjög undanfarin ár og má sjá þess mörg merki. Handverkshátíðin á Hrafnagili er fjölsótt og skemmtileg en þar má sjá afurðir margra handverksmanna sem koma víða að. Við skilgreinum alþýðumenningu sem:

* tómstundasköpun íbúa bæjarins við handverk ýmiskonar, skáldskap og leiklist, eða þá listiðkun þar sem listamenn fá ekki beinar launagreiðslur við vinnu sína en geta selt verk sín í einhverjum tilfellum.

* handverki og heimilisiðnaði að fornu og nýju sem íbúar bæjarins hafa hug á að stunda eða kynnast.


Við Akureyringar eigum mikinn fjársjóð í Punktinum en það eru ófáir bæjarbúar sem þangað hafa sótt fróðleik og nám um fjölbreytt handverk. Með flutningi hans í Rósenborg má segja að loks hafi þessi handverksmiðstöð fengið öruggt húsnæði þar sem hægt er að skipuleggja til framtíðar því ljóst var að húsnæðið í Gilinu var einungis til bráðabirgða.

Nauðsynlegt er að efla alþýðumenningu og nýta Punktinn vel, fá þangað fagmenn á ýmsum sviðum og virkja íbúa bæjarins til sköpunar.

Þrátt fyrir að það séu fagmenntaðir listamenn sem bera uppi að miklu leyti þann arðbæra atvinnuveg sem menningin er þá er mikilvægt að hafa í huga að handverksfólkið hefur einnig eflt atvinnu víða um land, það varðveitir forna menningu og skapar nýja.

Punkturinn hefur verið mér mikill hugljómunarstaður í nokkur ár. Þar hef ég farið á fimm námskeið um leirgerð og skapað mörg en misgóð verk en ánægjan hefur verið í fyrirrúmi. Ég gerði skálar fyrir alla gesti í fermingu sonarins, þeir fengu ís í skálina sem þeir máttu síðan taka með sér heim til minningar um ferminguna. Einnig hef ég haft ánægju af því að gefa og sumir hafa jafnvel haft gaman af því að fá gjafirnar. Þar hef ég lært að bræða gler í ýmsa listmuni, leggja mósaík sem ég hélt fyrirfram að væri ekkert spennandi en annað kom á daginn. Þar geri ég kerti fyrir jólin og þar lærði ég að búa til haframjölssápur. Þegar mig langaði að læra um þæfingu gat ég lært það þar. Hér má sjá nokkrar afurðir, ekki kannski meistaraverk en þetta eru verkin mín og ég er stolt af þeim.

Punkturinn hefur auðgað líf mitt, ég hef lært að skilja og meta handverk, dáðst að verkum annarra og kynnst nýjum hlutum sem ég vissi ekki að væri til. Því er mér það mikil ánægja að flokkurinn minn, Samfylkingin á Akureyri, leggur áherslu á að efla Punktinn með því að:

* gera íbúum kleift að nema og iðka handverk af ýmsu tagi.
* Styðja við sýningar Punktsins á handverki líkt og sýningarnar um handverk flóttakvenna, jól bernsku minnar o.fl.
* Starfandi séu m.a. fagmenn á sviði handverks og heimilisiðnaðar.
* Auglýsa námskeið að sumri þar sem hægt er að heimsækja bæinn og nema á sama tíma.


Ég vona að við náum slagkrafti í komandi kosningum til að láta þessa drauma rætast.

kl. |Pólitík

Álit (3)

Ég skal taka undir mikilvægi starfseminnar er fram fer í Rósenborg, en þá á ég ekki einungis við Punktinn, heldur og Menntasmiðju og Alþjóðastofu.

Játa skal ég að ég hef ekki sótt neitt af námskeiðum Punktsins, en ég hef þó laumast þangað í fáein skipti til að nýta mér verkfæri og aðra aðstöðu. Þá hef ég yfirleitt gefið mér tíma til að svipast um og virða fyrir mér öll þau undur er þarna verða til, hvort sem um nytjahluti fyrri tíma er að ræða eða nýsköpun af hvers kyns tagi. Það fer ekki á milli mála hve gefandi Punkturinn raunverulega er.

Myndirnar af verkunum þínum finnast mér alveg aðdáunarverðar, einkum þó lampafóturinn, gersemahirslan og glerskálin. :)

Laugardagur 13. maí 2006 kl. 19:43

Takk fyrir það;-) Og takk fyrir kommentið mér þykir vænt um að fá þau;-)

Laugardagur 13. maí 2006 kl. 19:55

Það var lítið. :)

Ég kannast við þessa notalegu tilfinningu sem hríslast um mann allan þegar einhver skráir athugasemdir við færslurnar á vefdagbókinni. Ég myndi gjarnan "kommenta" oftar, en ég hef yfirleitt haft það til siðs að þegja fremur en hitt ef ég ekkert sæmilega gáfulegt eða skondið fram að færa. Ég hef hins vegar ekki hundsvit á stjórnmálum né fótbolta, og því þegi ég oftar. ;)

Laugardagur 13. maí 2006 kl. 20:32

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.