« Hverjir geta keypt lögreglu? | Aðalsíða | Barnið þrítugt »

Þriðjudagur 15. ágúst 2006

Óhollt að vera ríkur?

Samkvæmt rannsókn Tinnu Laufeyjar Ásgeirsdóttur virðast mjög há laun leiða til slakari heilsu og því er freistandi að álykta sem svo að það sé óhollt að vera verulega ríkur. Spurningin er hversu miklir peningarnir þurfa að vera til þess að vera beinlínis óhollir. Þannig að mikil misskipting launa er ekki einungis slæm fyrir samfélagið og þá sem minna bera úr býtum heldur líka þá sem hafa mjög há laun. Því er það nú gustukaverk við þá líka að leggja áherslu á að jafna kjörin í landinu. Allt of há laun leiða til þess að menn verða að leggja talsverða vinnu í að hugsa um peninga því það er einhver endir á hversu miklu menn geta spanderað í sig og sína á einum mánuði. Þannig geta þeir sem hafa verulega há laun vart einbeitt sér fyllilega í vinnunni því þeir þurfa að gæta eigin fjár. Því er undarlegt að fyrirtæki velji að glepja svo fyrir starfsmönnum sínum.


Það felst engin gæfa í því að efna til ófriðar í landinu en nú er hann í uppsiglingu vegna þess gífurlega launamunar sem er að festa rætur. Hingað til hafa menn helst beint spjótum sínum á Alþingismenn þegar nauðsyn er að minna á jöfnuð í landinu. Nú er hinsvegar þannig komið að sá þingmaður sem allra hæstu launin hefur þ.e. Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra kemst ekki inn á lista 100 tekjuhæstu stjórnenda fyrirtækja. Hann er heldur ekki hæstur meðal næstráðenda. Hann kemst inn á top 75 hjá starfsmönnum fjármálafyrirtækja

Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður sem barist hefur fyrir auðmenn hefur svipuð laun sem þingmaður og Þröstur Árnason hefur fyrir sjómennsku á Skagaströnd, Alma Birgisdóttir hjúkrunarframkvæmdastjóri Hrafnistu, Óskar Ingi Ingason prestur í Búðardal, Vignir Snær Vigfússon tónlistarmaður í Írafári, Sveinn Pálsson sveitarstjóri í Vík í Mýrdal og litlu lægri laun en Svanhildur Hólm Valsdóttir dagskrárgerðarmaður. En ef hann verður gamall og kemst á eftirlaun þá er hann væntanlega betur staddur en þau hin.

Nauðsynlegt er að horfa raunsæjum augum á þann launamun sem er að birtast sátt þarf að vera í landinu og síðast en ekki síst þarf að hindra það að menn búi við það óholla líferni að vera of ríkir.

kl. |Pólitík

Álit (12)

Erla:

Samkvæmt the Guardian er líka hvort eð er orðið ,,tacky" að vera ríkur
http://money.guardian.co.uk/feature/story/0,,1844868,00.html

Þriðjudagur 15. ágúst 2006 kl. 12:37

Ég myndi ráðleggja þér að lesa alla greinina í það minnsta eða ná þér í eintak af rannsókninni.
Ég geri í það minnsta ekki mikið með það sem rannsakandi sjálfur kallar "óverulegan mun" og svo ég grípi setningu úr greininni sjálfri:
"Rannsóknin sýnir fram á að stjórnvöldum hafi hingað til tekist að stuðla að nokkuð jöfnu heilbrigði Íslendinga þar sem tekjur þeirra hafa vissulega eitthvað að segja, en virðast þó ekki ráða úrslitum."

Þessi áhrif sem talað er um að sjáist "þegar kafað er dýpra í gögnin" fyrir hátekjufólk gæti skýrst af lífsstíl frekar en innistæðu í bönkum.

Muna: Fylgnisamband þýðir ekki endilega að um sé að ræða orsakasamband ;)

Þriðjudagur 15. ágúst 2006 kl. 12:51

Ég las greinina alla og veit að fylgni segir ekki endilega til um orsakir. Enda er það þess vegna sem ég veit að megindlegar rannsóknir eru alla jafna ekkert sérstaklega upplýsandi þar sem að já svar við spurningu rannsóknar segir ekki endilega til um hvað jáið þýðir nema að spurningin sé því skotheldari sem sjaldnast er. Til dæmis spurningin "Borðar þú hafragraut" segir ekkert til um hvort fólk vilji endilega hafragraut þó svarið sé já, verið getur að fúllyndur faðir troði graut í varnarlaus börnin sem finnst hann vondur. En það upplýsir að viðkomandi borða grautinn. Þó svo að Tinna Laufey segi skýrt að hingað til höfum við haldið hlutunum nokkukð jöfnum og þessi áhrif hafi ekki verið hér þá er ljóst að nú er að verða gífurleg breyting þar á og ekki óeðlilegt að álykta að það muni hafa sömu áhrif hér og t.d. í Bandaríkjunum og á Bretlandseyjum þ.e. að ofurlaun leiði til óheilbrigðis. Hvað það síðan er sem gerir það að verkjum að heilbrigðið minnkar er síðan annar hlutur og önnur rannsókn ekki satt;-)

Þriðjudagur 15. ágúst 2006 kl. 13:12

Tja, ef þú vilt skella þessu á megindlegar aðferðir þá er það þitt val. Eigindlegar myndu samt segja þér ennþá minna og alhæfingargildið væri þá nákvæmlega ekkert. Það er nánast útilokað að búa til hálfrannsókn eða rannsókn til að svara þessari spurningu af einhverri vissu, því miður. Ef munur er óverulegur þá er væntanlega ekki verið að tala um tölfræðilega marktækan mun? Það koma þó engar slíkar nauðsynlegar upplýsingar... skrítið.
Það er slæmt hvort sem um megindlegar eða eigindlegar niðurstöður er að ræða þegar tekin eru heljarstökk í ályktunum út frá takmörkuðum niðurstöður.

Svo mætti setja upp aðra athugun sem gæti verið áhugaverð og það er að spyrja einstaklinga á mismunandi tekjubilum um: a) lífsstíl (hreyfing, hollusta, heilbrigðisþjónusta) og b) forgangsröðun (fjölskylda, vinna, heilbrigði, fjárhagslegt sjálfstæði, o.s.frv.).

Þriðjudagur 15. ágúst 2006 kl. 13:20

Hárrétt hjá þér það er ekki hægt að álykta út frá eigindlegum rannsóknum (ferskur í sinni).

Hinsvegar ert þú eitthvað að misskilja held ég, það er ekkert heljarstökk í ályktun að telja að líkir hlutir gerist hér á landi og í tilteknum útlöndum það er nokkuð viðurkennd notkun á ályktunum. Ég skilgreindi hinsvegar ekki hugtakið "allt of há laun" sem er grundvallaratriði í röksemdarfærslunni. Þ.e. hversu mikið hærri laun í Bandaríkjunum og Bretlandi leiða til þessa meinta heilsuleysis sem rannsóknir sýna jú sannarlega fram á og kemur fram í greininni sem við lásum bæði alla;-) Hinsvegar veit ég vel að Tinna Laufey segir að slíkt sé ekki farið að koma fram hér á landi enda eru ofurlaun tiltölulega nýtt fyrirbæri af þeirri stærðargráðu að það væri e.t.v. mælanlegt

Þriðjudagur 15. ágúst 2006 kl. 13:57

Reyndar en það er allt önnur spurning en hvort háu launin séu óholl. Spurningin er svo hvernig og hvort heilbrigðiskerfið bregst við þessum s.k. "ofurlaunum". Mun verða til lagskipt heilbrigðisþjónusta eins og lögmál um framboð og eftirspurn myndu spá fyrir um? Viljum við búa í þannig samfélagi? Það er náttúrulega pólitísk spurning sem kemur niðurstöðum Tinnu ekkert við ;)
Hefur þetta launabil hér á landi ekki verið borið saman við sambærilegt bil erlendis?
Þetta er í raun tvískipt:
a) það að launamunur og heilbrigði sé ekki núna tengt á Íslandi ólíkt samanburðar útlöndunum
og
b) allra hæstu tekjurnar tengjast minna heilbrigði með óverulegum hætti

Ég er að tala um b hlutann (enda hitt voðalega ómerkilegt...) en a hlutinn blandast inn í svörin hjá þér ;) B hlutinn er sá sem mér finnst óæskilegt að draga ályktanir út frá, enda fáir fáir einstaklingar á bak við þetta (líklega vegna smæðar hópsins á Íslandi) og eins og þú bendir réttilega á engin langtímaáhrif.

Þriðjudagur 15. ágúst 2006 kl. 14:07

Enda fjallar umræðan um hvort við séum á farsælli braut með ofurlaunin þar sem þau geti stuðlað að óheilbrigði. Ekki deyja allir sem reykja vegna reykinga en samt er allt tóbak merkt. Þá er spurning hvort við verðum að merkja peningaseðla með viðvörunum þannig að fólk sé ekki að sanka að sér of miklu af þeim;-)

Þriðjudagur 15. ágúst 2006 kl. 14:25

Ég er næstum því viss um að það væri hægt að finna eitthvert snefilefni í peningaseðlum og/eða klinki sem er krabbameinsvaldandi ;) í nógu miklu magni.

Þriðjudagur 15. ágúst 2006 kl. 14:39

Það er alltaf skemmtilegt að ræða við þig um rannsóknir;-) Þeir hafa ekkert náð að laða þig að eigindlegum rannsóknaraðferðum þarna í Háskólanum á Akureyri?

Miðvikudagur 16. ágúst 2006 kl. 00:14

Hvað meinaru ;)? Það er allt löðrandi í eigindlegum aðferðum í mastersverkefninu mínu í HÍ ;)

Miðvikudagur 16. ágúst 2006 kl. 10:37

Ah það verður gaman að lesa það;) Treysti því að ég fái að gera það þegar það er tilbúið. En það þýðir ekkert að vísa í framtíðarbókmenntir;-) Fer ekki að styttast í þetta tímamótarit?

Miðvikudagur 16. ágúst 2006 kl. 12:31

Jú jú, fyrsti hluti er að koma úr yfirlestri frá leiðbeinanda núna í lok mánaðarins. Síðustu viðtölin eru á næstu dögum og ég verð á Akureyri við skriftir í lok næstu viku og næ vonandi að klára niðurstöðukaflann og þá á ég bara umræðuna eftir.
Síðasti dagur til að skila inn er svo 2. okt.

Miðvikudagur 16. ágúst 2006 kl. 12:35

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.