« Tölvuskólinn Þekking | Aðalsíða | Kjördæmisþing á sunnudag »

Miðvikudagur 6. september 2006

Aðstandendur vímuneytenda

Þegar við ræðum um vímuvanda á Íslandi hættir okkur til að gleyma mikilvægum hópi sem eru aðstandendur þeirra einstaklinga sem eru í neyslu. Börn þeirra, maka, foreldra, systkini og aðra sem næst þeim standa. Því miður eru sumir svo miskunnarlausir að kenna þessu fólki um neyslu neytendanna eða útskýra út frá þeim þann vanda sem um ræðir. Þetta leiðir til þess að þessir einstaklingar sem hafa þurft að ganga í gegnum margar hörmungar missa kjarkinn og fara í sjálfsásökun og missa þrótt til að fást við vandann. Ég tel brýnt að við skilgreinum betur stuðning við aðstandendur vímuefnaneytenda á þann hátt að vandinn verði ekki líka þeirra heldur séu þeir í stakk búnir til að fást við vandann á þann hátt að neytandinn leiti sér aðstoðar.


Oft eru aðstandendur mjög niðurbrotnir þegar einn einstaklingur sem er í upphafi elskaður af sinni fjölskyldu breytist og verður smá saman öðrum byrði og ógn. Án þess að átta sig á aðlagar fjölskyldan sig að ofneyslunni, réttlætir óafsakanlega hluti, trúir að "allt muni lagast" og ásakar sig fyrri að "ef þetta" og "ef hitt" þá væri vandinn ekki fyrir hendi. Foreldrar sem eiga eitt barn í ofneyslu hættir til að setja alla sína orku í það barn en önnur verða útundan og horfa á, og læra, að sá sem neytir vímuefna í óhófi er í forgangi á heimilinu. Foreldrarnir reyna örvæntingarfullt að bjarga barninu sínu en baráttan verður óviðráðanleg, þeir verða magnþrota. Þeir þurfa oft að þola háðung í umhverfi sínu því þeir sem ekki þekkja til vandans og hafa ekki reynt á eigin skinni eru ótrúlega fljótt tilbúnir til að skilgreina sökudólga og setja sig á háan hest.

Ég tel brýnt að við förum að fræða almenning um þær hörmungar sem aðstandendur ganga í gegnum og finna leiðir þeim til stuðnings. Fjölskylda sem stendur sterkum fótum á auðveldara með að berjast gegn vímuefnaneyslu en sú sem er að þrotum komin. Ekki svo að skilja að vímuefnaneytandinn sé einkamál fjölskyldunnar heldur er það fjölskyldan fyrst og fremst sem verður fyrir barðinu á þeim neikvæðu þáttum sem fylgja ofneyslu vímuefna. Frá þeim er stolið til að greiða skuldir, þau þurfa að horfa upp á eigur sínar skemmdar, stundum verða þeir fyrir líkamsmeiðingum.

Örvænting þessa fólks er okkar örvænting og þeim má ekki gleyma.

kl. |Pólitík

Álit (2)

Valdís:

þrusu góð grein hjá þér, og allt svo satt!

Laugardagur 9. september 2006 kl. 10:44

Alla:

Takk fyrir fína grein, Lára mín. Löngu tímabært að styðja betur við aðstandendur og gera þá sýnilegri.

Sunnudagur 10. september 2006 kl. 21:50

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.