« Bryggjuskrall í Ólafsfirði | Aðalsíða | Skynsöm náttúruverndarstefna »

Miðvikudagur 13. september 2006

Ekki bara Akureyri

Mikið hefur verið í umræðunni undanfarið að Akureyringar þurfi sinn fulltrúa á Alþingi. Þetta er auðvitað hárrétt en það er ekki nóg því við erum í stóru kjördæmi, Norðausturkjördæmi, og hver sem býður sig fram verður auðvitað að vinna fyrir kjördæmið allt. Þó ljóst sé að við Akureyringar séum orðin þyrst í að geta beitt okkur á Alþingi þá held ég að það sé ekki í huga okkar að þingmenn Norðausturkjördæmis geti bara verið frá Akureyri.


Í stóru kjördæmi eru áherslurnar misjafnar, viðfangsefnin fjölbreytt og möguleikar manna misjafnir. Akureyri er stærsti byggðakjarninn og nýtur vegna þess sérstöðu. Sú sérstaða nýtist ekki einungis bænum okkar heldur nágrenninu og því er mikilvægt að tryggja liprar samgöngur þannig að við getum stækkað atvinnusvæðið. Þá er ég ekki með í huga að samgöngubætur nýtist einungis til að fleiri geti komið og starfað á Akureyri heldur einmitt að fjölbreytnin aukist innan svæðisins.

Vaðlaheiðargöng eru augljóslega samgöngubót sem stuðlar að stækkun atvinnu- og athafnasvæðis. Víkurskarð getur verið veðravíti og hættulegt að keyra í hálku og byl. Göngin eru arðbær og fjárfestar tilbúnir til verksins. Því er mikilvægt að leggja áherslu á að formsatriði á Alþingi séu okkur ekki hindrun og þessar samgöngubætur fáist sem fyrst.

Austurland er einnig hluti kjördæmisins og við viljum gjarnan starfa með Austfirðingum á öflugan hátt. Nú þegar er samstarf þónokkuð sem mætti auka enn frekar. Því er einnig mikilvægt að Austfirðingar eigi fulltrúa á Alþingi.

Konur eru oft þær sem flytjast búferlum eftir lífsgæðum og séu merki um að konum fækki á ákveðnum svæðum þá er nauðsynlegt að grípa til aðgerða. Þrátt fyrir að það hafi verið margítrekað að atvinnuleysi kvenna sé töluvert meira en karla virðist það ekki ná eyrum ráðamanna. Meðalatvinnuleysi allra á Norðurlandi eystra í júlí var 2,2% EN skiptingin er 1,4% karlar og 3,4% konur. Atvinnuleysi á Austurlandi er vart mælanlegt eða 0,3% en þar er atvinnuleysi karlanna 0,1% en kvenna 0,6%. Hirðuleysi manna um þetta hróplega ósamræmi milli kynjanna er óásættanlegt. Konur berjast fyrir réttindum kvenna og konur hafa oft aðra sýn á lífið en karlar. Því getur það ekki verið annað en krafa okkar kvenna að konur eigi öfluga fulltrúa á Alþingi.

En þó ég dragi fram að það réttlætismál að konur eigi verðuga fulltrúa á Alþingi þá er ekki svo frekar en um Akureyri að það eigi að vera BARA konur á þingi. Við þurfum ólíkt fólk sem er tilbúið til að berjast saman að mannréttindum íbúa Norðausturkjördæmis og sætti sig aldrei við að það sé sjálfsagt í hugum einhverra að höfðuborgarbúar séu forréttindastétt og komi landið sitt ekki við og fólkið sem þar býr.

kl. |Pólitík

Álit (1)

Gott innlegg Lára. Auðvitað er Akureyri stærsti staðurinn í kjördæminu. Það þýðir samt alls ekki að menn hér ætli sér að valta yfir aðra staði hér í krafti stærðar. Samfylkingin er jafnaðarmannaflokkur. Í þannig flokkum vinna menn með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Ef við ætlum okkur að losna við ríkisstjórn afturhaldsafkanna verðun við að vinna stórsigur í þessu kjördæmi. Þess vegna verður við að fá hér trúverðugan og traustan lista með víða skírskotun...annað væri slys.

Fimmtudagur 14. september 2006 kl. 10:32

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.