« Á Kópaskeri | Aðalsíða | Ekkifréttamennska Morgunblaðsins »

Föstudagur 16. mars 2007

Þórshöfn, Vopnafjörður, Egilsstaðir, Seyðisfjörður

Við héldum áfram ferðinni í fyrradag og þá til Þórshafnar í glaðasólskini og blíðu. Þar hitti ég Sturlu og Henrý á Vélaverkstæði Þistils sem Sturla stýrir. Þar var margt skrafað um pólitík en síðan sýndi Henrý mér bæinn, við fórum í íþróttahúsið sem hýsir sundlaug bæjarins, íþróttasal og margt fleira. Þaðan var farið í Hraðfrystistöð Þórshafnar og hittum einstaklega skemmtilega starfsmenn, þaðan fórum við um bæinn og vakti falleg kirkjan athygli mína en hún er tiltölulega ný og þekkt af góðum hljómburði. Við fórum á skrifstofu hreppsins og hittum Björn Ingimarsson sveitarstjóra sem fór yfir hafnarframkvæmdir sem hafa verið talsvert viðamiklar í sveitarfélaginu. Þaðan fórum við í áhaldahús bæjarins og greinilegt að þar eru þúsundþjalasmiðir sem leysa úr ótrúlegustu málum. Þá var haldið áfram til Vopnafjarðar.

Í Vopnafirði hittum við Ólaf Ármannsson í fyrirtækinu Bílar og vélar en þar var mikið að gerast en fyrirtækið er í sameign nokkurra starfsmanna. Ólafur sýndi okkur bæinn en sló síðan í gegn um kvöldið þegar hann bauð okkur í Selárdalslaug þar sem við syntum og hvíldum okkur í heita pottinum undir heiðskírum stjörnubjörtum himni og norðurljósum. Í löginni er ekkert rafmagn þannig að engin ljósmengun er á staðnum og kyrrðin umvefur mann. Stórkostleg stund.

Morguninn eftir fórum við síðan í heimsókn á leikskólann Brekkubæ sem var einstaklega skemmtilegur og síðast en ekki síst vegna gífurlega áhugasams starfsfólks en þar eru 5 starfsmenn að ljúka leikskólakennaranámi frá Háskólaum á Akureyri. Hafa þeir síðan fléttað námið inn í skólastarfið og margt skemmtilegt gerst. Það vakti athygli mína þegar nemendur sungu fyrir mig að kennararnir voru ekki með forsöng heldur tóku börnin forystu og söngu taktvisst og fallega hátt og snjallt. Frekar óvenjulegt þar sem stundum þarf að draga börn til söngs.

Síðan fórum við í Vopnafjarðarskóla þar sem við hittum starfsfólk og ræddum heilmargt en sérstaklega notkun á upplýsingatækni í skólanum sem hefur nú nýverið fjárfest í fartölvum til að fara með í kennslustofur fyrir nemendur. Skólinn tekur þátt í Olweus verkefninu og þar er margt skemmtilegt að gerast. Þó þótti mér sérstaklega skemmtilegt að rekast á einn kennara sem var að semja leikrit fyrir nemendur til að hafa á skólaskemmtun. Greinilega skapandi og skemmtilegt starfsfólk í skólanum.

Eftir þetta fórum við til Egilsstaða þar sem við Jónína Rós skoðuðum húsnæði fyrir kosningaskrifstofuna okkar og heimsóttum fyrirtæki, stofnanir og félög sem ég næ vonandi að segja betur frá síðar.

Þar næst fórum við til Seyðisfjarðar í útsýnisferð og ég heimsótti Guðrúnu Katrínu og Sigurð sem voru einstaklega góð heim að sækja sem endranær og ég rifjaði upp með hlýju þegar ég gisti hjá þeim um daginn.

Ferðin heim gekk vel og Alenka vinkona mín frá Slóveníu naut ferðarinnar enda gerðist hún venjulega ferðamaður og göngugarpur á meðan ég var að heimsækja fyrirtæki og stofnanir. Hún var einstaklega ánægð með ferðina og það fólk sem hún hitti.

Nú er bara að ganga frá myndunum úr ferðinni og vera glöð yfir því að Jón Sigurðarson í Vopnafirði bjargaði mér þegar ég áttaði mig á að ég hafði gleymt aukakortunum í myndavélina mína heima. Fyrir vikið gat ég myndað meira og það var afar skemmtilegt.

kl. |Pólitík

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.