Ég sá sýningu á ljósmyndum Halldórs Laxness í Þjóðmenningarhúsinu þar sem þær nutu sín vel. "Ljósmyndirnar á sýningunni eru tækifærismyndir ferðalangsins, eiginmannsins, fjölskylduföðurins og vinarins - Halldórs Laxness. Þær eru einkaljósmyndir sem bera vitni um víxlverkan fjölskyldulífs, stjórnmálalífs og skáldaframa á ævi hans. " segir í texta um sýninguna á heimasíðu Þjóðmenningarhússins.
Það er áhugavert hvernig Halldór skoðar heiminn með linsu myndavélarinnar og ég velti fyrir mér hversu mikið er hægt að læra um einstakling á því hvernig hann tekur ljósmyndir. Við horfum oft öll á sama umhverfið en sú mynd sem við geymum af því er nánast aldrei sú sama. Einnig geta menn verið staddir með myndavél á sama stað en komið út með gerólíka ljósmynd. Eitt verkefni sem ég þurfti að vinna í skólanum var að taka 25 ljósmyndir úr nákvæmlega sömu sporunum og það kom mér verulega á óvart að það væri hægt og hversu gerólíkar myndirnar voru. Þess vegna þótti mér þessi sýning áhugaverðari því ég upplifði hana eins og lítinn glugga af sýn Halldórs á lífið.
Einnig þótti mér áhugavert hversu listrænn Halldór var oft í ljósmyndun sinni þ.e. hvernig hann valdi að fanga viðfangsefnið og stilla því upp innan hins tvívíða ramma sem ljósmyndin er. Ég hvet fólk eindregið til að kíkja á þessa sýningu.