Allar færslur í flokknum Ljósmyndun. Aftur á aðalsíðu

Opnun gekk vel

Opnunin á sýningunni minni "Himinn og jörð" gekk mjög vel og tjáði Margrét Víkingsdóttir framkvæmdastjóri menningarhússins Bergs mér að ekki hefðu áður mætt jafn margir á opnun sýningar hjá þeim. Það fannst mér gaman að heyra. Salurinn tekur vel á móti myndunum mínum og þetta er harla flott.

Mánudagur 2. maí 2011 kl. 23:35|Ljósmyndun || Álit (1)

Frábær sýning í Listasafninu á Akureyri

Nú er síðasta sýningarhelgi á sýningunni "Vöknun" í Listasafninu á Akureyri. Frábær sýning sem er virkilega þess virði að skoða. Bæði Katrín Elvarsdóttir og Pétur Thomsen vöktu athygli mína hvort á sinn hátt fyrir verkin sín.

Sunnudagur 1. maí 2011 kl. 10:30|Ljósmyndun || Álit (0)

Himinn og jörð

Í dag kl. 14:00 opna ég sýningu mína Himinn og jörð í menningarhúsinu Bergi á Dalvík. Hugmynd að verkefninu himinn og jörð vaknaði þegar ég var að fara í starfsviðtal til Ólafsfjarðar í janúar 2010. Ég staldraði við í Múlanum og þar blasti Grímsey við en þangað hafði ég komið og notið þess að skoða fallegt landslagið heimsækja góða vini og njóta. En frá Múlanum séð var Grímsey lítill blettur á sjóndeildarhingnum og svo ógnarlítill hluti veraldarinnar á sama tíma og hún er land þeirra sem búa þar og starfa. Sjálf stóð ég að því er mér fannst hátt uppi í Múlanum en vissi að Múlinn er ógnarsmár séður frá Grímsey. Það sem eftir lifði ársins kannaði ég með myndavélinni samhengi himins og jarðar víða á landinu. Staðirnir eru til þó ég sé ekki þar, þeir eru þeim stórir sem búa þar eða horfa upp á þá en þeim smáir sem langt eru frá. Jafnvel hæstu fjöll verða smá allt eftir því hvernig horft er á þau og þá sérstaklega í samhengi við himininn.

Segja má að þessi ljósmyndasería sé óður til himins og jarðar en á sama tíma áminning um að þau viðfangsefni sem virðast okkur stór í núinu eru ef til vill smá þegar við fjarlægjumst þau.

Laugardagur 30. apríl 2011 kl. 12:29|Ljósmyndun || Álit (0)

Kaffi, kex og brimbretti

Það er gaman að fylgjast með brimbrettaköppunum hér í Ólafsfirði um vetur. Standa í 5 gráðu frosti með kaffibolla í annarri hendi og kexköku í hinni, vel klæddur og sjá þá svamla eftir öldu. Fleygja frá sér kaffibollanum, stinga kexinu í munninn þegar stór alda kemur og þeir fara að klifra upp á brettið, taka myndir þar til aldan er búin og ná þá aftur í kaffibollann.

Hér er ein mynd frá í gær af Óliver Hilmarssyni.

Sunnudagur 13. mars 2011 kl. 20:22|Ljósmyndun || Álit (0)

Ljósmyndir Halldórs Laxness

Ég sá sýningu á ljósmyndum Halldórs Laxness í Þjóðmenningarhúsinu þar sem þær nutu sín vel. "Ljósmyndirnar á sýningunni eru tækifærismyndir ferðalangsins, eiginmannsins, fjölskylduföðurins og vinarins - Halldórs Laxness. Þær eru einkaljósmyndir sem bera vitni um víxlverkan fjölskyldulífs, stjórnmálalífs og skáldaframa á ævi hans. " segir í texta um sýninguna á heimasíðu Þjóðmenningarhússins.

Það er áhugavert hvernig Halldór skoðar heiminn með linsu myndavélarinnar og ég velti fyrir mér hversu mikið er hægt að læra um einstakling á því hvernig hann tekur ljósmyndir. Við horfum oft öll á sama umhverfið en sú mynd sem við geymum af því er nánast aldrei sú sama. Einnig geta menn verið staddir með myndavél á sama stað en komið út með gerólíka ljósmynd. Eitt verkefni sem ég þurfti að vinna í skólanum var að taka 25 ljósmyndir úr nákvæmlega sömu sporunum og það kom mér verulega á óvart að það væri hægt og hversu gerólíkar myndirnar voru. Þess vegna þótti mér þessi sýning áhugaverðari því ég upplifði hana eins og lítinn glugga af sýn Halldórs á lífið.

Einnig þótti mér áhugavert hversu listrænn Halldór var oft í ljósmyndun sinni þ.e. hvernig hann valdi að fanga viðfangsefnið og stilla því upp innan hins tvívíða ramma sem ljósmyndin er. Ég hvet fólk eindregið til að kíkja á þessa sýningu.

Sunnudagur 7. desember 2008 kl. 13:28|Ljósmyndun ||

Kúba 1976

Ég hef verið að skoða margmiðlunarheimildarmyndasögur og varð verulega hrifin af 1976 sem er þrívíddarljósmyndun og fjallar um lífið á Kúbu líklega árið 1976. Þetta er aðferð sem mér þætti gaman að kunna og fást við. Þetta er eitt af þeim fjölmörgu frásögnum sem eru á Mediastorm sem mig minnir að ég hafi áður bent á hérna.

Virkilega þess virði að horfa á þetta.

Laugardagur 6. desember 2008 kl. 16:50|Ljósmyndun || Álit (0)

Jarðhiti í Hrísey

Alltaf er jafn gaman að taka myndir í verkefninu mínu um jarðhita á Norðurlandi. Ég var út í Hrísey í síðustu viku og þrátt fyrir að veðrið væri snúið var gríðarlega gaman. Það er miklar andstæður fólgnar í því að sjá vetrarveðrið, hafið, fjöllin og síðan lítið kot og tank sem veitir íbúum í Hrísey yl. Hér eru nokkur dæmi um myndir sem ég tók.

Þriðjudagur 2. desember 2008 kl. 16:53|Ljósmyndun || Álit (0)

ashes and snow

Ashes and snow er falleg listræn heimildaljósmyndun Gregory Colbert sem segir "In exploring the shared language and poetic sensibilities of all animals, I am working towards rediscovering the common ground that once existed when people lived in harmony with animals. The images depict a world that is without beginning or end, here or there, past or present."

Þetta eru samsettar ljósmyndir (montage), hreyfimyndir en ennig bók með verkinu. Stuttar fallegar sögur.

Sett er upp glæsileg sýningarhöll úr gámum utan um sýninguna sem var í Mexíkó í ár en verður í Brasilíu á næsta ári.

Mánudagur 24. nóvember 2008 kl. 14:40|Ljósmyndun || Álit (0)

Óvenju slök myndgæði frá Morgunblaðinu

Ég hef oft dáðst að ljósmyndurum Morgunblaðsins og hversu flinkir fagmenn þeir eru. Mig hefur dreymt um að komast með tærnar þar sem þau hafa hælana. Því brá mér þónokkuð þegar ég sá ljósmynd af flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar og ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum. Það er ekkert faglegt við þessa mynd, hún er hreyfð, hún er ekki í fókus og hvorugt gert á listrænan hátt sem gæti afsakað vinnubrögðin.

Hér má sjá þessa mynd með frétt í blaðinu. Ég vil hvetja blaðið til að halda áfram því góða starfi sem verið hefur á blaðinu og nota frekar mynd úr myndasafni ef takan á staðnum hefur misheppnast svo herfilega að þetta er besta myndin.

Sunnudagur 23. nóvember 2008 kl. 01:36|Ljósmyndun || Álit (1)

Til baka

Út var að koma bók eftir Helga Guðmundsson sem heitir "Til baka". Ég gerði montage (samsetta ljósmynd) á kápu bókarinnar en hana má sjá í myndasafninu mínu ásamt upphaflegu útgáfunni sem ég gerði.

Á bókarkápu segir:
Hér sendir Helgi frá sér skáldsögu, byggða á hörmulegri reynslu hans sjálfs og fléttar inní hana efni og persónum sem eru hreinn skáldskapur, en gerir söguna allt í senn - beiskjulausa, lifandi og spennandi.

Þetta er heillandi bók um blákaldan veruleika sem höfundurinn horfist í augu við af stóískri ró.

Ég las handrit bókarinnar áður en ég gerði bókarkápuna og heillaðist af því hversu stórkostlega Helgi tekst á við viðfangsefnið. Þar sem hann er án fullrar meðvitundar í veikindum sínum og því fastur í e.k. viðjum meðvitundarleysis setti ég hann fastann í björg, hér stuðlaberg við Hofsós með tilvísun í gömlu þjóðsögurnar þar sem menn festust hjá álfum í klettum og björgum. Vegurinn í myndinni er síðan leiðin "Til baka" til lífsins.

Miðvikudagur 12. nóvember 2008 kl. 11:51|Ljósmyndun || Álit (1)

Litir í húsum á Akureyri

Ég gerði verkefni um liti í húsum á Akureyri í fyrrahaust og er nú búin að setja lokaútgáfuna upp í myndasafninu mínu hér. Skemmtilegt viðfangsefni sem varð til þess að ég fékk áhuga á fleiru en náttúruljósmyndun;-)

Miðvikudagur 12. nóvember 2008 kl. 11:39|Ljósmyndun ||

Sóðalegur hver

Ég var að mynda á Þeistareykjum í gær og varð fyrir vonbrigðum með umgengnina um hverina á svæðinu. Fullt af drasli, flöskum og plastúrgangi. Svæðið er ægifagurt og hverirnir einstaklega fallegir svo þetta stakk í augun.

Ég tel afskaplega mikilvægt að gengið sé vel um það náttúrundur sem er á Þeistareykjum enda sýndist mér að þeir sem vinna þarna við boranir séu að ganga vel um. Því velti ég fyrir mér hvers vegna og hverjir ganga svona um hverina og hverjir í raun beri ábyrgð á svæðinu.

Fimmtudagur 7. ágúst 2008 kl. 22:40|Ljósmyndun || Álit (0)

Myndir frá AIM festival

Nú eru myndirnar mínar frá AIM festival komnar inn á vef Pedrómynda og hægt að fá þær prentaðar þar. Þarna eru myndir af Mogison, Helga og hljóðfæraleikurunum, Módettukór Hallgrímskirkju, Mannakorn og Sebastian Studnitzky, Hoodangers, Retro Stefson, Víkingur Heiðar Ólafsson og góðir gestir á hátíðinni.

Margir frábærir tónleikar og ágætis myndir;-)

Föstudagur 20. júní 2008 kl. 23:29|Ljósmyndun || Álit (0)

Akureyrarkirkja

Síðasta vetur gerði ég verkefni í skólanum sem fólst í því að sitja kyrr á sama stað og upplifa umhverfið. Þegar eitthvað kallaði sérstaklega þá átti ég að taka mynd. Á sama tíma var ég í listasöguáfanga þar sem við vorum að lesa um markmiðið með steindum gluggum í kirkjum en þar kom fram að litir glugganna sem dönsuðu í guðshúsum myndu hafa áhrif á söfnuðinn sem upplifði sterkar hið guðdómlega.

Litirnir sem koma af gluggunum í Akureyrarkirkju eru svo sannarlega fallegir og Sr. Svavar A Jónsson sagði einmitt að það hefði sérstök áhrif á sig að sjá litina endurspeglast á væntanlegum fermingarbörnum í fermingarfræðslunni.

Ég var að setja myndirnar sem ég notaði í þessu litla verkefni um Akureyrarkirkju inn í myndasafnið mitt sem ég er nú að uppfæra og laga.

Föstudagur 13. júní 2008 kl. 07:17|Ljósmyndun || Álit (0)

Myndir á Marínu

Nú erum við Helga Kvam búnar að setja myndir upp hjá Marínu, Strandgötu 53 á Akureyri. Þar setti ég samsettu (montage) myndirnar sem ég hef verið að vinna eftir jólin. Markmiðið hjá mér er að ná að búa til dálítið dularfullra myndir þar sem ýmislegt býr tákn og jafnvel ævintýri.

Þarna eru líka nokkrar myndir úr seríunni minni um heita vatnið sem endurnýjanlegan orkugjafa ásamt eldri myndum. Svo fæ ég póstkortin mín úr prentun líklega í þessari viku eða næstu og það verður spennandi að sjá hvernig þau koma út.

Hér er mynd sem Völundur tók daginn sem fyrsta skemmtiferðaskipið kom til Akureyrar og lagði upp við hafnarbakkann fyrir framan Marínu.

Mánudagur 9. júní 2008 kl. 22:59|Ljósmyndun || Álit (0)

Nostrum Design

Á laugardaginn setti ég upp sýningu á ljósmyndum í Nostrum Design á Skólavörðustíg 1 í Reykjavík. Myndirnar eru flestar af ótrúlegum formum og mynstrum í frosti, frostrósir á glugga, frostmyndanir á stráum og greinum ásamt loftbólum í ísilagðri Eyjafjarðaránni. Myndirnar fara vel með íslenskri hönnun sem er þarna til sölu en hönnuðirnir eru með vinnustofu á hæðinni fyrir neðan og síðan verslunina á fyrstu hæð. Þær vinna mikið með ull og því má segja að myndirnar og flíkurnar rammi saman íslenskan grunntón, ull og ís. Hvað er íslenskara?

Mánudagur 2. júní 2008 kl. 22:30|Ljósmyndun || Álit (1)

Sýning í Fjöruhúsinu Hellnum - Fjörukaffi

Í gær opnuðum við Helga Kvam ljósmyndasýningu á Hellnum á Snæfellsnesi allt myndir frá ferðum okkar um svæðið. Í fyrra fórum við saman vestur en þá var Helga einmitt með sýningu í Stykkishólmi og einmitt í þeirri ferð sömdum við um að sýna á Hellnum. Um að gera að fara á Snæfellsnesið, fáir staðir á Íslandi búa yfir sömu dulúð og fegurð, fá sér kaffi eða dásemdarsúpu í Fjörukaffinu niður við bryggju og hlusta á sjófuglinn og öldurnar og skoða myndirnar okkar Helgu í leiðinni;-)

Mánudagur 2. júní 2008 kl. 22:14|Ljósmyndun || Álit (0)

David Hockney


David Hockney er einn þeirra ljósmyndara sem hafa komið mér skemmtilega á óvart í ljósmyndanáminu. Sú aðferð að taka margar polaroid ljósmyndir og setja saman í eina er virkilega skemmtileg. Í bókinni Photography speaks bls. 276 talar hann um hvernig kúbismi tengist ljósmyndun. Augað ferðast um og sér einstaka hluti sem verða í meginfókus hverju sinni. Fyrir utan Picasso séu fáir málarar sem nái því að gera kúbismanum góð skil sem fjalli ekki um abstrakt heldur frekar hinn sýnilega heim í kringum okkur. Því nær sem við förum hlutunum því meiri hreyfing er þegar við förum að horfa á annað. David taldi að eftir því sem við förum nær einhverju tilteknu því erfiðara sé að búa til úr því heildarmynd. Þetta tókst honum snilldarlega og hér er ein þeirra mynda. Spennandi hugsun og ég hvet áhugasama til að skoða fleiri svona myndir eftir hann, væri gaman að prófa þetta;-)

Þriðjudagur 4. mars 2008 kl. 22:36|Ljósmyndun || Álit (0)

Mannsins merki við Glerá

Ég er að fara að opna ljósmyndasýningu á morgun. Hér er tilkynningin sem ég sendi út:

Lára Stefánsdóttir fjarnemandi í meistaranámi í heimildaljósmyndun í Academy of Art University í San Fransisco opnar ljósmyndasýningu á veitingastaðnum Staðurinn, Skipagötu 2, á Akureyri, laugardaginn 16. janúar kl. 16:00. Yfirskrift sýningarinnar eru "Mannsins merki við Glerá" og fjallar um samspil Glerár við umhverfi sitt.

Væri gaman að sjá sem flesta og þeir sem ekki komast, endilega kíkið síðar því sýningin verður þarna í mánuð;-)

Föstudagur 15. febrúar 2008 kl. 18:05|Ljósmyndun || Álit (0)

Tilraun með myndband

Mig langaði að prófa að gera myndband með ljósmyndunum mínum, hér er afraksturinn af fyrstu tilrauninni.

Miðvikudagur 6. febrúar 2008 kl. 01:34|Ljósmyndun / Tilveran || Álit (3)

Á næstu grösum

Í dag opnaði ég ljósmyndasýningu á veitingastaðnum Á næstu grösum á horninu á Klapparstíg og Laugavegar í Reykjavík. Sýninguna nefni ég Gróður jarðar og eru þar myndir af byggi, sveppum og bláberjum. Ég var ekki nógu dugleg að láta fólk vita af opnuninni en engu að síður mættu fjölmargir vinir, ættingjar og ljósmyndarar. Ég var nokkuð stolt af þessu öllu saman. Endilega drífið ykkur að sjá sýninguna og látið mig vita hvernig ykkur finnst og hvetjið þá sem vantar að kaupa sér ljósmynd til að mæta því það væri ekki verra að selja nokkrar myndir þarna;-)

Sunnudagur 7. október 2007 kl. 20:19|Ljósmyndun || Álit (7)

Wabi-Sabi

Í listasögukúrsi sem ég er í um Renaissance tímann var kennarinn okkar að benda á hugtakið Wabi-Sabi sem mér þótti afar áhugavert að lesa um og því er þetta innlegg e.t.v. meira til að passa að týna því ekki frekar en annað. Umræðuefnið hjá okkur í fyrstu lotu hefur verið um fegurð og skilgreiningu á henni. Hvort skilgreining á fegurð sé föst innra með okkur frá fæðingu eða hvort þar bætist ofan á eitthvað sem þróast og okkur líkar. Verið er að skoða gríska list og þeirra sjónarmið.

En Wabi-Sabi er hinsvegar að skoða fegurð einfaldleikans, ryðs, slits, þess sem liðið er. Ekki þannig að hlutir séu skítugir og í rusli heldur hlutir sem eru metnir af verðleikum og settir í samhengi við nútímann. Það er að vísu miklu meira í þessu þannig að ef einhver hefur áhuga þá er tengill í grein um Wabi-Sabi. Ég þarf hinsvegar að velta fyrir mér - ekki í fyrsta skipti - mikilvægi hins efnislega í samhengi við hvað skiptir máli í lífinu almennt. Alltaf gott að fara í gegnum það;-)

Sunnudagur 16. september 2007 kl. 14:38|Ljósmyndun / Tilveran || Álit (0)

Erik Almas

Námið mitt felst ekki síst í því að skoða aðra ljósmyndara, í skólanum er mikið myndasafn en síðan leitum við auðvitað fanga alls saðar þar sem við sjáum ljósmyndir. Þannig uppgötvar maður alltaf nýja og nýja hlið á ljósmyndun. Í gær skoðaði ég Erik Almas sem er einmitt menntaður í Academy of Art Univesity þar sem ég er að læra. Ég hreifst af myndunum hans og litameðhöndluninni. Sérstaklega þar sem hann notar mikið af stórbrotnu landslagi og kraftmikil ský. Þegar ég fór síðan að lesa nánar um hann áttaði ég mig á að myndirnar voru montage myndir þ.e. samsettar úr fleiri en einni ljósmynd. Þetta er svið ljósmyndunar sem ég hef mikinn áhuga á svo nú er tækifæri til að spreyta sig á því. Hér er síðan viðtal við Erik sem gaman er að lesa.

Miðvikudagur 12. september 2007 kl. 08:29|Ljósmyndun || Álit (0)

Sumarfrí

Sumarfríið hefur verið virkilega skemmtilegt. Ég er búin að fara með Helgu Kvam á Snæfellsnesið og setja upp ljósmyndasýninguna hennar, þaðan suður í höfuðstaðinn og síðan vestur í Kvígindisfjörð þar sem við stöllurnar í Púls 68 nutum gestrisni og náttúrunnar.

Bækurnar fyrir skólann eru komnar, dægilegur stafli sem ég hlakka til að lesa.

Ég hef notið þess að mynda í fríinu og fann m.a. að ég er með ljósmyndaDNA. Skemmtileg hugmynd en hér er það:

View my DNA at bighugelabs.com

Laugardagur 25. ágúst 2007 kl. 13:24|Ljósmyndun / Tilveran || Álit (1)

Jerry Uelsmann

Er að lesa um stærðarhlutföll og hvernig er hægt að snúa þeim á hvolf í ljósmyndun. Rakst á frábæran ljósmyndara Jerry Uelsmann sem ég hvet áhugamenn um ljósmyndun að skoða. Hér er heimasíðan hans.

Ferlega flottar myndir!

Föstudagur 27. júlí 2007 kl. 17:27|Ljósmyndun || Álit (0)

Námið á fullu

Námið sækist vel en er kröfuhart. Ég ákvað að taka 9 einingar sem starfsmönnum AAU þótti eiginlega einum of en ég vildi byrja af krafti. Hinsvegar verð ég að viðurkenna að þau vita alveg hvað þau eru að segja. Ég byrja að læra á morgnana um hálf níuleytið og læri nánast sleitulaust til miðnættis alla daga vikunnar. Fjölbreytnin felst í því að fara út í sumarbústað með skólabókina og sitja á veröndinni að lesa á meðan Gísli minn yrkir gróðurinn nú eða þá að setjast út á mína eigin verönd og lesa. Þannig er ég nú komin með góða sumarliti.

Annar kostur er að mörg verkefnanna eru fólgin í að ljósmynda eitt og annað sem dregur mig út til að mynda. Í einum áfanga er ég að mynda Klappirnar út frá ýmsum atriðum sem ég er að læra um s.s. áferð, línur og fókus. Í öðrum er ég að skoða bygg og umhverfi þess. Fór í Grænuhlíð þar sem skriðurnar fóru rétt fyrir jólin og kennarinn vildi að ég hefði hana í samhengi við byggið þannig að í gær klifraði ég upp að rótum skriðanna og tók myndir. Í þriðja áfanganum á ég að velja mér ljósmyndara og taka seríu í hans stíl. Ég er ekki alveg búin að velja en langar að kunna að gera myndir eins og Ansel Adams svo þetta gæti verið gott tækifæri.

Námið er annars gríðarlega vel skipulagt. Hver áfangi er settur saman úr fimmtán námsþáttum. Í hverjum námsþætti eru verkefni sem þarf að leysa og umræður sem þarf að taka þátt í (gilda 30%). Síðan í lok lotunnar er próf. Þar sem þetta er sumarönn þá eru tveir námsþættir á viku sem þýðir að ég tek 6 próf á viku, leysi a.m.k. 6 verkefni (oftast fleiri) og síðan koma stærri verkefnin eins og lokaverkefnin sem ég var að lýsa hér að ofan sem eru í gangi alla önnina.

Þjónustan er frábær, ég er með umsjónarkennara, ég get fengið ritgerðirnar mínar lesnar yfir, ef ég er í vandræðum með hugtök eða enskuna þá er sérstök aðstoð í því og margt fleira. Einnig er skemmtilegt myndasafn að grúska í með fjölmörgum frægum ljósmyndurum.

En þetta er allt lífvænlegt af því að það er svo gaman að læra ljósmyndun. Hlakka þó til þegar önnin er búin 11. ágúst og við Gísli minn komumst í frí - þá ætla ég sko að lesa Harry Potter;-)

Föstudagur 20. júlí 2007 kl. 23:23|Ljósmyndun || Álit (2)

Lært og lært

Það er talsverð vinna að vera í námi, ég er í 9 einingum í Academy of Art University (AAU) núna á sumarönninni sem þýðir 6 próf á viku, a.m.k. 6 verkefni oftast meira og síðan umræður við aðra nemendur. Þetta er strangt en gott nám og ég hef lært heilan helling frá því ég byrjaði en nú er önnin að verða hálfnuð. Þarna tíðkast miðannarverkefni sem eru stærri í sniðum en þau venjulegu en miðannarlotan er einmitt í þessari viku. Það gefst lítill tími til annars en að læra en í dag er ég að fara að lesa um ljósmyndun sem listgrein og ágreining sem hefur verið um hvort eitthvað sem er numið með tækjum geti verið list. Þetta hefur mjög breyst frá því ljósmyndunin byrjaði en nú seljast ljósmyndir eftir þekkta ljósmyndara gríðarlega háu verði enda er talið að þeir fjölfaldi ljósmyndir sínar oftast í færri eintökum en t.d. grafíklistamenn. Líklega verður að gæta vel að því að hafa takmarkað upplag af því sem gert er til þess að tryggja verðmætin. Þá er spurning hvort menn eyðileggja frumeintakið þannig að ekki sé hægt að gera fleiri myndir.

Mánudagur 9. júlí 2007 kl. 08:24|Ljósmyndun || Álit (0)

Lofthellir

Sigrún Stefáns spurði hvort ég vildi koma í Lofthelli í ferð Ferðafélgas Akureyrar í dag. Ég var mjög efins, eiginlega afar efins, en viss um að þar gæti ég náð í góðar myndir svo það dró mig af sta sem og hversu einstaklega góður félagsskapur Sigrún er. Eftir akstur á vondum vegi í úfnum hraunjaðrinum komum við á áfangastað, gengum yfir hraunið og þaðan klifrað niður stiga. Í botninum var blautt og hált en ekki leist mér á blikuna þegar ég sá agnar litla glufu sem þurfti að smokra sér í gegnum. Var viss um að þar yrði ég föst um óæðri endann sem er dálítið myndarlegur um sig.

Lesa meira Lesa meira um "Lofthellir" »

Sunnudagur 24. júní 2007 kl. 00:35|Ljósmyndun || Álit (0)

Hvað er ljósmyndari?

Ég fékk í dag geisladisk frá skólanum með myndbandi um Richard Avedon ljósmyndara. Myndabandið er um einn og hálfur tími sem fjallar um verk Avedon og viðhorf gagnvart ljósmynduninni. Hann leitast við að finna í þeim einstaklingum sem hann myndar eitthvað sem honum finnst "satt" eða "raunverulegt" sem gerir myndirnar sérstakar og snerta áhorfandann. Að sumu leyti fannst mér athyglisvert einhvert tilfinningaleysi sem hann hefur gagnvart viðfangsefninu, viðhorfið að hann stjórni, skapi og móti. Á sama tíma er eins og hann sjálfur sé einmana og innilokaður, eins og hann sé að leita að eigin tilfinningum í viðfangsefninu.

Það sem ég sit eftir með er að ég hef ekki hugsað nægilega af hverju ég er að mynda það sem ég mynda. Hvaða ljósmyndir eru það sem ég vildi í rauninni gera og hverjar verða bara til þegar ég á leið um tilveruna. Líklega fæ ég að hugsa nóg um það í skólanum sem byrjar á morgun, ég held ég hafi ekki hlakkað eins til fyrsta skóladags eins og ég geri núna. En hugsunin er sterkust um hvað er ljósmyndari og hvað er hann að fanga og til hvers?

Miðvikudagur 20. júní 2007 kl. 22:28|Ljósmyndun || Álit (0)

Fífilbrekka og breytingar

Í dag var ég á Fífilbrekkuhátíð að Hrauni í Öxnadal. Með mér voru Isamu Shimazaki vinur minn frá Japan og María Jónsdóttir textíllistakona sem hefur einmitt gert afar skemmtilega púða með síðasta ljóðinu í Ferðalok eftir Jónas Hallgrímsson. Isamu skildi ekki mikið en naut góðviðris, gönguferðar og íslenskrar náttúru. Merkilegasta setningin sem hann hefur sagt í ferðinni var "Þið Íslendingar eruð svo fjölbreytt þið eruð ekki öll eins - við Japanir erum öll eins". En hátíðin var góð og uppbyggingin að Hrauni glæsileg í alla staði.

Undanfarið hef ég verið að fá góðlátlegar athugasemdir frá vinum mínum um að ljósmyndunin mín hafi breyst - augljóst sé að ég sé að lesa ljósmyndasöguna. Þetta kom flatt uppá mig enda ekki mjög meðvituð um hana mig en fór að hugsa.

Lesa meira Lesa meira um "Fífilbrekka og breytingar" »

Laugardagur 16. júní 2007 kl. 22:49|Ljósmyndun / Tilveran || Álit (0)

Ljósmyndun og pólitík

Ég er að verða búin að renna yfir ljósmyndasöguna sjöhundruð síðna skruddu sem er hafsjór af fróðleik og orðið margs vísari. Sérstaklega finnst mér eftirminnilegt hversu póltískar ljósmyndir geta verið, stundum eru þær beinlínis notaðar í pólitískum tilgangi eða til að ná fram einhverju réttlæti sem ljósmyndaranum finnst mikilvægt. Barátta fyrir þjóðflokka, jafnrétti, sjálfstæði, skilningi, kynþáttamisrétti og svo mætti lengi telja. Segja má að oft hafi opnast augu fólks fyrir raunveruleikanum þegar það horfði á ljósmyndir.

Í dag eru myndirnar margar og spurning hvort þær hafi enn sömu áhrif og þær höfðu í eina tíð. Í þessu skyni hef ég verið að horfa á hvernig myndir eru teknar af stjórnmálamönnum og atburðum. Stundum velti ég fyrir mér hvort pólitísk skoðun ljósmyndarans endurspeglist í myndunum sem hann tekur. Það er að hann leggi meiri alúð í efni sem honum hugnast vel. Þetta væri virkilega verðugt rannsóknarefni.

Fimmtudagur 14. júní 2007 kl. 20:58|Ljósmyndun / Pólitík || Álit (2)

Myndir af sjálfum sér

Ég var að lesa um portret myndir í dag, það sem vakti helst athygli mína var allt það stúss sem var í kringum þessar myndir um miðja nítjándu öld. Lýsingartíminn var langur og því mátti myndefnið ekki hreyfa sig. Menn héldu í stólarma, kreptu hnefann og höfðu e.k. stuðning við höfuðið til að geta verið alveg kyrrir. Nú skil ég betur þetta kvalda útlit sem er á flestum gömlum myndum. Þetta hefur verið alger tortúr.

Annars er ég hrifin af daguerreotype myndum sem Antoine Francois Claudet tók í kringum 1850 hann stillti fólki skemmtilega upp. Markmiðið var að myndin endurspeglaði líf fólks og segði eitthvað meira en bara andlitið.

Málarar þessa tíma töldu að ljósmyndarar væru bara lélegir listmálarar og því færu þeir út í þessa vitleysu. Ég er handónýtur listmálari svo líklega er þetta bara alveg hárrétt;-) En ljósmyndirnar voru dýrar, það kostaði sama að láta taka af sér mynd og að borða á veitingahúsi í heilan mánuð.

Mánudagur 28. maí 2007 kl. 23:45|Ljósmyndun || Álit (0)

Af hverju múslimi?

Eins og ég skrifaði um í gær þá er ég að grafa mig í gegnum ljósmyndasöguna. Þar datt ég um Ibn al-Haytan, sem heitir líka Abu Ali al-Hasan, Ibu al-Hasan og stundum kallaður al-Basri. Afar merkilegur vísindamaður sem fyrstu er talinn hafa skilgreint camera obscura en í því sem ég finn um hann er það dregið fram að hann hafi verið múslimi. Ég hef ekki rekist á að það sé talað um trúarhneigð nokkurs annars í ljósmyndasögunni en hér er þetta skýrt, hann var múslimskur vísindamaður. Múslimi þýðir "sá sem gefur sig Guði" eða "one who submits to God" og getur því þýtt að hann hafi verið trúaður maður.

Hinsvegar sýnist mér að hin vestræna saga tali ekki mikið um al-Hasan og velti enn fyrir mér hvort Leondardo da Vinci hafi e.t.v. lesið arabísku og allar hans mýmörgu uppgötvanir e.t.v. að einhverju leyti verið þýðingar úr arabískum ritum enda var þróuð menning í Persíu.

En nóg af vangaveltum í bili... þetta er allavega áhugvert.

Mánudagur 28. maí 2007 kl. 09:54|Ljósmyndun || Álit (2)

Camera obscura

Ég er að byrja að lesa ljósmyndasöguna en ég tek þrjá áfanga í ljósmyndanáminu á sumarönninni sem hefst 21. júní þ.e. ljósmyndasögu, vinnslu stafrænna ljósmynda og eðli ljósmynda. Nokkrum sinnum hefur verið fjallað um "camera obscura" eða svarta herbergið. Ég er núna að reyna að skilja það til hlítar en á eftir eitthvað. Hvað um það eins og með ótrúlega margt þá var það Leonardo da Vinci sem skilgreindi camera obscura en árið 1490 skrifar hann um það í tæplega 1500 síðna riti sínu Atlantic Codex. En hinsvegar er því haldið fram á Wikipedia að múslimski fræðimaðurinn Abu Ali Al-Hasan hafi lýst fyrirbærinu fyrst einhversstaðar í kringum árið 1000. Mér datt í hug hvort da Vinci hafi e.t.v. ekki fundið allt upp sjálfur sem hann skrifaði heldur grúskað í arabískum gögnum en það skiptir kannski ekki mestu hver var fyrstur heldur að fyrirbærið sé til.

Lesa meira Lesa meira um "Camera obscura" »

Mánudagur 28. maí 2007 kl. 00:54|Ljósmyndun || Álit (2)

Prófið búið

Jæja þá er ég búin í Toefl prófinu en það er langt síðan ég hef tekið fjögurra tíma próf þannig að þetta var talsvert álag. Prófið var heilmikil vinna en ég vona að ég hafi nú náð því sæmilega. Það var síðan ágætt að vera í góða veðrinu í Reykjavík í gær en það er alveg sama hvað ég kem oft það er ævinlega léttir að komast út úr umferðinni þar. Föstudagssíðdegi eru jú álagstími og ég fékk að hanga í löngum röðum á leiðinni út úr bænum. Ég kom við á Akranesi á leiðinni norður hjá Jóhönnu og við skipulögðum hvernig ég kæmi að sýningunni í sumar. Síðan keyrði ég norður í ægifögru veðri, hefði getað stoppað oft til að mynda ský en vildi vera komin heim fyrir miðnætti. Skólabækurnar mínar voru komnar þannig að nú get ég byrjað að lesa þrátt fyrir að sumarönnin í Academy of Art University byrji ekki fyrr en 21. júní þá ætla ég að taka það margar einingar yfir sumarið að mér veitir ekki af. Það verður spennandi að byrja í MFA náminu og ég hlakka mikið til.

Laugardagur 19. maí 2007 kl. 18:28|Ljósmyndun || Álit (1)

Vinaslóð komin úr prentun

Ég er býsna stolt að hafa bókina okkar Gísla í höndunum sem ber heitið Vinaslóð. Gísli samdi ljóðin en ég tók ljósmyndirnar. Formlegur útgáfudagur er í tengslum við fimmtugsafmælið mitt á morgun eða þegar ég verð L-ára en L er sem kunnugt er 50 í rómverskum tölum.

Ritið er tileinkað bekkjarfélögum okkar Gísla frá Samvinnuskólanum á Bifröst en þar vorum við veturna 1974-1976 og hefur þessi bekkur haldið mjög vel saman enda urðum við vinir fyrir lífstíð í skólanum. Hver og einn úr bekknum, við Gísli meðtalin, á sína opnu í bókinni eitt ljóð og eina ljósmynd sem saman skapa ákveðna heild. Jóhanna Leopoldsdóttir bekkjarsystir okkar er aðal hvatamaðurinn að verkinu enda er hún framkvæmdastjóri bekkjarins sem við hlýðum nánast í einu og öllu. Enda er það svo skemmtilegt;-)

Lesa meira Lesa meira um "Vinaslóð komin úr prentun" »

Fimmtudagur 8. mars 2007 kl. 11:57|Ljósmyndun || Álit (7)

Íðilfagur tunglmyrkvi

Ég var að leika mér að taka myndir af tunglmyrkvanum með frekar lélegum árangri, fór inn á ljosmyndakeppni.is og fór að spyrja ráða. Þaðan inn á Flickr til að skoða stillingar hjá þeim sem höfðu tekið myndir af sólmyrkvum í heiminum. Út aftur og mynda í gríð og erg.

Síðan var að spreyta sig á vinnslunni og það tók einhvern tíma en nú er ég orðin þokkalega sátt við myndirnar mínar af tunglinu;-)

Ef menn smella á einhverja myndanna minna til hægri er farið inn á myndasafnið mitt á Flickr og þar má skoða afraksturinn.

Sunnudagur 4. mars 2007 kl. 01:52|Ljósmyndun || Álit (1)

Norðurljós og næturmyndir

Ég fór í gærkvöldi ásamt Helgu Waage frænku minni og vinkonu í Krýsuvík að mynda, aftur komu þessi fallegu norðurljós og ég náði heilmörgum góðum ljósmyndum. Næturmyndataka er dálítið merkilegt fyrirbæri sem ég vissi ekki um fyrr en ég fór að auka ljósmyndaáhugann gríðarlega. Þetta gengur út á að fara út í myrkrið (já alvöru myrkur) og taka ljósmyndir á mislöngum tíma. Yfirleitt er skítakuldi því á sumrin er jú ekkert myrkur og því er lífsnauðsynlegt að taka með sér kakó og ekki verra að hafa mjólkurkex. Þannig var í gærkvöldi í Krýsuvík en á móti kom að það var fullt tungl og því ótrúlega bjart. Það fór þó um mig þegar ég sá þrjár rútur af túrhestum ráfa um hraunið á leiðinni til baka og taka myndir af norðurljósum - með flassi!!!

Lesa meira Lesa meira um "Norðurljós og næturmyndir" »

Fimmtudagur 4. janúar 2007 kl. 21:51|Ljósmyndun || Álit (2)

Frábært kvöld

Fór suður í gærkvöldi til að hitta Gurrý vinkonu frá Jórdaníu sem er frábær vinkona og ljósmyndari. Hún var búin að sammælast við Röggu sem er flottur ljósmyndari að gera það gott á DPC. Nú Ragga var búin að tala við Valdísi vinkonu sína sem líka er með mikinn ljósmyndaáhuga og við fórum allar í næturferð græjaðar ljósmyndavélum. Allt of sjaldan er maður í stelpuhóp í myndatökum svo þetta var frábært. Ég náði frábærum norðurljósamyndum í fyrsta skipti, lærði að ég þarf enn og aftur að huga að fleiri linsum og skemmti mér svo konunglega. Þar sem við paufuðumst um í Krísuvík í náttkyrrðinni með norðurljósin dansandi yfir þá hríslaðist hamingjan um mann. Svona á lífið að vera, frábær félagsskapur, góð myndavél, fögur náttúra - þá er lífið bara fullkomið.

Miðvikudagur 13. desember 2006 kl. 23:42|Ljósmyndun || Álit (3)

Tígrisdýr og ljón

Ég var í Kaupmannahöfn yfir helgina með myndavélina, já og Gísla minn líka. Við röltum um og ég myndaði allt mögulegt, einna skemmtilegast var að fara í dýragarðinn og mynda þar tígrisdýr og ljón, apa og fiðrildi ásamt mörgu fleiru. Búin að setja hluta afrakstursins inn á Flickr myndasafnið mitt ef einhver hefur gaman af því að kíkja;-)

Á föstudaginn kemur síðan út bókin Ljósár 2006 en ég er með tvær myndir í þeirri bók og hlakka til að sjá hana. Þeir sem vilja kaupa bókina í forsölu geta gert það hér.

Lesa meira Lesa meira um "Tígrisdýr og ljón" »

Mánudagur 27. nóvember 2006 kl. 11:43|Ljósmyndun ||

Gengur vel á sýningunni

Sýningin okkar opnaði í gær og aðsókn hefur verið gríðarleg þessa tvo daga en um 100 manns (nákvæmlega 98) hafa skrifað í gestabókina. Tryggvi Rúnar félagi minn úr Pjúsarafélagi Íslands tók myndir sem einhver hefur kannski gaman af því að líta á. Ég er býsna stolt yfir þessu öllu saman þó mér hafi þótt þetta lengst af mesta vesen í Jóhönnu Leopoldsdóttur að draga mig út í þetta þá er ég ákaflega glöð núna;-)

Laugardagur 8. júlí 2006 kl. 21:43|Ljósmyndun || Álit (2)

Sýning á ljósmyndunum mínum

Nú mun samsýningin "Nær og fjær" opna að Bakkatúni 20 á Akranesi en þar verða írskir dagar um helgina. Ég ætla að sýna þar ljósmyndir, innsetningar og myndir af skófum, ísnálum, skýjum, steinum og selum. Sýningin verður opin 7.-23. júlí en með mér verða listakonur með vatnslitamyndir, silkiþrykkta hörlöbera, skúlptúra úr gleri og steypu ásamt leirkönnum og nælum.

Væri virkilega gaman ef einhver ykkar getið litið á sýninguna, ég yrði svo dæmalaust stolt;-)

Miðvikudagur 5. júlí 2006 kl. 12:34|Ljósmyndun || Álit (5)

Myndað á Snæfellsnesi

Um helgina fór ég í ofboðslega skemmtilega ljósmyndaferð á Snæfellsnes með tveimur bekkjarsystrum mínum frá Bifröst og systur einnar. Við fjórar kerlíngarnar höfðum það ofboðslega gaman og snudduðum um utanvert nesið og mynduðum hóla og hæðir. Við nutum frábærrar gestrisni Óla 7 í Bárðarbúð á Hellnum þannig að ég gat hitt fólkið mitt á Ökrum sem ég kunni vel að meta. Ég fékk fínar myndir til að nota á sýningunni minni sem verður opnuð 7. júlí á írskum dögum á Akranesi og hlakka mikið til. Það eru þó mörg handtökin sem þarf að vinna áður en það er tilbúið;-)

Þriðjudagur 20. júní 2006 kl. 10:33|Ljósmyndun || Álit (3)

Fáðu þér að drekka vinur

wSelir0038_1675b.jpg
Það var dásamlegt að sitja í fjörunni í Hindisvík á norðanverðu Vatnsnesi og fylgjast með selunum. Þessi móðir var að nostra við kópinn sinn, klappa honum á kollinn og ýtti honum síðan góðlátlega að spenunum til að fá sér að drekka. Þar fékk hann sér góðan sopa og lagði sig síðan aftur. Það er einhver friðsæld yfir þessum dýrum og maður kemur heim endurnærður á líkama og sál.

Mánudagur 5. júní 2006 kl. 19:26|Ljósmyndun || Álit (2)

Hvað heita þeir?

wFuglar.jpg
Veit einhver hvað þeir heita þessir fuglar? Það var gríðarlegt magn af þessum rauðbrúna en bara einn af þessum hvítyrjótta. Hef ekki hugmynd um hvaða fugl þetta er svo öll hjálp vel þegin. Hér er síðan önnur af hópnum:
wFuglar2.jpg

Sunnudagur 4. júní 2006 kl. 16:55|Ljósmyndun || Álit (5)

Kópur í Hindisvík

wKopur0034_1720.jpg
Við Gísli minn vorum á Vatnsnesinu um helgina, gistum í frábærri gistingu í farfuglaheimilinu að Ósum. Ég er að vinna úr myndum en þessi kópur var í Hindisvík. Finnst ykkur hann ekki fallegur?

Sunnudagur 4. júní 2006 kl. 16:46|Ljósmyndun || Álit (0)

Myndir úr Hrísey

Ég fór ásamt nokkrum félögum úr ljósmyndakeppni.is út í Hrísey á laugardaginn og spreytti mig þar á nýju myndavélinni minni Canon EOS 30D. Ekki kunni ég nú verulega vel á hana en mér fer fram ég fer ekki ofan af því. Ég þarf þó að skoða hana betur og læra enn meira, lesa mér til og njóta hennar. Hinsvegar er ekki mikill tími til þess núna í kosningabaráttunni. Hér eru þó nokkrar myndir úr ferðinni sem ég hef skotist til að vinna milli þess sem annað er að gera.

Þriðjudagur 23. maí 2006 kl. 22:25|Ljósmyndun || Álit (2)

Frábær morgunn

wHus9181.jpg
Um síðustu helgi fórum við Gísli minn í Stykkishólm til að fagna 30 ára útskriftarafmælinu okkar frá Bifröst. Ferlega gaman. Ég vaknaði hinsvegar um hálf fimmleytið við eina þá fallegustu sólarupprás sem ég hef séð. Sem betur fer hafði ég ekki farið seint að sofa og fór út og var að mynda í tvo klukkutíma. Náði gríðarlega fallegri mynd af speglun á skipi aðra af kirkjunni í Stykkishólmi sem er verulega sérstök. Ég hlakka til að vinna meira úr þessum myndum því þetta var virkilega vel heppnaður morgunn.

Miðvikudagur 10. maí 2006 kl. 22:45|Ljósmyndun || Álit (0)

Gleðilegt sumar

wBlom8645.jpg
Ég fór í dag að leita að sumrinu, pjagaði um allar þorpagrundir og leitaði að sumri. Ekki mátti vera blóm í garði það varð að vera náttúrublóm. Ég fann græna sprota, örlitla smára, örlítið þetta og örlítið hitt. Ber frá síðasta sumri og margt fleira. Þá fór ég og labbaði inn í Villingadal, þar sem ég góndi á holt og hæðir til að sjá góð viðfangsefni þvældist fyrir mér steinn og ég steinlá. Var flökurt og svimaði í langan tíma, marði á mér hnéð og olbogann. En þar sem náttúran er svo góð að maður dofnar upp hélt ég áfram og fann þetta fallega blómstrandi blóðberg í klettum sem snéru til suðurs.
Svo allt var þetta þess virði, sumarið komið;-)
Gleðilegt sumar;-)

Fimmtudagur 20. apríl 2006 kl. 23:54|Ljósmyndun / Tilveran || Álit (3)

Flickr er frábært

Undanfarið hef ég eytt meiri tíma í ljósmyndun en áður og það er helst að þakka (eða kenna) vefnum Flickr sem mér finnst frábær. Þar get ég sent inn myndir, fengið álit á myndunum mínum, skoðað verk annarra og lært heil ósköpin öll. Ef einhver vill sjá afraksturinn minn af því sem ég hef verið að setja þangað þá er svæðið mitt hér.

Föstudagur 31. mars 2006 kl. 23:22|Ljósmyndun || Álit (1)

Ljósmyndaferð í Mývatnssveit

wlmk5898.jpg
Í gær fór ég í ljósmyndaferð í Mývatnssveit ásamt tólf félögum af www.ljosmyndakeppni.is það var ofboðslega gaman. Við lögðum af stað frá Akureyri um hálf níu og komum í bæinn aftur um níu um kvöldið. Við fengum allar tegundir af veðri en það gerði ekkert til við vorum ágætlega búin. Í lokin enduðum við í Grjótagjá og fengum okkur hlýtt bað sem var ágætt í lok dagsins. Hér er ein mynd úr ferðinni en síðan má sjá fleiri hér.

Sunnudagur 12. mars 2006 kl. 16:45|Ljósmyndun || Álit (2)

Fjölmenning á Vetrarhátíð


Multicultural festival
Originally uploaded by LaStef.
Hér er ein myndin sem ég tók á Vetrarhátíð í Reykjavík. Við fórum í Sigtún þar sem Blómaval var eitt sinn og þar var fjölmenningarhátíð sem var gríðarlega skemmtileg. Hér er ég líka að prófa hvort ég geti sett inn myndir hér frá Flickr sem kemur nú ekki vel út því forritið stútar íslenskunni sem gengur nú ekki en þá veit ég það;-)

Þriðjudagur 28. febrúar 2006 kl. 20:38|Ljósmyndun || Álit (5)

Hænur og hanar

whani5426.jpg Ég fór á fund í morgun á Björk í Eyjafjarðarsveit en þar búa gríðarlega flottar hænur ásamt tveimur hönum. Ég myndaði heilmikið en er ekki búin að vinna alfarið úr því en hér eru nokkur dæmi. Eru þetta ekki flottar skepnur?

Verst er að ef fram heldur í fuglaflensumálum þá geta hænur og hanar ekki verið útivið hér á landi og er það alger synd. Þá verður þessum fuglum líklega lógað þar sem þær eru vanar því að vera úti og erfitt að loka slík dýr alfarið inn í búrum.

Laugardagur 25. febrúar 2006 kl. 16:43|Ljósmyndun || Álit (1)

Vann silfur

wKirkja4438.jpg
Nú var ég að vinna silfur í ljósmyndakeppni.is og er feykilega montin. Mér fer nú hægt fram í þessari ljósmyndun en þó á ég mínar "stundir" eins og með þessa mynd sem ég er mjög ánægð með. Margir halda að hún sé samsett en svo er ekki þetta er tekið úr portinu bak við gömlu Bögglageymsluna í Gilinu. Það var nokkuð dimmt svo ég varð að nota flass sem auðvitað virkaði bara á vegginn en ekki kirkjuna svo það varð að vinna hana upp en ég hafði gaman af því að hafa hana dökka. Ég kallaði hana "Boðskapur kirkjunnar" en félagar mínir í ljosmyndakeppni.is kölluðu hana "Kirkjukórinn" sem er líklega enn betra;-)

Laugardagur 4. febrúar 2006 kl. 19:42|Ljósmyndun || Álit (9)

Frábær ljósmyndaferð

Þátttakendur á ljósmyndakeppni.is fóru í ljósmyndaferð hér á Akureyri í dag. Ferðin var í alla staði mjög vel heppnuð og mættu alls 9 manns í ferðina en voru ekki allir allan tímann. Við byrjuðum í Listigarðinum og fórum síðan yfir í Vaðlareitinn og þaðan var farið í kaffi á Bláu könnuna og endað á myndatöku í miðbænum. Mikið var spjallað um linsur og myndavélar, ljósmyndaferðir og keppnir. Allir voru býsna glaðir og ákveðið að halda fljótlega aftur í slíka ferð;-)

Laugardagur 21. janúar 2006 kl. 16:30|Ljósmyndun || Álit (0)

Vann brons!

Ég er búin að vera óskaplega montin í dag enda vann ég bronsverðlaun á Ljósmyndakeppni.is í keppninni "Skammdegi". Ég náði þessum árangri með mynd sem ég kallaði "Klaki í skammdeginu".
Lesa meira Lesa meira um "Vann brons!" »

Mánudagur 9. janúar 2006 kl. 23:37|Ljósmyndun || Álit (10)

Ljósmyndun dagsins

wHola1.jpg
Ég fór austur í Hafralækjarskóla í dag og þar var gott að koma. Var að kenna kennurum sem voru einstaklega skemmtilegir og gefandi. Á leiðinni heim tók ég nokkrar myndir og vann í Photoshop er enn að læra hvernig mig langar að hafa ský. Þessi hola birtist allt í einu og ég var fljót út fyrir veg og myndaði. Hér eru líka fleiri myndir af skýjum. Fjórar frá deginum í dag en hinar tvær eru í sömu vinnslutegund sem ég er að pæla í þessa dagana.

Miðvikudagur 4. janúar 2006 kl. 23:33|Ljósmyndun || Álit (1)

Nýjar myndir

wHusvidHafid.jpgÉg er búin að vera að sýsla í ljósmyndun í dag og prófa hitt og þetta. Þessi hér er t.d. vetrarmynd en einhvernvegin er hægt að ná grænu litunum fram engu að síður undarlegt nokk. Síðan vann ég mynd af klaka en ég er afar hrifin af því hvernig ís formar sig. Hrafnhildur Lára fann hann handa mér út á Brávöllum þegar við vorum úti að ganga með Kát. Á eftir að vinna fleiri myndir úr þeirri seríu. Hér er afraksturinn, ég er ekki orðin nógu leikin með brennslutólin en þetta er að koma - er það ekki?

Miðvikudagur 28. desember 2005 kl. 01:47|Ljósmyndun || Álit (0)

Ljósár kemur í dag

Í dag er stór dagur og virkilega spennandi. Bók áhugaljósmyndara á www.ljosmyndakeppni.is kemur út en hún heitir Ljósár. Ég er með tvær myndir í bókinni og er auðvitað búin að fara þessa tilfinningarúllettu að mínar myndir séu alverstar í bókinni. En svo finnast mér þær bara í góðu lagi stuttu síðar. Ég er hinsvegar stolt af mér að taka þátt og hlakka virkilega til að sjá bókina síðar í dag en við sem erum hér fyrir norðan ætlum að hittast á Kaffi Amor um hálf sex og þá kemur bókin. Ég hlakka líka til að hitta Helgu Kvam sem er með mér í þessu, hún er frábær ljósmyndari og var að vinna keppni. Við höfum ekki hist ennþá en spjallað saman í síma og á netinu. Þannig að þetta er virkilega spennandi dagur;-)

Föstudagur 2. desember 2005 kl. 09:24|Ljósmyndun || Álit (2)

Ljósár

Ég hef verið að herða upp hugann og setja ljósmyndir í nýja bók áhugaljósmyndara sem kallast Ljósár. Ætla að nota þar einhverjar ísnálamyndanna minna. Nú vantar okkur að selja bókina en milli 40 og 50 ljósmyndarar eru hver með eina opnu í bókinni sem er af stærðinni 20x20. Ef einhver hefur áhuga þá endilega skráið ykkur fyrir eins og einni bók, hér er tengill á það: Árbók áhugaljósmyndara, Ljósár, er nú komin í forsölu á aðeins 2.500 kr og fá allir þeir sem kaupa hana í forsölu nafnið sitt á þakkarsíðu í bókinni. Allar upplýsingar um hvernig á að panta bókina og fá nafnið sitt á þakkarsíðu er að finna hér.

Mánudagur 26. september 2005 kl. 09:26|Ljósmyndun || Álit (0)

Myndir í Séð og heyrt

Mér til mikillar ánægju voru nokkrar af myndunum mínum úr Samfylkingarferðinni í Þórsmörk notaðar í Séð og heyrt nr. 36/2005. Ég varð harla stolt enda búin að vera að streða mikið við að geta tekið myndir sem má nota faglega. Ég á nokkuð í land en samt sem áður þá held ég að þetta sé smám saman að koma hjá mér;-) Þetta voru myndir af Steinunni Valdísi borgarstjóra ásamt Sigrúnu Hjartardóttur, Ingibjörgu Sólrúnu ásamt þeim Þórunni Sveinbjörnsdóttur, Önnu og Árdísi, Olav Veigari og Björgvini G. Sigurðssyni og síðast en ekki síst af Gunnari Svavarssyni formanni framkvæmdastjórnarinnar. Ég var ekkert búin að vinna þessar myndir þar sem lá á að fá þær en sé ekki betur en þeim hjá blaðinu hafi tekist það mætavel þar sem þess þurfti.

Mánudagur 12. september 2005 kl. 13:27|Ljósmyndun / Pólitík || Álit (2)

Haustar

Haust.jpg
Ég fór í smá ljósmyndaferð í gær því mér finnst afar falleg sýn þegar fjöllin fara að fá hvíta kolla. Þegar haustlitirnir koma þá gefast mörg tækifæri og mikilvægt að nýta þann tíma vel. Birtan var ekki alveg nógu góð þannig að það er spurning að prófa aftur í dag en mér fannst þetta sjónarhorn mjög skemmtilegt svo það er um að gera að prófa það aftur;-)

Sunnudagur 4. september 2005 kl. 10:20|Ljósmyndun || Álit (2)

Hrossagaukur á hreiðri

Hrossagaukur.jpg

Hrafnhildur Lára fann þetta hreiður fyrir viku síðan rétt hjá bústaðnum mínum og mér kom á óvart hversu þaulsætinn fuglinn er. Ég ákvað því að prófa að mynda hann fyrir ljósmyndakeppni en sama þó ég færði stráin öll frá þegar hann fór af hreiðrinu þá var hann búinn að raða þeim yfir sig aftur þegar á hreiðrið var komið. Svo ekki verður þetta keppnismynd en skynsamur er fuglinn að fela sig svona vel. Hann fellur ótrúlega vel að umhverfinu og ég þurfti að vita að hann var þarna til að sjá hann.

Sunnudagur 12. júní 2005 kl. 22:54|Ljósmyndun || Álit (0)

Tíu þúsund myndir

Tiuthusund.jpgÍ dag tók ég mína tíuþúsundustu ljósmynd frá því ég fékk myndavélina mína Fuji Finepix S7000 þann 26. júní 2004 svo á réttum 11 mánuðum hef ég tekið tíu þúsund myndir.

Hér til hliðar má sjá fyrstu myndina af Birnu Sísí bróðurdóttur minni og síðan mynd 10.000 sem er af rofabarði í fjörunni fyrir neðan Pétursborgir sem ég tók í morgun. Ég get nú ekki séð að mér hafi farið nokkuð fram en man núna að það er svarthvít stilling á myndavélinni sem ég var alveg búin að gleyma;-)

Miðvikudagur 25. maí 2005 kl. 18:17|Ljósmyndun || Álit (1)

Hestar, skófir, brum

wGult.jpgÍ gær var ég að mynda í Rjúpnaholti sem er alltaf gaman, hér til hliðar er einhverskonar skófir sem vex á fúnu tré sem verður fyrir vikið all litskrúðugt. Við Gísli vorum að stússast í vatninu, fórum upp í hólf til að sjá hvort það væri allt þar eins og það átti að vera. Á leiðinni hittum við hestana á Efri Rauðalæk en þar eru byrjðu að koma ægifögur folöld. Svo var bara að leggjast marflöt og taka myndir af bruminu á skriðvíðirnum, gríðarlega fallegur. Hér má sjá myndirnar sem ég er búin að vinna betur.

Föstudagur 6. maí 2005 kl. 08:46|Ljósmyndun / Rjúpnaholt || Álit (2)

Jabbadabbadú

Loksins náði ég betri árangri í ljósmyndakeppni var númer 40 af 265 ljósmyndum og er alveg feykilega glöð eftir frekar dapra frammistöðu hingað til. Mér fer svo sannarlega fram;-) Myndin var af gömlum járnhring sem er negldur inn í klett við sjóinn rétt norðan við Akureyri við gamlar húsarústir. Ég er harla montin núna;-)

Miðvikudagur 13. apríl 2005 kl. 18:32|Ljósmyndun || Álit (3)

Fallegt blóm

wTulipani2.jpgÉg hef verið að spreyta mig á s.k. macro ljósmyndun og gengur misjafnlega. Þegar ég var að keyra Fífu systir á flugvöllinn á annan í páskum sá ég túlípana baðaða í sólarljósi á borðinu hjá Baldvin í kaffiteríunni og þeir komu svona líka ljómandi út. Bara ánægð með þá hjá mér en hef ekki sent þá í neina keppni. Líklega hefði ég átt að gera það;-)

Miðvikudagur 30. mars 2005 kl. 00:32|Ljósmyndun || Álit (2)

Mér fer fram!

Nú lenti ég í 101 sæti af 239 sem er mikil framför með mynd af vinum frá því að kúra á botninum síðast hjá DPChallenge. Sumsé ég er meiri en meðalmaður í þessari keppni, það er alveg hreint ágætt;-)

Miðvikudagur 23. mars 2005 kl. 11:11|Ljósmyndun || Álit (5)

Misjafnt gengi í keppnum

Ég hef verið að taka þátt í ljósmyndakeppnum undanfarið og gengið hefur verið ansi mikið upp og niður. Hinsvegar er þetta ofboðslega gaman. Ég er einstaklega ánægð með að hafa íslenska keppni ljosmyndakeppni.is en síðan tek ég líka þátt hjá DPChallenge. Niðurstöðurnar mínar í dag eru að ég lenti í 326 sæti af 331 með mynd af línum á DPChallenge (var síðast í 98 sæti af 183), 2 sæti af 5 með mynd frá Jórdaníu og 15 af 22 í keppni um dægurlög. Ég er sumsé verulega slakur meðaljón (ehemm eða léleg) og legg metnað minn í að klifra upp verðlaunastigann. Ekki gefast upp - bara læra betur og æfa sig meira;-) Vonandi líður ekki á löngu þar til ég get montað mig hérna af góðum árangri;-)

Mánudagur 21. mars 2005 kl. 12:22|Ljósmyndun || Álit (3)

Ísnálar

SkrufaL.jpg Í dag voru mjög sérstakar ísnálar um allt á Akureyri og því kjörið að taka myndir á meðan þær voru. Trén voru þakin ísnálum, umferðaskilti, girðingar og margt fleira. Hilda Jana sagði að sumt væri eins og að kókosmjöli hefði verið dreift yfir.

Laugardagur 26. febrúar 2005 kl. 23:26|Ljósmyndun || Álit (2)

Biðskylda

wBidskylda.jpg
Það er alltaf gott að minna sig á að bíða áður en maður ekur út á þjóðveg númer eitt. Ekki er síðra að geyma póstkassann á staurnum. Þessi staur er við afleggjarann að Neðri Rauðalæk þar sem sumarbústaðurinn minn er í Rjúpnaholti. Ég bætti við nokkrum ljósmyndum af klakamyndunum á læknum við safnið mitt frá um daginn. Ég var dálítið hrifin af þessum grýlukertum sem eru eins og klukkukólfar.

Mánudagur 14. febrúar 2005 kl. 23:41|Ljósmyndun || Álit (0)

Rauðalækur

wKerti.jpg

Það voru fallegar ísmyndanir í Rauðalæknum í dag. Gaman að taka myndir - hér eru tvær í viðbót.

Sunnudagur 6. febrúar 2005 kl. 22:32|Ljósmyndun / Rjúpnaholt || Álit (0)

Frábær ferð á Raufarhöfn

Frost_litla.JPG

Ég hefði viljað eyða miklu meiri tíma í myndatöku á Melrakkasléttunni í dag en Fífa systir þurfti í flug. Þarf endilega að fara aftur og taka fleiri myndir. Frábærar móttökur og skemmtilegt með Guðnýju Hrund, Beggu og Fífu ásamt frábæru fólki á Þorrablótinu.

Laugardagur 5. febrúar 2005 kl. 23:55|Ferðalög / Ljósmyndun || Álit (2)

Gleðilegt ár 2005

wAram7.JPG

Ég óska öllum innilega gleðilegs árs og friðar sem hingað ratar inn. Þakka öllum sem hafa orðið á vegi mínum á síðasta ári og hlakka til samstarfsins á þessu nýja ári.

Fleiri myndir eru í albúminu mínu af flugeldum í kvöld.

Laugardagur 1. janúar 2005 kl. 01:12|Ljósmyndun || Álit (3)

Æm feimus

Það eru komnar farsímaskjámyndir af myndunum mínum á Hexia og menn geta pantað þessar myndir. Ég veit svosem ekki til þess að neinn hafi gert það en finnst ofboðslega gaman að sjá myndirnar mínar þarna;-) Nú geta menn sent nýárskveðju með mynd sem ég tók - ekki slæmt;-)

Miðvikudagur 29. desember 2004 kl. 14:50|Ljósmyndun || Álit (2)

Ís á glugga

wIs2.JPGFór út í 14 stiga frostið í dag og tók nokkrar myndir.

Þó er ég einna hrifnust af ísmyndunum á glugganum í Lárusarhúsi. Ótrúleg fegurð!

Vildi að það væri meiri harka í mér að bauka úti við ljósmyndun í þessum kulda;-)

Laugardagur 20. nóvember 2004 kl. 16:50|Ljósmyndun || Álit (2)

Bláber að hausti

wBlaber.JPGÞetta bláber var farið að gefa eftir í haustkuldum rétt sunnan Húsavíkur í gær. Bláberjalyngið er íðilfagurt um allar brekkur eldrautt.


Við Gísli ókum morguninn eftir vel heppnaðan Samfylkingardag á Húsavík til Mývatns og alls staðar blasti haustfegurðin við.

Mánudagur 11. október 2004 kl. 08:41|Ferðalög / Ljósmyndun / Tilveran || Álit (2)

Barnabarnið braggast

Litlaw.JPG

Nýja barnabarnið braggast vel og hún er byrjuð að skoða heiminn stórum augum. Amman lætur ekkert fram hjá sér fara og hefur bætt við nokkrum myndum í myndaalbúmið.

Fimmtudagur 5. ágúst 2004 kl. 08:50|Ljósmyndun / Tilveran || Álit (3)

Hvað er þetta???

Ég er búin að vera að mynda í fríinu og í gær tók ég mynd af örlitlu strái (um 15 cm á hæð) með skrýtnum skordýrum (það er hægt að stækka myndina með því að smella á hana). Ég er búin að leita alla blómabókina mína fram og til baka en finn ekki stráið sem er með litlum svörtum kornum sem við notuðum til að mála okkur í gamla daga. Ég kann heldur engin skil á litlu dýrunum í ástarleik á stráinu sem ég hélt reyndar að væri bara eitt dýr þegar ég horfði með berum augum en þegar myndin var komin í tölvuna sáust tvö. Veit einhver hvaða strá og hvaða skordýr þetta eru???

Fimmtudagur 29. júlí 2004 kl. 17:00|Ljósmyndun || Álit (9)

Strax komin heim

Nútildags eru börn komin heim strax fyrsta daginn og þá tók amma og fleiri myndir af nýja barnabarninu sínu.

Miðvikudagur 14. júlí 2004 kl. 12:59|Ljósmyndun || Álit (1)

Nýtt barnabarn

barnabarnw.JPG
Í nótt fékk ég nýtt barnabarn, Hilda Jana og Ingvar Már eignuðust gullfallegt stúlkubarn. Stórasystir og amman eru mjög spenntar fyrir þessu öllu saman. Auðvitað eru komnar inn myndir.

Mánudagur 12. júlí 2004 kl. 21:08|Ljósmyndun || Álit (6)

Grill - Grófargil - Kaldbakur - Þekking

Við hér í gamla Kaupfélagshúsinu tókum okkur saman í blíðunni í dag og grilluðum saman í hádeginu. Gaman að sjá hvað margir spruttu út úr þessu húsi þegar í rauninni var nánast bara um eina hæð þess að ræða. Hér eru nokkrar myndir af húllumhæinu.

Þriðjudagur 6. júlí 2004 kl. 15:24|Ljósmyndun / Vinnan || Álit (0)

Fluga á Sóley

Fluga á sóley við Rjúpnaholt

Ég hef nú eignast ágæta myndavél Fuji S7000 sem er mikill dýrgripur og hlakka ég til að spreyta mig á að taka myndir með henni. Hér er ein sú fyrsta en síðan má hér sjá fleiri myndir af flugum á sóleyjum, blómstrandi furu og uppáhaldið mitt himinn og ský.

Sunnudagur 27. júní 2004 kl. 21:34|Ljósmyndun / Rjúpnaholt || Álit (1)

Farið í Öskju

Við Gísli og Kátur fórum frábæra ferð að Öskju á laugardaginn. Veðrið var dásamlegt og hitinn fór aldrei niður fyrir 16 gráður þó við værum komin langt inn í land. Hér eru myndirnar úr ferðinni.
Lesa meira Lesa meira um "Farið í Öskju" »

Mánudagur 1. september 2003 kl. 01:00|Ferðalög / Ljósmyndun || Álit (0)

Komin með myndaalbúm

Nú er ég farin að setja myndirnar mínar í myndaalbúm með forritinu Gallery. Það er ekki lengur pláss á harða disknum mínum fyrir allar myndirnar. Hér eru þær jafn aðgengilegar fyrir mig og aðrir geta skoðað;-)

Þriðjudagur 22. júlí 2003 kl. 21:23|Frétt / Ljósmyndun || Álit (2)

Knúið af Movable Type 3.33
Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.