Allar færslur í flokknum Tilveran. Aftur á aðalsíðu

Ný lífsreynsla

Ég var beðin um að skemmta á kvöldvöku á útihátíð í Hrísey um helgina. Þar var Fullveldishátíðin í Hrísey og Bláskeljahátíð. Ég er alltaf of brött og samþykkti að koma fram og flytja eigin lög. Þegar að deginum kom, fussaði ég og skammaði mig harðlega fyrir þessa vitleysu. Var að hugsa um að hringja rammhás og segjast ekki geta komið. En það þýðir engan aumingjaskap svo ég lét mig hafa þetta. Ég flutti sex lög og það var virkilega gaman - svona eftirá;-)

Hátíðin var skemmtileg og fjölskylduvæn, mæli eindregið með henni!

Mánudagur 21. júlí 2008 kl. 12:04|Tilveran || Álit (1)

Listakonurnar í Gee's Bend

Ég var að skrifa ritgerð um listakonurnar í Gee's Bend sem eru ótrúlegar. Gee's Bend er lítið þorp með 750 íbúum og kúrir í krika Arizona árinnar sem umlykur það á þrjá vegu. Þarna voru þrælar sem unnu frá sólarupprás til sólarlags en á kvöldin gerðu konurnar sér bútasaumsteppi til að verjast kuldanum. Teppin voru unnin úr ónýtum fötum, pokum undan áburði eða efnisbútum sem fundust meðfram veginum. Gee's bend var fátækasta samfélag í fátækasta samfélaginu, þar er ekki skóli, matvörubúð eða læknir. Árið 1998 uppgötvaði William Arnett listmunasafnari teppin þeirra. Nú eru þau á sýningum á virtum listasöfnum og dýrasta teppið var selt á 40.000 dollara. Þau eru á frímerkjum, prýða nokkur sendiráð Bandaríkjanna og fátæktin hefur vikið frá. Ein kvennanna segir stolt frá því að nú eigi hún alltaf nægan mat í frystikistu.

Sérstaklega snerti mig þó sagan af konu sem missti manninn sinn, þegar hann var dáinn tók hún öll fötin hans og gerði úr því teppi til að minnast hans og kúra undir því til að minnast ástar þeirra. Teppið er afskaplega fallegt en þar má sjá snjáð og skítug hné af buxum mannsins.

Konurnar eru nú taldar meðal fremstu listamanna og verk þeirra borin saman við verk Matisse og Klee. Abstrakt form ólík öðrum bútasaumsteppum sem ég hef séð með ótrúlegri þrívídd. Listverk sem hefur þróast konu fram af konu allt frá þrælatímanum sem nýtur nú virðingar. Sérstaklega er tekið fram að teppin eru ekki handverk heldur listaverk því hverju breytir hvaða efni eru notuð við listsköpun?

Fimmtudagur 10. júlí 2008 kl. 11:30|Tilveran || Álit (0)

75 hafa hlutað á Hurt

Ég kíkti á statistíkina yfir vefinn minn því ég var að velta fyrir mér hvort nokkur kíkti inn;-) Þá sá ég að fyrstu þrjá dagana í júlí hef ég fengið 1993 heimsóknir, 75 hafa hlustað á nýja lagið mitt Hurt, 35 á Rauðu stjörnuna, 27 á Litla stúlka, 14 á Orð og 12 á Plat. Þetta þykir mér miklu meira en ég bjóst við, sérstaklega gömlu lögin sem ég hef ekkert verið að benda á.

Ég fæ að meðaltali 107 heimsóknir á klukkustund og 1595 síðum er flett að meðaltali á dag. Svo ég hætti að láta mér líða eins og Palla sem var einn í heiminum. Ég hélt að allir væru hættir að lesa þessar síður þar sem ég hef verið ódugleg að skrifa í vetur og sumar. En kannski maður haldi bara áfram;-)

Föstudagur 4. júlí 2008 kl. 11:04|Tilveran || Álit (0)

Lokahnykkur ljóðagerðarinnar

Jæja þá er ljóðagerðarhlutinn að verða búinn og ég búin að skila lokaljóðinu mínu. Ég þurfti nú endilega að semja lag við það og Johnny King útsetti fyrir mig. Ég er mjög ánægð með útkomuna. Ljóðið breytist aðeins þegar það er sungið, eiginlega bara endurtekningar en svona er ljóðið í upphaflegri mynd og svona er það sungið

Hurt

first like a sword that slashes
through bone and flesh
you think, you are dead

then like a knife stabbing
turning in the wound
you think, you will never heal

like frostbite that burns
black parts falling off
you think, you lost something

like needles that prick
drops of blood appear
you think, you will heal

like small little flicks
on strong leather skin
you think, you don't notice

One day you wonder
if feelings exist

Þriðjudagur 1. júlí 2008 kl. 15:15|Tilveran || Álit (0)

Ljóð úr ljóðasmiðjunni

Núna áttum við að gera n.k. minningarljóð sem átti að byrja "I remember" og vera vísun í eitthvað sem hefur gerst hjá okkur. Hér er mitt dæmi ef einhver hefur gaman af því að sjá það. Það á eftir að gagnrýna það svo það gæti nú breyst í meðhöndlun;-)

The Wish

I remember when I found the four leaf clover
whispering my silent wish to small hands
embracing the magic

My grandmother brought the bicycle three days later
red and shining - received without thanks
but to the elves

Fimmtudagur 26. júní 2008 kl. 22:19|Tilveran || Álit (0)

Ljóðagerð

Ég ákvað að taka áfanga í skapandi skrifum í mastersnáminu til að mér gengi betur að rita texta á ensku með myndunum mínum. Nú strögla ég og strögla við að lesa ljóð á ensku og semja mín eigin. Eins og aðrir Íslendingar hef ég alltaf samið ljóð frá því ég man eftir mér en um 10 ára aldurinn samdi ég ódauðlegt ljóð sem ég sendi pennanvinkonu minni frá Patreksfirði sem hófst svona:

Komdu sæl mín fína
mig sækir magapína
en hún er nú að sjatna
og verkurinn að batna

Það sem er skemmtilegt við ljóðalesturinn er að Magnús Ásgeirsson þýddi sum ljóðanna á íslensku sem við erum að fást við en hann hefur verið í uppáhaldi hjá mér. Óvenju snjall listamaður sem gat þýtt erlent ljóð svo vel að það hvarflar varla að manni annað en það sé runnið undan rifjum rammíslenskra skálda. Skemmtileg hugarleikfimi að skoða hvernig ljóð umbreytast í þýðingunni og hvort sú breyting verður til þess að það menningarsamfélag sem les þýdda ljóðið skilur það eins og upprunalega ljóðið var skilið í því málsamfélagi sem það var samið.

En nú stenst ég ekki að semja lög við ljóðin sem ég sem svo það tefur nokkuð við námið;-)

Annars er búið að dagsetja stóra prófið í sumar þann 25. júlí kl. 18 að íslenskum tíma þannig að það er nægur tími til að stressa sig á þessu;-)

Fimmtudagur 26. júní 2008 kl. 11:48|Tilveran || Álit (2)

Skólinn byrjaður aftur

Þá er skólinn byrjaður aftur, ég tek tvö námskeið núna. Annars vegar Crossing borders sem fjallar um listir þeirra sem ekki eru af vesturevrópskri menningu og hinsvegar skapandi skrif. Ég er búin með alla skyldukúrsana í ljósmyndun nema einn sem ég ætla að geyma þar til haustframboðið er komið á hreint. Svo þarf ég að taka stórt próf í sumar s.k. midpoint próf þar sem ég þarf að verja fyrir dómnefnd tillögu mína að lokaverkefni. Nú er bara að vera dugleg já og krossa putta;-)

Mánudagur 16. júní 2008 kl. 22:00|Tilveran || Álit (0)

Dásamleg fíflamáltíð

Mig hefur oft dreymt um að gera eitthvað annað við fífla heldur en stinga þá upp úr grasinu í garðinum hjá mér. Loksins varð af veislumáltíð þar sem fíflar voru aðal uppistaðan. Við María og Henna fórum í Rjúpnaholt í dag og tíndum fíflablóm og blöð ásamt hundasúrum. Þegar heim var komið voru fíflablómin matreidd eftir uppskrift sem ég bjó til sjálf og voru dásamlegur matur. Með var salat úr fíflablöðum og hundasúrum. Henna bjó til frábæra sósu og við nutum máltíðarinnar með góðu hvítvíni. Við vorum sammála um að salatið þyrfti meiri þróun en fíflarnir og sósan væru frábær. Svo nú ætti ég að hætta að bölva fíflum í garðinum mínum og borða þá hér eftir. Ekki spurning.

Laugardagur 14. júní 2008 kl. 19:38|Tilveran || Álit (0)

Vorfrí

Þann 17. maí s.l. komst ég í vorfríið í skólanum og það var vægast sagt stafli af verkum sem beið. Ég hef ekki verið dugleg við vefinn minn enda nauðsynlegt að forgangsraða þegar margt er að gerast.

Mánudagur 2. júní 2008 kl. 22:12|Tilveran || Álit (0)

Stór jarðskjálfti í Vanuatu

Vanuatu hefur alltaf verið undraland í mínum huga, sjálfstætt ríki langt í burtu sem fáir vita að eru til hér á Íslandi. Líklega erum við jafn lítið til hjá þeim. En það var óhugnanlegt að sjá að þar hefði fyrir nokkrum stundum riðið yfir jarðskjálfti upp á 6.7 á Richter kvarða.

Svo stórir skjálftar eru landsmönnum þar ekki ókunnugir en í ágúst 2007 var þar skjálfti upp á 7.3 á Richter en sá var djúpur 150 km og engin flóðbylgja kom í kjölfarið. Að þessu sinni er skjáftinn hinsvegar á 10 km dýpi. Í janúar 2002 var þar skjálfti upp á 6.3 á Richter og flóðbylgja í kjölfarið og skjálftinn á 23 km dýpi.

Ég sé engar fréttir enn af skjálftanum núna enda einungis fjórir tímar frá honum og fréttir vart farnar að berast. Eyjarnar eru flatar og þola illa flóðbylgjur svo nú er bara að vona að allt sé í lagi í langtburtistan eyjunum í Vanuatu.

Mánudagur 28. apríl 2008 kl. 23:58|Tilveran || Álit (1)

Ég er dálítill nörd

Þurfti að taka nördaprófið til að sjá hvort mér hefur farið aftur með aldrinum... nei nei ég er í fínu svíngi;-)


I am nerdier than 96% of all people. Are you a nerd? Click here to find out!

Laugardagur 19. apríl 2008 kl. 00:14|Tilveran || Álit (4)

Flugferðir

Ég fór suður á fund í morgun, sem er ekki í frásögur færandi því flestar vikur fer ég a.m.k. einu sinni þangað. Hinsvegar dreymir mig orðið um að fjarfundabúnaður fari að verða staðlaður og maður komist á fundi hér heima þannig að ferðatíminn minnki til muna, kostnaður minnki sem og áhættan við veðurteppur hverfi alveg. Lausnin hefur hinsvegar oftar verið sú í nefndum hins opinbera að menn velja sér nefndarfólk sem kemur af suðvesturhorninu, fundar á suðvesturhorninu og telur sig vita eitthvað um landið allt. Það gengur ekki að útiloka stóran hluta þjóðarinnar frá ákvörðunum og svo er ekki gert núna. Hinsvegar myndi það auðvelda málin heilmikið ef nútímatækni væri notuð í þessu samhengi.

Mánudagur 3. mars 2008 kl. 23:49|Tilveran || Álit (2)

Foucault

Ég er að lesa um Foucault í listasögunni núna og velti fyrir mér sýn hans á veröldina. Sérstaklega dáist ég að því að maðurinn skuli hafa haldið krafti sínum og baráttugleði alla ævi þrátt fyrir að honum hafi verið verið komið fyrir í ýmsum stöðum sem hefðu fengið margan manninn til þess að halla sér aftur í stólnum og láta sér líða vel. Ég var að gera verkefni um The Science of Dicipline sem líklega má þýða sem vísindi ögunar og fjallar um hvernig alþýðan er öguð til hegðunar sem er þóknanleg ráðandi stéttum. Þar er talar hann um fimm atriði: spatilization, minute control of activities, repetitive exercises, detailed hierarchies og normalizing judgement. Fyrirgefið að þýðingarnar spretta ekki úr fingrunum á mér sem er ákveðin fötlun þegar námið fer allt fram á ensku. En ef við skoðum þetta eilítið nánar.

Lesa meira Lesa meira um "Foucault" »

Föstudagur 29. febrúar 2008 kl. 18:56|Tilveran || Álit (0)

Tilraun með myndband

Mig langaði að prófa að gera myndband með ljósmyndunum mínum, hér er afraksturinn af fyrstu tilrauninni.

Miðvikudagur 6. febrúar 2008 kl. 01:34|Ljósmyndun / Tilveran || Álit (3)

Ég vil Tinnasöngleik

Gerður hefur verið söngleikur eftir sögunni Fangarnir í sólhofinu um Tinna eftir Hergé og eftir því sem ég fæ best séð er tónlistin frábær og leikgerðin virkilega skemmtielg. Er ekki hægt að fá einhvern til að setja þetta upp hér á landi???

Svo er hérna myndband í upptökustúdíói þar sem Jelle Cleymans syngur Tinna:

Föstudagur 25. janúar 2008 kl. 22:52|Tilveran || Álit (1)

Gleðilegt ár!

Árið 2007 var ár umbreytinga og stóratburða fyrir mig, eiginlega svo mjög að vart hefði verið hægt að koma fleiru fyrir á einu ári. Þannig á ég von á því að árið 2008 verði talsvert rólegra og hlakka reyndar verulega til þess;-)

Nú er ég komin í frí í skólanum, haustönninni lauk ekki fyrr en 22. desember þannig að ég spratt upp frá síðasta prófinu og eina sem komst að var: jólakort - jólagjafir - jól. Jólin voru síðan dásamleg með börnunum og gaman að fylgjast með barnabörnunum í hverjum stórviðburðinum á fætur öðrum.

Ég óska öllum þeim sem eiga hér leið um farsældar og gleði á nýju og spennandi ári.

Miðvikudagur 2. janúar 2008 kl. 23:10|Tilveran || Álit (0)

Sniðug púsluspil

Ég hef gaman af því að raða púsluspili en þegar ég hef eitt sinn raðað púsli þá er það ekki jafn spennandi síðar n.k. leyst þraut. Því er ég ekki til í að kaupa mér mikið af þeim. Fór að leita áðan og fann nokkuð skemmtilegt púsluspil á Netinu sem er gaman að leika sér að í stutta stund. Hér er það ef einhver annar hefur gaman af því.

Click to Mix and Solve

Sunnudagur 30. desember 2007 kl. 23:01|Tilveran || Álit (0)

Gleðilega rest

Ég óska öllum þeim sem eiga hér leið um gleðilega jólarest og farsældar á komandi ári.

Fyrir þá sem hafa verið að bíða pistla þá hefur tíminn alfarið verið helgaður ljósmyndun sem ég verð sífellt heillaðri af eftir því sem ég læri meira. Því á ég von á því að segja meira með myndum en orðum í framtíðinni;-)

Laugardagur 29. desember 2007 kl. 00:51|Tilveran || Álit (0)

Hlátur er bestur

Fátt er skemmtilegra en eitthvað sem fær mann til að hlægja svo innilega, hér er myndband af dásamlegum páfagauk sem dansar betur en nokkur sem ég hef séð;-)

Sunnudagur 21. október 2007 kl. 19:17|Tilveran || Álit (1)

Wabi-Sabi

Í listasögukúrsi sem ég er í um Renaissance tímann var kennarinn okkar að benda á hugtakið Wabi-Sabi sem mér þótti afar áhugavert að lesa um og því er þetta innlegg e.t.v. meira til að passa að týna því ekki frekar en annað. Umræðuefnið hjá okkur í fyrstu lotu hefur verið um fegurð og skilgreiningu á henni. Hvort skilgreining á fegurð sé föst innra með okkur frá fæðingu eða hvort þar bætist ofan á eitthvað sem þróast og okkur líkar. Verið er að skoða gríska list og þeirra sjónarmið.

En Wabi-Sabi er hinsvegar að skoða fegurð einfaldleikans, ryðs, slits, þess sem liðið er. Ekki þannig að hlutir séu skítugir og í rusli heldur hlutir sem eru metnir af verðleikum og settir í samhengi við nútímann. Það er að vísu miklu meira í þessu þannig að ef einhver hefur áhuga þá er tengill í grein um Wabi-Sabi. Ég þarf hinsvegar að velta fyrir mér - ekki í fyrsta skipti - mikilvægi hins efnislega í samhengi við hvað skiptir máli í lífinu almennt. Alltaf gott að fara í gegnum það;-)

Sunnudagur 16. september 2007 kl. 14:38|Ljósmyndun / Tilveran || Álit (0)

Astropía frábær

Fór með Hildu Jönu að sjá Astrópíu sem mér fannst þrælfyndin. En að þekkja ekki Eragon er auðvitað óskiljanlegt;-) En þessi mynd sýndi svo ágætlega muninn á þeim heimum sem við getum búið í þrátt fyrir að vera öll í tiltölulega litlu samfélagi á Íslandi. Mæli með myndinni, þrælfín.

Sunnudagur 26. ágúst 2007 kl. 18:41|Tilveran || Álit (0)

Sumarfrí

Sumarfríið hefur verið virkilega skemmtilegt. Ég er búin að fara með Helgu Kvam á Snæfellsnesið og setja upp ljósmyndasýninguna hennar, þaðan suður í höfuðstaðinn og síðan vestur í Kvígindisfjörð þar sem við stöllurnar í Púls 68 nutum gestrisni og náttúrunnar.

Bækurnar fyrir skólann eru komnar, dægilegur stafli sem ég hlakka til að lesa.

Ég hef notið þess að mynda í fríinu og fann m.a. að ég er með ljósmyndaDNA. Skemmtileg hugmynd en hér er það:

View my DNA at bighugelabs.com

Laugardagur 25. ágúst 2007 kl. 13:24|Ljósmyndun / Tilveran || Álit (1)

NetFlix

Þetta er sniðug myndbandaleiga sem kallast NetFlix, er eitthvað svona hér á landi? Maður gerist áskrifandi fyrir 4,95$ á mánuði og getur síðan leigt eins og maður vill. Býr sér til lista og fær mynddiskinn, má vera með hann eins lengi og maður vill (jáhá engar sektir) en fær ekki næsta disk á listanum fyrr en maður er búinn að skila þeim fyrri. Svona á að gera þetta, það þarf að nútímavæða myndbandaleigur landsins;-)

Fimmtudagur 26. júlí 2007 kl. 17:04|Tilveran || Álit (0)

Túrhestur í dag

Ég var túrhestur í dag, fór ferð með Isamu Shimazaki vini mínum á Mývatn. Ég þreytist aldrei á að fara þangað, náttúran, jörðin, lífið, krafturinn - algerlega ómetanlegt. Í dag var heilmikið af rykmýi sem ég náði dálítið skemmtilegum myndum af. Þarf að pæla betur hvernig má fanga þessar mýflugur. Hitti leiðsögumann sem sagði mér að fræðingar teldu að það féllu til 2000 tonn af mýi árlega - 2000 tonn! Hugsið ykkur ef því yrði dumpað yfir mann allt í einu - vúps!

Isamu var ánægður og hrifinn, honum finnst Ísland æðislegt - segir hann. "Ef við hefðum svona stað í Japan þá væru komin einkafyrirtæki, hótel, íbúðir - allt girt af og náttúran eiginlega horfin utan þess parts sem sannarlega væri friðaður", sagði hann. "Hér er þetta í alvörunni náttúra, Ísland er einn þjóðgarður" bætti hann við.

Sunnudagur 17. júní 2007 kl. 20:34|Tilveran || Álit (0)

Fífilbrekka og breytingar

Í dag var ég á Fífilbrekkuhátíð að Hrauni í Öxnadal. Með mér voru Isamu Shimazaki vinur minn frá Japan og María Jónsdóttir textíllistakona sem hefur einmitt gert afar skemmtilega púða með síðasta ljóðinu í Ferðalok eftir Jónas Hallgrímsson. Isamu skildi ekki mikið en naut góðviðris, gönguferðar og íslenskrar náttúru. Merkilegasta setningin sem hann hefur sagt í ferðinni var "Þið Íslendingar eruð svo fjölbreytt þið eruð ekki öll eins - við Japanir erum öll eins". En hátíðin var góð og uppbyggingin að Hrauni glæsileg í alla staði.

Undanfarið hef ég verið að fá góðlátlegar athugasemdir frá vinum mínum um að ljósmyndunin mín hafi breyst - augljóst sé að ég sé að lesa ljósmyndasöguna. Þetta kom flatt uppá mig enda ekki mjög meðvituð um hana mig en fór að hugsa.

Lesa meira Lesa meira um "Fífilbrekka og breytingar" »

Laugardagur 16. júní 2007 kl. 22:49|Ljósmyndun / Tilveran || Álit (0)

Uppáhaldslagið mitt

Var að skoða hitt og þetta á YouTube og rakst þar á þetta ágæta tónlistarmyndband af uppáhaldslaginu mínu með Freddie Mercury, Great Pretender. Alltaf frábært!

Miðvikudagur 6. júní 2007 kl. 20:28|Tilveran || Álit (0)

Úff

Voðalegt er að sjá hversu löt ég er við að skrifa, en hvað um það, var í kvöld að fara yfir pappíra frá skólanum mínum (Academy of Art University) og þar á meðal þarf ég að undirrita viðamikil gögn um stefnu skólans gegn áfengi og eiturlyfjum. Annað sem ég var hrifin af var að ég þarf að undirrita hverjir mega fá gögn frá mér og dugar ekkert fyrir mig að biðja um þau án þess að þau hafi undirritað plagg þess efnis. Ég held að íslenskir skólar megi taka þetta til fyrirmyndar en þeir fara stundum ótrúlega frjálslega með gögn frá nemendum og þá til annarra skóla eða stofnana.

Í morgun fór ég á Amtsbókasafnið að lesa ljósmyndasöguna, fór síðan seinnipartinn á Punktinn að vinna dálítið í leir og mótaði tvær skálar og tvo bolla, ætla að hafa þetta dálítið litaglatt og sumarlegt. Ég er orðin leið á þessum steríla hvíta lit sem er búinn að vera allsráðandi í umhverfinu undanfarið. Steindautt fyrirbæri.

Ég vakti síðan lengi frameftir til að ná sólarupprásinni sem ég nennti ekki upp úr rúminu til að mynda í fyrrinótt og er býsna lukkuleg með árangurinn. En nú er tími til að fara að sofa og njóta þess að skoða myndirnar sem ég tók betur á morgun.

Þriðjudagur 5. júní 2007 kl. 02:45|Tilveran || Álit (0)

Mikið fjör og mikið gaman

Það þarf nú að líta upp og skemmta sér öðru hvoru, hafði gaman af þessari vefsíðu þar sem hægt er að kveikja og slökkva á hljóðfæraleikurum. Fékk þetta frá brasilískri vinkonu minni og þetta er ekta suðrænn kraftur;-)

Þriðjudagur 29. maí 2007 kl. 20:36|Tilveran || Álit (0)

Flensan og ég

Þá loksins fékk ég heiftarlega flensu, hef ekki fengið eina slíka í nokkur ár en nú læddist hún aftan að mér, fyrst lagðist hún á hálsinn, svo hausinn og síðan allan skrokkinn. Ég reyndi að sannfæra mig um að ég væri ekki veik og þetta væri bara lumbra en varð að láta í minni pokann í gær. Ég komst því ekki suður á fund, ekki í kvöld á bæjarmálafund en ég er búin að horfa á myndbandsspólur, snýta mér og sofa. Líklega er bara best að taka þetta út og vera ekkert að þykjast vera alheilbrigður. En mikið er leiðinlegt að vera veikur:-(

Mánudagur 19. mars 2007 kl. 20:26|Tilveran || Álit (0)

Frábærir tónleikar!

Afmælið mitt varð stórkostlegt, segja má að það hafi verið tónleikar í þrjá tíma ásamt alskyns uppákomum. Ég bannaði ræður enda voru stjórnmálamenn í boðinu sem hefðu haldið endalausar ræður. Þetta reyndist frábært. Lögin mín voru flutt þ.á.m. jarðarfararlagið sem bæði hinn frábæri kór Hymnodia flutti stórkostlega sem og systurbörn mín þau Matti og Katrín sem settu það í n.k. gospel stíl. Bassi, Unnur og Gísli fluttu lagið mitt "Það er vor" sem ég hef verið að vinna, Gísli söng til mín eigin lög sem var mjög fallegt, ég flutti Lili Marlene og eitt tenórlag, jú og svo bláberjalagið. Unnur Birna og Eyþór voru dásamleg og slógu í gegn. Bassi var frábær og Johnny King einstakur. Litli bróðir söng ógleymanlegt afmælislag og margt fleira gerðist. Þetta var frábært afmæli eða bara frábærir tónleikar;-)

Ég fékk margar góðar kveðjur frá leiðtogum jafnaðarmanna, Ingibjörgu Sólrúnu, Össuri og Helle Thorning-Schmidt, ekki amarlegt það;-)

Sunnudagur 11. mars 2007 kl. 19:54|Tilveran || Álit (1)

Veisla í undirbúningi

Nú er veisluundirbúningur á fullu, hópur saxar grænmeti, flakar fiska og sýður súpur. Aðrir setja upp hljóðkerfi, sumir dúka borð, aðrir undirbúa bækurnar og sumir í sendiferðum. Nokkrir afar laumupúkalegir en aðrir eru bara að leika sér á skíðum eða í búðum. Nokkrir enn á leiðinni norður en flestir komnir.

Þetta verður frábær afmælisveisla sem ég er mjög farin að hlakka til og ekkert annað kemst að í dag;-)

Laugardagur 10. mars 2007 kl. 16:32|Tilveran || Álit (2)

Afmæli í dag;-)

Þá er afmælisdagurinn kominn og ég orðin L-ára s.k.v. rómverskum tölum;-) Tímamót eru virkilega skemmtileg og sérstaklega þegar margir fagna þeim með manni. Ég hef fengið þá stærstu afmælisgjöf sem ég gat óskað mér með bókinni Vinaslóð þar sem svo margir gera okkur Gísla mínum kleift að gefa út ljóðaljósmyndabók.

Nú sendi ég bara knús til allra sem eru mér svo góðir, auðga líf mitt og gera það svo dæmalaust skemmtilegt;-)

Föstudagur 9. mars 2007 kl. 11:10|Tilveran || Álit (20)

Nýjir tímar

Ég ákvað að segja upp í vinnunni um þessi mánaðarmót þrátt fyrri að hún sé að mörgu leyti mjög skemmtileg. Ég hef verið að byggja upp Tölvuskólann Þekkingu hér á Akureyri og verið í skemmtlegu samstarfi við starfsmennina í Reykjavík sem hafa að mestu séð um starfsemina þar. Það hefur gengið býsna vel að stofnsetja öflugan skóla í bænum og aðsóknin hefur verið framar vonum. Sérstaklega hefur verið gaman að taka þátt í að byggja upp meira nám fyrir áhugaljósmyndara sem ég mun kannski gera samt sem áður og væri virkilega gaman því ég er með margar hugmyndir í því.

Það að vera framkvæmdastjóri þýðir talsvert langan vinnutíma og mikið áreiti sem passar ekki reglulega vel með því sem ég vil vera að gera. Núna næstu mánuði verður auðvitað mest að gera í framboðsvinnunni sem er gríðarlega skemmtileg en síðan vil ég fá meiri tíma fyrir ljósmyndunina og lagasmíðina. Bókin okkar Gísla kemur út í næstu viku og hefur fengið heitið Vinaslóðir en það væri gaman að fylgja henni eitthvað eftir.

Þrátt fyrir að það felist alltaf einhver óvissa í því að ákveða að breyta til þá eru alltaf ný tækiæri og skemmtilegir hlutir að fást við þannig að ég er bara spennt fyrir því að finna út eitthvað skemmtilegt að gera.

Fimmtudagur 1. mars 2007 kl. 07:51|Tilveran || Álit (3)

Ískristallar og betri tíð

Fréttablaðið bar með sér betri tíðindi úr skoðanakönnun en við Samfylkingarmenn höfum séð undanfarið. Það gladdi mig óneitanlega en hinsvegar má benda á að margir eru óákveðnir og fylgi virðist sveiflast töluvert og svo verður áreiðanlega áfram í þessari kosningabaráttu.

Við Gísli minn fórum að Eyjafjarðaránni í dag með barnabörnin þær Hrafnhildi Láru, Ísabellu Sól og Sigurbjörgu Brynju. Veðrið var dásamlegt og frostblóm yfir öllu. Ég hef ekki áður séð svo fallega ískristalla í eins miklu magni og var, frostblómakrans á spegilsléttu svellinu á ánni og Hrafnhildur Lára fór í skautana og renndi sér og dansaði á ánni. Ég tók mikið af myndum enda myndefnið nánast endalaust. Mismunandi form á frosnu vatni er ótrúlegt listaverk.

Sunnudagur 11. febrúar 2007 kl. 16:26|Tilveran || Álit (2)

Bókin að verða tilbúin í prentun

Nú er bókin okkar Gísla að verða tilbúin í prentun en allar frístundir undanfarið hafa farið í að ljúka mínu verki við bókina. Ég vann 42 myndir fyrir hana, hver mynd tileinkuð bekkjarfélaga frá Bifröst á árunum 1974-1976. Myndin tengist einstaklingunum á mismunandi hátt, e.t.v. vegna þess að eitthvað á myndinni minnir á einstaklinginn, áhrifin af myndinni minnir á eða eitthvað sem ég held að viðkomandi gæti haft gaman af. Gísli samdi síðan ljóðin 42 þannig að hver opna er tileinkuð hverjum.

Ég er búin að sjá próförk og þetta lítur afskaplega vel út, ljóð og ljósmyndir eiga vel saman og skapa held ég ákveðinn andblæ sem er skemmtilegur.

Sunnudagur 4. febrúar 2007 kl. 18:10|Tilveran || Álit (0)

Mikið að gera

Suma daga er einfaldlega talsvert að gera og dagurinn í dag var þannig. Ég fór fyrst á stórkostlegt námskeið um Mind manager hjá Elínu Þorsteinsdóttur frá Verkefnalausnum. Hún keyrði námskeiðið áfram af miklum krafti og sjaldan hefur tíminn nýst eins vel við það að fara á námskeið. MindManager er hreinlega stórkostlegt tól til svo margra hluta og ég náði alls ekki að fikta mig nóg þar í gegn. Ég er afar ánægð með samstarfið við þær stöllur hjá Verkefnalausnum og hlakka til að fá þær aftur norður.

Eftir hádegið datt ég inn í kennslu eldri borgara í forföllum kennarans og það var frábært, mikið sem nemendur voru áhugasamir og duglegir við oft óstýrilátar tölvurnar.

Þar á eftir kosningastjórnarfundur, grípa í sig samloku og kenna um stafrænar myndavélar til níu. Núna ætla ég á fund Ungra jafnaðarmanna sem hafa verið einstaklega duglegir að skipuleggja ungliðadag og fengu í lið með sér þingmenn kjördæmisins ásamt þingmönnunum Katrínu Júlíusdóttur, Björgvin G. Sigurðssyni og Ágústi Ólafi Ágústssyni varaformanni flokksins. Við erum ótrúlega lánsöm með ungliðana okkar, kraftmikið og duglegt fólk!

Fimmtudagur 1. febrúar 2007 kl. 21:16|Tilveran || Álit (1)

Frábær sunnudagur

Í dag var góður dagur, fjölskyldan hittist í morgun eins og venjulega á sunnudögum og ég fékk að leika með barnabörnunum sem er mjög skemmtilegt. Ísabella Sól gaf mér sleikjó fyrir að vera dugleg að fara á postulínið alveg sjálf. Við Gísli skoðuðum síðan lagersölu Samkaupa í Blómavalshúsinu en þar er ótrúlega gott verð og margir geta þar gert góð kaup sérstaklega í barnafötum. Við fórum síðan á Listasafnið og skoðuðum virkilega skemmtilega og áhugaverða sýningu Jóns Óskars og Adam Bateman, veggfóðursverk Jóns Óskars voru gríðarlega flott en bókaverk Adams voru afar skemmtileg og sérstaklega myndband sem skapaði margar áhugaverðar pælingar. Þá fórum við á listaverkaútsölu sem Aðalsteinn Svanur Sigfússon var með á verkum sínum í Populus Tremula og ég festi kaup á afar skemmtilegu gulu verki eftir hann sem sjá má á þessari mynd. Svo vann ég heilmikið í bókinni minni en í kvöld fórum við í heimsókn til Matthíasar og Fjólu að Álfaklöpp þar sem var frábært að koma. Þetta var semsagt frábær sunnudagur.

Sunnudagur 28. janúar 2007 kl. 23:36|Tilveran || Álit (0)

L-ára

Samkvæmt rómverskum tölum þá er L = 50 og þar af leiðandi verð ég L-ára í ár. Aldrei skemmtilegra að lifa og aldrei eins margt að gerast. Ekki hefði ég trúað því þegar ég var ung og fögur. Gamlir vinir mínir komu mér á óvart og ákváðu að í tilefni afmælisins yrði gefin út ljósmyndabók af þessu tilefni. Þetta er auðvitað bjarnargreiði því ég þarf að vinna allar myndirnar í bókina. Hinsvegar finnst mér dálítið spennandi að það verður s.k. Tabula Gratulatoria þar sem þeir sem vilja heiðra mig með því að skrá sig í bókina - en listinn verður prentaður þar - og jafnvel líka kaupa eintak af bókinni geta gert það. Ég hef ekki hugmynd um hverjir verða þar og er eiginlega meira spennt yfir því en bókinni enda er hún talsverð vinna núna, maður er alltaf fegin slíku - eftirá. Ef einhver hefur áhuga á að vera með sem mitt fólk hefur ekki haft samband við þá er hægt að hafa samband við Jóhönnu Leopoldsdóttur johannal@aknet.is og koma sér á blað. Ég veit ekki hverja þau þekkja af þeim sem ég þekki;-) En það þarf að klára að setja bókina fyrir 1. febrúar svo þetta er allt að smella saman;-) Verður gaman að sjá hvernig gengur en María Jónsdóttir hannar kápuna og hún er mjög flott! Þetta er spennandi verkefni;-)

Miðvikudagur 17. janúar 2007 kl. 22:27|Tilveran || Álit (0)

Dansleikur og skírn

Þá er helgin búin sem var reynar mjög viðburðarík. Ég mætti á nýársdansleik Tónlistarfélagins okkar í alflottasta kjól sem ég hef átt. Hef alltaf langað í glæsikjól með skjörti en eiginlega ekki fundið út hvar væri hægt að nota hann. Ég náði í slíkan kjól í Prinsessunni í Mjóddinni og bjó mig upp og menn dáðust að mér í fína kjólnum sem var býsna gaman. En það kárna gamanið þegar kom að dansinum sjálfum því háhælaðir gullskór bættu nú ekki vínardansinn hjá mér sem var býsna lélegur fyrir. Ég var hreinlega eins og nashyrningur og hékk mér til bjargar á hverjum dansherranum á fætur öðrum sem greinilega skrifaði í minnið að muna eftir að bjóða mér ekki upp að ári. Þeir sem buðu mér upp í fyrra vöruðust þetta sumir - en ekki allir. Mér þótti hinsvegar ofboðslega gaman;-)

Síðan skaust ég suður í gær þar sem Fífa systir hafði ákveðið að skíra sig í Hvítasunnusöfnuðinn og þá mætir maður auðvitað. Það er nú meira hvað messur þess safnaðar eru fjörmeiri en messurnar hjá þjóðkirkjunni. Hvernig er það hættu menn alveg að reyna að poppa þær messur upp? Allir textar með lögum eða sálmum á breiðtjaldi svo allir geta sungið með, tekið upp á tvær vídeótökuvélar og sjálfsagt sýnt á Omega sjónvarpsstöðinni - ég bara veit það ekki. En allavega virðist mikið að gerast í kringum þessan söfnuð. Vonandi líður henni vel þar og söfnuðurinn reynist henni vel.

Ég náði auðvitað að mynda líka bæði í fluginu og aðeins í Reykjavík, þarf endilega að komast í að vinna úr því en það er bæjarmálafundur hjá Samfylkingunni í kvöld svo ég veit ekki hvort það næst en það koma nýir dagar og meiri tími;-)

Mánudagur 8. janúar 2007 kl. 18:51|Tilveran || Álit (0)

Stundaskrá og Brús

Dagurinn hefur farið í að ganga frá stundaskrá vorannarinnar hjá Tölvuskólanum Þekkingu þar sem ég vinn. Endilega dáist að nýja vefnum okkar nokkuð flottur ekki satt? Annars er stundatöflugerð alltaf flókin, hver getur kennt hvenær og hvað. Hinsvegar hefur þetta gengið býsna vel og ég hef fengið mjög góða kennara í lið með okkur. Svo það verður margt spennandi á seyði og ég ætla mér að reyna að komast á námskeið í Flash sem mig hefur lengi langað til. Svo fæ ég að kenna um stafrænar myndavélar sem er virkilega gaman sameinar áhugamálið og vinnuna;-) Um leið og ég er að stússast þetta hafa fyrstu nemendurnir verið í námi fyrst í Tölvu- og skrifstofunáminu í morgun, síðan í MCDST Microsoft námi eftir hádegið og núna í kvöld MCSA Microsoft nemendur. Þau eru öll svo skemmtileg og gaman að vera með þeim. Símenntun allt lífið er mikilvæg og mér finnst sérstaklega gefandi að starfa við að auka námsframboð fólksins hér á Akureyri og nágrannasveitarfélögum. Þar sem skólinn starfar á báðum stöðum get ég haft framboðið mjög fjölbreytt hér þar sem námsefni er til og þekking á hvað er kennt. Virkilega gaman.

Nú er hinsvegar tími kominn til að hætta að vera framkvæmdastjóri og fara og spila Brús hjá Hildu Torfadóttur. Árlegur viðburður sem er ægilega skemmtilegur;-) Hilda er með eindæmum félagslynd kona og hefur svo sannarlega hresst upp á mitt félagslíf þegar við förum í bíó eða á listsýningar. Svo kvöldið verður flott;-)

Föstudagur 5. janúar 2007 kl. 20:27|Tilveran || Álit (0)

Áramótaheitið

Það er nauðsynlegt að strengja áramótaheit, það besta sem ég hef strengt hingað til var áramótin sem ég ákvað að ég hefði ekki lengur vandamál. Lífið hefur verið miklu skemmtilegra síðan. Fyrir utan það hef ég strengt heit um að auka lífshamingju, grennast, gera eitthvað sniðugt og oftast nær stend ég við það og það virkar ágætlega. Stundum hef ég ekki neitt og það er ágætt líka. En núna er ég sumsé með áramótaheiti - ég ætla að skrifa á bloggið mitt daglega þetta ár. Ég ætla ekki að lofa því að það verði alltaf óskaplega gáfulegt en ég ætla að skrifa. Skerpa sjálfsagann og einnig þjálfa mig upp í að skrifa. Sumir gætu nú sagt að þetta sé býsna sjálfmiðað (ég heyrði að þú sagðir það Pálmi!) en hver segir að ég þurfi að skrifa um mig. Það má skrifa um ljósmyndun, pólitík, skálda sögu, búa til ljóð eða bara blaðra. Svo er allt í lagi að vera sjálfmiðaður á stundum. Ég þarf hinsvegar ekkert að skrifa um mig í dag því Fréttablaðið gerir það. Svo nú er bara að sjá til hvernig gengur.

Þriðjudagur 2. janúar 2007 kl. 22:07|Tilveran || Álit (2)

Gleðilegt ár 2007!

Kæri lesandi ég óska þér og þeim sem þér þykir vænt um alls hins besta á árinu 2007 og þakka fyrir allt sem þú hefur verið mér. Hvort sem ég þekki þig eða ekki þá met ég mikils þegar menn lesa síðuna mína og ekki síður þegar þeir skilja eftir smá athugasemdir.

Ég hlakka til ársins 2007 með sínum ævintýrum, ljósmyndaferðum, tónlist og pólitík. Ekki síst því að á þessu ári verð ég 50 ára eða L-ára því 50 er jú L í rómverskum tölum;-) Aldrei hefði ég trúað því ungmær fyrir áratugum að núna - akkúrat núna - sé skemmtilegasti tíminn í lífinu. Aldrei hef ég verið að gera eins mikið af því sem mig langar til sjálfa og ég nýt þess í tætlur.

Árið verður frábært nú er bara að bretta upp ermar og sjá til þess að það standist;-)

Mánudagur 1. janúar 2007 kl. 01:57|Tilveran || Álit (3)

Gleðileg jól

Þá eru jólin að koma og ég er enn að skrifa jólakortin, sem er reyndar frekar algengt enda stressa ég mig sjaldan á því að koma þeim til skila en fyrir Þrettándann verða þau að vera komin því þá er hátíðin búin;-) Það er fínt að vera komin á mitt æviskeið, ekkert barnastress, reyndar bara farið til barnanna að borða, bara búa til jólaísinn og þá er ég fín. Gísli er byrjaður að elda kalkúninn enda leggur hann til í eldamennskunni.

Lesa meira Lesa meira um "Gleðileg jól" »

Sunnudagur 24. desember 2006 kl. 16:38|Tilveran || Álit (1)

Jólastússið

Ég er nú ekki mikill jólastússari en engu að síður eru jú nokkur handverkin við jólin. Búin að gefa starfsfólkinu jólagjafir sem ég vona að þau séu ánægð með. Búin að kaupa allar og pakka öllum nema tveimur. Jóladiskurinn kominn út og lítur ágætlega út, við köllum hann "Litbrigði" þetta árið - ég er ánægð með það nafn. Svo dútla ég við að senda hann út, hann er jú jólakortið okkar sem og áramótakortið. Ég stressa mig ekkert á því að koma honum í póstinn fyrir jólinn hann mjatlast bara út eftir því sem dagarnir líða og ég renni mér í þetta. Eins og fyrr geta þeir sem vilja eignast diskinn bara sett inn athugasemd hér og fengið hann ekki málið enda fyrst og fremst gert til skemmtunar og Johnny King reyndist jafn vel núna og fyrri árin, alltaf jafn hjálplegur. Konfektið komið í hús og ég búin að steingleyma danska kúrnum en hann rifjast hratt upp í byrjun janúar;-)

Föstudagur 22. desember 2006 kl. 23:15|Tilveran || Álit (0)

Dimmir tónar

Nú er jóladiskurinn tilbúinn - seint eins og venjulega. Kannski maður fari að kalla hann áramótadisk;-) Ég hef verið að æfa dimmri tónana mína undanfarið og tók í gærkvöldi upp aftur lagið Dimmar nætur sem ég hef mætur á og langaði að breyta dálítið þar sem ég er farin að æfa dimmri rödd en áður. Það hentar dimmu lagi. Jón Víkingsson hjálpaði mér með nýja útsetningu sem ég á eftir að melta dálítið en er nokkuð sátt við. Það er við ljóð sem Gísli minn samdi og beinir sjónunum að því að þrátt fyrir hversu mikilvæg við teljum okkur þá erum við lítið meira en rykkorn sögunnar:

Þegar drottna dimmar nætur
deyja gamlir menn
og ungir drengir

Þeir fara ekki framar á fætur
fallnir frá

Tímans ryk
á ævi þeirra fellur

enginn hvellur

þeir voru aldrei til

Mánudagur 18. desember 2006 kl. 10:56|Tilveran || Álit (5)

Jólaálfurinn

Er ég ekki flottur jólaálfur?

Föstudagur 15. desember 2006 kl. 23:23|Tilveran || Álit (1)

Afturfótadagur

Þetta var einn af þessum dögum sem ekki gekk eins og ég áætlaði. Ég vaknaði þó á réttum tíma til að komast út á flugvöll uppúr sjö. Í vinnuna að ná í pappíra en þá varð síminn eftir heima, svo það var heim aftur og komast út á flugvöll. Fínt flug - ég svaf - hjá Kristjáni Júl. Mætti í vinnuna og á fund í útvarpsráði - allt enn svona tiltölulega gæfuríkt, en mundi þá ekki flugtímann minn heim um eittleytið og missti af flugvélinni. Þar sem ég horfði mædd á afgreiðslustúlkuna á Reykjavíkurflugvelli og spurði - hvað geri ég þá? Áttu annað flug? Já en flugmiðinn þinn gildir ekki lengur nema þú borgir. Þá borga ég svaraði ég... en ég á bara flug hálf sjö, tja þá fer ég bara hálf sjö svaraði ég. Hún horfði hissa á mig "ertu ekkert reið"? Það er ekkert gaman að vera reiður, en maður er nú pínuponsu pirraður út í sjálfan sig;-) Ekkert mál bara aftur í vinnuna í Faxafenið enda skiptir engu hvoru megin ég vinn ég átti bara fund fyrir norðan sem ég flutti. Lét laga gleraugun mín upp í Mjódd - sé núna afspyrnu vel - og keypti jólagjafir fyrir starfsfólkið mitt. Út á flugvöll aftur, fínt flug - ég svaf - hjá Steingrími J. Akureyri skartaði sínu fegursta, frost og trén með fallegum jólasnjó, spurning að fara út að mynda ég er búin að sofa svo vel í dag í flugvélum;-)

Föstudagur 15. desember 2006 kl. 21:35|Tilveran || Álit (0)

MindManager, handverk og pólitík

Í morgun var ég mætt út á flugvöll um sjöleytið því vinnudagurinn var fyrir sunnan. Loftleiðir, MH, Þekking og síðast sýningin Handverk og hönnun. Fyrst fór ég á ráðstefnu á Hótel Loftleiðum sem byrjaði nánast á sömu mínútunni og ég gekk í salinn. "Takk fyrir Reykjavíkurflugvöll" hugsaði ég í þúsundasta sinn. Án hans hefði ég ekki getað sofið heima í nótt. Ráðstefnan sem var um MindManager og JCVGantt var frábær og eiga Verkefnalausnir heiður skilinn fyrir hana. Ég er búin að sjá marga fleiri möguleika til að nota þessi tól og nú síðast datt mér í hug að það væri frábært í pólitík, þarf að prófa það;-)

Lesa meira Lesa meira um "MindManager, handverk og pólitík" »

Föstudagur 27. október 2006 kl. 00:04|Pólitík / Tilveran / UT / Vinnan ||

Nýtt útlit

Mér til mikillar gleði er Dagný Reykjalín búin að hanna nýtt útlit á mig. Hún hefur séð um útlitshönnunina mína í nokkur ár og ég er alltaf jafnánægð með hana. Helga Kvam tók myndina af mér. Er þetta ekki bara fínt?

Sunnudagur 15. október 2006 kl. 22:06|Tilveran || Álit (8)

Bryggjuskrall í Ólafsfirði

wSelir0038_1675b.jpgVið Gísli og Hrafnhildur Lára fórum á Bryggjuskrall í Ólafsfirði í dag. Þetta var mikil tónlistarveisla þar sem hljómsveitin Roðlaust og beinlaust var í lykilhlutverki. Gísli söng með þeim að þessu sinni eigið lag "Fjallið" sem var frábær skemmtan. Auk þeirra voru margir gríðarlega flinkir tónlistarmenn sem gaman var að hlusta á. Ég myndaði heilmikið og búin að setja inn nokkrar myndir í albúmið mitt.

Laugardagur 9. september 2006 kl. 23:52|Tilveran || Álit (0)

Bláber og sveppir

Það var dæmalaust skemmtilegt um helgina, pólitík og vinna áttu sinn sess og einnig Menningarnóttin á Akureyri sem var gríðarlega skemmtileg. Tónleikar Sinfóníu Norðurlands voru ógleymanlegir í Gilinu. Síðan nýtti ég tímann til að tína sveppi, aðallega lerkisveppi en einnig dálítið af furusvepp og kúalabba. Allt var morandi í bláberjum svo einhver þeirra rötuðu með heim;-)

Nú er bara að herða sig í vinnunni því skólinn sem ég veiti forstöðu þ.e. Tölvuskóli Þekkingar er að fara í gang og mörg handtökin;-)

Mánudagur 28. ágúst 2006 kl. 09:43|Tilveran || Álit (3)

Barnið þrítugt

Í dag varð dóttir mín þrítug, mér finnst eins og hún hafi fæðst í gær á Fæðingarheimilinu. Man eftir innilokun í átta daga því þá var það skylduvist eftir fyrstu fæðingu. Barni með einn spékopp og hugsanlega með brún augu sem mér þótti ævintýralegt. Akstur með barnavagn í kringum Fornhagann, henni sitjandi á koppi á Bergþórugötunni og í ævintýraleikjum við Leifsgötuna. Barnið sem sagði um mynd af fólki leitandi á öskuhaugum í Indlandi "þau eru svo fátæk að þau eiga ekki einu sinni rusl". Stúlku í fallegum einkennisbúningi í lúðrasveit Lauganesskóla, í KR búningi í handbolta, með stúdentshúfu og orðin stór. Mikið líður tíminn hratt. Það er gott að eiga stórt barn sem á barnabörn handa manni að leika sér að.

Fimmtudagur 17. ágúst 2006 kl. 19:28|Tilveran || Álit (0)

Ævintýri í Grímsey

Gylfi og Sía í GrímseyÍ fögru veðri flugum við Gísli út Eyjafjörðinn í átt til Grímseyjar í fyrrakvöld. Eyjan tók vel á móti okkur og verður að segjast eins og er að vistin í eynni var ævintýri líkust allan tímann. Gestrisni Grímseyinga er með eindæmum og var hugsað um okkur svo undurvel að ég minnist ekki að slíkt hafi nokkru sinni gerst áður. Ég hafði ákveðið að við myndum bara kaupa mat í Grímsey en þá var búðin lokuð til tvö vegna þess hversu margir voru í landi vegna Verslunarmannahelgar og fáir til að manna störfin í eynni. Þegar við spurðumst fyrir varð Helga Mattína leiðbeinandi við skólann fyrir svörum og brást snarlega við bauð okkur í gómsætan morgunverð og Dónald maður hennar spilaði fyrir okkur. Við hittum síðan Síu skólasystur mína frá Laugum en hún og Gylfi maðurinn hennar gerðu þessa ferð okkar Gísla að stórkostlegu ævintýri. Við sigldum umhverfis eyna, nutum frábærs félagsskapar við þau hjón, hittum milljón lunda og jafnvel fleiri máva og veðrið var einstakt. Við höfum varla nokkru sinni upplifað annað eins ævintýri.

Föstudagur 4. ágúst 2006 kl. 23:08|Tilveran || Álit (0)

Frábærir tónleikar

SigurRós at Háls, Öxnadal
Við Gísli minn fórum á tónleika SigurRósar og Aminu að Hálsi í Öxnadal í gærkvöldi. Hittum Finn Birgi bróðurson Gísla sem vinnur hjá True North sem var að sjá um kvikmynd um SigurRós. Gaman hvað við Íslendingar eigum orðið margt gott fólk í kvikmynda- og tónlistariðnaði - alger snilld.

Ég held að aldrei nokkurn tíman hafi verið eins margt fólk í einu í efri Öxnadalnum túnin voru full af bílum og hópur fólks. Í gömlum rústum upp á hól var spákona og Gísli vildi endilega prófa að fara til hennar en við höfum nú ekki prófað slíkt áður. Hún brenndi salvíu, hafði fjölda kerta og á meðan hljómaði þessi seiðandi tónlist. Passaði ágætlega að leggja rúnir í þessu andrúmslofti. Kannski óþarft að segja það en framtíðin er gríðarlega björt;-)

Laugardagur 29. júlí 2006 kl. 23:39|Tilveran || Álit (0)

Landið er fagurt

Fátt er meira nærandi en að ferðast um í íslenskri náttúru eins og ég gert undanfarnar tvær vikur. Afurðirnar má sjá á myndunum á Flickr sem eru á renningi hér til hægri sem og fleiri. Ég hef notið þess að mynda það sem fyrir augun ber, anda að mér ferskum vindum og angan jarðar. Íslenskt sumar passar mér einstaklega vel, ekki of heitt og birtan mikil. Eins og segir í kvæðinu eftir Ólaf Hauk Símonarson "Landið er fagurt, og fjöllin blá";-)

Laugardagur 29. júlí 2006 kl. 13:34|Tilveran || Álit (0)

Loksins sumarfrí

Loksins er ég komin í langþráð sumarfrí og hlakka til að geta myndað og myndað og myndað;-) Fór út í kvöld og náði einhverjum miðnætursólarmyndum en hlakka til að fara í stutta túra og mynda meira;-) Ég er ein af þessum sem hef engan skilning af hverju fólk tímir að fara frá Íslandi yfir sumarmánuðina, það þarf venjulega að draga mig á hárinu úr landi á þessum árstíma;-) Nú er sko aldeilis hægt að njóta landsins.

Laugardagur 15. júlí 2006 kl. 01:33|Tilveran || Álit (1)

Upp- og ofandagar

Mér til mikillar ánægju vann ég ljósmyndakeppni mánaðarins fyrir júní á ljosmyndakeppni.is að vísu ekki með neitt sérlega háa einkunn en vann samt;-) Nú er bara að reyna að komast loksins yfir 7 í einhverri keppni.

Bíllinn minn olli mér miklum vonbrigðum, eða ætti ég frekar að segja bíllinn hennar Heklu en kúplingin í honum fór í annað sinn á tveimur árum. Við urðum strand og ég komst ekki norður þar sem ég var að bíða eftir bílnum og gat unnið í Reykjavík í gær. Í gærkveldi þegar ljóst var að það tæki lengri tíma að gera við bílinn vegna sumarleyfa fór ég norður og var komin í nótt örþreytt en eftir fallegan akstur um stöðugt sólarlag í öllum sýslum frá Borgarfirði til Eyjafjarðar. Hrafnhildur Lára las Vegahandbókina alla leiðina sem gerði ferðina virkilega skemmtilega.

Þriðjudagur 11. júlí 2006 kl. 13:04|Tilveran || Álit (7)

Hefur þú leitað að fjársjóðnum

Ég var að rúnta úti og taka myndir í kvöld og hlusta á norræn lög. Textinn eins lagsins datt allt í einu inn í kollinn á mér og ég heyrði orðin "hefur þú leitað að fjársjóðnum við endann á regnboganum". Einhver meiri heimspeki fylgdi með en þessi setning dvaldi með mér. Mér finnst nefninlega leitin að fjársjóðnum, vinnan við að ná settu markmiði, meira spennandi en að ná því. Kappið, væntingarnar, draumarnir, allt er þetta svo skemmtilegt. Hinsvegar finnst mér ekki eins skemmtilegt að eiga og minnast sigra. Ekki má skilja mig svo að ég vilji ekki ná markmiðum, langt í frá, ég vil klára það sem ég byrja á. Hinsvegar þegar því er lokið þarf að setja sér ný markmið, eignast nýja drauma og leita nýrra fjársjóða. Ég hef alltaf fjársjóði við enda regnbogans sem ég er að leita að og það er einmitt það sem gerir lífið svo dásamlegt.

Miðvikudagur 28. júní 2006 kl. 22:29|Tilveran || Álit (1)

Rjúpnaholt

Loksins komumst við Gísli í Rjúpnaholt en þar er sumarbústaðurinn okkar í landi Neðri Rauðalækjar á Þelamörk sem tilheyrir Hörgárbyggð. Ég náði að mynda eilítið sem má sjá hér til hægri á Flickr síðunni minni og sérstaklega er ég lukkuleg með mynd af gaflinum á sumarbústaðnum neðan frá fossi í Rauðalækjargilinu.
Lesa meira Lesa meira um "Rjúpnaholt" »

Sunnudagur 25. júní 2006 kl. 22:37|Tilveran || Álit (0)

Kórar í Laxárvirkjun

wKor0063_2083.jpg
Ég fór í gærkvöldi ásamt Sigrúnu Stefánsdóttur á tónleika kóramóts í Laxárvirkjun. Frábær skemmtan og eftir tónleikana fóru allir kórarnir út og sungu í brekkunni fyrir utan í kvöldsólinni. Það gleður sálina að njóta góðra söngradda sem svo sannarlega var raunin.

Laugardagur 10. júní 2006 kl. 18:46|Tilveran || Álit (0)

Vaðið í listaverk

Ég fór á fund í félagi um þekkingarstjórnun í Orkuveitu Reykjavíkur í gær. Alfa Kristjánsdóttir forstöðumaður skjalasafns OR sýndi okkur húsið og dáðist ég að listaverkum sem eru þar um allt. Þegar kom hinsvegar að listaverkinu Hringur þá labbaði ég spennt eftir mjóum gangi og inn í dimmt rými sem uppljómaðist samstundis og dansandi ljós voru fyrir endanum. Ég vildi kanna það nánar og þá vildi ekki betur til en að ég óð beint ofan í listaverkið þ.e. ofan í tjörn þar sem magnari magnaði upp gárurnar og myndaði dynjandi hljóð. Þar stóð ég hálf aulaleg rennandi blaut og Alfa horfði gáttuð á mig og sagði "þetta hef ég aldrei séð áður". Ég var sumsé orðin hluti listaverksins þar sem ég stóð eins og auli ofan í tjörninni - sem var reyndar ferlega fyndið. En listaverkið er frábært og mæli ég eindregið með að menn líti á það.

Miðvikudagur 7. júní 2006 kl. 23:19|Tilveran || Álit (2)

Komin í nýtt starf

Í dag 1. júní tók ég við stöðu framkvæmdastjóra Tölvuskólans Þekkingar. Skólinn er í eigu sömu aðila og ég hef verið að vinna fyrir undanfarin ár þ.e. fyrst hjá Þekkingu og síðan frá síðustu áramótum hjá Stefnu .

Þetta er mjög spennandi verkefni þar sem skólinn er með fjórar tölvustofur í Reykjavík í Faxafeni 10 en síðan er Tölvuskóli Stefnu og sú fræðsla sem var hjá Þekkingu lögð saman við og verðum við með tvær tölvustofur hér á Akureyri. Ég er búin að fara í skólann í Reykjavík og líst mjög vel á, frábært samstarfsfólk og staðsetningin góð í sama húsnæði og Menntaskólinn Hraðbraut. Nú er í nægu að snúast að komast inn í verkefnin og huga að nýjungum og möguleikum sem mér finnst afskaplega spennandi. Sérstaklega fjarnám og símenntunargreiningarnar sem ég hef verið að vinna. Nú er bara að bretta upp ermar;-)

Fimmtudagur 1. júní 2006 kl. 18:48|Tilveran || Álit (4)

Pú á Ísland

Ég hef ofboðslega gaman af Eurovision og játa það hreinskilnislega. Frábært að sjá Evrópukeppni í söng sem er frábær tilbreyting frá Evrópukeppnum í boltaleik, hoppum, stökkum og öðrum vöðvaæfingum. Undankeppnin í kvöld var gríðarlega skemmtileg og margt spennandi. Í fyrsta skipti var þarna verulegt pú á Íslenska framlagið sem er svosem ágætis tilbreyting frá algeru athyglisleysi á annars ágætum lögum oft á tíðum. Náttúrulega húmorslaust af Evrópumönnum að finnast dónaskapur ekki eins fyndinn og okkur Íslendingum. En það er grundvallaratriði finnst mér að hafa mikið drama í kringum Eurovision og það brást ekki núna;-) Sumsé, ærlegt pú á okkur, sem sýnir að það eru fleiri dónar en við!

Fimmtudagur 18. maí 2006 kl. 21:58|Tilveran || Álit (12)

Miðaldakjóllinn minn

Kjoll.jpg Mig hefur lengi dreymt um að eignast miðaldakjól og var búin að leggja að því drög. Í gær fór ég í Smámunasafnið (frábært safn) ásamt Kay sem er í heimsókn á vegum Rotary. Þar hitti ég Guðrúnu Ásgerði Steingrímsdóttur og var að skoða handverkið hennar. Hún var með þennan fína kjól sem passaði mér eins og hann hefði verið sniðinn sérstaklega á mig og ég festi kaup á honum samstundis. Mér finnst ég voða fín og fór í honum á Rotary fund í gærkvöldi. Við hann fékk ég síðan skinnskó og er nú afspyrnu miðaldaleg;-) Er ég ekki bara flott???

Ég mæli með ferð í Smámunasafnið og endilega skoðið vörurnar hennar Guðrúnar en auk fatnaðarins gerir hún eldhúsáhöld úr hreindýrahorni sem eru algert gersemi. Mig langaði líka í þau en varð að hemja mig einhversstaðar. Síðan gæddum við okkur á vöfflum með ísnum frá Holtaseli í Eyjafirði og ég get svo sannarlega mælt með honum. Algert góðgæti! Auðvitað á maður að fara í kaffi og vöfflur í Smámunasafnið;-)

Miðvikudagur 17. maí 2006 kl. 11:57|Tilveran || Álit (14)

Tilveran tilbúin

Loksins gekk ég frá síðasta diskinum okkar hérna inn sem heitir Tilveran og kom út fyrir jólin. Var að hlusta á hann aftur og þá eignast maður upp á nýtt uppáhaldslag, núna er það lagið hans Gísla míns sem heitir Sælan. Býsna gott hjá honum.

Fimmtudagur 11. maí 2006 kl. 00:17|Tilveran || Álit (2)

Gleðilegt sumar

wBlom8645.jpg
Ég fór í dag að leita að sumrinu, pjagaði um allar þorpagrundir og leitaði að sumri. Ekki mátti vera blóm í garði það varð að vera náttúrublóm. Ég fann græna sprota, örlitla smára, örlítið þetta og örlítið hitt. Ber frá síðasta sumri og margt fleira. Þá fór ég og labbaði inn í Villingadal, þar sem ég góndi á holt og hæðir til að sjá góð viðfangsefni þvældist fyrir mér steinn og ég steinlá. Var flökurt og svimaði í langan tíma, marði á mér hnéð og olbogann. En þar sem náttúran er svo góð að maður dofnar upp hélt ég áfram og fann þetta fallega blómstrandi blóðberg í klettum sem snéru til suðurs.
Svo allt var þetta þess virði, sumarið komið;-)
Gleðilegt sumar;-)

Fimmtudagur 20. apríl 2006 kl. 23:54|Ljósmyndun / Tilveran || Álit (3)

Sinnuleysi

Fnjoska riverÉg hef ekki verið dugleg við bloggið mitt undanfarið og má helst um kenna brennandi áhuga á ljósmyndun en mest af tímanum hefur farið í hana. Dásamlegt áhugamál sem er skemmtilegt að sinna. Annars hefur páskafríið verið frábært. Á skírdag fórum við Gísli í Fnjóskárdal þar sem hann sýndi mér ýmsa staði sem hann hefur verið að veiða. Ég klifraði niður á góðan veiðistað í kaðli eftir hálum klettum enda snjór yfir öllu. Á föstudaginn langa ókum við suður og fórum á tónleika með Ray Davis þeim sama og var í Kinks. Frábærir tónleikar hann er spriklandi skemmtilegur með frábæra tónlist. Hinsvegar var hávaðinn skelfilegur svo ég þáði eyrnatappa hjá Gísla, sem hefur þá alltaf í vasanum vegna sundferða, og þá var þetta ennþá skemmtilegra. Í gær var ég mest að vinna í ljósmyndunum en við elduðum mat heima hjá Hildu Jönu, Matti og Gulla voru komin að sunnan og þau voru með. Síðan spiluðum við norskt rommí af miklu miskunnarleysi. Í dag höfum við verið í heimilisbókhaldinu sem er skelfilega leiðinlegt svo ég vona að við finnum okkur eitthvað annað til dundurs þegar líða tekur á daginn.

Sunnudagur 16. apríl 2006 kl. 13:26|Tilveran || Álit (0)

Dagur.net

Ég hafði gaman af því að dagur.net hafði við mig viðtal nú fyrir helgina. Allt of sjaldan sem maður horfir yfir farinn veg og veltir fyrir sér hvað maður er búinn að gera og hvers vegna. En eftir að hafa farið í gegnum þessi atriði þá er ég einmitt búin að vera að dvelja við hvernig ég hef verið að tölta í gegnum lífið;-) Annars er dagur.net orðinn býsna þéttur fjölmiðill sem gerir tíðindum hér við Eyjafjörð og á norðurlandi góð skil. Þar er líka gott að fletta upp til að sjá hvað er að gerast á svæðinu. Þrælgott;-)

Sunnudagur 9. apríl 2006 kl. 18:32|Tilveran || Álit (3)

Skírn: Sigurbjörg Brynja

wdpc6182.jpg

Nýjasti fjölskyldumeðlimurinn Sigurbjörg Brynja Ingvarsdóttir var skírð á sunnudaginn í Akureyrarkirkju. Hrafnhildur Lára stóra systir hennar hélt henni undir skírn. Hér eru þær stöllur að skírn lokinni, er nokkur furða að amman sé rígmontin af stelpunum?

Þriðjudagur 14. mars 2006 kl. 22:15|Tilveran || Álit (7)

Hvað er lúdent?

Í nýafstaðinni ferð í Mývatnssveit var ungur piltur að sunnan máttlaus úr hlátri yfir nafninu Lúdent á fjalli í sveitinni. Hann spurði hvað orðið þýddi en það vissi enginn. Svo nú vil ég spyrja ágæta lesendur mína hvað þýðir orðið Lúdent? Það rímar við Stúdent svo það má semja kvæði og láta það ríma ef vill. Mér þykir þetta óskaplega embættismannalegt heiti og gæti verið virðulegt að starfa sem lúdent en þá væri nú vitlegra að þekkja hvað orðið þýðir. Veit það einhver?

Mánudagur 13. mars 2006 kl. 23:23|Tilveran || Álit (3)

Ég á afmæli í dag

Í dag á ég afmæli þá er hollt og gott að líta yfir hvað maður hefur gert frá því að síðast var afmæli. Hilda Jana dóttir mín gifti sig, ég samdi lög í brúðkaupsveisluna. Gísli Tryggvi sonur minn trúlofaðist Söndru sinni, keypti íbúð og flutti að heiman. Ég var í Jórdaníu á afmælinu í fyrra og búin að fara til Englands og Írlands síðan þá. Eignaðist þriðja barnabarnið sem verður skírð á sunnudaginn. Átti ljósmynd í ljósmyndabókinni Ljósár og á sýningu á Vetrarhátíð í Reykjavík. Gaf út plötu fyrir jólin með Gísla. Sat á Alþingi í tvær vikur. Kötturinn Freddi flutti inn. Nú er spurning hvort það að vera 49 verði jafn viðburðarríkt og síðan bara halda gífurlegt húllumhæ þegar ég verð fimmtug að ári;-)

Fimmtudagur 9. mars 2006 kl. 16:01|Tilveran || Álit (15)

Ég gerði ALLT í dag

Í dag ók ég til Reykjavíkur með Gísla mínum, fór á Nings og fékk léttkost, þaðan í gamla Blómavalshúsið á fjölmenningarfestival á Vetrarhátíð, þaðan á Ásmundarsafn og síðan á ljósmyndasýninguna. Hélt tímamótaræðu (right) við opnun sýningarinnar og fannst ofboðslega spennandi að eiga mynd á sýningu. Þessi frábæra mynd var tekin þar af Arnþóri og það sést hvað það er gaman;-) Síðan í bollukaffi til Fífu sys og síðan keyrt norður. Ég sumsé gerði bara ALLT í dag;-)

Sunnudagur 26. febrúar 2006 kl. 22:42|Tilveran || Álit (3)

Lífið er svo skemmtilegt

Stundum er svo gaman að vera til. Dagurinn í dag hefur einmitt byrjað þannig og lífið er svo skemmtilegt. Nýji iPodinn minn er búinn að vera spila fyrir mig Venezia Romantica, Rondo Veneziano sem beinlínis yljar sálinni og kætir um leið. Ég hef staðið mig að því að dansa hér og þar við morgunverkin. Ég fór með Kát út að ganga í morgun þar sem ég hitti Ute og Miriam með sína hunda í morgunskímunni. Þokumóða steig af hafinu og frostið skreytti jörðina. Ég hljóp niður í fjöru og gerði léttar æfingar. Dró ferskan sjávarilminn að mér, horfði á litla trillu rjála við spegilsléttan hafflötinn. Fuglarnir liðu áfram og mörkuðu litlar gárur sem teiknuðu á hafflötinn eins og brúðarslæða á eftir þeim. Síðan hafragrauturinn og sinna kisunum á heimilinu. Emilía sat upp á skáp og horfði á mig dansandi við að steypa málningu á andlitið. Freddi var þeirrar skoðunar að það ætti að knúsa hann - þá gerir maður það bara. Mía Ming og Baldvin Tong létu eins og þau væru í hreiðurgerð en það hafa þau gert áður. Leiðin í vinnuna lá niður gilið og morgunlitirnir fallegir og Pollurinn friðsæll. Í vinnunni voru Stefnustrákarnir kattiðnir við verkin. Fórum yfir verkefni dagsins.

Laufey kemur í heimsókn í dag, það er Rotary fundur og ég fer um helgina suður á Vetrarhátíð á opnun ljósmyndasýningar okkar ljósmyndaáhugamanna í World Class í Laugum klukkan 14:00 á stunnudaginn. Þar fæ ég að halda opnunarræðu sem ég er að smíða. Ég hlakka svo mikið til að sjá mynd eftir mig á sýningu. Er alveg að rifna úr stolti, þökk sé félögum mínum á ljosmyndakeppni.is þá heldur ljósmyndaævintýrið áfram. Nú er svo gaman að vera til og lífið svo skemmtilegt, er það ekki;-)

Föstudagur 24. febrúar 2006 kl. 10:38|Tilveran || Álit (1)

Frábær Eurovision!

Ég fór á úrslitakvöld Eurovision söngvakeppninnar í stúdíóið við Fiskislóð í gærkvöldi ásamt Katrínu Ýr og er himinlifandi. Ég hefði aldrei trúað því, nema af því ég sá það, að hægt væri að keyra í gegn annað eins kvöld og þarna var gert. Söngvararnir hverjum öðrum betri, liprir dansarar, hljóðfæraleikarar sem geisluðu af hæfileikum. Síðan allt utanumhaldið, píanó út, flygill inn, hátalarar hér og þar og allt gekk þetta upp á ótrúlega stuttum tíma á meðan eitt "póstkort" var sent í loftið. Við Íslendingar eigum á að skipa ótrúlegum fjölda manna sem hafa þekkingu, reynslu og metnað til að sjá um úrslitakvöld af þessari stærð. Svo ég lýsi því hér með yfir að við getum alveg séð um alvöru Eurovision úrslitakvöld svo Silvía Nótt má alveg vinna í Aþenu;-)
Lesa meira Lesa meira um "Frábær Eurovision!" »

Sunnudagur 19. febrúar 2006 kl. 19:19|Pólitík / Tilveran || Álit (6)

Annasöm vika

Vikan er búin að vera býsna annasöm. Ég hef unnið meira en venjulega enda nóg að gera á nýrri skrifstofu á nýjum stað hjá nýja fyrirtækinu sem ég byrjaði að vinna fyrir um áramótin. Pólitíkin hefur tekið sinn tíma í þessari viku var ég í umhverfismálum og kafa betur ofan í þau. Rifjaði enn og aftur upp hversu ferlega duglegir Hríseyingar eru miðað við okkur hér inn á Akureyri í þeim efnum. Var síðan veðurteppt í dag svo ég komst ekki í vinnuna í MH en samt gat ég unnið til hálf átta í kvöld. Ég er hinsvegar fúl, léttist ekkert og þyngdist um einhver grömm, veit ekki hvenær ég verð búin með þessi fimm kíló sem ég átti eftir um miðjan desember og eru ENNÞÁ eftir. Voðalegur aumingi getur maður verið. En ég verð að viðurkenna það, mér finnst ferlega gaman að hafa mikið að gera og hafa síðan ekkert að gera og svo voða mikið, ekkert þar á milli;-)

Fimmtudagur 16. febrúar 2006 kl. 23:18|Tilveran || Álit (1)

Flott Emilía

wEmilia5142.jpgÉg hef ekki sett inn margar myndir af dýrunum mínum nýlega svo hér er ein af Emilíu sem ég tók áðan þar sem hún var að kúra sig (alltaf verið að trufla). Ég var dálítið hrifin hvernig ég náði augunum og síðan fannst mér yfirlýsingin bara dálítið kúl og jafnvel betri en myndirnar sem ég náði á sama tíma sem eru með eðlilegri lýsingu. Smellið á hana til að sjá stærri útgáfu. Emilía er annars ferlega myndvænn köttur;-)

Sunnudagur 12. febrúar 2006 kl. 17:15|Tilveran || Álit (4)

Tæknihörmungar

Mikið leiðist mér þegar ég lendi í tækniörðugleikum. Ég keypti mér þennan fína HP Photosmart 8250 prentara og ætlaði bara að láta hann í samband og virka. Nei, nei, þá hætti tölvan mín að virka þegar innsetningunni var að verða lokið. ég endurræsti, tók úr sambandi, endurræsti aftur og aftur en ekkert gekk. Svo ég fékk nýja skjásnúru - ekkert gekk. Fór með tölvuna í vinnuna og þar virkaði hún fínt. Fékk lánaðan skjá - ekki virkaði tölvan heima. Endurræsti og prófaði setup í ýmsum röðum - ekkert virkaði. En þá ákvað ég að slökkva á prentaranum (sem hafði verið í sambandi af því hann var í miðri uppsetningu) og þá virkaði tölvan. ÞÁ var það þessi fúli fantans ömurlegi HP fótóSMART??? sem hafði þessi áhrif allan tímann. Hverjum dettur í hug að það sé prentarinn þegar ekkert sést á skjánum? Hefur einhverjum dottið það í hug???? Á svo að kalla þetta fótósmart??? En það er komin ágætis mynd útúrhonum núna.

Laugardagur 11. febrúar 2006 kl. 01:36|Tilveran || Álit (0)

Tæknileg unaðssemd

Þá er ég komin með nýja tæknilega unaðssemd sem heitir HP iPAQ hw6500 og ég kann ekkert á en þess fullviss að mínir tæknilegu unaðsdagar verða enn fleiri. Spurning hvaða áhrif svona tækni hefur á mann. Nú vantar mig góð ráð frá þeim sem hafa yfir svona tækni að ráða. Hvað er sniðugt að gera og hvernig er sniðugast að nota græjuna?

Fimmtudagur 19. janúar 2006 kl. 09:57|Tilveran || Álit (3)

Veðurstúlkan

The WeatherPixieRakst á þessa veðurstúlku sem mér fannst nokkuð kúl. Hún á síðan að uppfærast eftir því sem veðrið breytist. Ég vona allavega að ég hafi gert þetta rétt til þess. Best að fylgjast með því. Spurning að koma henni fyrir blessaðri á síðunni einhversstaðar. Hún er nefninlega með hund;-) Og svo er hún algerlega ónauðsynleg því ég er á Akureyri og veit hvernig veðrið er. En hún er tæknileg unaðssemd í anda Pjúsarafélags Íslands.

Þriðjudagur 17. janúar 2006 kl. 22:01|Tilveran || Álit (3)

Nýr vinnustaður

Í dag hóf ég flutning á mér og mínu hafurtaski úr skrifstofunni minni hjá Þekkingu til Stefnu. Þekking ásamt KEA keypti hlut í Stefnu og flutti forritunina og mig sem deildarstjóra þangað yfir. Svo nú er ég farin að vinna hjá hreinræktuðu hugbúnaðarhúsi með öllu því sem það fylgir, haug af nördum, gríðarlegt magn af strákum (ég er eina kjéllíngin) og skemmtilegum viðfangsefnum. Mér líður eins og frægum fótboltamanni sem hefur verið seldur milli félaga. Fyrstu viðfangsefnin mín þar verða að sjá um námskeið sem þar eru, verkefnisstjórn með Gandafi og setja mig inn í þau verkefni sem eru hjá fyrirtækinu. Formlega starfsheitið er "verkefnisstjóri" þ.e. að taka við verkbeiðnum og úthluta á starfsmenn og sjá til þess að verkefni séu unnin innan tiltekins tíma. Fyrst þarf ég þó auðvitað að kynna mér málin vel. Síðan eru einhverjar frekari breytingar framundan með breyttu skipulagi og viðfangsefnum við þessar breytingar.

Þetta er mjög spennandi tækifæri og nýr vettvangur og ég hlakka mikið til að spreyta mig á þessu og vonandi stend ég mig bara vel í því. En mikið óskaplega er leiðinlegt að tæma eina skrifstofu;-)

Föstudagur 13. janúar 2006 kl. 23:58|Tilveran || Álit (1)

Jarðarfarir

Þetta ár byrjaði með dánartilkynningum og síðan í viku tvö eru jarðarfarir. Verst er að ég er með kvef og það fer illa við jarðarfarir svo segja má að ég sé aðal hóstarinn í Akureyrarkirkju þessa viku. Fyrst má nefna bróður frænku minnar og fóstru Árna Brynjólfsson sem ég man fyrst eftir sem síbrosandi hlýlegum bónda fram í Öxnadal. Þá Dag Hermannsson sem ég man fyrst eftir að fylgjast með við bústörf í Lönguhlíð hinumegin ár þegar ég var barn og kynntist síðar. Sá þriðji er Jóhann Eyjólfsson frænda minn í Garðabæ en hann var bróðursonur föðurömmu minnar og nöfnu Láru Jóhannsdóttur. Hann verður jarðaður fyrir sunnan og ég kemst ekki suður því miður. Í þeim tveimur jarðarförum sem ég hef farið í hefur Óskar Pétursson sungið í þeim báðum svo vel að unun er á að hlýða.
Lesa meira Lesa meira um "Jarðarfarir" »

Þriðjudagur 10. janúar 2006 kl. 23:27|Tilveran || Álit (0)

Slabb, MH og afmæli

Flaug suður í morgun úr rjómablíðu á Akureyri í rok, slyddu, slabb og salt í Reykjavík. Ég gleymi alltaf hversu hundleiðinlegt þetta salt er sem við erum alveg laus við á Akureyri. Komin er hvít skán á skóna mína og slabbið útum allt. Ég er að vinna í MH sem er frábært eins og alltaf því hér er svo vel á móti manni tekið að maður er ósjálfrátt farinn að brosa um leið. Mér kom á óvart að Gunnar Árnason gamall samkennari úr MA er farinn að kenna hér svo það er alltaf eitthvað;-) Gísli er að vinna upp í Borgarnesi en í kvöld förum við síðan í fimmtugsafmæli Andrésar Magnússonar skólabróður okkar og við gömlu skólasysturnar auðvitað að brugga einhver launráð þekktar fyrir að hrekkja þann góða mann. Svo er bara að kúra sig í Reykjavík í nótt og halda norður í fyrramálið fersk og fín eftir skemmtilega ferð;-)

Föstudagur 6. janúar 2006 kl. 14:25|Tilveran || Álit (1)

Manchester United

wMattiMaggiGisli.JPG
Maggi og Matti frændi Gísla komu í heimsókn í kvöld til að horfa á leik með Manchester United. Það var mikið fjör hjá þeim félögum en leikurinn við Arsenal var markalaus.

Þriðjudagur 3. janúar 2006 kl. 23:39|Tilveran || Álit (1)

Arnaldur slakur, Árni góður

Ég hef verið að lesa glæpasögurnar sem ég fékk í jólagjöf, nú er allt í morðum, dópi og vansælum körlum í jólabókunum. Sakna Hringadróttinsjólanna hér forðum. Vetrarborgin eftir Arnald Indriðason olli mér vonbrigðum, eftir að hafa heillast mjög af Arnaldi eftir að lesa Grafarþögn, Mýrina, Dauðarósir og fleiri þá er nákvæmlega ekkert í þessari bók. Ekkert plott, ekkert sniðugt að uppgötva síðar, ekkert aha móment í bókinni. Þetta er bara fínt skrifaður texti á blaðsíðu eftir blaðsíðu um lítið, enginn hápunktur eftir fyrstu síður. Líkt og að lesa óspennandi dagbók. Ég er blátt áfram búin að gleyma um hvað hún var og ekkert situr eftir. Ég lokaði bókinni ósátt við að hafa eytt tíma í að lesa hana.

Tími nornarinnar eftir Árna Þórarinsson var hinsvegar fín, þar var eitthvað til að pæla í, fullt af aha mómentum og spennandi söguþráður. Ég meiraðsegja hafði smá áhyggjur af sögupersónum, fannst þær leiðilegar eða spennandi og nennti að hafa skoðun á þeim. Plottið gott og gengur upp. Ég hafði smá húmor fyrir lýsingum á Akureyri og datt stundum út þegar ég var að velta fyrir mér norðvestur horninu og suðaustur. Menn tala frekar um suður og niður, út og niður, suður og upp og út og upp. Mér fannst þegar ég var yngri að það vantaði norður og niður;-) En hann var ágætlega áttaður sem var þó aukaatriði þar sem söguþráðurinn var aðalatriði.
Lesa meira Lesa meira um "Arnaldur slakur, Árni góður" »

Mánudagur 2. janúar 2006 kl. 20:38|Tilveran || Álit (4)

Gleðileg jól

HJGFjsk.JPG Ég óska öllum sem heimsækja síðuna mína gleðilegra jóla.

Við Gísli minn vorum hjá Hildu Jönu og Ingvari Má í kvöld en hér er mynd af þeim sem tekin var áðan ásamt barnabörnunum mínum Hrafnhildi Láru sem verður 9 ára í janúar, Ísabellu Sól sem er eins árs og Sigurbjörgu Brynju sem fæddist 5. desember. Hér eru jólamyndir. Það var heilmikið um pakka og nóg að stússast hjá stúlkunum sem voru harla kátar. Þetta var fínt kvöld við elduðum saman og þetta var miklu líflegra en að sitja tvö heima því Gísli Tryggvi fór með Söndru unnustu sinni til foreldra hennar. Á morgun er hinsvegar fjölskylduboð hérna og þá verður líf og fjör í bænum.

Laugardagur 24. desember 2005 kl. 22:17|Tilveran || Álit (1)

Dauður pabbi - Jólaauglýsing Símans

Ég erbúin að horfa talsvert á auglýsingu Símans sem ber titilinn "Sælir eru hófsamir". Heimilisfaðirinn liggur að því er virðist dauður fyrir framan jólatréð og pakkana en dæturnar tvær (varla konan hún er svo ung) eru glaðar og brosandi með pakka og síma. Af brosinu á stúlkukindinni að dæma er hún ekki að hringja í 112 þó pabbi sé dauður. Nú er spurningin hvort pabbi keyrði sig út fyrir jólin til að geta keypt símagóðgæti fyrir telpurnar sínar og hafi andast á endasprettinum.
Lesa meira Lesa meira um "Dauður pabbi - Jólaauglýsing Símans" »

Fimmtudagur 22. desember 2005 kl. 14:35|Tilveran || Álit (3)

Nýr diskur: Tilveran

Fór áðan og sótti nýja diskinn okkar Gísla, sem kallast Tilveran, í fjölföldun hjá MoGo í Ólafsfirði. Hann er held ég bara betri en sá sem við gerðum í fyrra svo okkur fer fram;-) Þeir sem lýsa því yfir hérna á síðunni að þá langi í diskinn geta fengið hann - enda teljast menn þá hafa unnið fyrir honum;-) Hlakka til að heyra hvað menn segja. Þarna eru lögin úr brúðkaupinu hennar Hildu Jönu, Formannsslagarinn, jafnaðarmannalag og margt fleira. Gísli er með þrælgóð lög t.d. eitt sem er útsett í ferlega flott trompetsóló. Framan á diskinum er girðingarmyndin sem var í Ljósár.

Sunnudagur 18. desember 2005 kl. 23:38|Tilveran || Álit (18)

Skáldaþurs

Þá veit ég loksins hvað ég er;-)

Skáldajötunn

Þú ert nýjungagjarn, tilfinningaríkur innipúki.
Skáldajötunninn er svo opinn fyrir nýjungum á sviði lista og menningar að honum tekst að sjá list út úr óbreyttri skranhrúgu eða einmana slettu á striga. Skáldajötunninn tekur til í herberginu sínu og kallar það listrænan gjörning. Hann er mjög líklega með óskrifaða skáldsögu í hausnum eða óútgefna bók í skrifborðsskúffunni, þ.e. ef hann hefur ekki þegar fengið bók sína útgefna.

Skáldajötunninn lifir fyrir listina og myndi frekar kaupa blek fyrir fjaðurstafinn sinn heldur en brauðhleif þótt hann hefði farið án matar svo dögum skipti. Hann unir sér vel einn með eigin hyldjúpu hugsunum.

Hvaða tröll ert þú?

Mánudagur 12. desember 2005 kl. 00:32|Tilveran || Álit (2)

Unaðssemdir hins tæknivædda heims

Já ég er sannur Pjúsari - eins og segir í þjóðsöng Pjúsarafélags Íslands og þar njótum við unaðssemda hins tæknivædda heims. Í dag felast þær í nýrri borðtölvu sem keypt var til að vinna ýmsar nauðsynjar. Þetta er sumsé Pavilion tölva frá HP sem bætt er í einu gígabæti. Nú er bara að njóta og setja upp;-)

Miðvikudagur 7. desember 2005 kl. 15:45|Tilveran || Álit (5)

Sigurbjörg Brynja komin heim

Þá er nýja barnabarnið komið heim og komin með nafn, Sigurbjörg Brynja. Sigurbjörg í höfuðið á langömmu sinni móðurömmu Ingvars Más og Brynja af því það er svo fallegt segir Hilda Jana. Það er frábært að fá nafn strax og vera ekkert að þvælast með einhver gúllígúllí nöfn. Ísabella Sól var sterklega þeirrar skoðunar að þessi hreyfanlega dúkka ætti ekki heima í fangi móður sinnar þar ætti hún sjálf heima. Þetta verða viðbrigði fyrir blessaða stúlkuna ég man ennþá þegar foreldrar mínir hættu að halda á mér, algert sjokk;-)

Þriðjudagur 6. desember 2005 kl. 09:18|Tilveran || Álit (2)

Barnabarn III

barnabarn3.jpgHér kemur þá mynd af þeirri litlu. Menn rýna í hverjum hún er lík með sína tvo spékoppa. Hún er lúin eftir áreynsluna og vill helst hvílast eins og önnur börn á hennar aldri;-) Er hún ekki alveg eins og Ísabella Sól var á fyrsta degi?

Mánudagur 5. desember 2005 kl. 10:47|Tilveran || Álit (5)

Aftur amma!!!

Klukkan 00:35 þann 05.12.05 fékk ég þriðja barnabarnið og þriðju stelpuna! Búin að vera harla spennt og gat ekki farið að sofa. Fór í kvöld til Hildu Jönu og Ingvars Más og passaði þær litlu þegar hríðarnar voru komnar í gang. Ég verð að viðurkenna að maður fær verki í magann þegar maður sér blessað barnið sitt með hríðar. Úff... En allavega sú stutta er mætt og víst harla lík Ísabellu Sól nema með tvo spékoppa í stað eins;-) Hlakka til að sjá hana á morgun og farin að sofa;-)

Mánudagur 5. desember 2005 kl. 01:07|Tilveran || Álit (11)

Kyngreining

Ég kíkti á innlegg Sverris Páls þar sem hann er kyngreindur sem talsvert meiri kona en karl. Ég ákvað því að kanna samviskusamlega hvernig væri komið fyrir mér í þessu máli og hér er niðurstaðan:
Your Brain is 46.67% Female, 53.33% Male
Your brain is a healthy mix of male and female You are both sensitive and savvy Rational and reasonable, you tend to keep level headed But you also tend to wear your heart on your sleeve
What Gender Is Your Brain?
Habbarrasonna;-)

Þriðjudagur 22. nóvember 2005 kl. 08:27|Tilveran || Álit (6)

Tónlistartíminn

Þá er kominn tónlistartími ársins. Við Gísli ætlum að klára annan disk fyrir jólin núna og senda með jólakortunum. Okkur þykir það svo ferlega skemmtilegt. Ég er byrjuð að setja lögin hér inn, en okkur sýnist að við náum 10-12 lögum áður en við hættum. Þetta eru ýmis lög frá árinu, frá brúðkaupi Hildu Jönu, og margt fleira minnisstætt. Því verður diskurinn líklega kallaður Atvik 2005 eða Atvik II í framhaldi af þeim sem við gáfum út í fyrra. Gísli var að taka upp lag sem hann kallar Tréð sem er í alveg nýjum stíl ferlega flott. Hægt er að hlusta á lögin ef farið er undir tónlist hér til vinstri og síðan undir Atvik 2 sem er vinnuheitið á diskinum. Væri gaman að heyra hvernig lesendum líst á það sem er komið.

Laugardagur 12. nóvember 2005 kl. 20:46|Tilveran || Álit (5)

Átján komma sex

Mitt í amstri hversdags og prófkjörs er um að gera að gleðjast yfir því að hafa lést um 18,6 kíló, mér miðar hreint alveg prýðilega frá því ég byrjaði að fylgja mataræði Íslensku viktarráðgjafanna. Ég byrjaði 24 maí og hafði nú ekki mikla trú á því að þetta tækist hjá mér en hægt og bítandi hefur mér tekist að borða af mér og er núna bara lukkuleg þegar ég lít í spegil. Að vísu hef ég fengið allan tímann athugasemdir um að nú sé nóg komið og nú sé alveg að koma að því að ég verði horuð og tekin í framan. Ég er ekkert teknari í framan né ellilegri nema síður sé þannig að ég held áfram einbeitt og stefni að því að komast í mína kjörþyngd. Maturinn góður og lífið gott;-)

Fimmtudagur 3. nóvember 2005 kl. 11:07|Tilveran || Álit (13)

Mamma mín og MND

Nú er mikil umræða um þennan óhugnanlega sjúkdóm sem mamma fékk en hún dó í nóvember 1987 um ári eftir að sjúkdómurinn greindist. Mamma hét Sveinsína Tryggvadóttir og var kölluð Sísí. Hún var kraftmikil kona og varð fyrst vör við eitthvað óeðlilegt í fjallgöngu við Siglufjörð þá 50 ára. Ég hafði aldrei heyrt um þennan sjúkdóm, skildi hann ekki og horfði máttvana á mömmu rýrna, missa orku, verða bjargarlausa og deyja á einu ári.
Lesa meira Lesa meira um "Mamma mín og MND" »

Miðvikudagur 12. október 2005 kl. 20:42|Tilveran || Álit (9)

Norræn Sissel

Ég fór á tónleika með Sissel Kirkebø í Háskólabíó í gærkveldi sem voru stórkostlegir. Rödd þessarar konu er íðilfögur og með sér hafði hún frábæran kvennakór, symfóníu og hljómsveit sína. Skipulagið á tónleikunum var einnig mjög gott hún nýtti tímann vel og á meðan hún hvíldist smástund söng kórinn. Þannig var ekkert hlé. Sérstaka athygli mína vakti að hún talaði á norsku (ekkert að tala við landann á ensku) og lögin sem hún valdi voru nánast öll norræn og þar á meðal íslenskt. Þetta þótti mér gaman og þar með varð þetta kvöld ekki bara frábær söngveisla heldur líka norræn menningarhátíð sem auðgaði sálina svo um munaði.

Laugardagur 1. október 2005 kl. 07:48|Tilveran || Álit (1)

Klukk

Úff ég var klukkuð af Gunnari Svavarssyni og það þýðir víst ekki annað en að hlýða því og reyna að finna upp fimm atriði um mig sem eru ekki á allra vitorði. En vandinn er hvað það á að vera því það sem aðrir vita ekki um mig fer að flokkast undir það sem ég veit barasta ekki sjálf. En best að velja eitthvað sem er kannski ekki alveg nýtt;-)
Lesa meira Lesa meira um "Klukk" »

Fimmtudagur 29. september 2005 kl. 17:23|Tilveran || Álit (4)

Dreki og súkkulaði

Ég fór í bíó með Hildu Torfa vinkonu minni á mánudaginn til að sjá Charlie and the chocolate factory. Mikið var þetta góð skemmtun, tölvuvinnan dásamleg og Depp veldur manni ekki vonbrigðum. Svo er ágætis uppeldislexía líka.

Nú er ég að lesa "Eldest" eftir Christopher Paolini sem er frábær. Ég hreifst af fyrstu bókinni í þessari tríólógíu og vissi ekki fyrr en lestrinum var lokið að hún var skrifuð af táningsdreng sem útskrifaðist úr framhaldsskóla 15 ára gamall (í USA útskifast menn 18 ára). Fyrstu bókina var hann búinn að gefa út 18 ára ef ég man rétt. Ótrúlegt hvað Cristopher hefur góðan frásagnarstíl drengurinn, sagan hrífur mann með sér hann hefur næmt auga fyrir ævintýrum, flóknum samskiptum og spennu. Svo þegar ég var búin með Eragon pantaði ég Eldest fyrirfram og nú gleymi ég mér við lestur á morgnana um ævintýri Eragon og drekans Saphira.

Miðvikudagur 21. september 2005 kl. 11:37|Tilveran || Álit (0)

Fann Emilíu!!!

Emilia.jpgÞessi morgunn er búinn að vera mikill tilfinningamorgunn. Kátur horfði á mig frekar leiður þegar ég var að fara í vinnuna því ég hafði ekki farið út með hann í morgun heldur dottið í að lesa bók og klukkan varð hálf átta áður en ég uggði að mér. Svo ég ákvað í stað þess að mæta klukkan átta að mæta eilítið síðar og leika svolítið við hann í garðinum.

Þá heyrði ég fjarlægt ámátlegt málm.
Lesa meira Lesa meira um "Fann Emilíu!!!" »

Fimmtudagur 15. september 2005 kl. 09:50|Tilveran || Álit (10)

Emilía er týnd:-(

Emilia.jpg Emilía er horfin og við finnum hana hvergi. Hún er með eyrnamerkinguna AE203 ef einhver hefði séð til hennar. Við höfum ekkert séð hana síðan á miðvikudaginn var og erum orðin verulega áhyggjufull.

Emilía er sjálfstæður köttur sem er að verða 9 ára en í ungdæmi sínu var hún mikil veiðikló og veiddi bæði hettumáv og rjúpu. Að vísu höfum við hana grunaða um að hafa rænt rjúpunni af einhverjum nágranna okkar. Hún og hundurinn Kátur eru miklir vinir en hún stjórnar honum eins og henni sýnist. Ef einhver fréttir af Emilíu látið okkur endilega vita.

Mánudagur 12. september 2005 kl. 13:51|Tilveran || Álit (0)

Akureyri



Yfir Akureyri frá Kotárgerði fallegan haustdag. Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Miðvikudagur 7. september 2005 kl. 15:13|Tilveran || Álit (0)

Ólgusjór

Ég ætlaði ekki að skrifa meira um Barnaland, ætlaði að hafa fjör á síðunni minni og setja inn niðurstöðu spurningakönnunar um að ég líktist helst Dumbeldore úr Potterbókunum sem ég fann á netinu. En þá fannst mér ég bara kveif og liðleskja, ég yrði að segja hvað mér finnst og skýra betur af hverju ég skrifaði bréf til ýmissa aðila. Af hverju ég yfir höfuð var að skipta mér af.

Ég hef fengið talsvert af bréfum og upphringingum útaf þessu máli. Ég hef fundið til með þeim sem hafa orðið illa úti í samskiptum sínum við fólk á Barnalandi en það kom mér ekki á óvart. Mér hefur verið tjáð hver er hver af nokkrum sem ég þekki persónulega þarna inni og það kom mér heldur ekki á óvart hversu ólíkt þeir koma fram beint við mig og síðan nafnlaust á síðunni minni eða á Barnalandi. Margar Barnalandskonur telja að engin börn séu að lesa síðurnar, við mig hafði samband fólk sem átti börn sem höfðu gert það - kom mér heldur ekki á óvart. Illmælgi um mig var mikil - það var nákvæmlega það sem ég bjóst við. Sumir skrifa svo fallega um Barnalandsspjallið og segja að hið ljóta sé "bara grín" og "mikill húmor" því miður lýsti fólk fyrir mér raunverulegum afleiðingum sem eru svo fjarska langt frá því. Það væri svo óskaplega gott að lifa í trú margra á Barnalandi um fegurð samfélags sem þau hafa skapað. Það sorglega við að hafa lifað lengi er að í reynslusarpinn hefur safnast lífsreynsla og í mínum sarpi er talsverð mikil reynsla af netsamfélögum - þess vegna - því miður hefur lítið komið mér á óvart. Þó var það fyrst og fremst eitt, sem kannski átti ekki að gera það.
Lesa meira Lesa meira um "Ólgusjór" »

Fimmtudagur 1. september 2005 kl. 12:45|Pólitík / Tilveran || Álit (35)

Katrín frænka í Idol


Með Katrínu frænku í Idol prufu - spennan í algleymingi.
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Sunnudagur 28. ágúst 2005 kl. 08:11|Tilveran || Álit (0)

Gæludýrafanatík Íslendinga

Mikið óskaplega er ég orðin þreytt á hundareglum sem fela í sér að alls staðar á að vera með hund í bandi. Nema á sérstökum hundasvæðum sem eru frábær en allt of fá. Jafnvel í sveitum eru komnar stríðsreglur um hunda og ketti. Svo má ekki halda hænur í bæjum. Íslendingar eru að verða svo miklar pjattrófur að það er enginn endir á því. Svo gengur þetta ekki alveg upp heldur. Hrútar og naut geta gengið laus á ákveðnum túnum en ekki hundar og kettir. Lömb geta sprottið upp við þjóðvegi en ekki kettir. Sumarbústaðir eru taldri mengast mjög af hundum svo ekki er hægt að leigja sér bústað nokkurs staðar. Hundaofnæmi er nánast óþekkt. Svo eru ekki það margir með kattarofnæmi að ekki sé hægt að hafa eins og einn bústað þar sem má vera með kött. Hvað skemmdir varðar þá er ég viss um að krakkar og fullorðið fólk skemmir meira en hundar og kettir. Eigendurnir geta alveg borgað skaðann eins og þegar þeir brjóta disk eða hrinda niður sjónvörpum eða hverju þeir taka uppá. Það er mikilvægur þáttur í lífi fólks að hafa gæludýr og mig langar í hænur. Þessar reglur hafa leitt til þess að fólk farið að vera hrætt við dýr sem mér þykir ógnvænleg þróun.

Þriðjudagur 23. ágúst 2005 kl. 09:34|Pólitík / Tilveran || Álit (5)

Pólski sveppaþurrkarinn

Í gær fór ég að tína lerkisveppi fram í firði með Sigrúnu Stefáns sem ræktar þar skóg. Meginmarkmið fararinnar var að fá efnivið til að prófa pólska sveppaþurrkarann sem hún Ela í Grundarfirði fékk hana dóttur sína til að kaupa fyrir mig í Póllandi í fyrra. Það tilkynnist hér með að pólskir sveppaþurrkarar eru eðaleign. Ef ég væri ung (og ógift) er ég viss um að einhver myndi biðja mín bara til að geta gumað af slíku tæki. Pólskur sveppaþurrkari er samansettur úr nokkrum grindum og í loki tækisins er nokkurs konar hárblásari sem þurrkar sveppina, tja og alskyns grænmeti og ávexti ef út í það er farið. Eftir nokkra tíma í sveppaþurrkaranum eru sveppirnir mínir þurrir og flottir og hægt að geyma þá og nota í alskyns gúrmei. Ég upplifi mig sem búbótarkjéllíngu akkúrat núna - já og kannski svolítið húsmóðurlega - ef það væri ekki svona mikið drasl í eldhúsinu mínu eftir sveppaþurrkunina.

Mánudagur 22. ágúst 2005 kl. 09:12|Tilveran || Álit (2)

42

Nú eru aldeilis tíðindin, ég er búin að vera að borða af mér þykktina eftir ráðgjöf frá dönsku viktarráðgjöfunum (bráðsnjallt fyrirbæri sem virkar). Afleiðingarnar eru um 23 smérlíkisstykki, eða um 11,5 kíló sem er svosem ágætt. Hitt er hinsvegar ennþá merkilegra að ég kemst í buxur númer 42 og þær passa. Ekkert er flottara en buxur númer 42 og spurning hvort ég á ekki bara að hætta þessu og halda mig þar;-)

Fimmtudagur 18. ágúst 2005 kl. 13:28|Tilveran || Álit (7)

Þrumur og eldingar

Sá óvænti atburður var nú áðan að mikil þruma hljómaði um Eyjafjörðinn. Þetta er auðvitað nauðaómerkilegt mál í útlöndum en þetta heyrum við ekki svo oft hérna. Það hafa verið þónokkrar eldingar hér fyrir norðan eftir Veðurstofunni að dæma og því alveg ástæða til að skrifa um það;-)

Þriðjudagur 2. ágúst 2005 kl. 14:24|Tilveran || Álit (0)

Frí!

Nú er ég komin í frí og dunda við það að leika mér í tölvunni til að byrja með. Við Hrafnhildur Lára ætlum að vera listamenn í dag, við erum hinsvegar ekki búnar að ákveða hvernig listamenn. Við byrjum ábyggilega á að íhuga það dálítið og sinnum svo listinni fram eftir degi út í sumarbústað. Áður verð ég auðvitað að íhuga nesti því ég fer einbeitt að ráðum dönsku viktarráðgjafanna og búin að missa rúm sex kíló. Um að gera að halda fókus í fríinu;-)

Mánudagur 4. júlí 2005 kl. 09:48|Tilveran || Álit (1)

MIT könnun

Take the MIT Weblog SurveyAgalegt að eiga vini og fylgjast með vefsíðunum þeirra, þá dettur maður í að svara könnun þegar maður á að vera að gera allt annað fyrsta sumarleyfisdaginn. En mæli með þessu um að gera að hjálpa MIT með kannanir;-)

Mánudagur 4. júlí 2005 kl. 09:21|Tilveran || Álit (1)

Kráka og kettlingur

Rakst á magnaða sögu af kráku sem tók kettling í fóstur, endilega kíkið á myndbandið. Undarleg þessi veröld.

Föstudagur 3. júní 2005 kl. 13:58|Tilveran || Álit (0)

Handklæðadagur og vikt

Í dag er handklæðadagur sem er afar skemmtilegt fyrirbæri. Fyrst og fremst er það ákaflega stressandi því það er svo hallærislegt fyrir miðaldra konu að ganga um með handklæði svo þetta verður áreiðanlega ævintýradagur. Í gær byrjaði ég síðan á dönsku viktarprógrammi, get leitað mér aðstoðar á spjallborði á netinu hjá íslenskum þjáningarsystkinum. En allavega þegar ég fer að gráta úr súkkulaðiþörf þá get ég notað handklæðið til að þurrka tárin.

Miðvikudagur 25. maí 2005 kl. 09:31|Tilveran || Álit (5)

Bensi og Guðný


Bensi og Guðný á örbylgjunni
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Föstudagur 20. maí 2005 kl. 20:10|Tilveran || Álit (0)

Lögin í brúðkaupinu

Við Gísli fluttum nokkur lög í brúðkaupinu í gær. Fyrst er hér lagið Plat um hvernig Hilda Jana varð til, læknir nokkur sagði mér að ég væri ófrísk svo ég hætti að taka pilluna svo stelpuskottið plataði sig í heiminn. Síðan lag um þau Hildu Jönu og Ingvar Má og síðast brúðkaupslagið Í dag fyrir þau. Með því söng fjölskyldukórinn í viðlaginu sem var mjög vel heppnað.

Sunnudagur 27. mars 2005 kl. 09:46|Tilveran || Álit (0)

Brúðurin dóttir mín


Falleg brúður Hilda Jana dóttir mín í brúðkaupsveislunni.
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Laugardagur 26. mars 2005 kl. 21:51|Tilveran || Álit (5)

Besta afmælisgjöfin

Ég átti afmæli 9. mars eins og Bobby Fisher, besta afmælisgjöfin var frá Gísla mínum nýtt lag sem heitir Ef. Ég er búin að setja það hérna inn ef einhver hefur áhuga á að heyra þetta fallega lag. Ég skil aldrei hvernig hægt er að semja svona ljúf lög eins og Gísli minn gerir. Ég er óttalegur gaddavír;-) Annars erum við á kafi við að æfa lög sem við erum búin að semja fyrir brúðkaupið hennar Hildu Jönu og hans Ingvars Más á laugardaginn. Þar er eitt lag sem fjallar um þegar ég varð ófrísk af Hildu Jönu (læknirinn laug í mig að ég væri ófrísk og ég hætti að taka pilluna....), annað skondið og skemmtilegt um þau og svo eitt voða ljúft brúðkaupsdagslag sem þau geta bara dansað við - enda búin að fara í æfingar;-)

Miðvikudagur 23. mars 2005 kl. 14:01|Tilveran || Álit (3)

Annasöm vika

Nú er komið að lokum annasamrar viku. Fór á hugstormun um Klasa, Kátur veiktist, skipulag við ferðina til Jórdaníu á fullu. Einnig hefur komið upp hugmynd um að ég kæmi að öðrum verkefnum Kidlink sem eru á döfinni t.d. fyrir smátungumál í Nepal og á flóðasvæðum í Indlandi. Þar vantar fólki aðstoð og stuðning til að þau sem eru úti á akrinum geti sinnt vinnunni sinni í stað þess að hanga við tölvu við útfærslu og uppsetningar. Væri gaman að geta hjálpað þeim. Best að fara heim, kúra sig, horfa á Idol, gá hvort Kátur er orðinn frískur og vera orðinn hress til að vinna meira í fyrramálið;-)

Föstudagur 25. febrúar 2005 kl. 16:36|Tilveran || Álit (1)

Myndablogg


Djísús krókusarnir að springa út!
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Mánudagur 21. febrúar 2005 kl. 17:41|Tilveran || Álit (3)

Dásamlegt veður


#
Skilaboð sendi Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Mánudagur 21. febrúar 2005 kl. 13:07|Tilveran || Álit (0)

Niður við sjó


Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Miðvikudagur 16. febrúar 2005 kl. 12:59|Tilveran || Álit (0)

Laugardagsmorgunn


Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Laugardagur 12. febrúar 2005 kl. 11:05|Tilveran || Álit (0)

Kátur á Brávöllum


Úti að ganga með Kát í góða veðrinu.
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Fimmtudagur 10. febrúar 2005 kl. 13:04|Tilveran || Álit (0)

Þorrablót á Raufarhöfn


Þorrablót á Raufarhöfn - mikið fjör og mikið gaman.
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Föstudagur 4. febrúar 2005 kl. 22:36|Tilveran || Álit (0)

Þorrablót á Raufarhöfn

Þá er ég á leið á þorrablót á Raufarhöfn, Fífa systir ætlar að koma úr Reykjavík og við ætlum að aka saman austur. Þetta verður feykiskemmtilegt og spennandi. Að öðru leyti er helginni ráðstafað í sumarbústaðnum við friðsæld og einhver samviskubit heima s.s. að bæra á sér í tiltekt og bókhald;-)

Föstudagur 4. febrúar 2005 kl. 13:57|Tilveran || Álit (3)

Fjarstýringar og lóðasamningur

Ég er með lóðasamning við vinkonu mína sem þýðir að þegar einhver af hennar þriggja eðaltíkum er lóða þá tek ég rakkann sem er orðinn hálfsárs og kominn með hvolpavit á tíkum. Sá stutti er hinsvegar ekki alltaf sáttur og brast á með að naga í tætlur fjarstýringuna á Karaokee DVD spilaranum mínum. Það gengur auðvitað ekki svo ég fór í BT til að fá nýja fjarstýringu, þá urðu hlutirnir frekar skrýtnir.

Lesa meira Lesa meira um "Fjarstýringar og lóðasamningur" »

Þriðjudagur 25. janúar 2005 kl. 10:43|Tilveran || Álit (1)

Ægilegar afleiðingar

Ég var að skoða gervihnattamyndir af áhrifum tsunami flóðbylgjunnar í Asíu. Það er enganvegin hægt að setja sig í spor þeirra sem fyrir þessum ægilegu hamförum urðu. Enn og aftur erum við minnt á ægikrafta náttúrunnar sem hirða ekkert um hvar fólk hefur sett sig niður. Verði hamfarir á mjög þéttbýlum svæðum eru afleiðingarnar ægilegar!

Mánudagur 10. janúar 2005 kl. 09:39|Tilveran || Álit (1)

Jarðskjálfti

Það er langt síðan ég hef fundið jarðskjálfta en nú kom hann, staðsettur fyrir austan Grímsey 5 á Richterkvarða. hér er lýsingin á honum og síðan mynd á korti hvar hann er. Frábær þjónusta hjá Veðurstofu Íslands að geta séð um leið hvar skjálftinn var og hversu stór.

Miðvikudagur 5. janúar 2005 kl. 15:57|Tilveran || Álit (7)

Hrafnhildur Lára á leið á jólaball


HLH tilbúin á jólaball
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Sunnudagur 2. janúar 2005 kl. 15:30|Tilveran || Álit (0)

Tsunami

Fyrir nokkrum árum lagðist ég í lestur um tsunami sem ég rakst á í tengslum við jarðskjálfta sem ég var að lesa mér til um. Ég varð agndofa yfir þessum sjávarbylgjum, hversu eyðileggingarmáttur þeirra er mikill og afleiðingarnar skelfilegar. Þær verða til við mikla truflun í sjó eða vatni, slík truflun geta verið jarðskjálftar, skriðuföll eða loftsteinar svo dæmi sé nefnt. Þær hörmungar sem við horfum nú á í sjónvarpinu eru að vísu sem betur fer fátíðar en engu að síður er mikilvægt að þekkja til náttúrunnar og hvað getur gerst. Mér reyndist best að lesa mér til hér en ég mæli með að menn reyni sem best að glöggva sig á því hvað getur gerst.

Þriðjudagur 28. desember 2004 kl. 17:41|Tilveran || Álit (0)

Hrafnhildur Lára í Akureyrarkirkju


Hrafnhildur Lára í búningnum úr helgileiknum í Akureyrarkirkju.
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Sunnudagur 26. desember 2004 kl. 11:40|Tilveran || Álit (0)

HLH í barnakór í Akureyarkirkju


#
Skilaboð sendi Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Sunnudagur 26. desember 2004 kl. 11:22|Tilveran || Álit (0)

Jól 2004


Út um gluggann á jólum
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Laugardagur 25. desember 2004 kl. 15:08|Tilveran || Álit (0)

Snjóhljóð á Þorláksmessu


#
Skilaboð sendi Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Fimmtudagur 23. desember 2004 kl. 23:00|Tilveran || Álit (0)

Blíða á Akureyri


Fyrir Tóta sem vill meina að það sé óveður á Akureyri
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Fimmtudagur 23. desember 2004 kl. 13:58|Tilveran || Álit (4)

Flott glitský

wGlitsky.JPG

Þetta ægifagra glitský hefur verið á himninum hér á Akureyri, í alskyns flottum útgáfum, sumum fegurri en þetta en samt er ég nokkuð kát að hafa náð því á mynd sem er ekki auðvelt.

Mánudagur 20. desember 2004 kl. 13:59|Tilveran || Álit (3)

Öll lögin komin inn

Þá er ég búin að setja öll lögin af nýju plötunni "Atvik" sem selst hefur í gríðarlegu upplagi hér á síðunni minni. Það þarf bara að fara undir tónlist hér fyrir ofan. Annars finnst mér fólk helst reikna með einhverjum Ædól stjörnum af fjölskyldunni en auðvitað erum við ekki svoleiðis, þetta er fyrst og fremst til að gera eitthvað skemmtilegt í lífinu. Sumir sauma út, aðrir taka til fyrir jólin, hjá mér er allt í drasli en ég á nokkur lög;-)

Föstudagur 17. desember 2004 kl. 19:23|Tilveran || Álit (1)

Borgað fyrir þögn!

Í heimi þar sem stöðugt áreiti dynur á mönnum fer þeim stöðugt fjölgandi sem kjósa þögn - þögn frá fjölmiðlum, auglýsingum, útvarpi og blaðri af öllum gerðum (já og líka mínu;-). Pete Blackshaw spáir því fyrir 2005 að "This commodity is highly valued by people with money. Don't be surprised if you start to see advertising that says something like, "This moment of silence is brought to you by (your brand here)." Svo líklega endar þetta með því að við kaupum helst vörur frá þeim sem steinþegja;-) Líklega er best að fá lista frá þeim sem ekki auglýsa til að sjá hvar maður á að versla;-)

Miðvikudagur 15. desember 2004 kl. 09:20|Tilveran || Álit (0)

"Salan gengur hægt"

Ekki seldi ég margar plötur þó mér finndist verðið afar viðráðanlegt - það er að segjast vilja fá plötu í kommentum hér inni, líklega vænta menn ekki mikils af okkur - en ég vil meina að við komum á óvart;-) Enn er tækifæri með því að svara innleggi hér, ég ákveð ekki hvað ég tek margar fyrr en um helgina. Annars er bara að kaupa sér hauspoka;-) Annars er lífið gott, tók mynd um helgina og sendi í Ljósmyndakeppni á www.ljosmyndakeppni.is sem er frábært framlag og spennandi að fást við. Gaman að hafa fengið svona vettvang.

Þriðjudagur 14. desember 2004 kl. 17:03|Tilveran || Álit (2)

Alveg að koma!

Þá fer að nálgast endinn á stúdíóvinnunni við lögin okkar. Johnny King er alger galdramaður við að ná fram skemmtilegri útsetningu á lögin okkar Gísla. Núna eru komin 12 lög en við ákváðum í gær að klára 15 lög og loka þá disknum. Ég er hæstánægð með það. Einnig hefur verðið verið ákveðið á disknum sem ég ákvað í gær að kalla "Atvik" var lengi með vinnuheitið "Hugsanir" en breytti því. Við gefum svo diskinn þeim sem okkur langar, verðið er einfalt, bara láta mig vita að þig langi virkilega í hann;-) Getið skrifað það inn hér svo ég muni það EN upplagið verður verulega takmarkað. Í gær tókum við upp sérstakt lag fyrir Þekkingu sem heitir "Hamingjusami hesturinn" - reynið að koma því í texta, dálítill hausverkur;-)

Föstudagur 10. desember 2004 kl. 11:09|Tilveran || Álit (12)

Töff dagur

Dagurinn í dag hefur verið dálítið töff, við komum heim seint í gærkvöldi og í morgun frétti ég að einn nemandi minn á Snæfellsnesi hefði látist um helgina. Líðan vina hans og kunningja endurspeglast sterkt í gestabók sem hann hafði sett upp á bloggið sitt.

Annars hefur dagurinn verið fínn, er að vinna að menntunargreiningu og skipulagi fyrir Þekkingu sem er mjög spennandi. Í kvöld þarf ég síðan að klára að fara yfir verkefni nemenda minna og skafa upp alskyns "hefðáttaðverabúin" dót. Engin upptaka fyrr en á miðvikudaginn en Sörubakstur hjá Hildu Torfa á morgun, nú er vonandi að mér takist betur upp en í fyrra.

Mánudagur 6. desember 2004 kl. 19:34|Tilveran || Álit (2)

Jólatréð á torginu


Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Miðvikudagur 1. desember 2004 kl. 10:59|Tilveran || Álit (3)

"Mikill" tónlistarmaður

Ég held áfram að vera "mikill" tónlistarmaður og tók upp tvö lög í gærkvöldi hjá Johnny King. Nú voru það lög um Kidda kúreka og Hildu Jönu sem lærði að fljúga. Hugmyndina að textanum við fyrra lagið fékk ég úr minningargrein sem ég fann í dánarbúinu hennar ömmu (amma safnaði minningargreinum) þar sem sagði svo skemmtilega að hinn látni og Bakkus hefðu gengið saman lífið og hallaði hvorugur á hinn. Þetta fannst mér brjálæðislega fyndið. Seinna lagið og textinn er eftir Gísla og var lag sem hann samdi fyrir Hildu Jönu þegar þau voru að aka heim eftir langan vinnudag og hún fimm ára orðin þreytt og úrill. Lagið lífgaði upp á þá stuttu. Svo er bara að sjá hvað ég kemst yfir í kvöld, Johnny er harður húsbóndi og rekur mig áfram og lætur mig vaða í gegnum þetta aftur og aftur og aftur og aftur og... frábært að fá hann í þetta hann gefur sterílum lögum líf;-)

Miðvikudagur 1. desember 2004 kl. 08:52|Tilveran || Álit (0)

Ný fín tönn

Ég fór til tannlæknisins í morgun sem væri nú ekki í frásögur færandi (tja eða er það aldrei) og fékk nýja fína fyllingu úr plasti. Það er allt annað að sjá svona fyllingu heldur en þessar silfurhlussur sem ég er orðin harla leið á. Þessi tönn vildi láta gera við sig svo nú er hún fantafín og spurning að skipta út smá saman og hætta að hlægja með kolsvörtum silfurmunni. Annars er tannlæknirinn minn fínn, hann gat sprautað deyfingarsprautu án þess ég finndi fyrir því sem mér þótti magnað og er ekki að klessa á manni munninn svo maður hálf emjar undan því. Ég meiraðsegja sofnaði - tja eða hálfsofnaði. Svo nú er ég með nýja fína tönn;-)

Þriðjudagur 30. nóvember 2004 kl. 10:57|Tilveran || Álit (2)

Hvað vil ég vinna við?

Nú er ég á því tímabili ævinnar að endurskoða hvað ég vinn við og hvað mig langar að gera. Ekki svo að skilja að ég hafi ekki velt því fyrir mér áður, síðast langaði mig að verða bíóstjóri þar til ég uppgötvaði að bíóstjóri hefur líklega ekkert að gera með hvaða mynd er í bíó. Ég er búin að vinna við það sama meira og minna frá því 1988 og því tími til kominn að huga að því hvort það sé e.t.v. eitthvað annað sem ég vildi heldur vera að vinna við. Öll góð ráð vel þegin - hvað væri nú snjallt fyrir mig að vinna við?
Lesa meira Lesa meira um "Hvað vil ég vinna við?" »

Mánudagur 29. nóvember 2004 kl. 08:50|Tilveran || Álit (6)

Þunglyndi

Ekkert finnst mér mikilvægara heldur en þegar ég rekst á stórkostlegar mannverur. Enn og aftur hef ég verið minnt á hversu mikið er spunnið í hana Hörpu Hreins þegar ég les bloggið hennar þessa dagana þar sem hún er að fást við alvarlegt þunglyndi og er í veikindaleyfi. Hún gefur okkur mikilvæga sýn í lífið með þunglyndi sem mörgum er algerlega hulið og ótrúlega margir sýna þessum sjúkdóm algert tillitsleysi og leyfa sér jafnvel að níðast á sjúklingunum eins og þeir þurfi ekki að fást við nóg. Gott hjá þér Harpa!

Þriðjudagur 9. nóvember 2004 kl. 14:31|Tilveran || Álit (0)

Bláber að hausti

wBlaber.JPGÞetta bláber var farið að gefa eftir í haustkuldum rétt sunnan Húsavíkur í gær. Bláberjalyngið er íðilfagurt um allar brekkur eldrautt.


Við Gísli ókum morguninn eftir vel heppnaðan Samfylkingardag á Húsavík til Mývatns og alls staðar blasti haustfegurðin við.

Mánudagur 11. október 2004 kl. 08:41|Ferðalög / Ljósmyndun / Tilveran || Álit (2)

Brrrr


Skítaveður á Akureyri
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Þriðjudagur 5. október 2004 kl. 18:11|Tilveran || Álit (3)

Hundar finna lykt af krabbameini

Þetta er líklega það merkilegasta sem ég hef heyrt í langan tíma, hundar finna lykt af krabbameini! Í þessari grein á CNN segir frá hundum sem fundu krabbamein í eigendum sínum.

CNN.com - Study finds dogs can smell cancer - Sep 23, 2004

We have always suspected that man's best friend has a special ability to sense when something is wrong with us, but the first experiment to verify that scientifically has demonstrated that dogs are able to smell cancer.

Föstudagur 24. september 2004 kl. 09:46|Tilveran || Álit (0)

Fjölskyldumynd


Allir mínir kvenkyns afkomendur á forsíðu tímaritsis Við
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Miðvikudagur 8. september 2004 kl. 21:38|Tilveran || Álit (1)

Bjarne í FSN


Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Þriðjudagur 31. ágúst 2004 kl. 13:27|Tilveran || Álit (0)

Alenka í heimsókn


Alenka skrifar glósur.
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Fimmtudagur 26. ágúst 2004 kl. 09:19|Tilveran || Álit (0)

Alenka í heimsókn

#
Skilaboð sendi Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Fimmtudagur 26. ágúst 2004 kl. 09:12|Tilveran || Álit (1)

Barnabarnið braggast

Litlaw.JPG

Nýja barnabarnið braggast vel og hún er byrjuð að skoða heiminn stórum augum. Amman lætur ekkert fram hjá sér fara og hefur bætt við nokkrum myndum í myndaalbúmið.

Fimmtudagur 5. ágúst 2004 kl. 08:50|Ljósmyndun / Tilveran || Álit (3)

Barnabarnið


Nýja barnabarnið sefur og sefur.
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Laugardagur 17. júlí 2004 kl. 12:33|Tilveran || Álit (2)

Þjóðhátíðardagur


Hrafnhildur Lára á 17. júní
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Föstudagur 18. júní 2004 kl. 23:36|Tilveran || Álit (0)

Á Brávöllum


Hrafnhildur Lára með vatnasóley.
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Föstudagur 4. júní 2004 kl. 11:02|Tilveran || Álit (0)

Býfluga


Sumar
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Sunnudagur 16. maí 2004 kl. 21:11|Tilveran || Álit (0)

Samvinnuskólanemendur


Gísli og Kristján
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Laugardagur 3. apríl 2004 kl. 02:15|Tilveran || Álit (0)

Stjáni, Haddi og Pálmi


Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Föstudagur 2. apríl 2004 kl. 23:09|Tilveran || Álit (0)

Kristján Þór, Eiður og Árni Geir


Bekkjarkvöld
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Föstudagur 2. apríl 2004 kl. 23:07|Tilveran || Álit (0)

Kanna myndgæði


Hafið
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Fimmtudagur 1. apríl 2004 kl. 08:07|Tilveran || Álit (0)

Metro í flugtaki


Gísli fer í loftið með fyrstu vél.
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Miðvikudagur 31. mars 2004 kl. 07:42|Tilveran || Álit (0)

Garðurinn


Stundum er betra veður heima
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Mánudagur 29. mars 2004 kl. 16:55|Tilveran || Álit (0)

Í fermingu Stefáns Gunnars


Jóhanna og Inga Rannveig.
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Sunnudagur 28. mars 2004 kl. 15:23|Tilveran || Álit (0)

Í fermingu Stefáns Gunnars


Amman og fermingarbarnið.
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Sunnudagur 28. mars 2004 kl. 15:17|Tilveran || Álit (0)

Í fermingu Stefáns Gunnars


Pabbi í fermingarveislu
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Sunnudagur 28. mars 2004 kl. 13:33|Tilveran || Álit (0)

Í fermingu Stefáns Gunnars


Fermingarbarnið Stefán Gunnar Jóhannsson með gjöfina frá foreldrum sínum og systrum.
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Sunnudagur 28. mars 2004 kl. 12:17|Tilveran || Álit (0)

Gísli áttræður


Gíslarnir þrír á áttræðisafmæli forföðursins.
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Laugardagur 27. mars 2004 kl. 19:47|Tilveran || Álit (0)

Í Ólafsfirði


Stefán Hafliði vildi vera á Netinu.
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Laugardagur 27. mars 2004 kl. 19:27|Tilveran || Álit (0)

Kaldbaksmenn


Góðir gestir á Bautanum.
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Miðvikudagur 17. mars 2004 kl. 12:14|Tilveran || Álit (0)

Hafnarstræti


Morgunn á Akureyri.
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Mánudagur 15. mars 2004 kl. 08:30|Tilveran || Álit (0)

Rotary


Kynning á Þjóðræknifélaginu á Rotaryfundi.
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Föstudagur 12. mars 2004 kl. 13:28|Tilveran || Álit (0)

Frumhlaup að vori


Krókusarnir eru kolruglaðir, febrúar er ekki rétti mánuðurinn til að blómstra.
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Sunnudagur 29. febrúar 2004 kl. 16:30|Tilveran || Álit (0)

Erfidrykkja Didda frænda


Ólína og Kiddi í erfidrykkjunni.
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Laugardagur 28. febrúar 2004 kl. 17:24|Tilveran || Álit (0)

Jarðarför Didda frænda


Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Laugardagur 28. febrúar 2004 kl. 14:38|Tilveran || Álit (0)

Fallegir afkomendur


Hrafnhildur Lára og Hilda Jana
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Sunnudagur 22. febrúar 2004 kl. 20:24|Tilveran || Álit (0)

Akureyri


Amtsbókasafnið í morgunroða.
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Miðvikudagur 18. febrúar 2004 kl. 08:19|Tilveran || Álit (0)

Akureyri


Fögur ský á himni
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Þriðjudagur 17. febrúar 2004 kl. 17:17|Tilveran || Álit (0)

Gul rós


Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Mánudagur 16. febrúar 2004 kl. 15:47|Tilveran || Álit (0)

Tóti á háskólabókasafni


Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Laugardagur 14. febrúar 2004 kl. 14:23|Tilveran || Álit (0)

Eyjafjörður til norðurs


Allt hvítt og hreint.
Sent með GSMbloggi Hex

Þriðjudagur 10. febrúar 2004 kl. 16:54|Tilveran || Álit (0)

Hjartavegurinn


Ruðningarnir á Hjartaveginum á Eyjafjarðarleirunum eru orðnir harla háir. Þarna má sjá Hrafnhildi Láru, Gísla, Kát og Dag úti að ganga.
Sent með GSMbloggi Hex

Sunnudagur 8. febrúar 2004 kl. 12:09|Tilveran || Álit (0)

Berglind Rós á afmæli


Berglind Rós Bergsdóttir hélt upp á 9 ára afmælið sitt með mikilli veislu. Ég var á Egilsstöðum og smellti mynd. Ekki smá gaman að eiga afmæli;-) Sent með dyggri aðstoð Hex

Fimmtudagur 5. febrúar 2004 kl. 18:03|Tilveran || Álit (0)

Chocholat


Mynd sendi: Lára
Ein besta kvikmynd sem ég hef séð, ætlaði að fara að sofa en einhverra hluta vegna horfði ég enn einu sinni á hana alla. Mynd send með farsíma með hjálp Hex

Fimmtudagur 5. febrúar 2004 kl. 00:28|Tilveran || Álit (0)

Með mat til Stínu


Við Gísli fórum með mat til Stínu í dag út á Rauðalæk. Veðrið var yndislegt en þónokkur snjór, samt ekki eins mikill og inn á Akureyri. Vegurinn heim var ekki fær svo við settum dótið bara á snjósleða og allt gekk vel.
Sent með GSMbloggi Hex

Sunnudagur 1. febrúar 2004 kl. 18:03|Tilveran || Álit (0)

Fífa og "franskir félagar" 2


Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

Föstudagur 30. janúar 2004 kl. 23:47|Tilveran || Álit (0)

Fífa og "franskir félagar" 1


Samnemar Fífu sys í frönsku í HÍ
Sent með GSMbloggi Hex

Föstudagur 30. janúar 2004 kl. 23:45|Tilveran || Álit (0)

Dúkkan mín


Sent með GSMbloggi Hex
Þessa dúkku gerði nemandi minn fyrir nokkrum árum til að sýna mér hversu góðum tökum hún hefði náð á tækninni. Mér þótti dúkkan sjálf haganlegust en hún var hrifnust af danskortinu. Aldrei veit maður til hvers nemendurnir nota námið - en þessi notkun er flott!!!

Föstudagur 23. janúar 2004 kl. 15:27|Tilveran || Álit (0)

Fréttir 2003

Árið 2003 hafa helstu fréttirnar á vefnum mínum verið tengdar tækilegum unaðssemdum. Tilveran hefur síðan verið tengd fjölskyldunni, dýrunum, ferðalögum og náttúrunni.
Lesa meira Lesa meira um "Fréttir 2003" »

Föstudagur 2. janúar 2004 kl. 08:58|Frétt / Tilveran || Álit (0)

Roðlaust og beinlaust - útgáfutónleikar


Fórum á útgáfutónleika hjá Roðlausu og beinlausu í gærkvöldi út í Ólafsfjörð sem haldnir voru í Glaumbæ. Hljómsveitin var að gefa út nýjan disk sem kallast Brælublús. Staðurinn var fullur út úr dyrum og margir urðu að standa þétt því ekki voru sæti fyrir alla. Þessir söngglöðu sjómenn stóðu sig frábærlega, Sævar Sverrisson og Sigrún Eva Ármannsdóttir sungu með þeim sem ekki síður skemmtilegt en auðvitað eru þeir mest orginal sjálfir;-)

Hér má heyra hjalið í gestum og söng Sævars.

Sunnudagur 23. nóvember 2003 kl. 13:13|Tilveran || Álit (0)

Takk Óskar

Ég hélt að með aldrinum hefði ég smá saman orðin hálf feyskin í tilfinningahörpunni enda læt ég tiltölulega fátt koma mér úr jafnvægi hvort heldur er til jákvæðra eða neikvæðra tilfinninga. Í dag hinsvegar byrjaði dagurinn á þessari ofboðslega fallegu sólarupprás, appelsínurauður himinn, svo bleikur og blár.
Lesa meira Lesa meira um "Takk Óskar" »

Þriðjudagur 11. nóvember 2003 kl. 11:30|Tilveran || Álit (0)

Snjór á Akureyri


Snjór á húsum út um vinnugluggann í Þekkingu send með GSMbloggi Hex

Mánudagur 3. nóvember 2003 kl. 13:25|Tilveran || Álit (6)

Dagur selur kerti


Dagur Gíslason kom til mín í MH að selja kerti til styrktar drengjakór Neskirkju en þar syngur hann. Ég hlustaði á kórinn í fyrra og hafði mikla ánægju af því enda kórinn mjög góður. Mynd sendi með GSMbloggi Hex

Föstudagur 31. október 2003 kl. 10:48|Tilveran || Álit (0)

Kvetch - Frábær leiksýning

Ég fór að sjá þessa frábæru leiksýningu á Nýja sviði Borgarleihússins í gær og varð mjög hrifin. Leikritið er einstaklega vel skrifað af Steven Berkoff og leikarararnir frábærir. Það er langt síðan ég hef notið þess eins að horfa leikrit. Ég sem á það til að labba út í hléi af leiksýningum sem mér þykja ekki góðar, sat sem fastast og það sem er enn betra, fullt af vangaveltum og þönkum sitja eftir. Vel gert hjá leikhópnum "Á senunni".
Lesa meira Lesa meira um "Kvetch - Frábær leiksýning" »

Föstudagur 31. október 2003 kl. 09:51|Tilveran || Álit (0)

Inga Rannveig og Birna Sísí


Bróðurdæturnar á góðri stund, innimyndir eru ekki nógu góðar úr símanum sendar með GSMbloggi Hex

Fimmtudagur 23. október 2003 kl. 18:06|Tilveran || Álit (0)

Sólarupprásin


Sólarupprásin var einstaklega fögur í morgun þegar ég var að ganga úti með Káti, óendanleg litadýrð og formfögur ský. Ekki auðvelt að ná þessu á einn farsíma en gefur hugmynd að upphafi á fögrum degi.
Mynd sendi: Lára með GSMbloggi Hex

Þriðjudagur 14. október 2003 kl. 11:30|Dýrin / Tilveran || Álit (1)

Sól út um gluggann í vinnunni


Mynd sendi: ég
Sent með GSMbloggi Hex

Mánudagur 13. október 2003 kl. 17:38|Tilveran || Álit (2)

Morgunganga við sjóinn


Skilaboð send með Bloggsíma Hex

Mánudagur 22. september 2003 kl. 08:51|Tilveran || Álit (0)

Skiptinemi frá Brasilíu


Við í Rótaryfélagi Akureyrar erum nú með skiptinema sem færði okkur fána að heiman. Þetta er ekki góð mynd hjá mér enda tekin inni en ég læt hana vera hér engu að síður. Hér er skiptineminn sem vill kalla sig "Junior" með forsetanum okkar honum Stefáni.

Föstudagur 5. september 2003 kl. 13:07|Tilveran || Álit (1)

Hiti og Kátur lasinn

Sent úr Bloggsíma Hex

Mánudagur 1. september 2003 kl. 16:53|Tilveran || Álit (2)

Hundaferð í fjöru


Hrafnhildur Lára með þremur stærðum af hundum, minnst er Eyja íslenskur hundur, þá Kátur minn sem er eilítið stærri en labrador enda blendingur af því tagi. Stærst er Röskva sem er írskur úlfhundur. Eini hundurinn sem eitthvað heyrðist í var Eyja sem heyra má í næsta skeyti.

Mánudagur 25. ágúst 2003 kl. 12:57|Tilveran || Álit (2)

Hundaferð í fjöru

Smella og hlusta sent af BlogPhone Hex

Mánudagur 25. ágúst 2003 kl. 08:36|Tilveran || Álit (0)

Afmæli Hildu Jönu


Í gær 17. ágúst átti Hilda Jana afmæli, hún hélt upp á það með kökum og góðgæti. Hér er hún að knúsa pabba sinn á afmælisdaginn;-)

Mánudagur 18. ágúst 2003 kl. 09:29|Tilveran || Álit (0)

Berjadagar í Ólafsfirði

Við Gísli fórum á leikritið Tenórinn eftir Guðmund Ólafsson í Ólafsfirði í gær á Berjadögum, menningarhátíð þeirra Ólafsfirðinga. Þetta var frábær sýning þar sem Guðmundur fór á kostum og ekki síður Sigursveinn sem lék undirleikarann hans.
Lesa meira Lesa meira um "Berjadagar í Ólafsfirði" »

Sunnudagur 17. ágúst 2003 kl. 17:51|Tilveran || Álit (0)

Keramikdiskurinn minn horfinn

Í nótt hvarf keramikdiskur úr garðinum mínum sem ég gerði sjálf og ég er mjög leið yfir því. Var alveg viss um að enginn myndi stela honum enda sprunginn og svosem ekkert sérstaklega fallegur. En mér þykir vænt um hann og vona að honum verði skilað í garðinn.
Lesa meira Lesa meira um "Keramikdiskurinn minn horfinn" »

Sunnudagur 17. ágúst 2003 kl. 11:14|Tilveran || Álit (0)

Dagurinn í dag

Smella og hlusta á talblogg sent af BlogPhone Hex

Mánudagur 11. ágúst 2003 kl. 20:42|Tilveran || Álit (0)

Listsýning í Lystigarðinum


Frábær listsýning er nú í Lystigarðinum á Akureyri þar sem margar listakonur sýna verk sín undir heitinu 13 + 3 þ.e. þrettán norðlenskar listakonurog þrjár frá Færeyjum. Ég fór í gær og leit yfir verkin og hlakka til að fara aftur og dvelja meira og lengur.

Sunnudagur 10. ágúst 2003 kl. 13:24|Tilveran || Álit (0)

Django Jazz á Akureyri

Fagnaðarlæti gesta á opnunartónleikum Django jazzhátíðar á Akureyri voru gríðarleg eftir tónleika Robin Nolan Trio. Smellið og hlustið á fagnaðarlætin sent af BlogPhone Hex

Fimmtudagur 7. ágúst 2003 kl. 23:36|Tilveran || Álit (2)

Handverkshátíð á Hrafnagili


Opnun handverkshátíðarinnar á Hrafnagili var mjög fjölmenn og nú er spennandi að skoða allt sem er til sýnis. Þessi mynd var tekin og send á meðan landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson flutti opnunarræðu sína.

Fimmtudagur 7. ágúst 2003 kl. 16:36|Tilveran || Álit (0)

Verslunarmannahelgin IV


Gísli og Kátur í bænum.

Sunnudagur 3. ágúst 2003 kl. 15:44|Tilveran || Álit (1)

Verslunarmannahelgin III


Fífa og Pabbi með harðfisk úr bænum.

Sunnudagur 3. ágúst 2003 kl. 15:28|Tilveran || Álit (0)

Verslunarmannahelgin II


Ingvar Már og Hilda Jana
Lesa meira Lesa meira um "Verslunarmannahelgin II" »

Sunnudagur 3. ágúst 2003 kl. 11:30|Tilveran || Álit (0)

Verslunarmannahelgin á Akureyri


Nokkur hluti fjölskyldunnar sem býr fyrir sunnan lagði land undir fót um verslunarmannahelgina. Með Gísla og Gísla Tryggva má sjá Fífu systur, Davíð bróðurson minn og Birnu Sísí systur hans.
Lesa meira Lesa meira um "Verslunarmannahelgin á Akureyri" »

Laugardagur 2. ágúst 2003 kl. 21:10|Tilveran || Álit (0)

Í Lystigarðsferð með Valdimar




Kom við í Menntaskólanum á Akureyri í dag til að plata Valdimar í eins og eina Lystigarðsgöngu.
Lesa meira Lesa meira um "Í Lystigarðsferð með Valdimar" »

Fimmtudagur 31. júlí 2003 kl. 10:25|Tilveran || Álit (0)

Frábær leikhúsferð

Fór að sjá "Ellý alltaf góð" í hlöðunni að Litla Garði í dag með Hildu Torfa, Hlín systur hennar og móðursystur þeirra. Ævar Þór Benediktsson gamall nemandi úr MA lék einleik í leikriti Þorvaldar Þorsteinssonar við leikstjórn Skúla Gautasonar. Þrátt fyrir að ég vissi vel að Ævar Þór var hæfileikaríkur kom hann mér verulega á óvart í þessu leikriti hversu afbragðs vel hann skilaði sínu.
Lesa meira Lesa meira um "Frábær leikhúsferð" »

Miðvikudagur 30. júlí 2003 kl. 23:55|Tilveran || Álit (0)

Stóra ritgerðin

Enn einu sinni er ég lögst yfir mastersritgerðina mína sem er kölluð "stóra ritgerðin" hér á heimilinu til heiðurs vinaris í sjónvarpsþáttunum Fornbókabúðinni sem alltaf var að skrifa ritgerð en kláraði aldrei.
Lesa meira Lesa meira um "Stóra ritgerðin" »

Miðvikudagur 30. júlí 2003 kl. 00:23|Tilveran || Álit (1)

Kátur og Emilía




Vinir í garðinum

Mánudagur 28. júlí 2003 kl. 16:31|Tilveran || Álit (0)

Emilía í garðinum




Emilía hefur vakandi auga með Kát

Mánudagur 28. júlí 2003 kl. 16:21|Tilveran || Álit (2)

Krakkarnir kvaddir á Klöppum

Alltaf gaman á Klöppum;-) Smella og hlusta sent af BlogPhone Hex

Fimmtudagur 26. júní 2003 kl. 14:26|Tilveran || Álit (0)

Vinnu og handverksdagur

Í dag hélt ég áfram að vinna skýrsluna yfir verkefnið á Klöppum en eftir að hafa setið við tölvu frá því eldsnemma morguns fram til miðnættis ákvað ég að ég þyrfti að líta upp og fór á Punktinn. Mig hefur lengi langað til að læra að þæfa fallega hluti og gerði því tvær prufur í dag og lærði helstu handbrögðin hjá Kristbjörgu.
Lesa meira Lesa meira um "Vinnu og handverksdagur" »

Miðvikudagur 25. júní 2003 kl. 22:14|Tilveran || Álit (0)

Sumardagur - Skýrslugerð

Hér er vefsíða Klappa með Kidlink verkefninu sem ég ræði um hérna. Smella og hlusta sent af BlogPhone Hex

Þriðjudagur 24. júní 2003 kl. 14:52|Kidlink / Tilveran || Álit (0)

Sól, sumar og vinnan:-(

Smella og hlusta sent af BlogPhone Hex

Mánudagur 23. júní 2003 kl. 11:02|Tilveran || Álit (0)

Komin með Harry Potter!!!

Smella og hlusta sent af BlogPhone Hex

Laugardagur 21. júní 2003 kl. 10:19|Tilveran || Álit (3)

Afmælið búið

Smella og hlusta sent af BlogPhone Hex

Föstudagur 20. júní 2003 kl. 00:32|Tilveran || Álit (0)

Suðurleið

Smella og hlusta sent af BlogPhone Hex

Fimmtudagur 19. júní 2003 kl. 11:03|Ferðalög / Tilveran || Álit (0)

Knúið af Movable Type 3.33
Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.