« Konur og pólitík | Aðalsíða | Ráðist á homma í Færeyjum »

Föstudagur 27. október 2006

MindManager, handverk og pólitík

Í morgun var ég mætt út á flugvöll um sjöleytið því vinnudagurinn var fyrir sunnan. Loftleiðir, MH, Þekking og síðast sýningin Handverk og hönnun. Fyrst fór ég á ráðstefnu á Hótel Loftleiðum sem byrjaði nánast á sömu mínútunni og ég gekk í salinn. "Takk fyrir Reykjavíkurflugvöll" hugsaði ég í þúsundasta sinn. Án hans hefði ég ekki getað sofið heima í nótt. Ráðstefnan sem var um MindManager og JCVGantt var frábær og eiga Verkefnalausnir heiður skilinn fyrir hana. Ég er búin að sjá marga fleiri möguleika til að nota þessi tól og nú síðast datt mér í hug að það væri frábært í pólitík, þarf að prófa það;-)




Um hádegið fór ég upp í MH þar sem ég hef verið við ráðgjöf frá því snemma árs 2001 ef ég man rétt og því starfandi þar í fimm ár. Núna var hinsvegar komið að lokum þar sem framkvæmdastjórastarfið hjá Tölvuskólanum Þekkingu gefur ekki rými fyrir aðra vinnu. Það er með talsverðum söknuði sem ég kveð þennan góða vinnustað með fólki sem mér hefur ævinlega fundist að umfaðmi mig þegar ég kem til þeirra.



Eftir fundinn fór ég í skólann minn í Faxafeni en þar voru allir á fullu í kennslu. Því næst fór ég á skrifstofu Þekkingar í Kópavogi því það var fundur í nefnd sem ég stýri. Fundurinn fór fram í fjarfundabúnaði eins og alltaf. Því skiptir engu máli hvort maður er fyrir sunnan eða norðan þá daga sem fundirnir eru.



Þrátt fyrir annir í prófkjöri ákvað ég að taka flugið um sjöleytið í staðinn fyrir um sexleytið til að geta farið á sýningu Handverks og hönnunar í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þar var margt að sjá, sumt sem hafði verið á Handverkssýningunni á Hrafnagili frá í sumar en annað sem ég hafði ekki séð áður. Fann fallegt hálsmen hjá Guðrúnu Steingrímsdóttur úr horni sem ég skildi eftir á sýningunni (hún gerði einmitt miðaldakjólinn minn) en hlakka til að fá síðar. Hitti Möggu (Margréti Leópoldsdóttur) og Lóu (Ólöfu Björk Oddsdóttur) en ljósmyndirnar mínar voru á sýningu á Akranesi í sumar þar sem þær sýndu líka.



Ég var stolt af mínum norðlensku konum þarna Gígju Kjartansdóttur í Urtasmiðjunni en ég nota gjarnan kremin hennar. Höllu Birgisdóttur með mósaík sem ég hef oft dáðst að. Elín Kjartansdóttir (Tóverið Tumsa) en ég hef oft undrast hvað hún getur galdrað fram úr hlutum (hári, beinum og fleiru) sem mér gæti ekki dottið í hug. Margrét Jónsdóttir var með sitt fallega keramik, ég heimsótti verkstæðið hennar í sumar sem er einstaklega hlýlegt og verkin hennar hafa einhvern draumkenndan fínleika sem ég hef aldrei getað skýrt en dáist alltaf að. Hadda (Guðrún H. Bjarnadóttir) sýndi vefnaðinn sinn sem er svo skemmtilegur. Margrét Baldursdóttir var með vefnað en verkin hennar þarf ég að skoða nánar (það var svo pakkað af fólki þarna og ég þurfti í flug). Svo voru þær frá Tehettunni Freyju þær Sigríður Hafstað og Sigurbjörg Snorradóttir en ég sá verkin þeirra í Svarfaðardal fyrir stuttu síðan á félagakynningu að Húsabakka.



Páll Garðarsson var með sýna himnesku herskara þarna sem eru eins og ævinlega alveg ótrúlegir. Hann getur töfrað fram alskyns karaktera í þessa engla með innsæi og auga fyrir hinu smáa.



Þegar upp var staðið voru þarna ótrúlega margir Norðlendingar ég náði ekki að skoða verk Írisar Ólafar Sigurjónsdóttur frá Laugasteini sem verður að bíða betri tíma. Helga Pálína Brynjólfsdóttir er úr Ólafsfirði gömul skólasystir hans Gísla míns. Svo er nú kominn pínulítill ólafsfirskur keimur af Herdísi Egilsdóttur sem er farin að vera mikið í Ólafsfirði á sumrin. Þegar ég var búin að skanna svæðið fannst mér að um helmingur væri búsettur fyrir norðan og til viðbótar nokkrir ættaðir þaðan. Það er greinilega gróska í handverki við Eyjafjörð;-)



Svo var bara að kúra sig í flugvélinni norður og kíkja á námskeiðið hjá Helgu Kvam um vinnslu ljósmynda í Photoshop en þar fer nú enn ein norðlenska listakonan.



Nokkrir hringdu til að segja mér að þeir hefðu verið svo góðir að kjósa mig sem mér þótti virkilega vænt um. Ég fékk aðhald og athugasemdir sem skiptir máli. Skaust eftir tveimur atkvæðum og setti í póst fyrir viðkomandi sem áttu ekki vel heimangengt.



Fínn dagur fullur af ævintýrum og athafnasemi, líklega kominn tími til að sofa;-)

kl. |Pólitík / Tilveran / UT / Vinnan

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.