« Sannleikur tölvupóstsins | Aðalsíða | Norræn Sissel »

Fimmtudagur 29. september 2005

Klukk

Úff ég var klukkuð af Gunnari Svavarssyni og það þýðir víst ekki annað en að hlýða því og reyna að finna upp fimm atriði um mig sem eru ekki á allra vitorði. En vandinn er hvað það á að vera því það sem aðrir vita ekki um mig fer að flokkast undir það sem ég veit barasta ekki sjálf. En best að velja eitthvað sem er kannski ekki alveg nýtt;-)


1. Fótboltaáhugi
Ég var í langan tíma mikill áhugamaður um fótbolta þegar ég bjó í Reykjavík og fór á alla leiki með Val. Við útbjuggum okkur með nesti hvar sem liðið var að spila, kakó og brauð með lifrarkæfu var algengt. Þetta var á þeim tíma sem liðið vann með næstum því fullu húsi. Alþjóðlegar fótboltakeppnir voru spennandi og einu herbergi var breytt og kallað Mexíkó á meðan á heimsmeistarakeppninni í fótbolta stóð. Ég fór á leiki í London og í Munchen og naut þess mjög. Svo fór ég í skóla með vinnu og þurfti beinlínis að taka ákvörðun um að ég hefði ekki áhuga á fótbolta. Um daginn gekk ég framhjá sjónvarpinu og sagði "huh, þetta var rangstaða" og sonur minn nærþví nítján ára sagði "þykist þú kunna eitthvað um fótbolta" hugsaði svo smástund og sagði svo "þú hittir bara á að þetta var rétt";-) Ég geri ekkert til að leiðrétta þetta mál enda horfi ég lítið á fótbolta í dag.

2. Kýr
Kýr voru og eru mikið áhugamál hjá mér og ég er handviss um að kýr eru einar algáfuðustu skepnur sem til eru. Þegar ég var níu sumur í sveit eyddi ég miklum tíma með þeim, talaði við þær og gat flautað á sumar og þær komu hlaupandi. Þótti þetta skemmtiatriði sem gestum var sýnt en þótti svo óhagkvæmt þegar ég kallaði heim kýrnar með þessari aðferð því þær hröðuðu sér svo heim að mjólkin var orðin fremur lítil í þeim. Þær spurðu gjarnan á leiðinni heim þegar ég var að reka þær hvort þær mættu fara að ákveðnum læk og drekka og fór eftir því hvort ég var snemma eða seint á ferðinni hvort ég leyfði þeim það. Ævinlega hlýddu þær þó mér sé fyrirmuna að skilja í dag hvernig þessi samskipti áttu sér stað en eins og ég man það þá voru það eins og hugsanir. Ég held ennþá mikið upp á kýr en engan hef ég taka undir gáfur þeirra nema Stefán Jónsson fréttamann sem var alveg sammála mér um þetta mál.

3. Ljóð
Þegar ég var lítil stúlka 8-10 ára átti ég mikið af pennavinum og samdi gjarnan ljóð. Eina pennanvinkonu átti ég á Patreksfirði sem hét Helga og var í miklu uppáhaldi, ég sendi henni eitt sinn ljóð sem byrjaði svona:

Komdu sæl mín fína
mig sækir magapína
en hún er nú að sjatna
og verkurinn að batna

Þetta er auðvitað djúpstæður ljóðskapur. Annað var held ég ekki betra en þá var ég ekki farin að semja lög og samdi þá stundum texta við þekkt lög.

4. Dans
Mér finnst ekki gaman að dansa. Líklega er það frá því ég var stelpa og var sett í danskennsku hjá Hermanni Ragnari frænda mínum (afabróður). Ég þótti venjulega ekki nógu fín þar sem ég var prílari og drullumallari. Ein minningin er frá því að föðursystir mín lét mig sitja alveg kyrra í gamla bragganum þar sem danskennslan fór fram með krosslagðar fætur haldandi höndunum yfir gati á sokkabuxunum. Ég tók brons-, silfur- og gullmerki en hef helst ekki dansað síðan;-)

5. Ættir
Móðurættin kemur öll frá Snæfellsnesi frá Hellnum og Ólafsvík og rekur sig út í eyjarnar. Mig minnir helst Svefneyjar. Í þeirri ætti er líka Jón Ólafsson sá er kenndur var við Skífuna. Man eftir honum sem ferlegum töffara í heimsókn hjá ömmu á Hofteig með ömmu sinni. Annars er þetta fólk þekkt fyrir að sjá álfa og huldufólk og hafa við það samskipti eins og fólk af næsta bæ. Langamma Bína í Melabúð bjó um tíma með Þórði refaskyttu og man ég eftir miklum sögum þeirra beggja, langömmu af samskiptum sínum við álfa sem sum hafa ratað í bækur en Þórði af samskiptum sínum við drauga. (Þaðan kemur áhuginn á Hringadróttinssögu og alskyns ævintýrabókum). Þegar langamma var komin nálægt níræðu fór Þórður frá henni og man ég eftir að hún stappaði fæti á bæjarhelluna og sagði að þetta yrði í síðasta skipti sem hún tæki mann uppí til sín.

Föðurættin kemur hinsvegar annarsvegar (leggur ömmu Láru) frá Sveinatungu í Borgarfirði þar sem Jóhann Eyjólfsson langafi minn bjó og byggði þar fyrsta steinsteypta íbúðarhús á Íslandi. Frá ættinni kemur líka nafn Sveinatungu í Garðabæ. Langafi sat einhver sumarþing fyrir Heimastjórnarflokkinn (í huga fjölskyldunnar heitir það núna Sjálfstæðisflokkinn) og hefur ættin því gumað af því að hafa alþingismann í fjölskyldunni. Þetta eru meira og minna sjálfstæðismenn og sagði hún föðursystir mín að það hefði verið mikill léttir að ég komst ekki á þing fyrir Samfylkinguna því hún gæti ekki horft framan í nokkurn mann ef það hefði gerst;-)

Hinsvegar kemur afa ætt frá Flöguseli í Hörgárdal og hefur verið skrifað og sagt að afkomendur hans séu alla jafna illa gefnir og grettir. Ég skoðaði einmitt rústir Flögusels í fyrra.

Þá held ég að þessu klukki sé bara lokið;-)

Ég klukka þá einhverja hmmm til dæmis:

Idu Semey, kennara í MH
Sverri Pál Erlendsson, kennara í MA,
Hildu Torfadóttur eftirlaunakennara að Galtalæk,
Hrafnhildi Láru Hrafnsdóttur barnabarnið mitt,
Helga Hrafn Halldórsson tölvunarfræðinema


Helgi og Ida verða bara að senda mér á hvaða vefsíðu sína þau vilja senda klukkið;-)

kl. |Tilveran

Álit (4)

Valgerður:

Ég deili því með þér að kýr eru gáfaðar, en fáir eru sammála mér. Reyndar eru flestar skepnur gáfaðar, hver á sinn hátt.

Föstudagur 30. september 2005 kl. 07:27

blush Tryggvi, ég er svo viðutan, ekki segja mér að ég þurfi að gera annað?

Föstudagur 30. september 2005 kl. 09:53

Nei þú sleppur í þetta skiptið ;)
Væri nú samt gaman að vita hvaða skilgreiningu á "gáfum" það er verið að nota ;)

Föstudagur 30. september 2005 kl. 10:30

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.