« Vann brons! | Aðalsíða | DV - sjálfsmorð og mannvirðing »

Þriðjudagur 10. janúar 2006

Jarðarfarir

Þetta ár byrjaði með dánartilkynningum og síðan í viku tvö eru jarðarfarir. Verst er að ég er með kvef og það fer illa við jarðarfarir svo segja má að ég sé aðal hóstarinn í Akureyrarkirkju þessa viku. Fyrst má nefna bróður frænku minnar og fóstru Árna Brynjólfsson sem ég man fyrst eftir sem síbrosandi hlýlegum bónda fram í Öxnadal. Þá Dag Hermannsson sem ég man fyrst eftir að fylgjast með við bústörf í Lönguhlíð hinumegin ár þegar ég var barn og kynntist síðar. Sá þriðji er Jóhann Eyjólfsson frænda minn í Garðabæ en hann var bróðursonur föðurömmu minnar og nöfnu Láru Jóhannsdóttur. Hann verður jarðaður fyrir sunnan og ég kemst ekki suður því miður. Í þeim tveimur jarðarförum sem ég hef farið í hefur Óskar Pétursson sungið í þeim báðum svo vel að unun er á að hlýða.


Ég minnist þessara þriggja manna á ólíkan hátt en öllum frá því ég var barn. Þanngi má segja að þeir sem voru fullorðnir á þeim tíma séu þeir sem eru að kveðja. Sem segir mér auðvitað að nýtt tímabil ævinnar er gengið í garð og hallærislegir brandarar um hvað maður er ungur verða enn hallærislegri. En þessi pistill á ekki að vera minningargrein heldur hugsanir á þessum tíma. Annars eru svosem flestar minningargreinar um höfundinn sjálfan svo kannski er þetta líkt því;-)

Skyldleiki minn við Kristínu Álfheiði fóstru mína og Árna er sú að Brynjólfur Sveinsson faðir þeirra sem var hreppstjóri fram í Öxnadal var bróðir langafa míns Stefáns Sveinssonar. Við komum síðan öll frá Benedikt í Flöguseli fram í Hörgárdal en um þann ættlegg allan sagði Eiður Guðmundsson frá Þúfnavöllum að væri "illa gefinn og grettur". Alltaf fannst mér Árni fjallmyndarlegur eins og margir úr þessari fjölskyldu en þegar ég var sjö ára sá ég Stínu fóstru mína í fyrsta skipti og ég man enn hvað mér fannst hún ofboðslega falleg. Ég horfði á hana andaktug og kannski var það þess vegna sem hún tók mig með norður. Eða af því að mamma átti fullt í fangi með Jóhann Gunnar litlabróður þá nýfæddan og Fífu systir sem hefur verið þriggja ára. Sjálfsagt hefur verið óttaleg fyrirferð á mér enda alltaf haft eitthvað fyrir stafni.

Þegar norður kom biðum við á Akureyri eftir Inga sem var í fjósi og ég fór út að leika mér. Krakkar á Brekkunni voru fljót að finna út að ég var ótalandi Sunnlendingur og gerðu að mér aðsúg og hröktu mig uppá snúrustaur. Þar var síðan komið að þar sem ég sjö ára gömul las þeim pistilinn og gaf ekkert eftir. Ákvað að læra norðlensku og er minnisstæðust setningin "Helkha ég er púihn að loKa hurðhinni". En ég náði henni að mestu leyti þó detta inn orð sem eru ekki alveg samkvæmt bókinni.

Ég man eftir sólríkum sumardögum og logni (það var alltaf svoleiðis veður þegar ég var lítil) þar sem heyrðist í hundi frá Lönguhlíð. Nú er Dagur að hirða, það er verið að slá í Lönguhlíð. Dagur var ósnertanlegur maður sem ég sá aldrei. Það var hinsvegar gaman að kynnast honum þegar hann var að vinna hjá Þekkingu en þar hitti ég hann stundum og við ræddum saman. Hann hafði alveg klárar skoðanir í pólitík og gaman að ræða við hann. Ég átti óskaplega erfitt með að setja hann í stað hins ósnertanlega manns hinumegin við ána sem ég sá aldrei sem barn. En þá vorum við sjálfsagt bæði annað fólk á öðrum tíma.

Ólíkt Flöguselsafkomendunum hafa afkomendur Jóhanns Eyjólfssonar í Sveinatungu aldrei verið taldir illa gefnir eða grettir. Ekki svo að skilja að þar vaði fram meiri gáfur eða fegurð en þar hafa menn ævinlega haft trú á sér. Jóhann var einnig mektarbóndi, þingmaður fyrir Heimastjórnarflokkinn. Í minni fjölsyldu heitir það að hafa verið þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Enda þótti þar ekki viðeigandi nema kjósa þann flokk annað gerðu bara "vangefnir og kommúnistar" og ekki gerður greinarmunur á því tvennu. Ég gerði uppreisn gegn þessum skoðunum að mig minnir um ellefu ára aldurinn og vildi ekki kjósa eins og hinir. Þá vildu allir Gunnar sem forseta en ég vildi Kristján Eldjárn. Ég fór auðvitað í sveitina til fóstru minnar það sumar sem önnur og hélt áfram baráttunni yfir búfé og búaliði. Stína sagði mér um daginn að ég hefði kvatt þau þegar þau fóru á kjörstað með þeirri kveðju að ef þau ekki kysu Kristján skyldu þau sleppa því að koma heim aftur.

Nei, í Sveinatunguættinni eru bara stórgrósserar og hefðarmenni. Enda sagði hún föðursystir mín mér að það hefði verið heilmikill léttir að ég komst ekki á þing fyrir Samfylkinguna það hefði orðið mikil ættarskömm. Synd að hún missti af því;-) En að öllu gamni slepptu þá er dugnaðarfólk í þessari ætt og mætti kannski segja að hana einkenndu athafnamenn á mörgum sviðum. Þetta er kraftmikið og skemmtilegt fólk sem ævinlega hefur hugmyndir sem það framkvæmir.

Ég held að ég sé ágætis blanda af þessu tvennu, fólk sem af natni sinnti búpeningi og náttúru og undi glatt við sitt og kátu athafnafólki. Svo blandast auðvitað saman fólkið undan Jökli með öll sín ævintýr og dulúð. En sem betur fer hefur það látið það vera að vera að deyja á þessu ári hingað til.

En ég vil senda út í tilveruna kveðju til þessara þriggja manna sem hver á sinn hátt voru púsluspil í tilveru minni. Megi minning þeirra lifa.

kl. |Tilveran

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.