« Jarðarfarir | Aðalsíða | Lesblinda »

Miðvikudagur 11. janúar 2006

DV - sjálfsmorð og mannvirðing

Mikill hiti er í mönnum vegna fréttar af sjálfsmorði manns á Ísafirði eftir umfjöllun í DV í gær. Undirskriftarlisti er kominn á netið og um fátt er meira talað. Þverpólitísk samstaða er bak við undirskriftarlistann og nú rétt áðan sá ég að komnar voru yfir 6.700 undirskriftir frá því um ellefu í morgun. Í rauninni snýr þetta mál að grundvallaratriðum lýðræðis og mannréttinda. Ekki um sekt eða sakleysi. Í þessu samhengi er mikilvægt að minna okkur á hvers vegna við höfum réttarkerfi, af hverju fólk hefur rétt á að halda uppi vörnum verði það fyrir sakfellingu og að fólk er saklaust þar til sekt þess er sönnuð. Á sama tíma má minna á að refsing er framkvæmd af ákveðnum yfirvöldum en ekki almenningi eða fjölmiðlum.


Í þessu felast mikilvæg grundvallaratriði og því þykir mér sjálfsagt að skrifa undir ofangreindan lista til þess að hvetja til þess að sýnd sé ábyrgð og borin virðing fyrir mönnum og viðkvæmum málefnum.

Í kringum hvern mann er fjöldi ástvina, barna, foreldra og vina. Hvert svo sem sakarefnið er hverju sinni ber að hafa þetta í huga og einnig hverjir ákvarða sekt og refsingu. Það er ekki hlutverk einstaklinga né heldur fjölmiðla að hvetja til, vera með sakbendingar eða æsa fólk upp vegna ákveðinna sakamála. Hver og einn hefur rétt til að verja hendur sínar.

Eðlilegt er að hvetja DV til að skoða ritstjórnarstefnu sína og hafa í huga að fólk - allt fólk - skiptir máli.

kl. |Pólitík

Álit (4)

Allt fólk skiptir máli. Mikið rétt.

Líka þeir sem kærðu manninn. Margir vilja gleyma þeim. Núna er maður í viðtali á NFS að fabúlara um upplognar sakir og það hvort að piltarnir sem kærðu hafi verið fjárkúgarar og misindismenn!

Fólk ætti nú aðeins að hugsa sinn gang.

Miðvikudagur 11. janúar 2006 kl. 14:58

Alda:

Mikið er ég sammála þér.

Miðvikudagur 11. janúar 2006 kl. 23:07

Grundvallaratriði þessa máls er sá að hver landsmaður hefur rétt á að reka mál sitt fyrir dómstólum. Bæði gerandi og fórnarlamb. Það er ekki DV og ekki alþýða manna sem hefur skoðanir á málum. Hvort sem þessi maður var sekur eða saklaus þá átti hann rétt á að reka mál sitt fyrir dómstólum. Það eru grundvallarmannréttindi hvers manns. Eins þeirra sem hafa kært manninn, réttur þeirra var að fá að reka mál sitt fyrir dómstólum. Það er ekki DV að taka að sér að skapa einhverskonar réttarsal á forsíðum sínum. Yfirheyra menn, meta hvort þeir segi satt, komast að niðurstöðu og kynna hana fyrir þjóðinni. Það er réttarfar sem er mér ekki að skapi. Það er auðvelt að verða reiður og þekkt í sögu allra ríkja um allan heim að múgur tekur að sér sakfellingu, dóm og kveður hann upp. Það eru einfaldlega ekki þær leikreglur sem við höfum sett okkur. Ég veit ekki hvort nokkur veit sekt eða sakleysi í þessu máli aðrir en þeir sem að því komu. Eins og staðan er verður aldrei úr því skorið.

Fæstir vita hvað er rétt, sú ákæra sem hefði hugsanlega verið gefin út eða fullyrðingar hins látna um sakleysi sitt.

Okkar er ekki að meta hvort þeir sem að kærunni standa eru fórnarlömb eða ekki né heldur hafa skoðun á því hvort maðurinn er sekur eða saklaus.

Okkar er að krefjast þess að dómstólar landsins séu þeir sem skeri úr um þessi mál og að sá réttur sé aldrei framseldur þeim sem vilja halda sitt eigið réttarhald í dagblaði til að skapa gróða fyrir forríka eigendur sína.

Miðvikudagur 11. janúar 2006 kl. 23:30

Þorbjörg:

Einn mest lesni íslenski vefur á netinu, Visir.is, er ennþá að auglýsa DV til lesturs ókeypis, og þar getur hver sem er farið inn og lesið DV. Á sama tíma eru þeir að fjalla um þetta mál og virðast vera yfir sig hneykslaðir á því hvað þetta tiltekna mál gékk langt.
Svolítið mikil tvöfeldni í því, myndi ég segja. Mætti kannski ympra á því við þá, hvort þeir ætli að halda áfram að styðja þetta sorablað.

Föstudagur 13. janúar 2006 kl. 04:53

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.