« Bréf vegna Barnalands | Aðalsíða | Sameining? »

Fimmtudagur 1. september 2005

Ólgusjór

Ég ætlaði ekki að skrifa meira um Barnaland, ætlaði að hafa fjör á síðunni minni og setja inn niðurstöðu spurningakönnunar um að ég líktist helst Dumbeldore úr Potterbókunum sem ég fann á netinu. En þá fannst mér ég bara kveif og liðleskja, ég yrði að segja hvað mér finnst og skýra betur af hverju ég skrifaði bréf til ýmissa aðila. Af hverju ég yfir höfuð var að skipta mér af.

Ég hef fengið talsvert af bréfum og upphringingum útaf þessu máli. Ég hef fundið til með þeim sem hafa orðið illa úti í samskiptum sínum við fólk á Barnalandi en það kom mér ekki á óvart. Mér hefur verið tjáð hver er hver af nokkrum sem ég þekki persónulega þarna inni og það kom mér heldur ekki á óvart hversu ólíkt þeir koma fram beint við mig og síðan nafnlaust á síðunni minni eða á Barnalandi. Margar Barnalandskonur telja að engin börn séu að lesa síðurnar, við mig hafði samband fólk sem átti börn sem höfðu gert það - kom mér heldur ekki á óvart. Illmælgi um mig var mikil - það var nákvæmlega það sem ég bjóst við. Sumir skrifa svo fallega um Barnalandsspjallið og segja að hið ljóta sé "bara grín" og "mikill húmor" því miður lýsti fólk fyrir mér raunverulegum afleiðingum sem eru svo fjarska langt frá því. Það væri svo óskaplega gott að lifa í trú margra á Barnalandi um fegurð samfélags sem þau hafa skapað. Það sorglega við að hafa lifað lengi er að í reynslusarpinn hefur safnast lífsreynsla og í mínum sarpi er talsverð mikil reynsla af netsamfélögum - þess vegna - því miður hefur lítið komið mér á óvart. Þó var það fyrst og fremst eitt, sem kannski átti ekki að gera það.


En það er sú staðreynd að ég er varaþingmaður fyrir Samfylkinguna. Allt í einu hvarf öll mín menntun og reynsla af upplýsingatækni og ég varð bara einfaldur varaþingmaður. Jafnvel í atkvæðaleit. Fyrir það fyrsta eru næstumþví tvö ár í næstu kosningar sem ég mun að öllum líkindum taka þátt í og þá man enginn eftir Barnalandi. Síðan er ekki klókt ef menn eru á atkvæðaveiðum að stugga við netsamfélagi eins og því sem býr á Barnalandi þau eru einfaldlega það skæð að fáir þora því. Fáir þekkja netgengi og hvað þau eru fær um að gera þannig að það er ekki auðvelt að fá fólk til að skilja það. Sumsé háskólamenntunin, starfsreynslan við upplýsingatækni og menntun, starf í alþjóðaverkefnum fyrir börn á netinu og margt fleira varð algert aukaatriði. Þetta þótti mér merkilegt en nú hef ég stungið því í reynslusarpinn - það kemur mér þá ekki eins á óvart næst. Ég er varaþingmaður og stolt af því, en ég er einnig svo margt annað;-)

Eins og áður þegar fjallað er um afbrigðilega hegðun á neti eru menn vissir um að það sem fari helst fyrir brjóstið á mér sé að nafngreina kynfæri og lýsingar á umbeðnum eða framkvæmdum kynlífsathöfnum þátttakanda. Blygðunarleysi verður dyggð og jafnvel vottur um hreinskilni og "opna tjáningu". Jú inn á vefsvæði fyrir börn finnst mér það ömurlegt þar sem það eru til svæði fyrir svona tjáningu vel merkt í bak og fyrir, þar eiga slíkar umræður heima. En í sannleika sagt fannst mér miklu ömurlegra að lesa lýsingar á kynfærum barna þeirra, þ.e. ungra drengja, á opnu spjallborði. Mér finnst eðlilegt að mæður sem ekki þekkja umönnun þessara líkamshluta leituðu sér upplýsinga og aðstoðar en ekki að lýsa þeim og allra síst á litlum börnum sínum á spjallborði á Internetinu. Mér fannst framkoma sumra á spjallborði Barnalands líka ömurleg, það er alltaf ömurlegt þegar maður sér einhvern níðast á öðrum - sérstaklega marga í einu, það heitir einelti.

Fyrir um áratug hafði Logi Bergmann Eiðsson viðtal við mig í Kastljósþætti á upphafsárum Internetsins, á meðan fáir vissu hvað það var, um klám á Internetinu. Stuttu áður hafði verið haft við mig viðtal í menntakálfi Times um Internet í skólum á Íslandi þar sem komið var inn á þetta mál. Á þeim tíma fannst mér að menn væru að gera úlfalda úr mýflugu, líkt og menn telja að ég sé að gera núna. Mig minnir að eftir mér sé haft í Times að "Fólk er gott og vont, hvort sem það er á netinu eða ekki". Ég hafði þá ekki sömu reynslu af nafnlausum samfélögum (nokkurs konar Ku Kux Klan nútímans) sem ég öðlaðist síðar. Á þessum tíma fannst mér að ég væri nokkuð sjóuð í að fást við mál þar sem klámmyndir höfðu komið við sögu og ég taldi mig ískalda í að ræða það enda fengist við nokkur þeirra. Bjáninn ég bað um að fá að sjá myndirnar sem Logi var að tala um áður en ég fór í viðtalið og sá þá viðbjóð sem háði mér í talsverðan tíma á eftir sem ég myndi ekki flokka sem klám heldur ömurlegan viðbjóð. Í vinnunni við að finna efnið á þeim tíma var farið inná umræðuborð sem hét "hroðalegt" (beastly) kynlíf og fólk sem stundaði það beðið um ógeðslegustu myndir sem það hafði undir höndum. Það fékk ég að sjá en gat enganvegin þá - frekar en núna - lýst á opinberum vettvangi. Föl á vangann fór ég í mitt fyrsta sjónvarpsviðtal, gekk síðan upp á skrifstofuna mína, kúgaðist og fór að gráta. Mér fannst ég skítug lengi á eftir. En ég lærði að það var margt ljótara til en ég vissi um.

Ég hét því þá, og stend við það núna, að þegar ég sé samfélög sem eru komin út fyrir eðlileg mörk að standa ekki hjá og segja ekki neitt þó það leiði til þess að á mér sé níðst. Það er níðst á miklu fleira fólki af þessum samfélögum og ef ég get tekið eitthvað af höggunum af þeim eða forðað einhverjum frá þá er það gott.

Menn mega segja við mig að ég sé pempía, skilji ekki "opna umræðu", átti mig ekki á, sé hrokafull, hafi ekki húmor, fordómafull og hvaða orð þeir velja. Eftir stendur að ég mun aldrei standa hjá og segja ekki orð þegar ég tel að um verulega vafasamt samfélag á netinu sé að ræða sem hefur slæmar og oft hörmulegar afleiðingar. Sérstaklega ekki þegar það hefur hreiðrað um sig innan um myndir af börnum og umfjöllun um þau undir því yfirskyni að þetta sé umræða "foreldra".

Lífið hefur svo margt fallegt að bjóða að það er ömurlegt að ungir foreldrar, mæður og feður, hreiðri um sig í brengluðu samfélagi á netinu og eyði þar stórum hluta lífs síns. Það er langt í frá allt ljótt á Barnalandi en skíturinn klínist á allt umhverfið - þar á meðal vefsíður lítilla barna.

kl. |Pólitík / Tilveran

Álit (35)

Anna Kristín:

Sæl
Mig langar bara að lýsa yfir stuðningi við þetta hjá þér. Datt inn í þessa umræðu fyrir tilviljun og verð að segja að það er mál að einhver segi stopp. Ég hef ekki mikið lesið af spjalli Barnalands og er það aðallega vegna þess að mér finnst umræðurnar þar yfirleitt vera í mjög lágkúrulegum og meiðandi stíl. Mér finnst kommentin við þessi skrif þín og Hörpu sannarlega sýna að hér er ekki verið að ýkja neitt. Hafðu þökk fyrir að stíga fram

Fimmtudagur 1. september 2005 kl. 13:03

Hæ elsku Lára mín, mikið var gaman að detta á síðuna þína. Þú er alltaf jafn skemmtileg og skapandi og vel vakandi og drífandi.... Sjáumst fyrr en síðar. (Í flugvél eða á flugvelli.)

Fimmtudagur 1. september 2005 kl. 14:14

Elsa Margrét:

Nú er ég kjaftstopp. Má ekki tala um hreinsun og meðferð á forhúð litlu barnanna sinna á opnum vef? Mér skilst að það sé umræðan sem þú ert að tala um. Afsakið en ég hefði sjálf ekki áttað mig á hvað þyrfti og mætti gera fyrr en ég las þá umræðu.
Ég nota ekki barnaland mikið, nema til að leita mér að fræðslu og ef mér leiðist virkilega þá les ég allt. Mér leiðist þegar fólk setur alla undir sama hatt, og hlustar bara á þær örfáu sálir sem eru sammála manni. Ég get ekki séð að þú sért nokkuð að koma til móts við barnalandsnotendur og reyna að skilja að þessar örfáu sálir sem hallmæla þér, er bara lítið brot af notendum.

Fimmtudagur 1. september 2005 kl. 15:02

Elsa Margrét, jú það er einmitt sagt í pistlinum mínum að ég geri ekki athugasemd við. Það er mikilvægt að hafa það á hreinu og hvar mér finnst að nauðsynlegt sé að draga mörkin. Ef þú lest pistilinn aftur sérðu hvar ég geri það. Svo er líka spurning hvernig mökum og ástmönnum þeirra sem einnig þurfa að þola umfjöllun um sín kynfæri finnst um það en það hef ég svosem ekki skrifað um sérstaklega.

Fimmtudagur 1. september 2005 kl. 15:06

Varla að maður nenni að kommentera á þetta "Barnalandsmál" mál, svo augljóst sem það er að mínu mati. Gott hjá þér Lára að kveikja þessa umræðu þó viðbrögðin hafi verið óvægin. Þannig er það bara stundum og ekkert við því að gera.

Fimmtudagur 1. september 2005 kl. 15:13

Elsa Margrét:

En er það ekki ákkurat ástæðan fyrir því að flestir eru undir nafnleynd. Vilja ekki að þetta sé rakið til þeirra ástvina. Það eru náttúrulega margar þarna inni sem skeyta engu um einkamál annarra og eru með krækjur á heimasíður barnanna. Ég dreg mörkin nú algerlega við mitt heittelskaða penis, ég flagga því nú ekki framan í alla. En þetta með forhúðarvandamál barnanna er fræðsla. Ég hefði ekki dottið í hug að leita mér upplýsinga því ég vissi ekkert um þetta. Þú getur líklega lesið álíka svör á doktor.is. Þar er opin spjallrás.

Ég sé alveg hvar þú dregur mörkin. Og fannst mér það ferlega fyndið. En jú þú ert líklegast á aldri við foreldra mína og ert því kannski ekki vön því að fólk tali opinskátt um sína prívatparta. Ég ætla mér að vera mjög opinská um kynlíf við mín börn, svo þau haldi ekki að það sé eitthvað tabú (ég vona að ég sé að nota þessa slettu rétt) að stunda kynlíf.

En ég er alveg sammála að það er sumt sem á ekkert heima þarna, en mér finnst það vera svo lítill hluti af þessu að það tekur því varla að ræða um þetta. Ég get ekki tengt fallegu myndirnar af syni mínum við umræðurnar, nema þá að því leiti að vefstjóri er búinn að setja krækjur inn á heimasíðurnar, sem ég myndi helst vilja losna við.

En mér finnst ferlega sorglegt ef satt reynist að börn séu að lesa umræðuna á barnalandi.

Fimmtudagur 1. september 2005 kl. 15:53

Elsa Margrét, ég veit ekki hvað er svona móderne að tala um sína eigin prívatparta, barna eða maka á opinberum umræðuvef á Internetinu. Ég hef séð börn þurfa að lifa við afleiðingar af því sem foreldrar þeirra (eða aðrir) hafa skrifað um þau á netið. Það sem virkaði svo hip og kúl, opið og skemmtilegt á einum stað var það ekki fyrir þau á öðrum stað. Börn komast ótrúlega oft að því sem er skrifað um önnur börn, leyninöfn leka út, öryggið er lítið sem ekkert. Börn eru inni á Barnalandi og hver sem er þarna inni verður að vera tilbúinn til þess að horfast í augu við barnið sitt sem hefur þurft að heyra eða sjá það sem mamma eða pabbi skrifaði um þeirra prívatparta eða annað tengt þeim opinberlega.

Umræða um forhúðarvandamál á doktor.is á að mínu mati nákvæmlega við þar. Síðan geri ég gríðarlegan greinarmun á því að ræða forhúðarvandamál almennt en að lýsa slíkum vanda barna sinna eða öðrum vanda sem tengist kynfærum drengja. Einnig er mér sannarlega til efs að makar eða aðrir rekkjunautar séu fullkomlega sáttir við að þeirra kynfærum sé lýst á Barnalandi.

Allavega hvet ég þá karlkyns maka sem eiga konur á Barnalandi til að staðfesta að þeim finnist alveg prýðilegt að konur þeirra ræði kynfæri þeirra, útlit og lögun á vefnum.

Fimmtudagur 1. september 2005 kl. 16:17

Auður:

Sæl Lára
Ég verð að viðurkenna að mér fannst þú dálítið klikkuð fyrst þegar þetta mál allt fór í gang, og t.d. sagði ég í kommenti hjá Hörpu vinkonu þinni að vonandi myndir þú róast yfir þessu, sem og barnalandskonur.
En eftir lestur þessa pistils, þá held ég sveimérþá að ég skilji hvað þú átt við. Ég kannski dreg ekki mörkin á sama stað og þú, en ég skil hvað þú átt við, og er smám saman að verða sammála þér.
Barnaland er frekar gróft samfélag, og það er einmitt þetta með netgengi (orð sem ég hef ekki heyrt áður) sem skýrði svo mikið fyrir mér. Þetta er nákvæmlega raunveruleikinn á þessu spjalli, nema þar hefur verið talað um klíkur.

Fimmtudagur 1. september 2005 kl. 17:35

Elsa Margrét:

Já ég sé að þetta getur orðið vandamál, þessi opinskáu skrif á barnalandi. En verðum við ekki að treysta hverju foreldri fyrir sínu barni, þ.e. hvort það geri barninu sínu þetta eða ekki. Ég er svo ósjóuð, enda verður minn bara 1 árs á morgun. Því miður eru foreldrar misjafnir eins og þeir eru margir, og mörg börn upplifa margt verra í lífinu en stríðni vegna einhvers á netinu. Sjálf passa ég mig rosalega hvað ég segi á netinu. Ég les yfirleitt bara umræðurnar og tek helst bara þátt í pólitískum hitamálum og umræðum sem tengjast þjóðarsálinni. Ég hef fengið mikla aðstoð þarna varðandi meðgönguna og meðferð barns míns. Hefði ekki getað verið án þessara kvenna. Eina sem ég er virkilega ósammála þér með er hvort þessi spjallrás eigi heima þarna eða ekki. Ég fór allavegana þarna inn til að leita mér upplýsinga varðandi barnið mitt og með að banna annað umræðuefni, þá er botninn úr þessari síðu tekinn.

Fimmtudagur 1. september 2005 kl. 20:14

Halla G:

Góða kvöldið!

Ég er búin að fylgjast með þessu Barnalandsmáli í nokkra daga en sjálf hef ég fylgst reglulega með Barnalandi í 2 ár, aðallega til að lesa greinar og leita mér upplýsinga og lesið umræðuna mér til skemmtunar. Ég hef einnig nokkra reynslu af notkun Netsins svona almennt og hef fylgst með þróun þess á undanförnum árum. Mér finnst alveg ótrúlegt hvað verið er að blása þetta mál upp og einblína á það neikvæða. Auðvitað koma alltaf upp umræður sem sumum finnst ósmekklegar eða óviðeigandi, þannig er það bara. Ég tel að það hljóti að vera mjög erfitt að loka algjörlega fyrir allar umræður sem einhverjum geta þótt óviðeigandi, því öll höfum við misjafnar skoðanir á því hvað telst eðlilegt að spjalla um á opnu vefsvæði og hvað ekki. Ég þekki þó nokkur dæmi þess þar sem foreldrar hafa fengið mjög mikinn stuðning frá öðrum notendum á Barnalandi þegar þeir hafa átt í erfiðleikum. Þá er ég að tala um fólk sem hefur liðið mjög illa, jafnvel verið langt leitt í þunglyndi og hefur ekki getað leitað neitt annað en á vef Barnalands í von um að einhver hlusti. Það eru einnig nokkur dæmi um foreldra langveikra barna sem hafa fundið mikinn styrk í að því að geta deilt reynslu sinni með öðrum, foreldrar sem hafa hreinlega ekki getað verið án Barnalands þegar þeir gengu í gegnum mikla erfiðleika. Af hverju er hvergi minnst á þetta í allri þessari umræðu? Mér finnst það mjög mikil þröngsýni að einblína á það neikvæða og dæma vef eins og Barnaland eftir því.
Og svo langar mig að spyrja þig Lára, þar sem þú hefur nú alla þessa reynslu í vinnu með Internetið og hefur tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi - hvar eru þessi lög og reglur til sem þú segir að sé til talsvert af varðandi börn og Internetið? Þú segir einnig að Barnaland standist ekki kröfur sem gerðar eru til vefja af þessu tagi - hvar er þessar kröfur að finna, hver setti þær og hverjir hafa eftirlit með því hvort vefsvæði standist þessar kröfur? Það væri fróðlegt að fá að kynna sér þetta og lesa þetta efni sem þú hefur verið að vitna í í þínum skrifum.
Kveðja,
HG

Fimmtudagur 1. september 2005 kl. 22:23

Frábær innlegg og allt önnur umræða, gaman að sjá þetta, takk fyrir það. Algengustu lögin til að vísa í eru lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga númer 77 frá 2000. Ágætt að fletta þeim upp á althingi.is. Þar er til dæmis talað um hugtakið "Viðkvæmar persónuupplýsingar" og innan þeirra er liðurinn "Upplýsingar um kynlíf manna og kynhegðan." Eitt er að tjá sig um sitt eigið einkalíf en um leið og það snýr að öðrum t.d. maka, rekkjunaut eða börnum er það farið að fjalla um aðra. Nafnleysi er undarlega lítil hindrun, miklu minni en menn halda. Mér hefur verið sagt án þess ég væri nokkuð að spyrja hvaða einstaklingur hefur ákveðið leyniheiti (nikk) á Barnalandi og eftir það get ég auðvitað skoðað allt sem hann hefur skrifað og púslað saman við raunveruleikann. Ég geri það ekki en málið er að það er hægt.

Ég held að vandinn sé fyrst og fremst sá á Barnalandi að menn gera sér ekki grein fyrir lesendahópnum sem hugsanlega aldrei tekur til máls. Talað er um DV vokandi yfir sem er merki um að svæðið sé gott efnisöflunarsvæði fyrir þeirra skrif. Á sama tíma eru aðrir líka þar að skoða og hnýsast í þau mál sem skrifað er um. Síðan eru upplýsingarnar, skrifaðar af einlægni og hreinskilni, kannski notaðar í kolröngu samhengi sem getur sært þá sem manni þykir vænst um gríðarlega mikið.

Bréf sem engum datt í hug að væri neitt að á þeim tíma sem það var skrifað í því samhengi sem það var gert.

Ef ég leik mér með eitt dæmi. Einhver eiginmaður fer að halda við aðra konu. Hann segir viðhaldinu að konan hans sé á Barnalandi, veit nefnið hennar þar og segir frá því. Viðhaldið flettir upp á Barnalandi og veit þar með allt sem eiginkonan hefur skrifað um innstu mál sín og fjölskyldunnar á netið. Eru allir til í það?

Mikilvægast er í opinni umræðu að segja aldrei neitt sem er þess eðlis að einhver sem maður getur ímyndað sér viti að maður hefur skrifað það.

Ég hef fyrst og fremst bent á þrjú atriði:

1. Barnaland er ekki staður fyrir þá tegund umræðu sem þar er.

2. Alvarlegt er að tala um mannverur á þann hátt að það getur meitt þau og sært hafi aðrir (jafnvel illvildarmenn) upplýsingarnar.

3. Virðing gagnvart mannverunni er oft æði lítil á Barnalandi.

Föstudagur 2. september 2005 kl. 09:51

AA:

Sæl Lára,

Mig langar að forvitnast um hvort þú getir bent mér á spjallsvæði á netinu (íslenskt) fyrir fullorðna (ja eða börn) þar sem umræðan er innan löglegra marka.

Um hvað má ræða á spjallsvæðum á netinu án þess að fara út fyrir þau mörk sem þú talar svo mikið um ?

Föstudagur 2. september 2005 kl. 10:27

Ég er nú svosem ekkert sérstaklega upptekin af mörkum sem fullorðnir setja sér í umræðu á netinu. Menn verða að geta tjáð sig um það sem þeir vilja, það er staðurinn sem menn velja sér sem ég hef gert athugasemd við.

Það er til talsvert af umræðustýrðum verkefnum sem fjalla þá oftast um tiltekin viðfangsefni manna. S.s. ljósmyndun, stjórnmál eða annað. Hinsvegar þegar menn vilja fjalla um einkamál sín, þá hélt ég að slík umræða væri á einkamal.is eða hugi.is og jafnvel víðar, ég hef ekkert verið að leita að því.

Ég hef barist mjög mikið fyrir svæðum fyrir börn til að geta talað saman sem eru hentug fyrir þau. Einmitt til að kynnast og spalla við önnur börn hér á landi og um allan heim. Ég hef verið í samskiptaverkefninu Kidlink sem er slíkt verkefni þar sem er fólk sem hjálpar til og gætir þess að ekki sé gengið yfir strikið. Þetta strik er síðan á hinum ýmsustu stöðum eftir því í hvaða menningu og hvaða trúarbrögðum menn tilheyra í mismunandi löndum. Við erum með strikin á mjög líkum stöðum og hin Norðurlöndin en fjærst Bandaríkjunum og Bretlandi. Kidlink er unnið í sjálfboðavinnu og við keyrðum það hér á landi í nokkur ár en síðan urðu menn lúnir á sjálfboðavinnunni og fleiri komu ekki svo það lognaðist útaf. En það er enn fyrir hendi og hluti fólksins sem var væri áreiðanlega tilbúinn til að hjálpa öðrum af stað.
Stóri vandinn er að nánast enginn vill keyra umræður fyrir börn á netinu vegna vandamála sem hafa komið upp. Mér finnst það ömurlegt. Ég lét mig hafa þetta með íslenska krakka ár eftir ár þó þau móðguðu heilu kippurnar af Bandaríkjamönnum öðru hvoru. Hinsvegar lærðu þau fljótt hvað var þolað af öðrum og þá var mjög skemmtilegt. Þau kynntust öðrum krökkum í öðrum löndum og ég vissi af því að sum þeirra hittust síðar. Sums staðar voru þau á spjalli á s.k. Kidlink hátíð í heila nótt, keyptu pizzu og kók og þá var mikið fjör.

Föstudagur 2. september 2005 kl. 11:42

Elsa Margrét:

Þannig að þú yrðir ánægð ef barnaland héti foreldraland? Þá mættum við ræða allt sem viðkemur foreldrum og uppeldi þeirra? Og jafnvel setja montsíður af börnunum okkar? Þá hef ég verið að misskilja þig alveg frá upphafi til enda. En ég held að það væri frábært ef einhver myndi stofna vef fyrir börn þar sem þau geta spjallað.

Föstudagur 2. september 2005 kl. 13:33

Í rauninni er mér alveg sama um nafnið, það sem ég gagnrýndi (eða reyndi að minnsta kosti) að hafa þá tegund af umræðu sem er á Barnalandi á vef sem heitir Barnaland og er líka fyrir vefsíður ungra barna og börn eru sérstaklega að ferðast á. Það er t.d. ekki auðvelt að blokka veffangið úr tölvu barna ef menn vilja gera það. Ef menn ætla að vera með umræðu sem er 18+ þá á hún ekki heima á sama stað að mínu mati. Staður fyrir mér er lén (s.s. barnaland.is) og skiptir litlu hvar á léninu er en á Barnalandi er umræðan á forsíðu lénsins og því mjög aðgengileg. Annað sem ég varaði við var að tjá sig of mikið um persónuleg mál og stundum viðkvæm fyrir aðra en sjálfan sig (skiptir mig engu ef menn vilja lýsa sínum innstu pörtum sjálfir - það er þeirra mál). Þetta er einfaldlega vegna þess að ég hef þurft að takast á við afleiðingar slíkra mála sem netstjóri eða í einhverju öðru hlutverki. Fólk grunar aldrei að svona komi upp fyrr en það skellur á, oft ferlega ömurlega.
Síðan var það almennara mál í mínum huga, og reyndar dálítið áhugamál, hvernig ákveðnar netklíkur og menning innan þeirra mótast og haga sér. Hverjir stýra þeim og hverjir fylgja. Hvort, og þá hvernig þær eru eins, eða öðruvísi, en klíkur sem menn mynda utan netsins. Þar er nú hinsvegar á ferðinni bara smekksatriði um hvað er gott og vont. Það líkar ekki öllum sami félagsskapurinn.

Já ég er sammála þér um barnastað en það er mikil vinna að tryggja að slíkir staðir séu fyrir börn og þar sé ekki eitthvað að gerast sem á ekki að vera. Alveg eins og á skólalóðum, í skólastofum og á leikvöllum. En við í Kidlink erum búin að þróa ákveðnar aðferðir sem gerir okkur kleift að gera þetta ef nægur mannskapur fæst. Hinsvegar er þetta mikið fyrir fáa sjálfboðaliða.

Föstudagur 2. september 2005 kl. 14:19

Sigurlaug:

Stundum heyrir maður lag eða les pistil, blogg eða annað og hreinlega óskar að sjálfur hafi maður komið þar að. “Margir vildu Lilju kveðið hafa” tilfinning. Þegar ég hnaut um þessa pistla þína, Lára, um barnaland.is, og það sem viðgengst þar þá fékk ég þá tilfinningu. Takk kærlega fyrir það Lára. Það hvernig samfélag barnaland.is sannast kannski einna best á þeim tilsvörum sem þú hefur fengið hér á þína síðu síðustu daga. Alveg hreint stórmerkilegt-eða öllu heldur stórómerkilegt. Það sem er eiginlega ömurlegast við allan þann hroða sem veður uppi á barnalandi er ekki einungis að hann er í skjóli nafnleyndar, heldur öðrum þræði sú staðreynd að notendur þar hampa málfrelsi mikið en virðast hreint ekki skilja hvað í því fellst. Telja hreinlega að málfrelsi sé frelsi til að láta hvað sem er flakka (í skjóli nafnleyndar) og segjast svo bara bera ábyrgð á sér sjálfum. Sá þráður hefur lítillega verin tekin upp hérna, á lara.is, væntanlega af barnalandsnotendum. Fyrr má nú vera ábyrgðin ef að hún nær ekki nema til sjálfsins. Þýðir það þá að ég má berja einhvern af því hann var of vitlaus til að flýja mig áður en ég reiddi höggs? Það virðast barnalandsnotendur halda.

Annars reit ég þetta einungis til að þakka þér fyrir, kannski ekki síst innblásturinn. Auðvitað á maður ekki að standa aðgerðarlaus hjá þegar annar eins óbjóður á sér stað á léninu þar sem fjallað er um allt sem viðkemur barninu.

Föstudagur 2. september 2005 kl. 23:20

Jæja, maður var nú bara hættur að sofa eða borða yfir þessum ósköpum sem eru búnir að ganga á þarna í tölvuheiminum a la barnaland.is / Hörpu blogg + Láru blogg. Ég stóð nú eiginlega með Láru í því sem hún var að gera en er nú eiginlega ekki alveg viss núna. Ég var á móti því að það sé verið að klæmast og slíkt á barnalandi.is af því að það vísar í börn, en núna virðist sem hún sé bara á móti þessu netsambandi eins og hún kallar það af einhverju allt öðru en ég hélt. Hún talar um net gengi, sem hefur vissulega verið á barnalandi.is, stundum má fólk bara einfaldlega ekki opna munninn án þess að þetta gengi sé komið með þvílíkar árásir og blammeringar á einstaklinga að viðkvæmt fólk fer grátandi af þessum vef. En að lísa barnalandi.is við það al ógeðslegasta klám sem hún hefur séð, þar finnst mér hún nú fara offörum. Það eru engar niðurlægjandi myndir þarna, og svo er hún á móti því að mæður séu að spyrja um t.d. hvernig eigi að þvo ungabörnum að neðan, ég get nú ekki séð neitt athugavert við að spyrja að svona, henni finnst allt í lagi að spyrja að svona á doktor.is en ekki barnaland.is, ég get nú ekki séð muninn.
Ég tók þetta nú bara af blogginu mínu, mér fannst ég hafa skilið hvað þú varst að fara fyrst þegar þú byrjaðir á þessu, en nú er ég eiginlega ekki viss.
Þú segir t.d. að þér sé nokkuð sama um nafnið en samt viltu ekki hafa þessa umræðu á vef sem tengdur er börnum ?? Veit um krakka sem hafa farið á vef sem heitir BETRA NET, og það er stórhættulegu staður enda skrifaði ég þeim sem sjá um þennan vef og varaði við honum. Fékk svo sem engin viðbrögð þar.
Svo finnst mér svolt. skrýtið að þú sért að kæra barnaland.is, af því að þú segir að þetta sé þitt áhugamál, hvernig svona net gengi þróast. Ef þetta er aðeins áhugamál, því þá að kæra það. En ég veit að það eru sumir þarna sem eru í því að ráðast á næsta einstakling í einhvers konar einelti, en sem betur fer er það mjög fámennur hópur. Ég sé engan humor í því að vera sem orðljótastur, frekastur og þar fram eftir götunum, en kannski eru þeir hinir sömu að reyna að breiða yfir einhver konar minnimáttakennd, sem kemur stundum svona út. Og af hverju finnst þér skrýtið að konur séu að tala um eitthvað annað en börnin, mæður eða foreldrar eru jú líka manneskjur, svo eru ekki allir foreldrar sem koma þarna inn. Og að velta því fyrir sér hvernig börnin verða, þá mætti nú taka ansi margt annað inní, t.d. þætti mér verra ef foreldrar væru í drykkju, dóp neyslu og bara mörgu öðru hættulegru heldur en að droppa inn á barnaland.is.

Laugardagur 3. september 2005 kl. 10:54

Mér finnst flott hjá þér að taka þessa umræðu, Lára. Sjálfur varð ég ofandottinn þegar ég las alla hörkuna í ummælum aðskiljanlegustu síðugesta vegna upphafsins hjá þér. Skil algerlega tilfinningar þínar í þessu máli. Keep up the good work. Össur.

Laugardagur 3. september 2005 kl. 12:14

Guðjón Egill:

Góðan Dag Lára.

Ég hef fylgst með ,,,, Stóra Barnaldsmálinu ""
í nokkurn tíma, eða frá byrjun þess.

Ég hef ekki verið með á hreinu afstöðu mína því þetta mál hefur fleiri en tvær hliðar.

Þð er þó eitt sem stendur upp úr sem truflar mig ansi mikið, og kannski mest núna eftir að Össur félagi tjáði sig um skrif þín Lára, hér í Commennt dálknum.

Það er sá hluti sem snýr að Samfylkingunni og störfum þínum fyrir flokkinn okkar, og það að Össur foringi, sem er þó reyndar ekki æðstur meðal stjórnenda lengur, en samt fráfarandi Formaður skuli leggja ti málsins með skrifum hér.

Það eiginlega undirstrikar tengingu Samfylkingarinnar við þetta mál.

Og það er verr.

Það er engan vegin viðunnandi.

Þú hefðir mátt gera þetta upp á eigin spýtur án allra tenginga við Flokkinn okkar, og hefðir kannski aðeins getað leitt hugann að því áður en þetta ferli hófst þar sem blyðgunarkennd þinni var greinilega misboðið, hvort hugsast gæti að þú legðir ekki eingöngu mannorð þitt og möguleika í kosningum og að veði heldur einnig Samfylkingarinnar í heild !!

Þetta er verðugt málefni, fyrir þá sem áhuga hafa á því og eru þér sammála. Margt rétt og réttlætanlegt kemur fram í skrifum þinum um málið, en engu að síður er þetta mál sem ekki vinnst, og mun enginn áhrif hafa á hvorki skrifin á Barnalandi né stöðu vefsins á Íslandi.

Mundi það breyta einhverju
ef nafninu yrði breytt í Foreldraland ?

Hefur þessi barátta þín eitthvað markmið ?

Er eitthvað sem þú telur þig getað náð fram
með Kærunni þinni ?

Endilega útskýrðu um hvað málatilbúningur þinn snýst, hver er ávinningurinn ?

Þá skiljum við sem er pressað á með svör við þessum spurningum, betur hverju við eigum að svara til og af hverju Samfylkinginn er tvinnuð í þetta mál.

Þá getum við REYNT að fá fylgið til okkar aftur, sem þú hefur nú lagt að veði í þessari baráttu þinni.

Endilega sýndu okkur fram á hvernig þetta Barnalands mál stangast á við rétt til málfrelsis,
og segðu okkur frá því hvort þú hafir ákært vegna annara svona spjallsvæða þar sem umræðan er heill hryllingur eins og á Málefnin.com þar sem þingmönnum og öðrum borgurum þessa lands er úthúðað daginn út og inn.

Þar fer þessi umræða fram meðal annars sem þú vitnar í vegna Barnalandsmálsins.

Ég hef undanfarna 3 sólarhringa lesið þúsundir pósta á Barnalandi, og hef séð sumt af því sem þú talar um. Ég hef séð sannanir um einelti og um andlegt ofbeldi, ég hef skoðað þessa umræðu sem þú visar til þar sem mæður skiptast á reynslu um hvernig best sé að þrífa forhúðina á tippinu á sonum þeirra svo þær skaði ekki getnaðarlim þeirra með vitlausum aðferðum.

Ég hef skoðað flest það sem þú tekur til sem skaðsamt og óviðeigandi.

Mín niðurstaða er að Fyrir utan þessi örfáu dæmi um einelti og andlegt ofbeldi, þar sem mjög fámennur hópur, sem eru alltaf sömu ,,,, Nikkinn "" ráðast að fólki sem er þeim ósammála og láta ýmis mjög ljót orð falla þar af leiðandi.

Þetta ástand má lagfæra með því einu að tilkynna þessi Nikk, sem um ræðir og fara fram á að eigendur þeirra og IP-tölur séu bannfærðar á vefnum til frambúðar.

Það að konur tali um kynlífsreynslur sín á milli, og ýmislegt annað tal sem ekki hæfir bönrum, er alls ekki óeðlilegt að ég get ekki séð hvernig það brýtur lög, og sé tilefni til ákæru þinnar.

Til þess að einstaklingur geti haft heimasíðusvæði á Barnalandi þarf viðkomandi að greiða fyrir áskrift, með korti og það geta börn ekki gert fyrr en þau hafa náð 18 ára aldri, og eru þau þá ekki börn lengur.

Til þess að geta haft Notendanafn eða Nikk, þarf að skrá inn netfang sitt og persónulegar upplýsingar upp að ákveðnu marki, mjög ólíklegt er að börn séu með netföng fyrr en þau hafi náð ca.11-15 ára aldri, fer eftir því hvar á landi þau búa og hvort hefð sé fyrir internet notkun og netfanga notkun í þeirra umhverfi.

Fyrir utan þetta allt saman tel ég afar ólíklegt að börn undir 12 ára aldri séu virkir lesendur og notendur á Barnalandi, og 12 ára er einmitt aldurinn sem Íslenska Ríkið telur að sé nægilegur til áhorfs á svokallað brjóstamyndir, sem sagt kvikmyndir með nekt og litlu erótísku innihaldi, s.s. með gulum miða bannað innan 12 ára, þar af leiðandi er 12 ára aldurinn, Ríkisaldurinn til fræðslu um kynferismál, eða öllu heldur kynlífsfræðslu.

Í ljósi þessa get ég ekki séð hver tilgangur þinn er með ákærunni þinni.

Það er ekkert klám að finna á vefnum Barnaland.is, ekki í þeim skilningi sem venjulegt fólk leggur í orðið klám, þar er vissulega tal um kynlíf, erótískar sögur af eigin reynslu einhverra aðila, engar myndir af nöktu fólki er þar að finna, engar kvkmyndir eða teiknimyndir af nöktu fólki eða kynífsathöfnum.

Ég vona að þú jafnir þig á þessu Barnalandsmáli og leyfir fólkinu, s.s. kjósendum að ráða sér sjálft og að það fái sálft að taka ákvarðanir um hvar það eyðir sínum frítíma, hvað það segir, skrifar og les.

Mér finnst þetta vera röng nálgun á þessu máli, og er því allskostar ósammála að þú sem Varaþingmaður Samfylkingar skulir hafa riðið á vaðið.

Þú sagðir að þegar fólk fór að gagnrýna þig fyrir skrif þín, hafi verið eins og sú staðreynda að menntun þín og reynsla skipti engu lengur, og nú liti fólk bara á þig sem varaþingmann Samfylkingar.

Það er nú einmitt málið, og ég skil ekki að þú hafir ekki getað séð það fyrirfram, hefur þú einhverntímann séð að einhverju máli skipti hvort Davíð Oddsson sé lögfræðingur eða ekki þegar verið er að gagnrýna hann opinberlega ?

Pólitík er Pólitík, og verður alltaf.

Það skiptir litlu máli hvað þú hefur lært, kjósendur horfa ávallt á athafnir þínar en ekki menntun.

Þú þarft ekki að vera með neina sérstaka menntun til að komast inn á þing, það geta allir orðið þingmenn, en ekki allir geta orðið pólitíkusar.

Með bestu kveðju Guðjón Egill Guðjónsson félagi í Samfylkingunni og Ungum Jafnaðarmönnum.

Laugardagur 3. september 2005 kl. 15:41

thorby:

Sammála þér Guðjón, skrýtið að setja svona frekar ómerkilegt einkamál á heimasíðu Samfylkingunnar.
Þar er einnig tenging.

Laugardagur 3. september 2005 kl. 16:05

Hrefna:

Egill þarna komstu nefnilega með málið, ég hef alltaf stutt samfylkinguna, búin að vinna töluvert fyrir flokkinn, safna fólki fyrir kosningar oflr. En ég sé það ekki fyir rmér gerast aftur, nú ert þú að legga flokkinn minn við e-h sem ég get bara ekki stutt! Upp að vissu marki er ég sammála þér, en þú ert að fara svo offörum í þessu máli að það er hlægilegt!

Þú hefðir aðeins átt að hugsa um fleira en þig sjálfa þegar þú fórst af stað, gera það þá undir þínu eigin nafni , ekki flokksins, þá hefði fólk getað kosið þig bara út í næsta prófkjöri og málið dautt.

Vil endilega taka það fram að málið er ekki einusinni það að ég sé sérstakur stuðningsmaður barnalands.is, þar hef ég jú síður fyrir börnin mín, en stunda lítið umræðuna vegna tímaskorts. Eins hefði ég stutt þig ef þú hefðir ekki gert þetta svona rosalega ýkt! Mér dettur ekkert annað í hug en að þú sért eins og 3 ára barn í sandkassa sem reynir að skemma sem mest fyrir öðrum á sem stysstum tíma...

Vegni þér vel Lára, og öðrum meðlimum Samfylkingar, það er nokkuð ljóst að ekki fáið þið mitt atkvæði í næstu kosningum, og mörg önnur atkvæði eru eins fokin til annarra flokka, þökk sé þér.

Laugardagur 3. september 2005 kl. 17:07

Eiginlega hafði ég ekki hugsað mér að leggja hér orð í belg, sýndist umræðan við þessa færslu vera nokkuð málefnaleg þangað til nýverið. Einhver Guðjón Egill virðist samt halda að það sé eitthvert mál að eignast netfang og jafnvel aldurstakmörk á slíku. Honum til upplýsingar má benda á hotmail-netföng sem hver sem er getur stofnað án tillits til aldurs og krakkar sem geta klórað sig fram úr amrískum tölvuleikjum frá 7 - 8 ára aldri leika sér að því að stofna netfang.

Ég sé núna að þú ert í svipaðri stöðu og ég að því leyti að flokksstarf virðist einnig eiga að gera fólk að skoðanalausum gauðum, alveg eins og kennarastarfið, að mati sumra.


Umræðan á barnalandi hefur verið ótrúlega siðsamleg undanfarna daga svo einhver áhrif hefur verk þitt haft. Þangað til í dag þegar einhver "var ekki ég heldur vinkona mín" (sem þýðir blásaklaus barnalandskona, eins og þær eru margar) setti inn ósmekklega könnun um þig, puntaða með arargrúa stafsetningarvilla og lýsandi sérlega ógeðfelldum hugsunarhætti.


Megnið af umræðunni á barnalandi (sem ég hef samviskusamlega kíkt á daglega) virðist vera ósköp venjuleg umræða venjulegs fólks. En undir liðnum Annað er stundum þvílíkt ógeð að mér fallast hendur. Ef einhver líkir því við erótískar myndir er sá hinn sami ekki vel verseraður í erótískum myndum, virðist kannski frekar alinn upp við hardcore? Að geyma myndir og upplýsingar um ungabörn við hliðina á svona umræðu finnst mér svona álíka og að parkera barnavagni við hliðina á mykjuhaug: Gerir krakkanum sjálfsagt ekkert til en þætti svona heldur óðgeðfellt, held ég.


Það sem mér finnst skrítnast í þessu máli er að Mogginn, sem vill nú láta telja sig með skárri miðlum, a.m.k. ekki á plani með sorpblöðunum, skuli reka svona vef án ritstjórnar. Það þyrfti að vera vakandi umsjónarmaður yfir þessari umræðu til að henda sóðakjöftunum út og leyfa þeim sem vefurinn er gerður fyrir að njóta sín í umræðunni.


Þetta mál snertir mig samt blessunarlega lítið sjálfa því ég á ekki ung börn og hef auk þess nokkurt eftirlit með því sem mínir unglingar hafa verið að bardúsa á netinu. Svo er ég náttúrlega pólitískt viðrini þannig að ég þarf ekki að taka tillit til neinna sjónarmiða í því sambandi. Barnaland snertir mig þó að því leytinu að ég hef nýsloppið út úr ærumeiðingum og rógi sem blómstraði þar meðal fávísra kvenna, alveg þangað til fyrrum nemendur mínir tóku í taumana (og ég kann þeim bestu þakkir fyrir það). Umræðan sem hófst af einu bréfi, sendu í hálfgerðu bríaríi af kornungum nemanda, sýndi svo ekki varð um villst illkvittnina og slefandi slúðrið sem þarna á sér leikvöll, ég held að þetta hafi bara verið örfáar manneskjur og sjálfsagt er þeim vorkunn en ég hefði ekki viljað lenda í slúðurkvörninni þeirra hafandi ekkert bakland og vera jafnvel nýbökuð móðir.

Laugardagur 3. september 2005 kl. 19:35

Nokkrar staðreyndir:

Ég hef ekki sett þetta mál á neina síðu Samfylkingarinnar. Samfylkingin tekur s.k. RSS af minni síðu og það getur hver sem er gert við blogg og vefsíður sem hafa það opið eins og ég.

Ég hef ekki kært þetta mál. Ég hef sent skoðun mína til nokkurra stofnana, félaga og fyrirtækja. Meira geri ég ekki.

Ég hef bent á að mér finnst efni af því tagi sem ég sá á barnaland.is ekki viðeigandi þar. Ég hef ekki glóru um hvort það efni sem mér fannst ganga of langt á barnavettvangi er enn þar inni eða hvort það hefur verið tekið út.

Það má vel vera að mörgum finnist það viðeigandi að tala um náin persónuleg mál annarra en sinna eigin fyrir allra augum. Það er hinsvegar ekki heimilt samkvæmt lögum um persónuvernd.

Ég er frekar lítið pempíuleg en það skiptir mig máli hvað er talað um innan um börn. Ég gef lítið fyrir hugmyndir manna um að börn séu ekki þarna inni, þeir vita betur.

Sumt sem er verið að taka upp hér í síðari bréfum er efni sem ég hef svarað margoft.

Framkoma margra sem berja sér á brjóst í nafni málfrelsis fær undarlegan hljóm í mínum eyrum þegar mitt málfrelsi er annars vegar.

Eftir stendur sú óbreytta skoðun mín að á Barnalandi tíðkast umræða sem á ekki við á vefsvæði barna. Ég held að mér heimilist fullkomlega að hafa þá skoðun. Ég er búin að koma henni á framfæri og meira hef ég ekki um það að segja.

Svo ákveður hver fyrir sig hvort hann vilji hafa börnin sín viðstödd þegar rætt er saman eins og gert er á barnalandi. Með því að vekja máls á þessu er vonandi að foreldrar hafi vakandi augu með börnum sínum þar inni og taki því ekki sem sjálfsögðum hlut að það sé svæði sem henti börnum.

Laugardagur 3. september 2005 kl. 19:55

thorby:

Gaman þætti mér að sjá allt þetta klám sem er að finna á barnalandi.is, hef nefnilega ekki rekist á það enn þá, hvað þá klámmyndir. Svo held ég að þetta hafi nú aðallega byrjað eftir að Harpa fór að rakka niður barnalandsfólk á andstyggilegan hátt, ef þú hefðir lesið aðeins betur svörin sem nemandi þinn fékk, þá voru þau flest jákvæð í þinn garð. Það hefur kannski verið 1 eða 2 með einhvern stæting og úr því gerir þú alveg heilmikið mál, sem er nú komið í þennan farveg að það er jafnvel að finna á heimasíðu Samfylk. og heimasíðu Össurar Sk.
Mig langar til að benda þér á síðu sem heitir betra.net, en ef þú nennir ekki að skoða hana, þá set ég hér eitt dæmi af vef sem á að vera eingöngu ætlaður börnum.

Ég er 15 kk með webcam og langar að horfa á stelpur í webcam putta sig og nudda sig allar. ég mun líka gera það sem þið viljið. addiði mér eða setjiði msnið ykkar hér og ég adda ykkur...

þetta skrifar 15 ára drengur, en gæti allt eins verið sextugur karl, þarna er að finna aragrúa af svona efni, og þetta er vefur ætlaður börnum.
Svo langar mig að benda á að ég fann þessa síðu sem Lára talar um þar sem ungar mæður eru að spyrja hvernig eigi að þvo börnunum sínum ( að þrífa forhúðina á tippinu á sonum þeirra svo þær skaði ekki getnaðarlim þeirra með vitlausum aðferðum. ), Þetta er ekki undir liðnum annað, heldur undir liðnum börn, annars ættuð þið að kíkja á Málefnin.com og fleiri staði, það er alls staðar hlegið að þessari vitleysu í ykkur. Þótt ég sé á barnalandi.is annað slagið er ég ekki með börn á mínu framfæri, ég er öryrki og er mikið ein heima alla daga, og þá er nú fokið í flest skjól ef ég má ekki ráða því sjálf á hvaða síður ég fer á netinu.

Laugardagur 3. september 2005 kl. 20:13

Takk fyrir eina staðfestingu á því að virkir notendur spjallþráðarins Annað á barnalandi.is séu alls ekki foreldrar.

Laugardagur 3. september 2005 kl. 20:42

thorby:

Ég er vissulega foreldri en sonur minn er orðinn fullvaxta og býr í Danmörku, vegna veikinda minna gat ég ekki alið dóttir mína upp sem skildi, og er hún því í fóstri.
Annars veit ég ekki hvort þú ert að hæðast að mér, þ.e. að ef ég væri ekki foreldri mætti ég ekki vera á barnalandi.is, það er þó nokkuð að konum þar og mönnum, sem eru ekki foreldrar, og eru þau þá yfirleitt í hópnum ANNAÐ, en auðvitað eru foreldrar þar líka.
Annars get ég huggað þig við að það er búið að taka þessa andstyggilegu könnun sem þú talar um út, og held ég að fáir hafi nú nennt að taka þátt í því rugli.

Laugardagur 3. september 2005 kl. 20:57

Rúnar S:

Það kemur nú greiniliega í ljós í skrifum hennar Hörpu hér að ofan hvað hún þekkir vel til reksturs vefsvæðis Barnalands - en MBL kemur alls ekki að rekstri Barnalands með neinum hætti. Hér veit ég að ég fer með rétt mál þar sem starfsmaður hjá Barnalandi er góður vinur minn til margra ára. Varðandi könnunina sem sett var inn varðandi Láru get ég ekki betur séð en að hún hafi verið tekin úr birtingu og fáránlegt að halda því fram að vefurinn sé rekinn án ritstjórnar. Ég held að fólk ætti aðeins að fara varlega með staðreyndir sem það veit ekkert um og kynna sér málin til hlítar. Annars eruð þið á sama plani og þær sem þið viljið kalla "gróukellingar" á Barnalandi.

Sunnudagur 4. september 2005 kl. 08:56

Af hverju stendur þá "mbl.is - barnaland" í haus síðunnar? Og af hverju er krækt í alla efnisflokka moggans í undirhaus, Barnalandkrækjan þar með sömu stöðu og Viðskipti, Íþróttir o.s.fr. Mig minnir að mogginn hafi einmitt keypt barnaland fyrir nokkru, hugsanlega einu til tveimur árum.

Sunnudagur 4. september 2005 kl. 09:54

Valgerður:

Sæl Harpa, Nei þetta er alveg rétt hjá Rúnari það er eitthvað samstarf þarna á milli en vefurinn er ekki rekinn á neinn hátt af mogganum og barnaland var aldrei selt. Veit bara að hjónin sem settu upp barnaland fyrir mörgum árum í kjölfar veikinda sonar þeirra eigi vefinn ennþá. Það breytir nú kannski engu.

Sunnudagur 4. september 2005 kl. 10:16

Freyja:

Hvers vegna skaðar þetta mál samfylkinguna? Má samfylkingarfólk ekki hafa eigin skoðanir og beita sér í málum eins og það vill? Ef svo er þá er þetta svo sannarlega ástæða fyrir mig til að kjósa ekki þann flokk.

Ég er ekkert endilega sammála öllu sem Lára segir um umræðurnar á Barnalandi hins vegar finnst mér brýnt að það fari fram umræða um það hvað sé í lagi og ekki í lagi að skrifa í skjóli nafnleyndar. Umræðurnar á Barnalandi eru alls ekki eina dæmið þar sem sumir virðast líta svo á að það sé í lagi að skrifa hvað sem er um hvern sem er ef það er nafnlaust.

Mér finnst það til dæmis ekki í lagi að segja við aðra manneskju "fituklessan þín", verður ekki betra þegar sá/sú sem verður fyrir því veit ekki hver er að segja þetta við hann/hana (þetta er frekar saklaust dæmi af barnalandi).

Lára hefur vakið athygli á þessu máli og hafið umræðu um það. Hún hefur hins vegar ekki bannað neinum neitt né kært nokkurn einasta mann þannig að ég skil ekki almennilega af hverju fólk er svona æst. Gildir málfrelsi ekki ef fólk skrifar undir nafni?

Sunnudagur 4. september 2005 kl. 10:17

Mér virðist stundum að það sé alveg sama hvað ég segi menn leggja mér annað í munn. Kannski spurning að endurtaka það enn einu sinni:

1. Hluti umræðu á Barnalandi er að mínu mati ekki í lagi á vefsíðum sem eru um og fyrir börn sem komið er í ljós að sækja þessar síður, þ.á.m. umræðusvæðin.

2. Menn geta að mínu mati lýst sínum innstu málum á Internetinu en ekki barna sinna, maka eða annarra rekkjunauta. Lög um persónuvernd eiga að vernda þennan rétt manna um að aðrir tjái ekki þeirra einkamál á Internetinu.

3. Allir hafa tjáningarfrelsi, hinsvegar er ekki sama hvar þeir tjá sig og um hvað. Á þessu er skoðanamunur og menn hafa rétt á honum.

4. Dulnefni eru tiltölulega óöruggt skjól en leiða oft til hömluleysis sem getur bitnað á þeim sem skrifar, aðstandendum þeirra og öðrum. Þau dæmi þekki ég mörg en þeir sem eru á Barnalandi ekki vara sig á þessu. Þó þeim þyki ég leiðindakerling í þessu máli vona ég að það verði til þess að þau hugsi málið og muni að það sem er á Internetinu getur lent hjá þeirra versta óvin.

5. Á Barnalandi er margt mjög gott, sérstaklega efni sem tengist efni vefsins á léninu barnaland.is

6. Ég geri mér enga grein fyrir hvort fólk á barnalandi er gott eða vont fólk. Ekkert frekar en fólk sem ég hitti annars staðar. Síðan er alveg klárt að fólk á sér góðar og vondar hliðar. Ég býst við að það sama eigi við um þá sem eru á Barnalandi.

7. Ég hef lítið lesið af Barnalandi undanfarið heldur aðeins prófað leit til að sjá hvernig er hægt að kortleggja ákveðna einstaklinga og ákveðin umræðuefni.

8. Ég sé þetta mál hverngi á vefsíðu Össurar Skarphéðinssonar.

9. Samfylkingin hefur ekki, mér vitanlega, sett fram stefnu sem tengist umræðu á Internetinu. Ég er viss um að þar eru hreint ekki allir sammála mér. Ég held að verði eitthvað slíkt rætt þar þá komi fram ólík sjónarmið og niðurstaða fæst. Það hefur ekki verið vandamál hingað til.

Ég er mjög ánægð með viðbrögðin, miklu fleiri ræða af alvöru um tjáningu á Internetinu, hvar hentar að tjá sig og um hvað. Ég vil þakka ykkur öllum sem hafið skrifað um málið fyrir að taka tíma í að lýsa ykkar skoðunum. Hér á ég bæði við þá sem eru hjartanlega sammála mér og ekki síður þá sem eru algerlega ósammála. Ég hef ekki tekið út eitt einasta innlegg um þetta mál sama hvaða skoðun ég hef á því. Þannig getur hver sem vill myndað sér sína eigin skoðun með því að lesa innleggin án þess að ég hafi á nokkurn hátt reynt að beina þeirri skoðanamyndun inn á braut sem mér hentar. Þeir sem skrifa undir nafni taka ábyrgð á skoðunum sínum hinir ekki. Ég er hinsvegar ekki að lofa að taka aldrei út komment því ég hef þvegið út endalaust magn af pókerauglýsingum og megrunarefnakynningum af þessum síðum mínum og fleira drasli. Hinsvegar má hverjum vera ljóst að ef ég væri eins viðkvæm og sumir telja þá væri ég búin að kippa ýmsu út. Mínar síður eru hinsvegar ekki yfirlýstar barnasíður og á ábyrgð lesandans hverju sinni hvort hann vill lesa síðurnar.

Sunnudagur 4. september 2005 kl. 10:56

Elsa Margrét:

Ég er samfylkingamanneskja og finnst allt í lagi að þú hafir aðra skoðun en ég. Ég elska bara að rökræða og reyna að skilja sjónarmið annarra einstaklinga. Mér myndi ekki detta í hug að kjósa ekki samfylkinguna því að einhver í flokknum hugsar sjálfstætt. Sjálf hef ég dregið mig úr flokkstarfinu, sérstaklega þar sem ég er ósammála mörgu sem kemur frá ungliðunum, og sé mér ekki samleið með þeim. Þó ég geti ekki verið sammála þér að öllu leiti, og skil ekki þessa krossferð gegn barnalandi, þá finnst mér þú samt hetja að standa í þessu. Veraldarvefurinn er orðinn of flókinn, stór og eftirlitslaus staður, og þarf að grípa í taumana áður en of seint reynist.
Ég skal lofa að fara að þegja núna og hætta að trufla þitt líf.

Sunnudagur 4. september 2005 kl. 23:08

Bah, þú ert ekkert að trufla mig meira en ég læt trufla mig;)
Ég er ekki í neinni krossferð gegn Barnalandi þó því sem ég segi sé tekið þannig. Það er auðvitað hundleiðinlegt að sitja uppi með reynslu af því hvað getur gerst sem afleiðing af því sem er verið að gera þar og vera enn vitlausari að benda á það. Auðvitað er miklu þægilegra líf að þegja bara og vera sætur. Bæði er að ég á ekki auðvelt með að þegja vanda í kaf og svo er ég ekkert sæt;-)

Sunnudagur 4. september 2005 kl. 23:26

1. Það er ekki þægilegt líf að þegja bara þegar manni misbýður eitthvað eða telur sig hafa eitthvað til málanna að leggja. Verra að naga sig í handarbökin yfir því að hafa ekki látið í sér heyra.
2. Þú ert víst sæt:) - pínu.

Mánudagur 5. september 2005 kl. 20:15

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.