« Veðurteppt:-( | Aðalsíða | Kvennahreyfing »

Fimmtudagur 15. september 2005

Fann Emilíu!!!

Emilia.jpgÞessi morgunn er búinn að vera mikill tilfinningamorgunn. Kátur horfði á mig frekar leiður þegar ég var að fara í vinnuna því ég hafði ekki farið út með hann í morgun heldur dottið í að lesa bók og klukkan varð hálf átta áður en ég uggði að mér. Svo ég ákvað í stað þess að mæta klukkan átta að mæta eilítið síðar og leika svolítið við hann í garðinum.

Þá heyrði ég fjarlægt ámátlegt málm.


Hjartað tók dulítinn kipp, ég viðurkenni það en ég var ekki viss um hvort ég hefði heyrt rétt. Vinnuvélarnar í Baldurshaganum rumdu og stundu og erfitt var að heyra inn á milli hvort þetta væri mjálm, ímyndun í mér eða eitthvað allt annað. Ég stóð grafkyrr, þorði varla að anda og heyrði aftur fjarlægt ámátlegt mjálm. Hjartað tók kipp.

Ég náði í hundaólina og fór af stað með Kát, hélt kannski að hann gæti gefið mér merki um að Emilía væri einhversstaðar í nágrenninu. Ég gekk norður Brekkugötuna og fyrir hornið og inn götuna fyrir ofan. Þar gekk ég í pilsinu mínu með stóran svartan hund í bandi og kallaði"kis kis" alveg eins og bjáni.

Þar kom ég að bílskúr sem liggur að lóðinni okkar og gekk að honum áfram kallandi "kis kis" og viti menn mér var svarað með mjálmi. Ég hafði farið og fengið nágrannana til að opna skúrinn fyrir rúmri viku en ekki orðið vör við köttinn. Það eru tveir eigendur að skúrnum og sem betur fer var Jónas vinur okkar í húsinu fyrri ofan heima og opnaði fyrir mig sinn helming. Þar var enginn köttur en áfram heyrðist mjálmað. Sem betur fer var skúrinn við hliðina á opinn og við fórum inn og áfram hélt mjálmið. Þar inni var tjaldvagn og við Jónas fórum að leita og leita, losuðum um seglið á tjaldvagninum og viti menn upp spratt Emilía bara bísperrt. Ég greip hana upp, þrýsti henni að mér og fór bara að gráta. Þar sem ég stóð þarna háskælandi með tárin lekandi niður kinnarnar (enn með hundinn í bandi) sjúgandi upp í nefið (ég er með örlítið kattarofnæmi sem hjálpaði ekki til) báru tilfinningarnar mig hreint ofurliði. Jónasi blessuðum leist örugglega ekki á granna sinn hágrátandi í bílskúr með kött í fanginu og hund í bandi. En hann reyndist mér virkilega vel.

Ég fór til Kristínar grannkonu því Emilía er mikil vinkona hennar til að láta hana vita og biðja hana að líta eftir kettinum því ég þurfti auðvitað í vinnuna. Þarna vorum við vinkonurnar virkilega hrærðar á meðan Emilía gekk um og heimtaði mat.

Þvílíkur morgunn, svo sest maður bara eins og venjulega við tölvuna, hlýtt um hjartaræturnar því Emilía er fundin og reynir að snúa sér að amstri hversdagsins.

kl. |Tilveran

Álit (10)

Já það var ferlega gott;-)

Fimmtudagur 15. september 2005 kl. 10:58

Til lukku með endurheimtu kisuna, Lára mín!

Fimmtudagur 15. september 2005 kl. 11:06

Síst datt mér í hug að kötturinn byggi um sig í tjaldvagni hjá nágrönnunum... ótrúlegt að hún var svona nálægt allan tímann.

Fimmtudagur 15. september 2005 kl. 11:36

oohh, gott að heyra svona happy end sögur af og til. Get alveg ímyndað mér ef hún Loppa mín væri týnd...

Fimmtudagur 15. september 2005 kl. 12:44

Úff það er hræðilegt að vita ekkert um kisuna sína.

Fimmtudagur 15. september 2005 kl. 13:30

Eygló:

Lára mín ...ég skil þig svo vel...
Hún dóttir mín kom einu sinni með köttinn sinn í heimsókn þegar þau bjuggu á Hvammstanga. Svo einn morguninn misstum við köttinn út og sennilega hefur bíll keyrt utan í hann eða eitthvað...allavega kom hann heim stórslasaður í andlitinu...og hver skældi mest á leiðinni upp eftir til dýralæknisins og þegar ó ljós kom að það þurfti að lóga kettinum???Auðvitað „amman“..þvílík sorg yfir kettinum!!!!

Fimmtudagur 15. september 2005 kl. 15:48

Innilega til hamingju með að hafa fundið kisu heila og hrausta! Skil þig svo vel. Ég grét þegar kisan mín týndist og fannst svo dáin. Hugsa ennþá stundum til hennar þó að tvö ár séu liðin. Manni þykir vænt um þessi litlu líf.

Fimmtudagur 15. september 2005 kl. 16:18

Hún er óttalega horuð greyið og svolítið vesældarleg en alveg magnað hvernig hún er samt sem áður. Nú veit ég hinsvegar ekki hvernig hún hefur leikið bílskúrinn og tjaldvagninn svo það verður næsta mál að skoða. Fór heim áðan bara til að gá hvort hún væri ekki þarna örugglega og gaf henni eilítið meiri mat, vildi ekki gefa henni mikið í morgun fyrst hún hefur ekki fengið mat í viku. Tja nema hún hafi fundið eitthvað ætt í bílskúrnum...

Fimmtudagur 15. september 2005 kl. 16:40

Valgerður:

Ég er aðeins eftir á með að segja "fjúkkitt að hún fannst" þar sem ég er búin að vera að ráðstefnast og ekki kveikt á tölvugreyjinu síðan á fimmtudag, en mikið er ég glöð ykkar vegna að hún fannst.

Mánudagur 19. september 2005 kl. 17:32

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.