« Gagnvirk samskipti við nemendur í kennslustund | Aðalsíða | Pygmalion áhrifin »

Þriðjudagur 6. apríl 2004

Er upplýsingatækni börnum hættuleg?

Mér finnst það í meiralagi undarleg þróun þegar kennarar og skólar eru að leggja áherslu á að berjast gegn notkun nemenda á upplýsingatækni og telja að það stuðli að einhverju sem þeir skilgreina sem "betra". Sverrir Páll Erlendsson kennari við Menntaskólann á Akureyri benti einmitt á þetta í ágætum pistli í vefdagbókinni sinni.


Hvers vegna lýkur menntunarlegu uppeldi nemenda við lyklaborðið eða við takka á síma? Hvers vegna þurfa nemendur að læra og lifa í fortíðarsamfélagi þegar þau eru í skólanum. Er það líklegt til árangurs fyrir þau sem þurfa síðan að lifa og starfa að minnsta kosti í nútímanum og ekki ólíklegt líka í dálítið langri framtíð?

Ég er ekkert að segja að þetta sé auðvelt en þegar nemendur brjóta af sér þá er hægt að fást við þau agabrot og þau brot eiga sér stað hvort sem kennarar og skólar fallast á að þau eigi sér stað innan skólans. Hefur upplýsingatæknin ekkert gildi í menntunarlegu uppeldi ungdómsins í dag?

kl. |Menntun / UT

Álit (6)


Svo ég svari síðustu spurningunni (og hoppa af fögnuði yfir að þessu myndabloggi sé hætt ... skildi hvorki haus og sporð á tilgangi þess): Nei, upplýsingatækni hefur sáralítið gildi í menntunarlegu uppeldi ungdómsins. (Skil reyndar ekki spurninguna ... reikna með að þú meinir að við kennarnir reynum að koma nemendunum til vits og þroska og þar tel ég upplýsingatækni skipta sáralitlu máli. Frá mínum bæjardyrum séð - og ég er búin að prófa flest allt upplýsingatækni-eitthvað, nema myndablogg ;-) er mikilvægara að kenna þeim að fletta bók. Þau kunna það nefnilega ekki en eru útfarin í MSN, irc og SMS.)

Þriðjudagur 6. apríl 2004 kl. 20:30

Harpa mín, en gaman að fá athugasemd frá þér!!! Fáir eru skemmtilegri að ræða við;-)

Ég er hinsvegar ekki sammála þér um að 14 ára skólaganga eigi að fara einvörðungu í að kenna nemendum að fletta bók. Einnig finnst mér það augljóslega segja mér að einhver sé að gera eitthvað skakkt ef ekki er búið að ná því á þeim 10 árum sem nemendur hafa verið í grunnskóla áður en þeir koma til þín í framhaldsskólann.

Hvað varðar menntunarlegt gildi á ég við þá menntan sem í manninum býr sem hann getur nýtt sér til að njóta lífsins og afla sér viðurværis. Ekki skal ég draga úr því að bókin er mikilvæg enda hafa margar þeirra glatt mig og frætt. Á sama tíma tel ég mikilvægt (og þú mátt alveg vera ósammála mér um það) að nemendur kunni að beita verkfærum upplýsingatækninnar s.s. símum og tölvum í réttu samhengi við viðfangsefnin hverju sinni.

Á meðan þér finnst mikilvægt að nemendur skilji spennusögur fortíðarinnar sem taldar eru byggja á sögulegum heimildum finnst mér mikilvægt að nemendur skilji hvernig þeir geta beitt tækninni í samhengi við það sem þau eru að fást við. Þetta tvennt fer ágætlega saman í námskrá nemenda. Þó leikur sé góður þá tel ég að ekki sé nóg að nemendur kynnist tækninni einvörðungu í gegnum eigin leik. Ég er fullkomlega sátt við að spennusögur fortíðarinnar og bókmenntir nútímans séu hluti af námi nemenda. Þú velur síðan þær aðferðir sem þér þykir henta til að koma nemendum í skilning um efni þeirra enda flinkur kennari með þeim aðferðum sem þú beitir.

Eftir stendur sú sannfæring mín að mannveran þarfnast þessi í dag að geta beitt þeim verkfærum sem upplýsingatæknin veitir í réttu samhengi við viðfangsefnin hverju sinni. Að troða henni um of inn í nám og kennslu er auðvitað eins fáránlegt í mínum huga eins og að banna notkun hennar eins og greinar okkar Sverris Páls snéru að. Minnir mig á þegar við máttum ekki nota glansandi hrærivélarnar í matreiðslu þegar ég var í grunnskóla því við yrðum að kunna að lifa án hrærivéla. Þetta er eins og að bóndinn þurfi bara að kunna að heyja án véla og tækja, fiskverkandinn að verka fisk án véla og tækja og kennarinn að kenna án upplýsingatækni. Ég er svosem ekkert á móti slíku afturhvarfi til náttúrunnar en held samt sem áður að okkur farnist betur með því að kunna að beita þeirri tækni sem við höfum yfir að búa í dag.

Kær kveðja
Lára

Miðvikudagur 7. apríl 2004 kl. 08:46

Því miður lærði ég hvorki á hrærivél né handvirk heimilistæki í grunnskóla. Ég hef komist ágætlega af án þeirrar tækni, t.d. er lítið mál að panta flatböku ef húsfaðirinn er af bæ og synirnir nenna ekki að elda. Hugsa að það sé jafnvel hægt að panta á netinu þótt ég noti nú bara talsíma.

Einu sinni voru allir uppteknir af nútímatækninni sjónvarpi, seinna vídói. Engum dettur í alvöru í hug að myndbönd skipti almennt miklu máli í kennslu þótt hægt sé að nota þau til að peppa upp á kennsluna öðru hvoru, jafnvel í gömlum spennusögum (sem vel að merkja eru einnig þekktar undir nafninu "menningararfur Íslendinga" ;-)

Það má eins peppa upp á kennsluna með notkun upplýsingatækni, jafnvel síma, en líka með því að lita, leira o.s.fr. Þetta verður samt aldrei neitt nema pepp.

Mér finnst UT fyrir kennara álíka mikilvægt og bílpróf fyrir kennara: Hægt að komast af án hvors tveggja en getur líka nýst manni einstaka sinnum.

Sunnudagur 11. apríl 2004 kl. 16:27

svp:

Það er gott að fá fram ólíkar skoðanir en þessi uppgerðar- neikvæði tónn hjá Hörpu er óhreinn og trúlega bara í nösunum á henni. Og ég held að hann sé ekki til góðs vegna þess að ýmsir efasemdarmenn og úrtölumenn, sem hafa fundið til vanmáttar síns gagnvart aukinni fjölbreytni í náms- og kennsluaðferðum, hafa heyrst hlakka yfir þessari gamansemi Hörpu og segja: Sko! Meira að segja Harpa segir að þetta sé gagnslaust!

Ég er sammála öðru meginatriðinu í fyrirlestri Hörpu á UT 2004 að það sé tilgangslítið að láta nemendur vafra stefnulaust og tilsagnarlaust á vef. Það hefur aldrei verið deilumál. Hitt meginatriðið gladdi mig mjög, að hún heldur áfram að nota upplýsingatækni í margvíslegum verkefnum. Og ég trúi ekki að Harpa sé í alvöru andvíg því að nota nýjungar í tækni. Það er hún bara ekki. Þess vegna skil ég ekki hvað hún er að fara.

Þriðjudagur 13. apríl 2004 kl. 13:35

Hm ... óhreinn tónn í nösum? Hvað á SVP við? Eins og ég er nú mikill snyrtipinni ;-)

Það sem ég hef haldið fram upp á síðkastið er byggt á u.þ.b. 9 ára tilraunum í notkun Vefjarins í kennslu og skólastarfi. Ég fullyrði að fáir hafa gert jafnmargar og viðamiklar tilraunir í þessu og ég, hér á landi. Niðurstaða mín er sú að það er sáralítið gagn af beinni notkun upplýsingatækni í kennslu þótt Vefurinn nýtist vel sem gagnageymsla, æfingargræja fyrir nemendur og er ómetanlegt hjálpartæki fyrir kennara, bæði hvað upplýsingaöflun og dreifingu upplýsinga varðar. Niðurstaða mín er einnig sú að langoftast sé skynsamlegra og skilvirkara að sleppa tölvum í kennslustundum, þótt ég reikni með að nemendur noti þær talsvert heima hjá sér, t.d. til að mennta sig á vefsíðunum sem ég hef sett upp. Mér finnst ekkert óhreint við það að viðurkenna að ég hafi haft rangt fyrir mér: Á tímabili hélt ég að skólastarf myndi raunverulega breytast og möguleikum tölva fylgdi raunveruleg hugarfarsbreyting ... jafnvel bylting í kennsluháttum. Ég tel núna að ég hafi haft rangt fyrir mér í þessum efnum. (Ég hef einnig haft rangt fyrir mér um ýmislegt annað og þurft að gera ýmis reikningsskil og hugsa jafnvel lífskúrsinn upp á nýtt ... sem er erfitt en hollt hverjum manni.) Það að halda áfram að lemja hausnum við steininn bara af því maður getur ekki skipt um skoðun finnst mér hins vegar óhreinlyndi og held að það sé óhollt fyrir sálina. Það er langt síðan ég hætti að kippa mér upp við hvernig fólk skilur eða misskilur það sem ég segi ... eftir að mér varð ljóst að skoðanir annarra er ekki minn höfuðverkur og ég get bara stjórnað sjálfri mér en ekki öðrum. Svo ég læt mér í léttu rúmi liggja á hvers árar menn telja mig leggjast (eða ekki leggjast :-)

Miðvikudagur 14. apríl 2004 kl. 18:47

Gleymdi að taka fram að kannski eru efasemdarmennirnir og úrtölumennirnir bara svona miklu skynsamari en ég og sáu allan tímann það sem tók mig 9 ára þrotlausa vinnu að fatta sjálf. Reyndar held ég samt að kennsla sé doldið eins og alkóhólismi; Sá sem hefur ekki reynt þetta á eigin sál og kroppi getur illa tjáð sig um þetta. Þess vegna hef ég rótgróna vantrú á kennslufræðingum eða fólki sem hefur bara kennt vélritun og á tölvur en þykist allt vita um hvernig á að kenna aðskiljanleg fög með nýmóðins aðferðum. Þess vegna þykir mér líka gott að hafa prófað UT sjálf en gleypa ekki hrátt eitthvert trúboð annarra. Og þess vegna skil ég að tölulegar upplýsingar um innlagnir á Vogi koma ekki í veg fyrir að unglingar sulli í brennivíni ;-)

Miðvikudagur 14. apríl 2004 kl. 18:55

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.