Færslur í júlí 2007

« júní 2007 | Forsíða | ágúst 2007 »

Mánudagur 9. júlí 2007

Lært og lært

Það er talsverð vinna að vera í námi, ég er í 9 einingum í Academy of Art University (AAU) núna á sumarönninni sem þýðir 6 próf á viku, a.m.k. 6 verkefni oftast meira og síðan umræður við aðra nemendur. Þetta er strangt en gott nám og ég hef lært heilan helling frá því ég byrjaði en nú er önnin að verða hálfnuð. Þarna tíðkast miðannarverkefni sem eru stærri í sniðum en þau venjulegu en miðannarlotan er einmitt í þessari viku. Það gefst lítill tími til annars en að læra en í dag er ég að fara að lesa um ljósmyndun sem listgrein og ágreining sem hefur verið um hvort eitthvað sem er numið með tækjum geti verið list. Þetta hefur mjög breyst frá því ljósmyndunin byrjaði en nú seljast ljósmyndir eftir þekkta ljósmyndara gríðarlega háu verði enda er talið að þeir fjölfaldi ljósmyndir sínar oftast í færri eintökum en t.d. grafíklistamenn. Líklega verður að gæta vel að því að hafa takmarkað upplag af því sem gert er til þess að tryggja verðmætin. Þá er spurning hvort menn eyðileggja frumeintakið þannig að ekki sé hægt að gera fleiri myndir.

kl. |Ljósmyndun || Álit (0)

Föstudagur 20. júlí 2007

Námið á fullu

Námið sækist vel en er kröfuhart. Ég ákvað að taka 9 einingar sem starfsmönnum AAU þótti eiginlega einum of en ég vildi byrja af krafti. Hinsvegar verð ég að viðurkenna að þau vita alveg hvað þau eru að segja. Ég byrja að læra á morgnana um hálf níuleytið og læri nánast sleitulaust til miðnættis alla daga vikunnar. Fjölbreytnin felst í því að fara út í sumarbústað með skólabókina og sitja á veröndinni að lesa á meðan Gísli minn yrkir gróðurinn nú eða þá að setjast út á mína eigin verönd og lesa. Þannig er ég nú komin með góða sumarliti.

Annar kostur er að mörg verkefnanna eru fólgin í að ljósmynda eitt og annað sem dregur mig út til að mynda. Í einum áfanga er ég að mynda Klappirnar út frá ýmsum atriðum sem ég er að læra um s.s. áferð, línur og fókus. Í öðrum er ég að skoða bygg og umhverfi þess. Fór í Grænuhlíð þar sem skriðurnar fóru rétt fyrir jólin og kennarinn vildi að ég hefði hana í samhengi við byggið þannig að í gær klifraði ég upp að rótum skriðanna og tók myndir. Í þriðja áfanganum á ég að velja mér ljósmyndara og taka seríu í hans stíl. Ég er ekki alveg búin að velja en langar að kunna að gera myndir eins og Ansel Adams svo þetta gæti verið gott tækifæri.

Námið er annars gríðarlega vel skipulagt. Hver áfangi er settur saman úr fimmtán námsþáttum. Í hverjum námsþætti eru verkefni sem þarf að leysa og umræður sem þarf að taka þátt í (gilda 30%). Síðan í lok lotunnar er próf. Þar sem þetta er sumarönn þá eru tveir námsþættir á viku sem þýðir að ég tek 6 próf á viku, leysi a.m.k. 6 verkefni (oftast fleiri) og síðan koma stærri verkefnin eins og lokaverkefnin sem ég var að lýsa hér að ofan sem eru í gangi alla önnina.

Þjónustan er frábær, ég er með umsjónarkennara, ég get fengið ritgerðirnar mínar lesnar yfir, ef ég er í vandræðum með hugtök eða enskuna þá er sérstök aðstoð í því og margt fleira. Einnig er skemmtilegt myndasafn að grúska í með fjölmörgum frægum ljósmyndurum.

En þetta er allt lífvænlegt af því að það er svo gaman að læra ljósmyndun. Hlakka þó til þegar önnin er búin 11. ágúst og við Gísli minn komumst í frí - þá ætla ég sko að lesa Harry Potter;-)

kl. |Ljósmyndun || Álit (2)

Fimmtudagur 26. júlí 2007

NetFlix

Þetta er sniðug myndbandaleiga sem kallast NetFlix, er eitthvað svona hér á landi? Maður gerist áskrifandi fyrir 4,95$ á mánuði og getur síðan leigt eins og maður vill. Býr sér til lista og fær mynddiskinn, má vera með hann eins lengi og maður vill (jáhá engar sektir) en fær ekki næsta disk á listanum fyrr en maður er búinn að skila þeim fyrri. Svona á að gera þetta, það þarf að nútímavæða myndbandaleigur landsins;-)

kl. |Tilveran || Álit (0)

Föstudagur 27. júlí 2007

Jerry Uelsmann

Er að lesa um stærðarhlutföll og hvernig er hægt að snúa þeim á hvolf í ljósmyndun. Rakst á frábæran ljósmyndara Jerry Uelsmann sem ég hvet áhugamenn um ljósmyndun að skoða. Hér er heimasíðan hans.

Ferlega flottar myndir!

kl. |Ljósmyndun || Álit (0)

Knúið af Movable Type 3.33
Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.