Færslur í september 2007

« ágúst 2007 | Forsíða | október 2007 »

Miðvikudagur 12. september 2007

Erik Almas

Námið mitt felst ekki síst í því að skoða aðra ljósmyndara, í skólanum er mikið myndasafn en síðan leitum við auðvitað fanga alls saðar þar sem við sjáum ljósmyndir. Þannig uppgötvar maður alltaf nýja og nýja hlið á ljósmyndun. Í gær skoðaði ég Erik Almas sem er einmitt menntaður í Academy of Art Univesity þar sem ég er að læra. Ég hreifst af myndunum hans og litameðhöndluninni. Sérstaklega þar sem hann notar mikið af stórbrotnu landslagi og kraftmikil ský. Þegar ég fór síðan að lesa nánar um hann áttaði ég mig á að myndirnar voru montage myndir þ.e. samsettar úr fleiri en einni ljósmynd. Þetta er svið ljósmyndunar sem ég hef mikinn áhuga á svo nú er tækifæri til að spreyta sig á því. Hér er síðan viðtal við Erik sem gaman er að lesa.

kl. |Ljósmyndun || Álit (0)

Sunnudagur 16. september 2007

Wabi-Sabi

Í listasögukúrsi sem ég er í um Renaissance tímann var kennarinn okkar að benda á hugtakið Wabi-Sabi sem mér þótti afar áhugavert að lesa um og því er þetta innlegg e.t.v. meira til að passa að týna því ekki frekar en annað. Umræðuefnið hjá okkur í fyrstu lotu hefur verið um fegurð og skilgreiningu á henni. Hvort skilgreining á fegurð sé föst innra með okkur frá fæðingu eða hvort þar bætist ofan á eitthvað sem þróast og okkur líkar. Verið er að skoða gríska list og þeirra sjónarmið.

En Wabi-Sabi er hinsvegar að skoða fegurð einfaldleikans, ryðs, slits, þess sem liðið er. Ekki þannig að hlutir séu skítugir og í rusli heldur hlutir sem eru metnir af verðleikum og settir í samhengi við nútímann. Það er að vísu miklu meira í þessu þannig að ef einhver hefur áhuga þá er tengill í grein um Wabi-Sabi. Ég þarf hinsvegar að velta fyrir mér - ekki í fyrsta skipti - mikilvægi hins efnislega í samhengi við hvað skiptir máli í lífinu almennt. Alltaf gott að fara í gegnum það;-)

kl. |Ljósmyndun / Tilveran || Álit (0)

Miðvikudagur 26. september 2007

Skólabörn prófa tölvu

Var bent á skemmtilega grein þar sem nemendur voru látnir prófa nýja fartölvu. Verkefnið heitir One Laptop Per Child (OLPC) þar sem markmiðið er að útbúa sérstaka tölvu fyrir börn. Aðal hvatamaðurinn er Nicholas Negroponte sem horfir m.a. til skrifa Seymour Papert sem hafði mikla trú á því hvernig mætti nota tölvur í námi og kennslu. Ég hef haft mikla trú á þeim hugmyndum og vonaðist til að þær myndu ná árangri. Því miður hefur okkur ekki borið gæfa til að ná almennri tölvunotkun inn í nám og kennslu, þær eru enn yfirleitt í sérstökum þróunarverkefnum eða fylgja frumkvöðlum eða öðru sem mætti skilgreina sem sér. Sumir hafa náð feykigóðum árangri en ekki er hægt að segja að menntakerfið í heild sinni hafi náð þeim árangri að tölvur séu markvisst verkfæri í námi nemenda. Reyndar hefur verið býsna strembið fyrir sveitarfélög að ná því markmiði að kennarar hafi fartölvu hvað þá að vinna markvisst að notkun þeirra í skólanum. Helst hafa menn haft áhuga á að kennarar fái betri verkfæri til skriffinsku af ýmsum toga s.s. mætinga, samskipta við foreldra eða öðru því sem tengist utanumhaldi um nám. Ef til vill verður þetta verkefni til þess að þetta breytist.

kl. |UT ||

Knúið af Movable Type 3.33
Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.