Færslur í janúar 2008

« desember 2007 | Forsíða | febrúar 2008 »

Miðvikudagur 2. janúar 2008

Gleðilegt ár!

Árið 2007 var ár umbreytinga og stóratburða fyrir mig, eiginlega svo mjög að vart hefði verið hægt að koma fleiru fyrir á einu ári. Þannig á ég von á því að árið 2008 verði talsvert rólegra og hlakka reyndar verulega til þess;-)

Nú er ég komin í frí í skólanum, haustönninni lauk ekki fyrr en 22. desember þannig að ég spratt upp frá síðasta prófinu og eina sem komst að var: jólakort - jólagjafir - jól. Jólin voru síðan dásamleg með börnunum og gaman að fylgjast með barnabörnunum í hverjum stórviðburðinum á fætur öðrum.

Ég óska öllum þeim sem eiga hér leið um farsældar og gleði á nýju og spennandi ári.

kl. |Tilveran || Álit (0)

Föstudagur 4. janúar 2008

Eyðslubílar

Í desember skipaði Össur Skarphéðinsson mig formann stjórnar Orkuseturs. Mér þótti vænt um þessa tilnefningu þar sem ég hef haft mikinn áhuga á orkumálum og sparnaði á orku. Eins og allt of margir aðrir þá er ég hinsvegar sérhlífin þegar kemur að eigin sparnaði. Ég fletti til dæmis upp á því hversu miklu bíllinn minn eyðir miðað við marga aðra en það er frábær reiknivél hjá Orkusetri sem reiknar slíkt út - ég roðnaði. Mæli með því að þeir sem eru að fara að kaupa sér bíl prófi þennan útreikning því það er hægt að fá sambærilega bíla, jafnvel alveg eins bíla sem menga minna.

Continue reading "Eyðslubílar" »

kl. |Pólitík || Álit (1)

Sunnudagur 6. janúar 2008

Börn alkohólista - hin gleymdu börn

Fáir aðrir en þeir sem hafa lifað það vita hvernig það er að búa við alkohólisma sem barn. Auðvitað eru aðstæður ekki alls staðar eins en segja má að þessi börn séu nánast réttlaus, leiksoppar aðstæðna og komast hvergi burtu. Þau þurfa sum að þola gleðskap nótt eftir nótt, andlegar misþyrmingar, stundum líkamlegar, svefnleysi, ótta, öryggisleysi og margt það sem ekki myndi líðast að bjóða nokkrum fullorðnum manni. Þeirra eina leið í burtu er að eldast - sem gengur óskaplega hægt þegar maður er lítill. Hvernig getum við barist fyrir mannréttindum þessara barna? Réttur foreldranna til að hafa þau er sterkur en hver eru réttindi þeirra?

kl. |Pólitík || Álit (3)

Mánudagur 21. janúar 2008

Sviptingar í Reykjavík

Það voru mikil vonbrigði að frétta af breytingum á meirihluta í Reykjavík, ekki er það langur tími rétt rúmir 100 dagar sem fyrri meirihluti stóð. Ljóst var að Ólafur vildi gjarnan í samstarf við sinn gamla flokk Sjálfstæðisflokkinn og með útspili sínu um að mynda meirihluta með öðrum flokkum en honum voru Sjálfstæðismenn tilbúnir til að færa honum allt sem hann vildi á silfurfati. Eftir stendur hann sem borgarstjóri, meistaraplottari greinilega. Mér þótti merkilegt að heyra hversu ofarlega hann setur málefni flugvallarins í Vatnsmýrinni. Sérstaklega í ljósi þess að ekki stendur til að neitt gerist í þeim málum næstu árin annað en rannsóknir á veðurfari á Hólmsheiði. Stórpólitískur sigur... En ef Ólafur verður maðurinn sem ver Reykjavíkurflugvöll varanlega þá skal ég mála á mig yfirvararskegg í viku - árið 2016!

kl. |Pólitík || Álit (1)

Föstudagur 25. janúar 2008

Hættur - farinn

Það var kannski ekki óvænt að frétta af ákvörðun Björns Inga í Reykjavík en engu að síður vonbrigði. Af þeim ungu stjórnmálamönnum sem hafa verið að skipa sér í forystu stjórnmálaflokkanna hefur hann verið með þeim kraftmeiri og axlað þá ábyrgð sem hann tók að sér af öryggi. Engan óraði fyrir því að hann næði að rífa upp fylgi Framsóknarmanna eins og hann gerði í Reykjavík og ná kjöri til borgarstjórnar.

Það er hinsvegar ekki hægt að vinna undir því álagi sem hann hefur verið í langan tíma án þess að virkilega endurskoða hvort menn vilji yfirhöfuð vinna fyrir samfélagið, fórnarkostnaðurinn er einfaldlega of mikill. Þegar samflokksmaður ræðst jafn hatrammlega að félaga sínum og Guðjón Ólafur Jónsson gerði er ekki hægt annað en hafa á því skömm. Mér segir svo hugur að með aðför sinni hafi hann endanlega gengið frá sínum eigin stjórnmálaferli.

Með Birni Inga kastaði Framsóknarflokkurinn öflugum liðsmanni fyrir borð.

kl. |Pólitík || Álit (0)

Föstudagur 25. janúar 2008

Ég vil Tinnasöngleik

Gerður hefur verið söngleikur eftir sögunni Fangarnir í sólhofinu um Tinna eftir Hergé og eftir því sem ég fæ best séð er tónlistin frábær og leikgerðin virkilega skemmtielg. Er ekki hægt að fá einhvern til að setja þetta upp hér á landi???

Svo er hérna myndband í upptökustúdíói þar sem Jelle Cleymans syngur Tinna:

kl. |Tilveran || Álit (1)

Knúið af Movable Type 3.33
Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.