Færslur í nóvember 2006

« október 2006 | Forsíða | desember 2006 »

Föstudagur 3. nóvember 2006

Spenningur

Þetta er búin að vera viðburðarík vika. Á þriðjudag var síðasti dagurinn sem við Samfylkingarmenn í Norðausturkjördæmi gátum skilað atkvæðum og ég og mitt fólk reyndum okkar besta til að fá fólk til að skila inn atkvæðunum. Í dag á fólk ekki oft leið á pósthús og sumir þar af leiðandi slepptu því að kjósa, ég vona þó að kjörsóknin verði góð þannig að okkur sé ljóst að það sé breiður hópur bak við valið á listanum.

Um leið og ekki var hægt að gera meira varðandi prófkjörið einhenti ég mér í önnur verk sem hafa setið á hakanum og vann fyrir sunnan á miðvikudag. Þá gafst ágætis tækifæri til að koma við í kosningahófi Össurar Skarphéðinssonar á NASA en þar voru gríðarlega margir flokksfélagar og gaman að hitta þá. Það er spenningur í mörgum kjördæmum um hvernig raðast á lista og allir á fullu. Verður gaman að sjá hvernig gengur. Mér urðu það mikil vonbrigði að Anna Kristín skyldi ekki ná ofar á lista í Norðvesturkjördæmi, kattiðinn stjórnmálamaður sem fer ekki áfram á hávaðanum. Um næstu helgi eru það við og Suðvesturkjördæmið og síðan koll af kolli.

Smá saman færist lífið í sínar eðlilegu skorður, í gær fór ég með nokkrar myndir á fund hjá ljósmyndaklúbbnum Álkunni þar sem ég er að vona að einhverjar myndir frá mér verði valdar í bók sem við erum að gefa út. Í bókinni verða myndir frá Eyjafirði en þarna voru gríðarlega margar flottar myndir. Ég hlakka til að fara að mynda meira og munda nýju Canon L linsuna mína (70-200,2,8, IS).

kl. |Pólitík || Álit (0)

Sunnudagur 5. nóvember 2006

Þriðja sætið

Þá er prófkjörinu lokið, fagnaður kvöldsins búinn og niðurstaðan fengin. Ég fékk fína kosningu í þriðja sætið eða 903 atkvæði allt í allt af 1864 atkvæðum eða nánast helminginn. Ég er snortin og þakklát fyrir þennan mikla stuðning. Svo er bara að bretta upp ermar fyrir vorið;-)

kl. |Pólitík || Álit (19)

Fimmtudagur 9. nóvember 2006

Þjóðernishyggja eða staðarhyggja?

Að loknu prófkjöri hafa sumir lagst í staðarhyggju og túlka niðurstöður eftir búsetu frambjóðenda. Á meðan á prófkjöri stóð börðust menn fyrir því að maður eða kona frá ákveðnum stað þyrfti að komast að, sem og að einhver landssvæði "ættu" tiltekin sæti á lista.

Ég skrifaði grein í prófkjörinu sem ég kallaði "Ekki bara Akureyri" þar sem ég benti á að við framboð til Alþingis gæti enginn frambjóðandi verið að bjóða sig fram bara fyrir staðinn sinn. Það er ekki hægt að bjóða sig fram fyrir hluta kjördæmisins maður býður sig fram fyrir það allt.

Sigurvegari í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi kemur af bóndabæ, getur hann bara boðið sig fram fyrir þann bóndabæ? Eða sveitina sem hann býr í?

Þetta minnir mig á þjóðernishyggju sem mætti ef til vill fremur kalla staðarhyggju að telja að menn búsettir á ákveðnu svæði eigi meiri rétt en aðrir í lýðræðislegum kosningum. Rétt eins og að menn hafa skoðun á fólki eftir því hvar það er fætt í heiminum þá eru menn að hafa skoðun á því hvar menn búa. Við erum að taka ákvarðanir byggðar á uppruna fólks - mér hugnast það ekki. Hættum þessu, ég bauð mig fram til að vinna fyrir Norðausturkjördæmi allt - ekki bara Akureyri.

kl. |Pólitík || Álit (4)

Mánudagur 27. nóvember 2006

Tígrisdýr og ljón

Ég var í Kaupmannahöfn yfir helgina með myndavélina, já og Gísla minn líka. Við röltum um og ég myndaði allt mögulegt, einna skemmtilegast var að fara í dýragarðinn og mynda þar tígrisdýr og ljón, apa og fiðrildi ásamt mörgu fleiru. Búin að setja hluta afrakstursins inn á Flickr myndasafnið mitt ef einhver hefur gaman af því að kíkja;-)

Á föstudaginn kemur síðan út bókin Ljósár 2006 en ég er með tvær myndir í þeirri bók og hlakka til að sjá hana. Þeir sem vilja kaupa bókina í forsölu geta gert það hér.

Continue reading "Tígrisdýr og ljón" »

kl. |Ljósmyndun ||

Knúið af Movable Type 3.33
Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.