Færslur í apríl 2007

« mars 2007 | Forsíða | maí 2007 »

Þriðjudagur 3. apríl 2007

Ömurlegar atkvæðaveiðar

Mér þykir ömurlegt að sjá Frjálslynda flokkinn sýna algert dómgreindarleysi í málefnum fólks sem fætt er í öðrum löndum. Þrátt fyrir að munur á Íslendingum er starfa í útlöndum og erlendu fólki sem starfar hér blása þeir út að hér þurfi að hafa áhyggjur þrátt fyrir að í landinu sé ekkert atvinnuleysi. Fólk sem hefur lagt á sig að ferðast um langan veg til að taka þátt í uppbygginu á Íslandi þar sem vinnuafl vantaði situr nú undir ásökunum um að lækka laun og vera "fyrir". Það er ekkert hægt að sjá út úr þessu annað en eina ömurlegustu aðferð til atkvæðaveiða sem ég hef séð.

Árni Páll Árnason lögfræðingur og frambjóðandi Samfylkingarinnar sýnir svart á hvítu að þetta gengur ekki upp, enda bara um atkvæðaveiðar að ræða.

kl. |Pólitík || Álit (1)

Þriðjudagur 3. apríl 2007

Vaðlaheiðargöng sem fyrst!!!

Kristján L. Möller alþingismaður Samfylkingarinnar er skýr og ákveðinn þegar kemur að fyrirhuguðum Vaðlaheiðargöngum. Hann "vill að ríkið greiði kostnaðinn við gerð ganganna. Hann segir nauðsynlegt að hefjast handa sem fyrst." (Sjá frétt RÚV).

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ferðaðist til 15 staða á landsbyggðinni nú stuttu eftir áramótin og meðal þess sem hún boðaði var stórátak í samgöngumálum. Vegna virkjana og álversframkvæmda hefur svigrúmið verið lítið en nú held ég að í ljósi niðurstöðu atkvæðagreiðslu í Hafnarfirði að svigrúmið sé að birtast og við getum virkilega brett upp ermar og séð til þess að göngin komi. Samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur engan áhuga haft á málinu þrátt fyrir þrýstsing frá "Greiðri leið".

Þetta eru stór og góð tíðindi í samgöngumálum, Vaðlaheiðargöng skipta okkur hér á Norðurlandi miklu máli, bæði vegna öryggis þar sem Víkurskarð er oft hættulegt yfirferðar og vegur þar lokaður í vondum veðrum. Þetta leysir því vanda þeirra sem vilja stunda nám t.d. í Háskólanum á Akureyri og komast milli heimilis og skóla daglega. Sameiginlegt atvinnusvæði stækkar og möguleikar aukast mjög.

Þetta eru stórtíðindi dagsins þar sem Kristján L. Möller tekur skarpa og skýra afstöðu í þessum málum enda kraftmikill þingmaður sem talar tæpitungulaust.

kl. |Pólitík || Álit (0)

Föstudagur 6. apríl 2007

Rauðanes og könnun

Rauðanes er einn alfallegasti staður á landinu og kom mér algerlega á óvart. Ég var að leita að gistingu á Þórshöfn þegar ég datt um gistingu á Ytra Álandi í Þistilfirði og þar var tengill á Rauðanes. Án þess að hika hringdi ég þangað og við Gísli minn ákváðum að ganga Rauðanesið. Um morguninn bauð Bjarnveig á Ytra Álandi okkur í kaffi og gómsæta jólaköku en síðan fórum við í gönguferðina. Við gengum frá ríflega 10 um morguninn til um fjögurleytið með bækling sem nemendur Svalbarðsskóla unnu og var mjög hjálplegur.

Við vorum ekki með farsímasamband á Ytra Álandi þannig að ég fékk tölurnar úr könnun Stöðvar 2 þegar ég sat á bjargbrún á Rauðanesi og dáðist að ægifagurri náttúrunni. Það var sannarlega ágætt að vera mæld inni og segir okkur að vinnan er að skila sér. Nú er bara að halda ótrauð áfram og gera sitt besta.

kl. |Pólitík || Álit (2)

Sunnudagur 8. apríl 2007

Jöfnuð: Fyrir börnin - Tannvernd

Við þurfum að jafna leikinn - fyrir börnin okkar. Það hýtur að vera sárt fyrir efnaminna fólk að geta ekki tryggt börnum sínum viðunandi læknisþjónustu á tönnum barnanna þeirra. Með forvarnaraðgerðum og eftirliti má ná langt og því þarf að tryggja að slík heilsuvernd sé endurgjaldslaus. Það er ekki nokkur heilbrigð skynsemi í því að heilbrigðiskerfi landsins nái til allra líkamsparta, beina og innyfla en þegar að tönnunum kemur draga að sér hendurnar. Öll heilsa barna skiptir máli og því þarf að huga að tannheilsu eins og annarri heilsu. Viðtal við Sigurð Rúnar Sæmundsson á Stöð 2 var sláandi þegar hann bendir á að ef barn tábrýtur sig þá er það innan heilbrigðiskerfisins en ef tönn brotnar þá þarf fjölskyldan að borga. Hver er jöfnuður barnanna þegar barn hinna ríku fær úrbætur en barn hinna efnaminni annaðhvort ekki eða þá að það hefur alvarleg áhrif á fjármál heimilisins.

Continue reading "Jöfnuð: Fyrir börnin - Tannvernd" »

kl. |Pólitík || Álit (3)

Þriðjudagur 10. apríl 2007

Kostnaður við námsbækur í framhaldsskóla

Eitt af stefnumálum Samfylkingarinnar er að láta nemendur í framhaldsskólum fá námsbækur án endurgjalds. Ég er ekki viss um að margir átti sig á því hversu mikil útgjöld eru falin í námsbókum á hverri önn. Nemendur eru oft í 5-7 áföngum hverja önn og bækurnar kosta frá 3000 - 6000 krónur bókin (stundum minna og meira en þetta er algengast). Nemandinn getur því gert ráð fyrir að 30.000 krónur fari í námsbókarkaup við hver annarmót. Þetta geta því verið um 240.000 krónur fyrir hvern nemanda. Þessir útreikningar mínir eru lauslegir en nemendur í framhaldsskólum og ættingjar þeirra þekkja þetta vel. Þar sem aðstæður nemenda í framhaldsskólum eru æði misjafnra er mikilvægt að tryggja að dapur fjárhagur fjölskyldu hindri ekki skólavist og tryggja að hver nemandi geti sem best eytt orku sinni í nám í stað þess að hafa áhyggur af fjárhag fjölskyldunnar í hvert skipti sem þarf að kaupa bók.

kl. |Pólitík || Álit (4)

Miðvikudagur 11. apríl 2007

Jafnvægi og framfarir

Samfylkingin hélt fund í morgun um ábyrga efnahagsstefnu og hefur lagt fram greinargerð sem unnin er af starfshópi undir stjórn Jóns Sigurðssonar hagfræðings en hann er fyrrverandi forstjóri Norræna fjárfestingarbankans, seðlabankastjóri, alþingismaður og ráðherra. Reynsla hans er gríðarlega mikil og eftirsóknarvert að fá mann með jafn mikla sérþekkingu og reynslu af efnahagsmálum. Margt kemur fram í greinargerðinni sem ég hef áður fjallað um hér og margt sem væri ástæða til að fjalla um.

Continue reading "Jafnvægi og framfarir" »

kl. |Pólitík || Álit (1)

Sunnudagur 15. apríl 2007

Landsfundurinn

Landsfundur Samfylkingarinnar er alltaf afar skemmtileg samkoma, þar hittast félagar, ræða málin, miðla reynslu og þekkingu. Það er sérstök og gefandi tilfinning að vera í hópi fólks þar sem allir hafa áhuga á samfélaginu og vilja leggja sitt af mörkum til þess að landinu okkar gangi sem best. Það sama á við aðra stjórnmálaflokka þó svo að ég telji þeirra leiðir ekki henta mér þá ber ég virðingu fyrir því fólki sem leggur á sig pólitíska vinnu því ég þekki af eigin raun hvað í því felst að starfa í stjórmálum. Þá á ég ekki bara við þá sem standa fyrir framan hljóðnema, sjónvarpstökuvélar og myndavélar heldur allt það fólk sem tekur þátt í pólitísku starfi frá hinu minnsta viðviki í því að gefa nánast allann sinn frítíma til stjórnmálaþátttöku.

Ég sat meðal annars í vinnuhóp um mannréttindi sem kannski flestir Íslendingar taka sem gefnu að séu í góðu lagi hér á landi og með réttu má segja að við stöndum býsna vel. Þó er alltaf eitthvað sem má styrkja eða gera betur. Með umræðunni öðlaðist ég aukinn skilning á fjölmörgum þáttum og stykti þekkingu mína á öðrum. Hópurinn fjallaði einnig um kvenfrelsi og jafnréttindi en við Helgi Hjörvar stýrðum vinnu í þessum tveimur hópum.

Á fundinum var ekki síður skemmtilegt að hitta góða vini og þar á meðal Lillý vinkonu mína frá Kópaskeri sem var þar með foreldrum sínum. Í Fréttablaðinu í dag birtist fín mynd af okkur umkringdum félögum úr Samfylkingunni í Norðausturkjördæmi en þessi mynd er hlý minning frá góðum fundi í hópi góðra félaga.

kl. |Pólitík || Álit (2)

Mánudagur 16. apríl 2007

Þjóðlendurnar seldar?

Eftir landsfund Sjálfstæðisflokksins er ljóst að þeir ætla sér að selja Landsvirkjun og með þægum samstarfsflokk eins og Framsóknarflokknum ætti þeim að takast það. Fyrst eru þeir að færa þjóðlendurnar undir fyrirtækið sem menn trúa að sé ríkiseign og þetta sé því "allt í lagi" en síðan lýsa þeir yfir að þeir vilji selja. Vonandi sér fólk samhengið í þessu þar sem hér er um háalvarlegt mál að ræða.

Með því að selja land með auðlindum einkafyrirtæki er ljóst að íbúar landsins fá engu ráðið um hvernig þær auðlindir eru nýttar.

Ég hef verið talsmaður þess að nýta auðlindir landsins fólkinu okkar til hagsbóta og þeir sem búa í nærumhverfi auðlindanna geti nýtt þær til að byggja upp atvinnulíf. Með þessum óhugnanlegu fyrirætlunum Landsvirkjunar er hættan á að við sitjum uppi búin að afsala okkur auðlindum landsins á tiltölulega óhagstæðu verði.

Samkvæmt skoðanakönnunum er þetta sá veruleiki sem blasir við okkur í dag - stjórnin heldur velli og auðlindirnar verða því að öllum líkindum seldar. Ég trúi því varla að þetta sé það sem þjóðin vill - er það tilfellið?

kl. |Pólitík || Álit (0)

Laugardagur 21. apríl 2007

Umræður á N4

Sjónvarpsstöðin N4 er eina sjónvarpsstöðinni utan höfuðborgarsvæðisins og hefur staðið sig vel í að gera kosningabaráttunni skil. Ég var þar í gærkvöldi ásamt Þorvaldi Ingvarssyni frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins. Þátturinn var enginn æsingaþáttur en ýmsar línur skerptust. Sérkennilegt þótti mér þegar Þorvaldur andmælti því að það ætti að selja Landsvirkjun en sagði síðan stuttu síðar að auðvitað stæði til að einkavæða hana. Land er tekið af landeigendum og flutt undir Landsvirkjun en síðan stendur til að selja hana og þjóðlendurnar okkar með. Ég skil ekki hvers vegna svo stór hluti landsmanna er sáttur við það og ætlar að kjósa flokk sem stendur fyrir annarri eins eignaupptöku.

Margt fleira kom fram og auðvitað þarna eins og alltaf að maður vildi gjarnan hafa svarað betur en þetta var skemmtileg og góð lífsreynsla.

kl. |Pólitík || Álit (0)

Mánudagur 23. apríl 2007

Jöfnuður skiptir máli

Það geta ekki allir fengið allt heyri ég stundum þegar ég tala um jöfnuð í samfélaginu eins og jöfnuður geti fjallað um það. Fyrst og fremst erum við að tala um að jafna leikinn í íslensku samfélagi, að allir hafi möguleika á að lifa mannsæmandi lífi með reisn. Við á landsbyggðinni höfum fyrst og fremst verið að tala fyrir því að við fáum sömu möguleika og aðrir að reka fyrirtæki. Skýrsla eftir skýrslu sýnir fram á að flutningskostnaður - mestmegnis skattar, hindra þá möguleika. Skattarnir eru miklum mun hærri en það fé sem fer í samgöngukerfið svo það er ekki hægt að rökstyðja þetta með því að þeir borgi fyrir vegina sem nota þá. Fyrirtæki á landsbyggðinni þar sem engin þensla er þurfa að búa við háa vexti sem ætlaðir eru til að slá á þenslu sem er ekki fyrir hendi hjá þeim.

Jöfnuður skiptir okkur öll máli, í smáu sem stóru.

kl. |Pólitík || Álit (0)

Þriðjudagur 24. apríl 2007

Vinsælast að vinna heima?

Í nýjasta fréttabréfi ClickZ sem fjallar um vinsælustu leitarorðin má finna margt fróðlegt. Athyglisverðast þótti mér að í flokknum "Internet advertising" er í fyrsta sæti "work from home" og í öðru sæti "work at home". Í flokknum "IT and internet" er Paypal vinsælast sem er fyrirbæri til að borga með þegar verslað er á Netinu eða heimanfrá.

Eftir stendur löngunin til að vinna að heiman og væri fróðlegt að fá nánari könnun á því eftir hverju fólk er að leita. Ég hef mikið verið að velta fyrir mér hvort það vinnuálag og fjarvera frá heimilinu er orðin svo íþyngjandi að þessi þróun fari að snúast við. Þessi könnun fékk mig til að hugsa áfram hvort fólk sé farið að vilja breyta lífinu og í stað þess að verja mestum tíma sínum í vinnunni sé þörfin fyrir eigið líf að verða sterkari. En þá er spurningin hvort það að vinna heima sé rétta leiðin til þess.

kl. |Pólitík || Álit (0)

Föstudagur 27. apríl 2007

Grímsey

Við Samfylkingarmenn fórum út í Grímsey í dag alls 15 manns og var eftirsótt hjá fólki að komast með í ferðina. Héldum fund þar sem helst voru rædd málefni Grímseyjarferjunnar sem er löng sorgarsaga og virðist vera sem Grímseyingar hafi verið plataðir til að fallast á kaup á ferju sem er svo kostnaðarsamt að gera tilbúna fyrir hlutverk sitt að talsvert ódýrara hefði verið að kaupa nýtt skip sem hentaði vel.

Ég er þeirrar skoðunar að störf án staðsetningar á vegum ríkisins myndu nýtast Grímseyingum afar vel þar sem fjölbreytni atvinnu myndi aukast töluvert og því auðveldara fyrir hjón að flytjast til eyjarinnar og fá bæði góð störf við hæfi.

Á flugvellinum hittum við Helgu Mattínu og Dónald en þau reyndumst mér virkilega vel síðasta sumar og ekki voru móttökurnar síðri, þau bentu bara á bílinn sinn og lánuðu mér hann á meðan dvöl okkar stóð.

Eftir fundinn skaust ég til Síu skólasystur minnar frá Laugum. Minntist skemmtilegra daga sl. sumar og Sía alltaf sami höfðinginn gaf mér reyktan lunda (namm), dásamlegan saltfisk og fleira.

Grímseyingar eru algestrisnasta fólk sem ég hef fyrir hitt og þau gæða þessa fallegu eyju töfrum sem lifa í minningunni.

kl. |Pólitík || Álit (0)

Laugardagur 28. apríl 2007

Bara fyrir peninga

Björn Bjarnason ráðherra skrifar pistil á heimasíðu sína þar sem hann segir "Háskóli Íslands nær aldrei því markmiði að verða meðal 100 bestu háskóla heims, ef hann mótar ekki nýja stefnu varðandi gjaldtöku fyrir nám." Þetta eru bitur skilaboð til starfsmanna Háskóla Íslands. Þeir geta ekki skapað góðan skóla nema nemendur borgi meira fyrir námið. Ráðherrann vill seilast í vasa fjölskyldna í landinu sem eru gríðarlega skuldsettar nú þegar á ofurvöxtum vegna efnahagsstjórnar ríkisstjórnarinnar. Það er með öllu óskiljanlegt að ráðherrann meti gæði skólans fremur eftir því hvað nemendur borga en starfsmönnum skólans.

kl. |Pólitík || Álit (0)

Mánudagur 30. apríl 2007

Burt með biðlistana

Ekkert er sárara en að vera veikur og fá ekki hjálp eða fylgjast með sínum nánustu vera í neyð en ekki hjálp. Í góðærinu undanfarin ár var auknum tekjum ríkissjóðs ekki varið til þess að huga betur að fólkinu okkar, Sjálfstæðisframsóknin hugsaði bara um peninga. Rökin um að fyrst þurfi að afla tekna og síðan huga að fólkinu er hjómið eitt því peningarnir voru fyrir hendi en í hugum þeirra var fólkið þar ekki.

Hvernig líður fjölskyldu þar sem einn meðlimurinn bíður eftir hjartaþræðingu, rannsókn sem er tiltölulega fljótleg en sker úr um hvort hjartað er í lagi eða ekki. Viðkomandi er á biðlista með 243 öðrum, á meðan er fjölskyldan þrúguð af áhyggjum - en hún þarf að bíða.

Hvernig bregðast foreldrar við sem eiga barn með geðröskun og þarf að komast á göngudeild. sjúkdóm sem þer jafnvel þekkja ekki, vita ekki hvernig á að bregðast við en eina svarið er - barnið er á biðlista ásamt 170 öðrum börnum - barnið bíður.

Continue reading "Burt með biðlistana" »

kl. |Pólitík || Álit (1)

Knúið af Movable Type 3.33
Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.