Úff
Voðalegt er að sjá hversu löt ég er við að skrifa, en hvað um það, var í kvöld að fara yfir pappíra frá skólanum mínum (Academy of Art University) og þar á meðal þarf ég að undirrita viðamikil gögn um stefnu skólans gegn áfengi og eiturlyfjum. Annað sem ég var hrifin af var að ég þarf að undirrita hverjir mega fá gögn frá mér og dugar ekkert fyrir mig að biðja um þau án þess að þau hafi undirritað plagg þess efnis. Ég held að íslenskir skólar megi taka þetta til fyrirmyndar en þeir fara stundum ótrúlega frjálslega með gögn frá nemendum og þá til annarra skóla eða stofnana.
Í morgun fór ég á Amtsbókasafnið að lesa ljósmyndasöguna, fór síðan seinnipartinn á Punktinn að vinna dálítið í leir og mótaði tvær skálar og tvo bolla, ætla að hafa þetta dálítið litaglatt og sumarlegt. Ég er orðin leið á þessum steríla hvíta lit sem er búinn að vera allsráðandi í umhverfinu undanfarið. Steindautt fyrirbæri.
Ég vakti síðan lengi frameftir til að ná sólarupprásinni sem ég nennti ekki upp úr rúminu til að mynda í fyrrinótt og er býsna lukkuleg með árangurinn. En nú er tími til að fara að sofa og njóta þess að skoða myndirnar sem ég tók betur á morgun.