Færslur í júní 2007

« maí 2007 | Forsíða | júlí 2007 »

Þriðjudagur 5. júní 2007

Úff

Voðalegt er að sjá hversu löt ég er við að skrifa, en hvað um það, var í kvöld að fara yfir pappíra frá skólanum mínum (Academy of Art University) og þar á meðal þarf ég að undirrita viðamikil gögn um stefnu skólans gegn áfengi og eiturlyfjum. Annað sem ég var hrifin af var að ég þarf að undirrita hverjir mega fá gögn frá mér og dugar ekkert fyrir mig að biðja um þau án þess að þau hafi undirritað plagg þess efnis. Ég held að íslenskir skólar megi taka þetta til fyrirmyndar en þeir fara stundum ótrúlega frjálslega með gögn frá nemendum og þá til annarra skóla eða stofnana.

Í morgun fór ég á Amtsbókasafnið að lesa ljósmyndasöguna, fór síðan seinnipartinn á Punktinn að vinna dálítið í leir og mótaði tvær skálar og tvo bolla, ætla að hafa þetta dálítið litaglatt og sumarlegt. Ég er orðin leið á þessum steríla hvíta lit sem er búinn að vera allsráðandi í umhverfinu undanfarið. Steindautt fyrirbæri.

Ég vakti síðan lengi frameftir til að ná sólarupprásinni sem ég nennti ekki upp úr rúminu til að mynda í fyrrinótt og er býsna lukkuleg með árangurinn. En nú er tími til að fara að sofa og njóta þess að skoða myndirnar sem ég tók betur á morgun.

kl. |Tilveran || Álit (0)

Miðvikudagur 6. júní 2007

Uppáhaldslagið mitt

Var að skoða hitt og þetta á YouTube og rakst þar á þetta ágæta tónlistarmyndband af uppáhaldslaginu mínu með Freddie Mercury, Great Pretender. Alltaf frábært!

kl. |Tilveran || Álit (0)

Laugardagur 9. júní 2007

Ótrúlegar náttúruhamfarir

Ég var að lesa í nýjasta hefti Lifandi vísinda um eðjugos á Jövu sem hófst 28. maí 2006, nánar tiltekið í héraðinu Sidoarjo (Nr. 8/2007. Eðjugígur ögrar jarðfræðingum bls. 30-33). Nafnið "eðja" er samnefnari yfir aur og leðju (sem ég reyndar hélt að væri nánast það sama. Aurstreymið er um 170 þús rúmmetrar á dag! Greinin vakti athygli mína svo ég fór að leita á Netinu og fann þessa síðu sem er uppfærð jafnóðum þar sem gosið stendur enn. Í febrúar hafði það náð yfir 360 hektara, náð í allt að 10 metra hæð, 12 milljón lítrar ef eðju hafa gubbast upp úr jörðinni. Ég hafði ekki hugmynd um að eðjugos væru til en skv. greininni er jarðfræðingum kunnugt um u.þ.b. 1100 eðjugíga sem eru í raun setlög af hafsbotni sem verða til þegar einn fleki jarðar þrýstist undir annan. Síðasta tilraun til þess að stoppa gosið var að setja stórar steypukúlur ofan í gíginn og eftir að búið var að henda 100 slíkum kúlum þangað stoppaði gosið í 30 mínútur. Áætlað er að varpa 1500 slíkum kúlum ofan í gíginn.

Áhrifin á íbúana eru geigvænleg, um 11 þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín, verksmiðjur hafa hætt starfsemi og vegna tilrauna til að veita eðjunni í hafið ógnar nún rækjuveiðum heimamanna en í Sidoarjo var næststærsta framleiðsla á rækju í landinu.

Náttúran getur svo sannarlega verið erfið í sambúð á sumum stöðum.

kl. |Ymislegt || Álit (0)

Laugardagur 9. júní 2007

Þarf í endurhæfingu

Ég held að eftir að maður er búinn að búa lengi úti á landi þá þurfi maður að fara í jafnréttisendurhæfingu því málin eru einfaldlega aftar á merinni þar heldur en á höfuðborgarsvæðinu. Smá saman verður maður samdauna alskyns smáatriðum og tekur ekki einu sinni eftir því, svo fer maður í annan "hóp" þ.e. landsbyggðarmaður sem líka fær skilaboð um að sé dálítið greindarskertur vegna búsetu sinnar og síðan stutt komment um að maður sé ekki innfæddur á landsbyggðarstaðnum og því skilji maður síður það sem þarf að skilja. Ég held að ég sé komin í þá stöðu að vera skilningslítil, einföld kona á landsbyggðinni. Ég upplifi allavega á samskiptum að ég hafi orðið fyrir einhverjum verulegum greindarskorti og er farin að lifa mig vel inn í hlutverkið með því að þegja kurteislega og segja ekki múkk. Vandinn er að slíku hlutverki fylgjir gjarnan áhugaleysi og það er verulega leiðigjarnt. Hin leiðin er að vera alltaf að lúðrast á hinum og þessum stöðum í þeim tilgangi einum að sanna fyrir fólki að maður hafi eitthvað að segja. En líklega er ég orðin of gömul til að nenna að taka að mér sönnunarbyrði á eigin getu og visku. Ég veit að ég er þrælklár og get það sem ég vil gera og einhvernvegin er það orðið þannig að það er mér nóg að vita það sjálf;-)

Spurningin er hvort ég verði ekki fyrir alvarlegu menningarsjokki þegar að því kemur að ég fari í staðbundna önn til San Francisco í náminu mínu. En ég fer ekki strax og fjarnámið verður því ágætis aðlögun - skyldu miðaldra aðfluttar landsbyggðarkjéllíngar vera minnihlutahópur í San Francisco?

kl. |Pólitík || Álit (3)

Fimmtudagur 14. júní 2007

Ljósmyndun og pólitík

Ég er að verða búin að renna yfir ljósmyndasöguna sjöhundruð síðna skruddu sem er hafsjór af fróðleik og orðið margs vísari. Sérstaklega finnst mér eftirminnilegt hversu póltískar ljósmyndir geta verið, stundum eru þær beinlínis notaðar í pólitískum tilgangi eða til að ná fram einhverju réttlæti sem ljósmyndaranum finnst mikilvægt. Barátta fyrir þjóðflokka, jafnrétti, sjálfstæði, skilningi, kynþáttamisrétti og svo mætti lengi telja. Segja má að oft hafi opnast augu fólks fyrir raunveruleikanum þegar það horfði á ljósmyndir.

Í dag eru myndirnar margar og spurning hvort þær hafi enn sömu áhrif og þær höfðu í eina tíð. Í þessu skyni hef ég verið að horfa á hvernig myndir eru teknar af stjórnmálamönnum og atburðum. Stundum velti ég fyrir mér hvort pólitísk skoðun ljósmyndarans endurspeglist í myndunum sem hann tekur. Það er að hann leggi meiri alúð í efni sem honum hugnast vel. Þetta væri virkilega verðugt rannsóknarefni.

kl. |Ljósmyndun / Pólitík || Álit (2)

Laugardagur 16. júní 2007

Fífilbrekka og breytingar

Í dag var ég á Fífilbrekkuhátíð að Hrauni í Öxnadal. Með mér voru Isamu Shimazaki vinur minn frá Japan og María Jónsdóttir textíllistakona sem hefur einmitt gert afar skemmtilega púða með síðasta ljóðinu í Ferðalok eftir Jónas Hallgrímsson. Isamu skildi ekki mikið en naut góðviðris, gönguferðar og íslenskrar náttúru. Merkilegasta setningin sem hann hefur sagt í ferðinni var "Þið Íslendingar eruð svo fjölbreytt þið eruð ekki öll eins - við Japanir erum öll eins". En hátíðin var góð og uppbyggingin að Hrauni glæsileg í alla staði.

Undanfarið hef ég verið að fá góðlátlegar athugasemdir frá vinum mínum um að ljósmyndunin mín hafi breyst - augljóst sé að ég sé að lesa ljósmyndasöguna. Þetta kom flatt uppá mig enda ekki mjög meðvituð um hana mig en fór að hugsa.

Continue reading "Fífilbrekka og breytingar" »

kl. |Ljósmyndun / Tilveran || Álit (0)

Sunnudagur 17. júní 2007

Túrhestur í dag

Ég var túrhestur í dag, fór ferð með Isamu Shimazaki vini mínum á Mývatn. Ég þreytist aldrei á að fara þangað, náttúran, jörðin, lífið, krafturinn - algerlega ómetanlegt. Í dag var heilmikið af rykmýi sem ég náði dálítið skemmtilegum myndum af. Þarf að pæla betur hvernig má fanga þessar mýflugur. Hitti leiðsögumann sem sagði mér að fræðingar teldu að það féllu til 2000 tonn af mýi árlega - 2000 tonn! Hugsið ykkur ef því yrði dumpað yfir mann allt í einu - vúps!

Isamu var ánægður og hrifinn, honum finnst Ísland æðislegt - segir hann. "Ef við hefðum svona stað í Japan þá væru komin einkafyrirtæki, hótel, íbúðir - allt girt af og náttúran eiginlega horfin utan þess parts sem sannarlega væri friðaður", sagði hann. "Hér er þetta í alvörunni náttúra, Ísland er einn þjóðgarður" bætti hann við.

kl. |Tilveran || Álit (0)

Þriðjudagur 19. júní 2007

Ótrúleg palestínsk stúlka

Þetta myndband á Current TV um líf Palestínumanna er ótrúlega gott sérstaklega í ljósi þess að lítil stúlka útskýrir lífið undir þeim kringumstæðum sem þarna eru.

kl. |Pólitík || Álit (0)

Miðvikudagur 20. júní 2007

Hvað er ljósmyndari?

Ég fékk í dag geisladisk frá skólanum með myndbandi um Richard Avedon ljósmyndara. Myndabandið er um einn og hálfur tími sem fjallar um verk Avedon og viðhorf gagnvart ljósmynduninni. Hann leitast við að finna í þeim einstaklingum sem hann myndar eitthvað sem honum finnst "satt" eða "raunverulegt" sem gerir myndirnar sérstakar og snerta áhorfandann. Að sumu leyti fannst mér athyglisvert einhvert tilfinningaleysi sem hann hefur gagnvart viðfangsefninu, viðhorfið að hann stjórni, skapi og móti. Á sama tíma er eins og hann sjálfur sé einmana og innilokaður, eins og hann sé að leita að eigin tilfinningum í viðfangsefninu.

Það sem ég sit eftir með er að ég hef ekki hugsað nægilega af hverju ég er að mynda það sem ég mynda. Hvaða ljósmyndir eru það sem ég vildi í rauninni gera og hverjar verða bara til þegar ég á leið um tilveruna. Líklega fæ ég að hugsa nóg um það í skólanum sem byrjar á morgun, ég held ég hafi ekki hlakkað eins til fyrsta skóladags eins og ég geri núna. En hugsunin er sterkust um hvað er ljósmyndari og hvað er hann að fanga og til hvers?

kl. |Ljósmyndun || Álit (0)

Sunnudagur 24. júní 2007

Lofthellir

Sigrún Stefáns spurði hvort ég vildi koma í Lofthelli í ferð Ferðafélgas Akureyrar í dag. Ég var mjög efins, eiginlega afar efins, en viss um að þar gæti ég náð í góðar myndir svo það dró mig af sta sem og hversu einstaklega góður félagsskapur Sigrún er. Eftir akstur á vondum vegi í úfnum hraunjaðrinum komum við á áfangastað, gengum yfir hraunið og þaðan klifrað niður stiga. Í botninum var blautt og hált en ekki leist mér á blikuna þegar ég sá agnar litla glufu sem þurfti að smokra sér í gegnum. Var viss um að þar yrði ég föst um óæðri endann sem er dálítið myndarlegur um sig.

Continue reading "Lofthellir" »

kl. |Ljósmyndun || Álit (0)

Miðvikudagur 27. júní 2007

Netið endurspeglar stéttarskiptingu ungmenna

Það var athylisvert að lesa grein á BBC um stéttaskiptingu ungmenna á Netinu. Danah Boyd doktorsnemi í Berkleyháskóla kemst að þeirri niðurstöðu að ungmenni sem eru á Facebook eru líklegri til að fara í háskóla og koma frá efnameiri fjölskyldum heldur en þeir sem eru á MySpace. Þetta eru merkilegar niðurstöður í ljósi þessað margir hafa talið að aðgreining í tengslum við Internetið væri sérstaklega tengd þeim sem hafa tengingu og þeim sem hafa hana ekki. Þegar síðan fólk aðgreinir sig sjálft eftir því hvar það er innan Netsins er merkilegt að sjá.

Þá kemur hin sígilda spurning - er það hópurinn sem ungmennin eru í sem ákvarðar hvað þau gera eða velja þau sér umhverfi eftir því hvað þau vilja gera.

kl. |Pólitík || Álit (0)

Fimmtudagur 28. júní 2007

Nýjasta tækni

Þetta er með því alfyndnasta sem ég hef séð, sniðugt þegar menn gera grín að upplýsingatækninni:

kl. |UT || Álit (1)

Knúið af Movable Type 3.33
Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.