Færslur í apríl 2006

« mars 2006 | Forsíða | maí 2006 »

Fimmtudagur 6. apríl 2006

Undarlegur útreikningur

Í svæðisútvarpi RÚV birtist eftirfarandi frétt "Ívið fleiri eru ánægðir með núverandi meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar en þeir sem eru óánægðir. Hins vegar vilja 64 af hundraði bæjarbúa fá nýjan meirihluta eftir næstu kosningar, samkvæmt Þjóðarpúlsu Gallups." Mér finnst þetta frekar undarlegt, hvernig má það vera að fleiri séu ánægðir með núverandi meirihluta þegar 64% vilja nýjan meirihluta??? Skilur einhver hvað er á ferðinni hér?

kl. |Pólitík || Álit (1)

Sunnudagur 9. apríl 2006

Dagur.net

Ég hafði gaman af því að dagur.net hafði við mig viðtal nú fyrir helgina. Allt of sjaldan sem maður horfir yfir farinn veg og veltir fyrir sér hvað maður er búinn að gera og hvers vegna. En eftir að hafa farið í gegnum þessi atriði þá er ég einmitt búin að vera að dvelja við hvernig ég hef verið að tölta í gegnum lífið;-) Annars er dagur.net orðinn býsna þéttur fjölmiðill sem gerir tíðindum hér við Eyjafjörð og á norðurlandi góð skil. Þar er líka gott að fletta upp til að sjá hvað er að gerast á svæðinu. Þrælgott;-)

kl. |Tilveran || Álit (3)

Miðvikudagur 12. apríl 2006

Fjárhættuspil auglýst á SÝN

Ég undraðist áðan að sjónvarpsstöðin SÝN væri með auglýsingar um fjárhættuspil á Netinu. Þetta er í fyrsta skipti sem ég sé slíka auglýsingu. Ég fletti upp í lögum á vef Alþingis og þar fann ég í lögum frá 1940, nr. 19 183. gr. "Sá, sem gerir sér fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu eða það að koma öðrum til þátttöku í þeim, skal sæta sektum …1) eða fangelsi allt að 1 ári, ef miklar sakir eru." Þá er að spyrja lögfróða: Hefur sjónvarpsstöðin Sýn brotið íslensk lög með því að auglýsa fjárhættuspil á Netinu? Telst auglýsing vera að "hvetja til"? Er það auglýsandinn eða hvernig er þessum málum háttað? Hér væri gott að fá hugmyndir og athugasemdir. Við erum nýbúin að lesa fregnir af ungum manni er fyrirfór sér vegna fjárhættuspila. Það ætti að minna okkur á að vera vakandi í þessum efnum.

Continue reading "Fjárhættuspil auglýst á SÝN" »

kl. |Pólitík || Álit (0)

Sunnudagur 16. apríl 2006

Sinnuleysi

Fnjoska riverÉg hef ekki verið dugleg við bloggið mitt undanfarið og má helst um kenna brennandi áhuga á ljósmyndun en mest af tímanum hefur farið í hana. Dásamlegt áhugamál sem er skemmtilegt að sinna. Annars hefur páskafríið verið frábært. Á skírdag fórum við Gísli í Fnjóskárdal þar sem hann sýndi mér ýmsa staði sem hann hefur verið að veiða. Ég klifraði niður á góðan veiðistað í kaðli eftir hálum klettum enda snjór yfir öllu. Á föstudaginn langa ókum við suður og fórum á tónleika með Ray Davis þeim sama og var í Kinks. Frábærir tónleikar hann er spriklandi skemmtilegur með frábæra tónlist. Hinsvegar var hávaðinn skelfilegur svo ég þáði eyrnatappa hjá Gísla, sem hefur þá alltaf í vasanum vegna sundferða, og þá var þetta ennþá skemmtilegra. Í gær var ég mest að vinna í ljósmyndunum en við elduðum mat heima hjá Hildu Jönu, Matti og Gulla voru komin að sunnan og þau voru með. Síðan spiluðum við norskt rommí af miklu miskunnarleysi. Í dag höfum við verið í heimilisbókhaldinu sem er skelfilega leiðinlegt svo ég vona að við finnum okkur eitthvað annað til dundurs þegar líða tekur á daginn.

kl. |Tilveran || Álit (0)

Mánudagur 17. apríl 2006

exbé - splunkunýtt stjórnmálaafl

Frábær taktík hjá splunkunýju stjórnmálaafli nútímalegu og fersku sem kallar sig exbé og kemur eins og spútníkk inn á stjórnmálamarkaðinn. Engum dettur í hug Framsóknarflokkurinn eða einhverjir sem hafa verið í stjórnmálum lengi. Þetta er frábærlega úthugsað mál, ég fékk grænan bækling þar sem exbé var rómað og menn gátu síðan sent Framsóknarfélaginu á Akureyri hugmyndir sínar. Framsóknarflokkurinn kom ekki til tals, var ekki nefndur og er sjálfsagt ekki í framboði heldur exbé. Sumsé þegar fylgið er orðið lítið þá er auðvitað ómögulegt að kalla sig stóru nafni svosem Fram-sókn-ar-flokk-urinn og þá heitir maður bara eitt lítið exbé. Tær snilld. Nú ætti auðvitað einhver framsýnn að kaupa lénið exbe.is og bjóða sig fram, ókeypis auglýsing með grænum lit um allt land. Lénið er laust;-)

kl. |Pólitík || Álit (7)

Miðvikudagur 19. apríl 2006

Tekur Sigrún Björk við af Kristjáni?

Nú virðist ljóst eftir sjónvarpsþátt NFS í gær um framboðsmál á Akureyri að Kristján Þór Júlíusson ætlar í þingframboð. Það vakti athygli mína er hann var spurður um hvort Sigrún Björk tæki við af honum að hann sagði menn geta gert hvoru tveggja. Nú er Akureyri stórt bæjarfélag og því mætti ætla að það væri ærin vinna að vera bæjarstjóri og alþingismaður í stóru kjördæmi á sama tíma. Nú er svosem ekkert sem segir endilega að Sjálfstæðisflokkurinn verði í þeirri stöðu að verma bæjarstjórastól en verði svo er miklu eðlilegra að Sigrún Björk annar maður Sjálfstæðismanna sjái um það verkefni en Kristján Þór í hjáverkum. Enda er Sigrún dugnaðarforkur og væri einstaklega skemmtilegt að sjá konu í þessu starfi sem ég held að Sigrún myndi valda ágætlega. Engin skömm að því fyrir Sjálfstæðismenn að viðurkenna það opinberlega að hún muni leiða þá, hverfi Kristján af vettvangi sem allar líkur benda til.

kl. |Pólitík || Álit (9)

Fimmtudagur 20. apríl 2006

Gleðilegt sumar

wBlom8645.jpg
Ég fór í dag að leita að sumrinu, pjagaði um allar þorpagrundir og leitaði að sumri. Ekki mátti vera blóm í garði það varð að vera náttúrublóm. Ég fann græna sprota, örlitla smára, örlítið þetta og örlítið hitt. Ber frá síðasta sumri og margt fleira. Þá fór ég og labbaði inn í Villingadal, þar sem ég góndi á holt og hæðir til að sjá góð viðfangsefni þvældist fyrir mér steinn og ég steinlá. Var flökurt og svimaði í langan tíma, marði á mér hnéð og olbogann. En þar sem náttúran er svo góð að maður dofnar upp hélt ég áfram og fann þetta fallega blómstrandi blóðberg í klettum sem snéru til suðurs.
Svo allt var þetta þess virði, sumarið komið;-)
Gleðilegt sumar;-)

kl. |Ljósmyndun / Tilveran || Álit (3)

Þriðjudagur 25. apríl 2006

Af hverju Akureyri?

Ég er oft spurð að því af hverju ég hafi yfir höfuð flutt til Akureyrar. Skýringarnar eru nokkrar, ég vildi búa fyrir norðan, styttri leið út í náttúruna en jafnframt hafa margt af þeim lífsgæðum sem borgarsamfélög búa yfir eins og góða bókabúð, góð kaffihús, gott Internetsamband, listalíf, stutt milli staða og skemmtilegt fólk. Allt þetta hafði Akureyri handa mér. Kannski reka menn augun í að ég tala ekki um atvinnumál en það er einfaldlega vegna þess að þegar ég flutti vann ég alfarið á Netinu og því skipti ekki máli hvar ég bjó. Það gaf mér fyrst og fremst tækifæri til að flytja til Akureyrar.

Continue reading "Af hverju Akureyri?" »

kl. |Pólitík || Álit (8)

Knúið af Movable Type 3.33
Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.