Færslur í júní 2006

« maí 2006 | Forsíða | júlí 2006 »

Fimmtudagur 1. júní 2006

Komin í nýtt starf

Í dag 1. júní tók ég við stöðu framkvæmdastjóra Tölvuskólans Þekkingar. Skólinn er í eigu sömu aðila og ég hef verið að vinna fyrir undanfarin ár þ.e. fyrst hjá Þekkingu og síðan frá síðustu áramótum hjá Stefnu .

Þetta er mjög spennandi verkefni þar sem skólinn er með fjórar tölvustofur í Reykjavík í Faxafeni 10 en síðan er Tölvuskóli Stefnu og sú fræðsla sem var hjá Þekkingu lögð saman við og verðum við með tvær tölvustofur hér á Akureyri. Ég er búin að fara í skólann í Reykjavík og líst mjög vel á, frábært samstarfsfólk og staðsetningin góð í sama húsnæði og Menntaskólinn Hraðbraut. Nú er í nægu að snúast að komast inn í verkefnin og huga að nýjungum og möguleikum sem mér finnst afskaplega spennandi. Sérstaklega fjarnám og símenntunargreiningarnar sem ég hef verið að vinna. Nú er bara að bretta upp ermar;-)

kl. |Tilveran || Álit (4)

Sunnudagur 4. júní 2006

Kópur í Hindisvík

wKopur0034_1720.jpg
Við Gísli minn vorum á Vatnsnesinu um helgina, gistum í frábærri gistingu í farfuglaheimilinu að Ósum. Ég er að vinna úr myndum en þessi kópur var í Hindisvík. Finnst ykkur hann ekki fallegur?

kl. |Ljósmyndun || Álit (0)

Sunnudagur 4. júní 2006

Hvað heita þeir?

wFuglar.jpg
Veit einhver hvað þeir heita þessir fuglar? Það var gríðarlegt magn af þessum rauðbrúna en bara einn af þessum hvítyrjótta. Hef ekki hugmynd um hvaða fugl þetta er svo öll hjálp vel þegin. Hér er síðan önnur af hópnum:
wFuglar2.jpg

kl. |Ljósmyndun || Álit (5)

Mánudagur 5. júní 2006

Fáðu þér að drekka vinur

wSelir0038_1675b.jpg
Það var dásamlegt að sitja í fjörunni í Hindisvík á norðanverðu Vatnsnesi og fylgjast með selunum. Þessi móðir var að nostra við kópinn sinn, klappa honum á kollinn og ýtti honum síðan góðlátlega að spenunum til að fá sér að drekka. Þar fékk hann sér góðan sopa og lagði sig síðan aftur. Það er einhver friðsæld yfir þessum dýrum og maður kemur heim endurnærður á líkama og sál.

kl. |Ljósmyndun || Álit (2)

Þriðjudagur 6. júní 2006

Spilin í gólfið hjá Framsókn?

Þær hræringar sem eiga sér stað í Framsóknarflokknum þessa dagana koma vægast sagt á óvart. Einhvernvegin virkar þetta á mig eins og formaðurinn hafi tekið upp spilastokk og ætlað að gefa í gott spil en misst stokkinn í gólfið og spilin komin út um allt. Spurningin er síðan hver tínir spilin upp, stokkar og gefur? Leitin að leiðtoganum sem tínir upp spilin er brennandi og spurningin hver stendur uppi þegar upp er staðið sem nýr leiðtogi flokksins. Allavega hefur Framsóknarflokkurinn sagt Halldóri Ásgrímssyni alveg skýrt að hann fái ekki að ráða því einn. Á sama tíma byrjar Halldór að draga upp skuggamynd af vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar. Í Morgunblaðinu er haft eftir honum "Þetta kalli aftur á skipulegri vinnubrögð í ráðuneytunum þannig að frumvörp séu ekki samin í hendingskasti á síðustu stundu eins og stundum vilji brenna við."

Continue reading "Spilin í gólfið hjá Framsókn?" »

kl. |Pólitík || Álit (1)

Miðvikudagur 7. júní 2006

Vaðið í listaverk

Ég fór á fund í félagi um þekkingarstjórnun í Orkuveitu Reykjavíkur í gær. Alfa Kristjánsdóttir forstöðumaður skjalasafns OR sýndi okkur húsið og dáðist ég að listaverkum sem eru þar um allt. Þegar kom hinsvegar að listaverkinu Hringur þá labbaði ég spennt eftir mjóum gangi og inn í dimmt rými sem uppljómaðist samstundis og dansandi ljós voru fyrir endanum. Ég vildi kanna það nánar og þá vildi ekki betur til en að ég óð beint ofan í listaverkið þ.e. ofan í tjörn þar sem magnari magnaði upp gárurnar og myndaði dynjandi hljóð. Þar stóð ég hálf aulaleg rennandi blaut og Alfa horfði gáttuð á mig og sagði "þetta hef ég aldrei séð áður". Ég var sumsé orðin hluti listaverksins þar sem ég stóð eins og auli ofan í tjörninni - sem var reyndar ferlega fyndið. En listaverkið er frábært og mæli ég eindregið með að menn líti á það.

kl. |Tilveran || Álit (2)

Laugardagur 10. júní 2006

Kórar í Laxárvirkjun

wKor0063_2083.jpg
Ég fór í gærkvöldi ásamt Sigrúnu Stefánsdóttur á tónleika kóramóts í Laxárvirkjun. Frábær skemmtan og eftir tónleikana fóru allir kórarnir út og sungu í brekkunni fyrir utan í kvöldsólinni. Það gleður sálina að njóta góðra söngradda sem svo sannarlega var raunin.

kl. |Tilveran || Álit (0)

Laugardagur 10. júní 2006

Ofboðsins eftirlaun

Þegar Davíð Oddsson er kominn í Seðlabankann og mér virðist einsýnt að félagi hans Halldór Ásgrímsson sé á leið þangað líka þá kemur mér í hug orðræðan um þau glæstu eftirlaun sem þingmenn, sérstaklega ráðherrar, eiga að hafa. Ef ég ætti von á ofureftirlaunum myndi ekki hvarfla að mér að fara í Seðlabankann heldur eyða tíma mínum í ljósmyndun, ferðalag til Nýja Sjálands, reyna að skrifa bók eða eitthvað annað sem ég myndi vilja dunda við eftir langan stjórnmálaferil og enga nauðsyn á því að vinna fyrir lífsviðurværi. Nú held ég að bankastjórastarf í Seðlabankanum sé alvörudjobb þar sem maður þarf að vinna... eða er það kannski bara hvíldarstarf sem gerir eftirlaunin ekkert sérstaklega freistandi? Ég skil þetta bara ekki....

kl. |Pólitík || Álit (0)

Laugardagur 10. júní 2006

Ábyrgð fyrir Akureyri

Ég var að renna yfir grein Hlyns Hallssonar varaþingmanns VG þar sem hann er þess fullviss að Samfylkingarmenn muni kjósa hann í komandi þingkosningum af því flokkurinn myndaði ekki samstarf við hans flokk á Akureyri. Við vorum í samstarfi við VG fyrir þarsíðustu kosningar en því samstarfi sleit VG þrátt fyrir áhuga Samfylkingarinnar á að halda því áfram. Þau slit leiddu til setu beggja flokka í aumum minnihluta síðasta kjörtímabil. Með öflugri og samstilltri kosningabaráttu jókst fylgi Samfylkingarinnar úr einum bæjarfulltrúa upp í þrjá í nýliðnum kosningum. Því fylgir ábyrgð, sú ábyrgð að gera allt sem mögulegt er til að vinna fyrir Akureyri og fólkið í bænum að þeim málefnum sem barist var fyrir.

Continue reading "Ábyrgð fyrir Akureyri" »

kl. |Pólitík || Álit (0)

Föstudagur 16. júní 2006

Puntudúkkur Sjálfstæðisflokksins

Ég hef oft dáðst að dugnaði Valgerðar Sverrisdóttur í stjórnmálum, hún hefur verið ráðherra í mörg ár og náð þeim markmiðum sem hún hefur sett sér. Hún hefur klifið marga brekkuna og staðið af sér margan stórsjóinn og með því aflað sér ákveðinnar virðingar hvort sem menn eru sammála henni eða ekki. Fáar konur hafa náð að vinna jafn mörg krefjandi verkefni sem ráðherrar og jafn umdeild án þess að gefast upp.

Continue reading "Puntudúkkur Sjálfstæðisflokksins" »

kl. |Pólitík || Álit (3)

Þriðjudagur 20. júní 2006

Myndað á Snæfellsnesi

Um helgina fór ég í ofboðslega skemmtilega ljósmyndaferð á Snæfellsnes með tveimur bekkjarsystrum mínum frá Bifröst og systur einnar. Við fjórar kerlíngarnar höfðum það ofboðslega gaman og snudduðum um utanvert nesið og mynduðum hóla og hæðir. Við nutum frábærrar gestrisni Óla 7 í Bárðarbúð á Hellnum þannig að ég gat hitt fólkið mitt á Ökrum sem ég kunni vel að meta. Ég fékk fínar myndir til að nota á sýningunni minni sem verður opnuð 7. júlí á írskum dögum á Akranesi og hlakka mikið til. Það eru þó mörg handtökin sem þarf að vinna áður en það er tilbúið;-)

kl. |Ljósmyndun || Álit (3)

Sunnudagur 25. júní 2006

Rjúpnaholt

Loksins komumst við Gísli í Rjúpnaholt en þar er sumarbústaðurinn okkar í landi Neðri Rauðalækjar á Þelamörk sem tilheyrir Hörgárbyggð. Ég náði að mynda eilítið sem má sjá hér til hægri á Flickr síðunni minni og sérstaklega er ég lukkuleg með mynd af gaflinum á sumarbústaðnum neðan frá fossi í Rauðalækjargilinu.

Continue reading "Rjúpnaholt" »

kl. |Tilveran || Álit (0)

Þriðjudagur 27. júní 2006

Með lögum skal land byggja?

Í mörg ár hefur það verið n.k. sannleikur að Bandaríkin séu lýðræðisríki sem sé fyrirmynd annarra í þeim efnum. Því kom mér verulega á óvart grein þar sem segir eftir Bush forseta: "A law is not binding when a president issues a separate statement saying he reserves the right to revise, interpret or disregard it on national security and constitutional grounds." Sumsé það er túlkunaratriði hvort forsetinn fer eftir lögum sem hann undirritar sjálfur eða ekki. Ég verð að viðurkenna að ég er uggandi um lýðræði heimsins eftir að horfa á Bandaríkin breyta viðhorfum sínum til laga og réttar eftir hryðjuverkin 11. nóvember. Lýðræði er brothætt gjöf hverri þjóð sem þarf að varðveita vel.

Continue reading "Með lögum skal land byggja?" »

kl. |Pólitík || Álit (0)

Miðvikudagur 28. júní 2006

Hefur þú leitað að fjársjóðnum

Ég var að rúnta úti og taka myndir í kvöld og hlusta á norræn lög. Textinn eins lagsins datt allt í einu inn í kollinn á mér og ég heyrði orðin "hefur þú leitað að fjársjóðnum við endann á regnboganum". Einhver meiri heimspeki fylgdi með en þessi setning dvaldi með mér. Mér finnst nefninlega leitin að fjársjóðnum, vinnan við að ná settu markmiði, meira spennandi en að ná því. Kappið, væntingarnar, draumarnir, allt er þetta svo skemmtilegt. Hinsvegar finnst mér ekki eins skemmtilegt að eiga og minnast sigra. Ekki má skilja mig svo að ég vilji ekki ná markmiðum, langt í frá, ég vil klára það sem ég byrja á. Hinsvegar þegar því er lokið þarf að setja sér ný markmið, eignast nýja drauma og leita nýrra fjársjóða. Ég hef alltaf fjársjóði við enda regnbogans sem ég er að leita að og það er einmitt það sem gerir lífið svo dásamlegt.

kl. |Tilveran || Álit (1)

Föstudagur 30. júní 2006

Nú brettum við upp ermar

Nýjasta skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birt er í dag hlýtur að vera okkur Samfylkingarmönnum mikil vonbrigði. Fylgið hefur ekki mælst lægra frá síðustu þingkosningum. Menn leita einfaldra skýringa eins og að allt sé þetta nýjum formanni að kenna. Slíkt er ótrúleg einföldun en hitt má til sanns vegar færa að líklega hafa sumir talið að með nýjum formanni væri óhætt að halla sér og reikna með að hún ein myndi sjá um fylgið hér eftir. Hinsvegar er nauðsynlegt að menn bretti upp ermar hver sem einn Samfylkingarmaður vinni vasklega og ljóslega í pólitík en reikni ekki með að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir beri nánast ein það hlutverk.

Continue reading "Nú brettum við upp ermar" »

kl. |Pólitík || Álit (2)

Knúið af Movable Type 3.33
Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.